Leita í fréttum mbl.is

Endurskoðun á EES-samningnum


hjortur jEndurskoðun á EES-samningnum hefur eilítið verið til umræðu hér á landi og eitthvað meira í Noregi. Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar um þetta í blaðið í dag:

Tveir áratugir voru í byrjun þessa árs síðan Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Fyrir þá sem ekki þekkja til var samningurinn gerður á milli Evrópusambandsins og Fríverzlunarsamtaka Evrópu (EFTA) og felur í meginatriðum í sér að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eru í raun aðilar að innri markaði Evrópusambandsins gegn því að taka upp þá löggjöf sambandsins í landsrétt sinn sem á við um hann.

Hvort Ísland ætti að gerast aðili að EES-samningnum var umdeilt þegar samningurinn var gerður og hefur í raun alltaf verið umdeilt þó að minna hafi farið fyrir þeirri umræðu í seinni tíð. Fátt bendir til annars en að Ísland geti áfram verið aðili að EES-samningnum um ókomna tíð en samningurinn, líkt og aðrir slíkir, geta þó eðli málsins samkvæmt aldrei orðið markmið í sjálfu sér. Markmiðið hlýtur alltaf að vera hagsmunir Íslands og íslenzku þjóðarinnar. Fyrir vikið er sjálfsagt og eðlilegt að reglulega sé lagt mat á það hvort slíkir milliríkjasamningar þjóni þeim hagsmunum. Þó komizt hafi verið að þeirri niðurstöðu á einum tímapunkti er ekki þar með sagt að svo verði um aldur og ævi.

Einn helzti gallinn við EES-samninginn er að hann hegðar sér í meginatriðum með sama hætti og Evrópusambandið. Það er að hann stefnir jafnt og þétt í átt til aukins samruna þó að vissulega sé það einungis á því afmarkaða sviði sem samningurinn nær til. Hið sama á raunar líka við um Schengen-samstarfið sem Ísland á einnig aðild að og gengur út á að fella niður hefðbundið landamæraeftirlit á milli aðildarríkjanna en efla það (allavega í orði kveðnu) á ytri landamærum svæðisins.

Þannig er EES-samningurinn í raun kominn í dag langt út fyrir það umfang sem reiknað var með fyrir tveimur áratugum. Í það minnsta hér á landi. Ekki sízt þegar kemur að því regluverki Evrópusambandsins sem taka þarf upp hér á landi þó að það sé aðeins hluti af heildarregluverki sambandsins. Til að mynda hefur verið bent á dæmi þess að EES-samningurinn, sem greiða átti aðgang Íslendinga að innri markaði Evrópusambandsins, sé farinn að hamla aðgengi okkar að öðrum mörkuðum vegna þess að regluverk sambandsins, sem við þurfum að fara eftir til að mynda varðandi vörumerkingar og öryggisstaðla, er ekki gjaldgengt annars staðar.

Ég tel að hagsmunum lands og þjóðar væri mun betur borgið með því að EES-samningnum væri breytt í svokallaðan annarrar kynslóðar fríverzlunarsamning líkt og bæði EFTA og Evrópusambandið hafa gert á undanförnum árum. Þannig er sambandið til að mynda að gera slíkan samning bæði við Kanada og Bandaríkin. Slíkur samningur fæli til að mynda ekki í sér einhliða upptöku á reglum annars samningsaðilans og þvældist ekki fyrir viðskiptum við önnur ríki. 


Bloggfærslur 5. desember 2014

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 102
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 2347
  • Frá upphafi: 1112132

Annað

  • Innlit í dag: 87
  • Innlit sl. viku: 2098
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 83

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband