Leita í fréttum mbl.is

Veikur grunnur Evrópusambandsins

ArnarÁrið sem leið einkenndist af áframhaldandi hrakförum Evrópusambandsins. Stjórn þess virðist ófær um að takast á við vanda sambandsríkjanna, efnahagslægðina, atvinnuleysið og aukinn óstöðugleika. ESB, myntbandalagið og regluverk sambandsins hafa staðið í vegi fyrir því að ríkisstjórnir landa sambandsins geti sjálfar leyst sín mál á farsælan máta.

Svo segir í bloggi sem Arnar Styr Björnsson, formaður félags stúdenta gegn aðild að ESB, birtir á vef sínum.Greinin birtist einnig í Morgunblaðinu 14. janúar.

Greinin ber heitið Falskar forsendur Evrópusambandsins.

Þar segir enn fremur:

Úkraínudeilan sýndi fram á vanmátt ráðamanna ESB sem virðist án dugandi leiðtoga. Sambandið er ófært um að tryggja varnir sambandsríkja sinna í austurhluta Evrópu og leiðtogar þess eru ólíklegir til þess að aðhafast mikið ef ógn steðjar að smærri löndum þess. ESB treystir á Bandaríkjaher sem hefur tugi þúsunda hermanna í löndum sambandsins, en það er alls ekki víst að það verði alltaf hægt að treysta á að Bandaríkjamenn vilji eða geti tryggt varnir Evrópu.

ESB byggir á þeirri hugmyndafræði að þjóðríkið sé úrelt fyrirbæri, og jafnvel hættulegt. Það stefnir að draumkenndri framtíð þar sem yfirþjóðleg sambönd taka við af þjóðríkinu og samningar og alþjóðalög taka við af landvörnum. Leiðtogar sambandsins lifa í þeirri blekkingu að það sé ESB að þakka að það hafi verið tiltölulega friðsælt í Evrópu síðan 1945. Eins og að NATO og 250-400 þúsund manna liðsafli Bandaríkjamanna í Evrópu í kalda stríðinu hefðu ekki verið til. Úkraínudeilan virðist þó ekki hafa orðið til vekja ráðamenn af þessum blundi.

Það sem hefur í raun gerst er að þjóðir Evrópu hafa veikst andlega vegna veru sinnar í sambandinu og orðið ósjálfstæðari í anda. Þær reiða sig á aðra til að tryggja varnir sínar og hugga sig við þær fölsku hugsjónir sem ríkja innan sambandsins, hugsjónir sem leiða að lokum þó aðeins til óreiðu.

Þjóðir Evrópu þurfa að átta sig á að aðeins þær sjálfar bera ábyrgð á eigin örlögum. Það stoðar lítið að líta til Brussel þegar vá steðjar að, því það virðist lítill vilji vera hjá stjórn ESB til þess að takast á við raunveruleg vandamál.

Sú hollusta sem að borgarar sýna landi sínu stuðlar að samlyndi ólíkra hagsmuna og ólíkra stétta sem í landinu búa. Hún byggir á sameiginlegri menningu borgaranna, sameiginlegum hugmyndum um lífið og samfélagið og sameiginlegum grunndvallar gildum og reglum samfélagsins, sem sátt ríkir um. Án þessa grunns væri ekki hægt að reisa samfélag sem byggir á sátt, samvinnu og sjálfsstjórn borgaranna í stað valdbeitingar og kúgunar. Evrópusambandið hefur ekki þann grunn og þjóðir Evrópu sýna sambandinu ekki þá hollustu sem þær sýna þjóðríkjum sínum, sem gerir tilveru ESB til lengri tíma ólíklega.

Tilvera ESB er háð þjóðríkjum Evrópu og þeim siðræna grundvelli sem þau hvíla á, en ESB grefur samt undan hvoru tveggja. Sú útópíska tálsýn sem Evrópusambandið hvílir á getur aldrei orðið að veruleika, en hinsvegar getur hún eyðilagt fyrir þjóðum það sem þær hafa, þau góðu samfélög sem þær hafa byggt.

Við Íslendingar þurfum ekki að fara í ESB og eigum ekki að gera það.

 

Fyrir hönd Herjans, félags stúdenta gegn aðild að ESB, Arnar Styr Björnsson, formaður


Jón segir umsóknina vera komna á enda

JonBjarnaFréttavefurinn visir.is birtir viðtal við Jón Bjarnason, formann Heimssýnar, í tilefni af áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja fram tillögu fyrir Alþingi um að draga formlega til baka umsóknina um aðild að ESB. Á viðtalinu við Jón má sjá að umsóknin er komin á enda og að það sé nauðsynlegt formsatriði að draga hana til baka.

Í viðtalinu sem Visir.is átti við Jón segir:

Jón Bjarnason, formaður Heimsýnar, fagnar því mjög að formenn flokkanna, sem og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, ætli að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að viðræðum við Evrópusambandið verði formlega slitið. „Þá er ljóst að báðir ríkisstjórnarflokkarnir ætla að fylgja þessu máli eftir af fullum þunga. Standa þar með við samþykktir beggja flokkanna og kosningaloforðin sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar,“ segir Jón kampakátur þegar Vísir ræddi við hann nú fyrir stundu.


Stóð á því sem hann var kosinn til
Þegar Jón er spurður nánar út í hið lýðræðislega umboð, kosningaloforðin, þá með vísan til afgerandi orða forystusveitar Sjálfstæðisflokksins hvað varðar vilja til að láta fólk kjósa um áframhald viðræðna, segir Jón að Landfundasamþykktin sé mjög skýr um þetta.

„Þau hljóta að verja samþykktir flokkanna,“ segir Jón. Hann var ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar þegar þáverandi ríkisstjórn hóf undirbúning aðildarviðræðna, þannig að hann veit hvað klukkan slær í þessum efnum. „Hörðustu ESB-sinnar settu mig út úr ríkisstjórninni til að koma málunum áfram. Ég stóð á því sem ég var kosinn til.“

 

Enn fremur segir:

„Vissi fólk hvað það var að skrifa undir?“ spyr Jón sem vill meina að þetta sé túlkunum háð: „Undirskriftirnar hljóðuðu fyrst og fremst uppá hvort þú vilt kjósa. Menn skulu skoða textann og spurninguna vandlega; þá það sem fólk var að svara og skrifa skrifa undir. Ég veit um fólk sem var algerlega á móti og vildi kjósa þetta út úr heiminum, aðild að Evrópusambandinu, það var ekki að hugsa um hvort það væri að kjósa um áframhald viðræðna. Það er tvennt ólíkt. Þá væri ágætt að biðja viðkomandi um að leggja fram nafnalistann.“

Jón vill sem sagt meina að þarna hafi verið brögð í tafli, villandi spurningar og túlkunin þar með röng. „Það er ekkert að því að kjósa um hvort hvort fólk vilji ganga í ESB. En, það er ekki rétt að þessar undirskriftir hljóði uppá vilja um halda þessum viðræðum áfram. Það er ákveðinn hópur sem vill fá að kjósa um spurninguna, viltu ganga í Evrópusambandið eða ekki? Og það er ágæt spurning. Um það á að spyrja. Þessar viðræður eru löngu komnar í strand.“

Ekki hægt að kjósa um áframhald viðræðna
Jón segir, spurður hvort hann sé alfarið á móti því að kosið verði um hvort viðræðum verði fram haldið eða ekki, að það sé einfaldlega ekki hægt að kjósa um það. Viðræðurnar séu stopp af Evrópusambandsins hálfu.

„Já, krafa Evrópusambandsins liggur fyrir að forsjá fiskimiðanna fari til Evrópusambandsins. Og ef við viljum halda áfram viðræðum á þeim forsendum erum við að fallast á það að gefa miðin frá okkur. Og það liggja engar samþykktir fyrir þess efnis á Alþingi að gefa frá sér fiskmiðin. Alþingi og þjóðin er ekki tilbúin að gefa eftir landhelgina, bara sí svona.“

Viðræður fela í sér afsal fiskimiðanna
Jón segir að það að vilja halda umræðunum áfram feli í sér framsal fiskimiðanna. „Það voru settir fyrirvarar, samninganefndinni er ekki heimilt að ganga lengra en þarna er tilgreint. Ef sýnt er að gefa verður meira eftir en Alþingi hefur gefið heimild fyrir, þá verða þær stopp. Fékkst ekki frjálst umboð til að gera hvað sem var. Ég veit nákvæmlega hvernig er með sjávarútvegsmálin, það var sama og strandaði á hjá Norðmönnum.“

Og Jón óttast ekki boðuð mótmæli. „Allir eiga rétt á að mótmæla, en þeir sem ætla að mótmæla verða að vita hverju þeir eru að mótmæla. Ég skil það fólk sem segir: Ég vil ganga í ESB, þó ég sé algerlega ósammála því. En umsóknin er komin á enda.“

 


Bloggfærslur 21. janúar 2015

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 42
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 621
  • Frá upphafi: 1116814

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 541
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband