Leita í fréttum mbl.is

Ræktum okkar eigin garð

ingvar_gislason_540630Þvert ofan í allar góðar vonir óttast ég að áhrifaöfl á Íslandi séu á góðri leið með að sannfæra sífellt fleiri landsmenn um „fánýti“ þess að Ísland sé til frambúðar óháð þjóðríki, sjálfstætt um löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Nú á það að vera íbúum Íslands til farsældar um afkomu sína í bráð og lengd að þeir tengist Evrópusambandinu áhrifamiklum pólitískum böndum, þ.e. afsali pólitísku sjálfstæði í ríkum mæli, skerði fullveldi ríkisins í grundvallaratriðum. Er hægt að horfa upp á slíkt óttalaust?

Ef gengið verður í Evrópusambandið verður Ísland stjórnskipulega sambandsríki, „federal state“, með tilheyrandi takmörkunum sem slíkri stöðu fylgja. Talsmenn aðildar segja að okkur sé þetta engin ofætlun því að þjóð á þjóð ofan, hvert ríkið á fætur öðru, hefur gengið í Evrópusambandið, haldið sínu og hagnast. En er það satt og rétt? Nei, vitaskuld ekki! Sama lögmál gildir um allar, að hver sú þjóð sem gerist aðili að ESB skerðir fullveldi sitt. Sú skerðing er því meiri sem þjóðin er minni (fámennari) og því fremur sem þær víkja frá megineinkennum hagkerfis bandalagsins. Fyrir Íslendinga, sem enn eru fiskveiði- og fiskiðnaðarþjóð og eiga mikið undir landbúnaði sem grundvallargrein í þjóðarbúskapnum, með afleiddum störfum út um allt, er það atvinnulega séð áhættuefni að ganga í Evrópusambandið ofan á þá pólitísku valdskerðingu sem við blasir.

Gerum okkur ljóst enn og aftur: Ef gengið verður í ESB er Ísland ekki lengur fullvalda ríki. Það verður sambandsríki, háð yfirþjóðlegri „federal“ stjórnskipun, þ. ám. lögum og reglum um fiskveiðar og fiskvinnslu, um búskaparhætti í sveitum og afurðasölu og úrvinnslu búsafurða. Í þeim efnum er óþarfi að þreifa fyrir sér í aðildarviðræðum. Hagsmunir frumframleiðslu til lands og sjávar eru fyrirfram dæmdir.

Þó er það ein helsta röksemd áhugafólks um fulla aðild að ESB að samningaviðræður, í kjölfar formlegrar umsóknar um aðild, geti einar skorið úr um ávinning af fullri aðild í stað þeirrar aukaaðildar sem felst í samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þessi röksemd kann að hljóma vel, en reynslan sýnir að Evrópusambandið gefur ekkert eftir að því er tekur til yfirstjórnar sjávarútvegsmála, hún verður alltaf á hendi alríkisstjórnar. Um það gilda engar undanþágur. Sú staðreynd er eitt skýrasta dæmið um skert fullveldi aðildarþjóða og mundi bitna harðast á Íslendingum ef á reyndi.

Ísland er eyland
Ekki mun ég þvertaka fyrir það að meginlandsþjóðum Evrópu ríður á þeirri einingarhugsjón að friður ríki milli þeirra eftir öll þúsundárastríðin og ógeðslegheit evrópskrar grimmdar í aldanna rás.

En nær þessi síðborna iðrun og yfirbótaþrá meginlandsþjóðanna til okkar Íslendinga, búandi á jöðrum hins byggilega heims? Varla! Ísland er eyland í norðurhöfum, ekki nema að nafninu til Evrópuland, land sem Miðevrópumenn kunna lítil skil á. En hafi nútímamiðevrópumenn fundið pólitískt ráð til að setja niður deilur sín í milli er það ánægjuefni, en naumast íslenskt viðfangsefni. Í umróti tímanna eiga Íslendingar að fara sér hægt. A.m.k. er hvers kyns ofboð í útrásum og afskiptasemi af eldfimum heimsmálum ekki það sem stendur okkur næst. Við eigum að búa vel um okkur í eigin landi, rækta okkar garð, stjórna landsmálum af hófsemi og hyggindum. Það eitt tryggir okkur virðingu annarra þjóða.

Ingvar Gíslason,
fyrrv. alþingismaður og ráðherra

(Birtist áður í Morgunblaðinu 21. maí 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 704
  • Frá upphafi: 1116916

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 621
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband