Leita í fréttum mbl.is

Ágúst Þór segir ESB hafa slitið viðræðum vegna sjávarútvegsmála

agustthorarnasonÞað var ESB sem sleit viðræðum við Íslendinga í mars 2011 en Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, lét reka á reiðanum í 18 mánuði. Þetta kemur fram í viðtali Agnesar Bragadóttur blaðamanns við Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri, sem birt var í fyrri mánuði. 

Þar segir (leturbreytingar eru Heimssýnar):

 

ESB vill ekki semja við Ísland

Ágúst Þór Árnason, aðjunkt við lagadeild Háskólans á Akureyri, hafði yfirumsjón með úttekt á aðildarferlinu í skýrslu Hagfræðistofnunar, sem kynnt var opinberlega fyrir rúmu ári. Meginniðurstaða hans var sú að ljóst væri að það yrði ekki um neinar sérlausnir eða undanþágur að ræða fyrir Ísland, nema þá tímabundnar og klárlega engar sem yrðu hluti af löggjöf Evrópusambandsins.

„Það liggur fyrir að það var Evrópusambandið sem stoppaði viðræðurnar, og í þeim efnum skiptir ekki máli hvort rætt er um aðlögunarferli eða samningaviðræður. Þeir sem vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og samningum verði lokið, verða að gera grein fyrir því hvernig þeir ætla að ljúka samningum við ESB, sem vill ekki semja við Ísland,“ sagði Ágúst Þór í samtali við Morgunblaðið í gær.

ESB stoppaði viðræðurnar

Ágúst Þór rifjar upp að það hafi verið ESB sem stoppaði viðræðurnar, með því að skila ekki rýniskýrslu, eftir seinni rýnifundinn um sjávarútvegskaflann, sem haldinn var í mars 2011. „Slík rýniskýrsla er nauðsynleg til þess að Ísland geti komið fram með sín samningsmarkmið. Ef við getum það ekki þá er málið stopp, eins og raunin hefur verið síðan í mars 2011.“

Ágúst Þór var spurður, í þessu samhengi, hvort það hefði eitthvað upp á sig að setja ákvörðun um það hvort viðræðum við ESB væri haldið áfram, í hendur þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu: „Ég tel að ef efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti að spyrja þjóðina hvernig hún ætlaði að komast í viðræður, við einhvern sem er ekki að svara í ferlinu. Það var sett upp ákveðið ferli og samkvæmt því á að skila rýniskýrslu eftir seinni rýnifundinn umsóknarlands og Evrópusambandsins. Hvað gerir umsóknarlandið, ef þessari skýrslu er ekki skilað? Þeirri spurningu verður að svara,“ sagði Ágúst Þór.

Hann bendir á að það hafi liðið góðir 18 mánuðir frá því að seinni rýnifundurinn um sjávarútvegskaflann var haldinn í mars 2011, þangað til að Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra hafi ákveðið að setja málið á ís, en það hafi hvort eð er verið á ís hjá Evrópusambandinu í eitt og hálft ár.

Ágúst Þór segir að þegar hann var að vinna úttekt sína fyrir skýrslu Hagfræðistofnunar, hafi hann farið til Brussel og hitt samningamenn ESB og ýmsa forsvarsmenn Evr- ópusambandsins. „Niðurstaða lykilmanna sem ég ræddi við var sú að það væri ekki hægt að koma fram með rýnisskýrsluna um sjávarútvegskaflann vegna þess að í henni hefði verið krafa um tímasetta að- gerðaráætlun um það hvernig Ísland ætlaði að taka upp Evrópulöggjöfina í sjávarútvegi. Þeir vissu sem var að viðbrögðin við slíkri kröfu gætu ekki orðið önnur en lok samningavið- ræðna. Þannig að við þær aðstæður sem fyrir hendi voru var klárlega ekki hægt að ljúka viðræðunum.“

Hann segir að í sínum huga sé það alveg ljóst að afstaða Evrópusambandsins sé sú að málið liggi bara dautt, þar til fyrir liggur að meirihluti þjóðarinnar hefur tekið af skarið um að hann vilji ganga í Evrópusambandið. „Það yrði þá á forsendum Evrópusambandsins, en ekki okkar. Í prinsippinu verðum við innan lagaramma Evrópusambandsins í öllum flokkum,“ sagði Ágúst Þór Árnason.


Haraldur Benediktsson lýsir ESB-umræðuferlinu sem fyrirvaralausri aðlögun

Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, lýsir ágætlega í grein í Morgunblaðinu í dag hvernig umræðuferlið um inngöngu í ESB átti sér stað. Þar kemur fram hvernig sendinefndir ESB tóku á andstæðingum aðildar og hvernig nefndirnar hugsuðu sér að leggja málin upp þannig að sem mestar líkur yrðu á að þjóðin myndi samþykkja væntanlegan samning. Þá lýsir Haraldur vel skoðunum sendinefndanna á aðlögunarferlinu og því hvernig samþykkja þyrfti ýmsar breytingar á lögum áður en ESB samþykkti inngöngu Íslands.

Grein Haraldar er birt hér í heild sinni. Leturbreytingar eru Heimssýnar. 

Stjórnarandstaðan fellur frá fyrirvörum Alþingis

Það var lærdómsríkt að vinna með því ágæta fólki, sem skipaði fjölmargar sendinefndir frá ESB, og var að vinna að aðlögunarferlinu. Þetta var fólk af ýmsum stigum stjórnkerfis sambandsins. Erindi þess var eðlilega mismunandi. Ég hitti margar nefndir fyrir hönd Bændasamtakanna.

Ég rifja sérstaklega upp fund sumarið 2011, sendinefndin var að þessu sinni skipuð háttsettum embættismönnum. Almennt má um allt það fólk sem kom segja, að það taldi ekki vandamál að vinna með þeim sem væru á móti aðild og ekki væri fyrirstaða að eiga með þeim uppbyggilegt samstarf. Þau þekktu vel afstöðu bænda. Þau væru mjög reynd að vinna með slík sjónarmið og Evrópusambandið hefði það í ákveðnu ferli, að fást við það. Aðild yrði tilbúin og send í atkvæðagreiðslu þegar þeir sérfræðingar, sem héldu um þau mál, teldu réttan tíma kominn til þess. Sem sagt þegar »rétti tíminn« kæmi yrði blásið til atkvæðagreiðslu.

Hún var athyglisverð sú skoðun gesta okkar, að meiri vandi væri að fást við íslensk stjórnvöld og þá sem vildu aðild, heldur en andstæðinga aðildar, vegna rangrar nálgunar þeirra að þeim raunveruleika sem fælist í að hafa hafið aðlögun. Það myndi ekki fara vel fyrir ferlinu ef ekki væri skilningur á eðli inngönguferilsins og hvernig hann væri í raun.

Á fundi sumarið 2011 reyndum við að útskýra fyrir sendinefnd hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu ekki að breyta hér lögum og reglum - fyrr en eftir kosningu um aðild. Svar þeirra var einfalt; ekkert kerfi - engin »greiðsla« til Íslands - engin aðild.

Við þessa yfirlýsingu fór fram áhugaverð umræða um stöðu umsóknarríkis. Þar kom m.a. fram að ákvæði greinargerðar þingsályktunar Alþingis í ýmsum málaflokkum væru þess eðlis að ekki yrði hægt að ljúka ferlinu nema fallið yrði frá þeim. Sérstaklega varðaði þetta ákvæði í ályktun Alþingis um sjávarútvegsmál. Þar væri um svo stórt atriði að ræða að ekki gæti orðið framhald - og líklega yrði ekki skilað rýniskýrslu, fyrr en Ísland gerði sér grein fyrir þeim grundvallarákvæðum ESB sem Ísland þyrfti að hlíta sem aðildarríki, sérstaklega varðandi sjávarútveg. Enda hefur rýniskýrsla um sjávarútvegskaflann ekki skilað sér ennþá.

Allir hljóta að sjá að aðlögunarferillinn hefur verið strand frá þessum tíma. Til að losa ferlið verður að falla frá fyrirvörum Alþingis.

Væri það afstaða núverandi ríkisstjórnarmeirihluta að halda áfram aðlögunarferlinu er ferlið jafn fast og áður. Því fyrst þurfum við að ákveða á Alþingi að falla frá fyrirvörum okkar sem settir voru við afgreiðslu Alþingis um sjávarútveg, landbúnað og fleira. Hvar ætlar núverandi utanríkisráðherra og ríkisstjórn að fá umboð til þess?

Núverandi stjórnarandstaða er greinilega fallin frá fyrirvörum sínum með framlagningu á þingsályktunartillögu sinni um þjóðaratkvæði um framhald viðræðna? Verður ekki þjóðin að vita hvaða samningsumboð hún ætlar að veita, ef hún á að kjósa um framhald viðræðna?


Bloggfærslur 4. apríl 2015

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1116899

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 605
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband