Leita í fréttum mbl.is

Evran: Undraelexír?

orvar_marteinssonÍ fjölmiðlum sumarsins hefur fátt farið hærra en umræða um gjaldmiðilsvandræði og Evrópusambandsaðild. Mikið er gert úr vandræðum okkar hérna á Íslandi, mikilli verðbólgu og kreppu. Lausnin sem helst er nefnd er að varpa gjaldmiðlinum okkar – krónunni – út í hafsauga og ganga í Evrópusambandið. Það á að vera það sem bjargar okkur. Ég ætla aðeins að tjá mig um þetta:

Í fyrsta lagi langar mig að benda á það að þegar evran var innleidd á Ítalíu lækkaði ekki vöruverð heldur hækkaði um upp undir 50% (á mörgum vörum 100% til nokkurs tíma en leiðréttist svo aðeins). Launin hækkuðu hins vegar lítið sem ekkert. Margt fólk lenti í miklum vandræðum og ástandið er rétt um það bil að ná sér á strik núna – mörgum árum seinna. Svipaða sögu er að segja um önnur Evrópusambandsríki.

Í öðru lagi eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar m.a. stöðugleiki í efnahagsmálum, lítill viðskiptahalli, lítil verðbólga og litlar erlendar skuldir. Þannig að þegar við mættum taka upp hina æðislegu evru sem á að lækna alla okkar kvilla – þurfum við að vera búin að losa okkur við kvillana sjálf. Það er eins og ef maður kæmi með veikt barn til læknis og hann segðist eiga frábært lyf til að lækna það. Það eina sem þyrfti að gera væri að vera orðinn heilbrigður til að fá lyfið!

Í þriðja lagi velti ég því oft fyrir mér hvað það er sem fólk telur sig fá út úr evrunni. Lægri vextir? Engin verðtrygging? Ok, má vera. En hvað þá? Getur fólk þá haldið áfram að lifa um efni fram á lágvaxtakjörum? Heldur fólk í alvöru að það verði ekkert mál að fá peninga og aftur peninga, án þess að borga nokkuð fyrir það? Heldur fólk að bankarnir láni óverðtryggða milljón og sætti sig við að fá aðeins andvirði 900 þúsunda til baka? Í hvaða draumaheimi lifir fólk eiginlega?

Í fjórða lagi vil ég benda á það að Evrópusambandið er ekki gjaldmiðill. Ýmsir aðilar hafa lýst því yfir að þeir vilji aðildarumsókn að ES til lausnar á gjaldmiðilsvanda okkar. Það er nokkuð ljóst að krónan okkar er ekki gallalaus. En að ganga í Evrópusambandið er ekki bara að taka upp annan gjaldmiðil. Það fylgir því svo óendanlega margt annað – svo miklar hömlur, svo margir gallar, fullveldisframsal, sennilegar launalækkanir og síðast en ekki síst óendanlegt reglugerðarfargan og hömlur á stærri og sérstaklega smærri fyrirtæki. Ég vil sérstaklega vara ferðaþjónustufyrirtæki við aðild. Hvaða sérstöðu eiga ferðamenn að sækjast í hér á Íslandi þegar allt verður komið undir samræmda Evrópusambandsstaðla?

Mér finnst það í rauninni lúalegt bragð Evrópusambandssinna að nota sér efnahagslægðina til að ýta okkur inn í Evrópusambandið. Efnahagslægðin er úti um allan hinn vestræna heim og eldsneytisverð og matvælaverð hefur alls staðar rokið upp í hæstu hæðir. Kreppan hérna heima er ekki tilkomin vegna þess að við erum ekki í Evrópusambandinu og lausnin er ekki sú að ganga þar inn. Fyrir svo utan það að kreppan verður löngu búin þegar við gætum tekið upp evruna. Þetta gerist ekkert á einni nóttu! Ég óttast hins vegar að með Evrópusambandssinna við stjórnvölinn gangi hægt að vinna í öðrum lausnum vandans. Sá vonarneisti hefur nefnilega kviknað að kreppan geti verið nothæf átylla til að sannfæra okkur um nauðsyn aðildar.

Við þurfum að líta í eigin barm. Hætta að eyða um efni fram, enda hlýtur það að vera augljóst að það gengur ekki upp til lengdar að eyða meiru en maður aflar. Sennilega verður þetta sársaukafull aðlögun en hún er óumflýjanleg og vonandi lærdómsrík. Evran er engin undraelexír enda þarf efnahagslífið að ná heilbrigði til að mega njóta hans. Það er hins vegar markmið sem verður að nást.

Örvar M. Marteinsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 28. júlí 2008 og á bloggsíðu höfundar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 31
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 937
  • Frá upphafi: 1117709

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 836
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband