Leita í fréttum mbl.is

Pólitískt bandalag

kristinn-h-gunnarssonEvrópusambandið er, þegar grannt er skoðað, fyrst og fremst pólitískt bandalag þjóða. Það byrjar sem öryggis- og varnarsamtök sem ætlað er að styrkja friðinn í Evrópu með því að gera þjóðirnar sem háðastar hver annarri. Síðan þróast bandalag þjóðanna yfir í formlegt ríkjasamband sem stefnir í átt til sambandsríkis með eigin ríkisstjórn, þing og dómstól og eigin mynt, rétt eins og Bandaríkin. Undanfarin ár hefur verið rætt um Evrópusambandið hér á landi nær eingöngu á afmörkuðum efnahagslegum forsendum. Þar hefur ekki verið sem skyldi litið til þess að Evrópusambandið er reist á pólitískum áherslum og að litið er til heildarinnar fremur en einstakra fámennra aðildarríkja. Bæði öryggis- og efnahagsleg sjónarmið Evrópusambandsríkjanna eru að miklu leyti önnur en Íslendinga. Til þessa hefur hagsmunum okkar verið mun betur varið utan ESB en innan.

Þjóðir í Evrópu hafa háð styrjaldir hver við aðra öldum saman og kannski aldrei eins illvígar og á síðustu öld, þegar þær urðu tvisvar að heimsstyrjöldum. Evrópubandalaginu er ætlað að koma í veg fyrir stríð. Leiðin er sú að starfa saman friðsamlega og að gera þjóðirnar hver annarri háðar á sem flestum sviðum. Með því móti verður stríð öllum óbærilegt og vonandi óhugsandi. Þetta er alveg eðlileg viðleitni og ef Íslendingar væru í miðri Evrópu með öll gömlu stórveldin umhverfis sig, Frakka, Þjóðverja, Austurríkismenn, Ítala o.s.frv. og hefðu um aldir mátt þola yfirgang og stríð, þá hygg ég að flestir myndu telja skynsamlegt að vera aðilar að þessu bandalagi. En svo er ekki, Íslendingar eru ekki í þessari stöðu og hafa aldrei verið.

Austur-Evrópuríkin hafa þyrpst inn í Evrópusambandið eftir hrun Sovétríkjanna. Það eru að mörgu leyti eðlilegar ástæður fyrir því. Þau eru að tryggja öryggi sitt gagnvart Rússum og fela Evrópusambandinu að koma fram við þá fyrir sína hönd. Þau eru mörg háð olíu og gasi frá Rússlandi og yrðu ein og sér algerlega undir hælnum á þeim. Að auki hafa margar Austur-Evrópuþjóðir sóst eftir aðild að NATO sem færir þeim hernaðarstuðning Bandaríkjamanna. Íslendingar hafa tryggt öryggi sitt með aðild að NATO og þurfa ekki á Evrópusambandinu að halda í þeim efnum.

Þriðja atriðið sem vert er að benda á er að lífskjörin í ríkjum gömlu Austur-Evrópu voru og eru víða enn miklu lakari en vestan járntjaldsins. Með aðild að Evrópusambandinu fengu þjóðirnar viðamikla efnahagslega aðstoð sem með tímanum á að koma þeim úr fátækt og skapa velferðarþjóðfélag. Kostnaðurinn er gríðarlegur og lendir á fáum þjóðum. En sjónarmið þeirra er að kostnaðurinn sé þess virði, með þessu verði nýju aðildarríkin í austrinu bandamenn en ekki óvinveitt og öryggi Evrópu og friður verði betur tryggt. Sem fyrr eru þetta aðstæður sem eiga ekki við um Ísland og því ekki þörf á að tryggja öryggi landsins með því að greiða háar fjárhæðir til Evrópusambandsins.

Þær pólitísku forsendur sem skópu Evrópubandalagið eru aðrar en eiga við á Íslandi. Að auki þá eru lífskjör á Íslandi mun betri en í flestum Evrópusambandsríkjum og hér er ekki viðvarandi atvinnuleysi sem er landlægt í Evrópu. Íslendingar hafa komist áfram og skapað þjóðfélag sem er í fremstu röð í heiminum þegar litið er til þátta eins og menntunar, heilsufars, umönnunar og lífskjara. Það hefur verið gert með því að nýta auðlindir lands og sjávar og hafa heiminn allan undir í viðskiptum. Evrópubandalagið hefur breyst í Evrópusambandið og stefnir í Evrópuríkið. Aðild að því getur vissulega haft sína kosti, en því fylgir líka mikið og vaxandi afsal fullveldis. Slík þróun hefur áður orðið hérlendis og ekki reynst vel.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum 24. júlí 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 112
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 1137
  • Frá upphafi: 1117397

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 987
  • Gestir í dag: 94
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband