Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Fjölsótt og velheppnað málþing um sjávarútveginn og ESB

Tæplega eitt hundrað manns mættu á málþing um sjávarútveginn og Evrópusambandið sem Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, stóð fyrir í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í gær sunnudag. Sérstakur gestur fundarins var Peter Ørebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö í Noregi og sérfræðingur í EES rétti og sjávarútvegsreglum Evrópusambandsins. Var málþinginu gerð góð skil í fjölmiðlum.

Margt áhugavert kom fram í máli Ørebech og m.a. að regla sambandsins um svokallaðar hlutfallslega stöðugar veiðar, sem margir stuðningsmenn aðildar að því hér á landi hafa sagt að myndi tryggja Íslendingum allan kvóta á Íslandsmiðum ef til slíkrar aðildar kæmi, er í raun aðeins munnleg vinnuregla sem hefur enga lagalega þýðingu. Engin trygging felist því í henni fyrir einu eða neinu og henni megi breyta á tiltölulega einfaldan hátt hvenær sem er.

Á málþinginu fluttu einnig erindi Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF). Öll erindin voru hljóðrituð og er stefnt að því að birta þær hljóðritanir á netinu innan skamms og verður það auglýst sérstaklega.

Frétt Mbl.is um málþingið


MÁLÞING: Sjávarútvegurinn og ESB

Sjávarútvegurinn og ESB
Málþing í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands v/ Suðurgötu n.k. sunnudag kl 15 - 17.

Ræðumenn:
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
Peter Ørebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö
Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)
Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF)

Frjálsar umræður og fyrirspurnir úr sal eftir því sem tími gefst til. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Á fundinum verður leitað svara við ýmsum brennandi spurningum sem upp kynnu að koma í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB):
  • Hafa verið gerðar undanþágur frá meginreglunni um “alger yfirráð” (“exclusive competence”) ESB yfir auðlindum sjávar í aðildarríkjum?
  • Er hugsanlegt að vikið verði frá viðmiðunarreglu ESB um veiðireynslu (“relative stability”) á næstu árum?
  • Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á samningsstöðu Íslendinga um deilistofna?
  • Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á hæfni yfirvalda til að taka skjótvirkar ákvarðanir um verndun veiðisvæða?
  • Stafar íslenskum sjávarútvegi aukin hætta af kvótahoppi á erfiðleikatímum eftir hugsanlega ESB-aðild?
  • Yrði breyting á kvótakerfinu við ESB-aðild?

Stjórn Heimssýnar
  


mbl.is Sjávarútvegurinn og ESB til umræðu á málingi Heimssýnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni handa háskólahagfræðingum

bjorn_s_stefansson
Gjaldmiðilsfræði, eins og háskólahagfræðingar fjalla um þau nú, eru eins og kartöflufræði búfræðinga fyrir 80-90 árum. Ef leitað var til búfræðings á fyrstu áratugum 20. aldar til að fá ráð um kartöflurækt hafði hann lítið að styðjast við annað en eigið hyggjuvit. Sumir búfræðingar voru glúrnir, aðrir virtust vera glúrnir, en hvort sem var gátu þeir ekki vísað til rannsókna. Nú getur búfræðingur, sem spurður er ráða um kartöflurækt, vísað til greinar í blaði, sem aftur vísar til tímaritsgreinar, sem aftur styðst við rækilegar rannsóknarskýrslur, og kartöflurnar verða góðar. Þessu ætti að vera líkt farið um gjaldmiðilsmálið, en því er ekki að heilsa.

Háskólahagfræðingar vísa ekki til rækilegrar greinargerðar, þar sem lesendur með ólík viðhorf um stöðu Íslands geta metið sjálfir, hvernig hugmynd hvers og eins um æskilega stöðu landsins fellur að hugmyndum um gjaldmiðil fyrir Ísland. Reyndar segir Thomsen, sem hér hefur verið á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að hér fari fram beinskeytt umræða um þessi mál. Sú umræða hefur ekki birst almenningi, en skot hafa vissulega verið mörg.

Ég set fram spurningar og óskir. Fyrst: Verður því yfirleitt svarað, hvernig megi koma gjaldmiðilsmálum Íslands vel fyrir, fyrr en heimurinn hefur mótað nýjar leikreglur um flutning fjármagns milli landa eftir þá raun, sem heimurinn er í?

Þó að þessu verði ekki svarað af raunsæi fyrst um sinn má fjalla um ýmsa reynslu. Meginkenningin hefur verið, að myntbandalag verði ekki farsælt, nema hlutar þess séu samstiga í efnahagssveiflum. Háskólahagfræðingar mættu gera grein fyrir því, meðan beðið er eftir því, að reglur mótist um gjaldmiðilsmál heimsins, hversu samstiga eða ósamstiga Ísland hefur verið evrubandalaginu. Evrubandalagið fullnægir reyndar ekki skilyrðinu um að vera samstiga innbyrðis, enda hefur því farnast lakar en hinum hluta Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Sömuleiðis þarf að vita vegna hugmyndar um að tengja krónuna við BA-myntina dollar, hversu samstiga Ísland hefur verið Bandaríkjum Ameríku (BA), og vegna trúar sumra á, að farsælt væri að gera norsku krónuna að gjaldmiðli hér, þarf að vita, hvort Ísland sé yfirleitt samstiga Noregi í efnahagsbylgjum.

Því er stundum haldið fram, að íslenska hagkerfið sé of lítið. Of lítið fyrir hvern er þá átt við? Var ef til vill helst að, nú þegar illa fór, að kvöð var á samkvæmt EES-samningnum, að ríkið skipti sér ekki af fjármagnsflutningum úr landi og til landsins? Það vildi ég, að fjallað væri um í greinargerð háskólahagfræðinga. Þá hefur verið talað um áhlaup á krónuna. Hvaða tök þarf að hafa til að varast þau? Mundu slík tök leyfast í nýjum alþjóðlegum reglum, þótt þau yrðu ekki leyfð samkvæmt EES-samningnum? Mætti þá ekki semja við Evrópusambandið um frávik? Dýrkeypt reynsla ætti að nægja til að fá að semja þannig. Þetta þarf að taka fyrir, meðal annars með tilliti til þess, að hér megi stunda fjármálastarf af viti.

Nefnd eru dæmi um farsæl myntbandalög, Hongkong með BA-dal og Ekvador sömuleiðis. Er reynslan í þessum löndum háð skipulagi kjaramála? Skyldu vera almennir kjarasamningar í löndunum? Skiptir það máli, ef vantar þann sveigjanleika, sem fæst með eigin gjaldmiðli, að kjarasamningar eru sveigjanlegir, jafnvel léttvægir? Er þá æskilegt, til að myntbandalagið heppnist, að aðilar vinnumarkaðarins séu lítils megnugir, sem sagt ekki neitt Alþýðusamband, sem skiptir máli?

Nú kom til álita, að Lettland, sem hafði tengt gjaldmiðil sinn evru, aftengdi hann og felldi gengið. Ekki varð af því, heldur fékk Lettland mikið evrulán til að bjarga sér úr vandræðum. Fróðlegt væri að fá það dæmi metið í víðtækri greinargerð, sömuleiðis muninn í núverandi þrengingum á Bretlandi með sitt pund og Írlandi með evru. Þá má ekki gleyma Færeyjum. Hagstofustjóri Færeyja var í opinberri heimsókn hér í haust og lýsti vandræðum þar fyrir hálfum öðrum áratug. Þar vantaði illa eigin gjaldmiðil til að leysa vandann, hélt hann fram. Hvað er til í því?

Þá vildi ég hafa með umfjöllun um myntráð; um það eru alþjóðlegar reglur. Loks hlýt ég að vænta þess, að menn meti, hvers virði sjóðval mætti verða til að draga úr hagsveiflum, sem aftur tengist gjaldmiðilsstjórn, sbr. grein mína „Að loknum fjármálasviptingum“ í Mbl. 16. október síðastliðinn.

Hér er því margs að gæta, og ekkert vit að ætla háskólahagfræðingunum nauman tíma. Hagfræði getur leitt til skarprar greiningar og úrræða, en getur líka orðið einfeldningslegt trúboð, jafnvel hjá sama manni. Háskólahagfræðingarnir stóðu heiðursvörð í þeirri hrakför, sem þjóðin er í, með glýju í augum (það er spurt, hvenær ferðin hófst). Samt verður ekki komist hjá því að setja þá í verk. Þegar þeir hafa skilað vandaðri álitsgerð í gjaldmiðilsmálinu þarf almenningur svigrúm til að meta hana með tilliti til nokkurra meginhugmynda um stöðu Íslands. Og heimurinn allur þarf að jafna sig til að ná áttum um farsæl fjármálasamskipti. Ætli veiti af skemmri tíma en kjörtímabili núverandi Alþingis til að komast að niðurstöðu?
 
Björn S. Stefánsson
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 4. janúar 2009) 


Undanþága frá stórríkinu?

hjortur j
Margir þeirra sem vilja að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu hafa verið iðnir við að fullyrða að fást muni undanþágur frá hinu og þessu í aðildarviðræðum við sambandið, þá einkum í sjávarútvegsmálum. Þessu hafa þeir lengi haldið blákalt fram þrátt fyrir að ráðamenn innan Evrópusambandsins hafi ítrekað sagt á undanförnum árum að varanlegar undanþágur séu ekki í boði af hálfu sambandsins enda hvorki vilji né fordæmi fyrir slíku. Nú síðast kom þetta fram í viðtali sem Fréttablaðið tók við Olli Rehn, stækkunarkommissar Evrópusambandsins, þann 8. nóvember sl.

Evrópusambandið er fyrirbæri sem lítið vantar orðið upp á að verði að einu ríki. Leitun er á málaflokki innan aðildarríkjanna í dag sem sambandið hefur ekki meiri eða minni yfirráð yfir. Og þeim fækkar stöðugt. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði það því einungis jaðarhérað innan þessa ríkis sem í vaxandi mæli er farið að kalla Bandaríki Evrópu (United States of Europe) í röðum Evrópusambandssinna. Taki stjórnarskrá Evrópusambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) endanlega gildi verður sambandið í raun komið með allt það sem einkennir ríki samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum, þ. á m. sameiginleg ytri landamæri, skilgreint landsvæði, þjóðhöfðingja, sjálfstæða utanríkisstefnu, varnarstefnu, hæstarétt, þing, framkvæmdastjórn (ríkisstjórn), gjaldmiðil, dómskerfi, fána, þjóðsöng, þjóðhátíðardag og auðvitað ekki síst sameiginlega stjórnarskrá.

Sú meginregla gildir innan Evrópusambandsins að vægi aðildarríkjanna, og þar með möguleikar þeirra til áhrifa, miðast fyrst og fremst við það hversu fjölmenn þau eru. Fyrir vikið ráða stærstu aðildarríkin mestu í krafti stærðar sinnar, þá einkum Þýzkaland, Frakkland og Bretland. Þá sér í lagi ef þau semja fyrirfram sín á milli um sameiginlega afstöðu til mála áður en þau eru tekin fyrir á vettvangi Evrópusambandsins, nokkuð sem þau gera oft og iðulega. Varla þarf að fara mörgum orðum um það hversu óhagstætt þetta fyrirkomulag yrði fyrir okkur Íslendinga ef við gengjum í Evrópusambandið. Vægi Íslands yrði nánast ekkert og möguleikar okkar til áhrifa eftir því.

Vafalaust er þessi þróun innan Evrópusambandsins ein og sér alveg nægjanleg ástæða fyrir marga til að vera andvígir aðild að sambandinu. Það er þó svo sannarlega af nógu að taka í þeim efnum. En halda Evrópusambandssinnar virkilega að hægt verði að fá undanþágu frá stórríkinu sem leynt og ljóst er verið að breyta Evrópusambandinu í? Eða telja þeir kannski að sú þróun sé bara hið bezta mál? Þeir hafa í það minnsta ekki sett hana fyrir sig hingað til.
 
Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 18. desember 2008)
 

Áskorun til Íslendinga

Daniel Hannan
Kæru Íslendingar! Ég geri mér fulla grein fyrir því að þið standið nú frammi fyrir mjög erfiðum tímum – við stöndum raunar öll frammi fyrir mjög erfiðum tímum – en engir erfiðleikar eru svo miklir að aðild að Evrópusambandinu geti ekki gert þá verri. Ég skil vel að þið séuð í sárum og finnist þið standa ein á báti. Þið hafið fulla ástæðu til þess eftir ömurlega framkomu Gordons Browns í ykkar garð. En ef þið bregðist við með því að leggja niður lýðræðið ykkar og sjálfstæði þá festið þið ykkur í sömu vandamálum og þið eruð í núna um alla framtíð.
 
Innganga í ESB fæli í sér algera örvæntingu, rétt eins og raunin var í tilfelli okkar Breta. Við gerðumst aðilar að forvera sambandsins á hinum erfiðu árum þegar Edward Heath var forsætisráðherra, þegar verðbólga var í tveggja stafa tölu, allt logaði í verkföllum, lokað var reglulega fyrir orku til almennings og þjóðargjaldþrot blasti við. Það er erfitt að ímynda sér að við hefðum stutt aðild áratug áður eða þá áratug síðar. Það hefði einfaldlega ekki ríkt nógu mikil svartsýni og örvænting. Þegar komið var fram á 9. áratug síðustu aldar fór breskur almenningur að gera sér grein fyrir því hvað Evrópusamruninn væri í raun: kötturinn í sekknum. En þá varð einfaldlega ekki aftur snúið. Niðurnjörvaðir af reglugerðafargani frá Brussel glötuðum við samkeppnisforskoti okkar. Við gengum Evrópusamrunanum á hönd við erfiðar aðstæður og afleiðingin var sú að við festum þær aðstæður í sessi.

Ekki gera sömu mistökin og við gerðum. Þið þurfið þess ekki! Ég hef haft ómælda ánægju af því að ferðast reglulega til Íslands undanfarin 15 ár og á þeim tíma hef ég orðið vitni að ótrúlegum framförum. Slíkar breytingar eru oft augljósari í augum gesta sem annað slagið koma í heimsókn en þeirra sem hafa fasta búsetu á staðnum. Þegar ég kom fyrst til landsins höfðuð þið nýlega gerst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu sem veitti ykkur fullan aðgang að innri markaði ESB án þess að þurfa að taka á ykkur þann mikla kostnað sem fylgir aðild að sambandinu sjálfu.

Ímyndið ykkur að í tímabundnu vonleysi tækjuð þið þá ákvörðun að ganga í ESB og taka upp evruna. Hvað myndi gerast? Í fyrsta lagi yrði gengi gjaldmiðilsins ykkar fest til frambúðar við evruna á því gengi sem þá væri í gildi. Endurskoðun á genginu með tilliti til umbóta í efnahagslífi ykkar væri útilokuð. Að sama skapi yrði ekki lengur hægt að bregðast við efnahagsvandræðum í framtíðinni í gegnum gengið eða stýrivexti. Þess í stað myndu slíkar aðstæður leiða til mikils samdráttar í framleiðslu og fjöldaatvinnuleysis.

Það næsta sem þið stæðuð frammi fyrir væri það að fyrir inngönguna í ESB yrði að greiða hátt verð, fiskimiðin ykkar. Þessi mikilvægasta endurnýjanlega náttúruauðlind ykkar yrði hluti af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Fljótlega mynduð þið þó átta ykkur á því að þið hefðuð afsalað ykkur einhverju margfalt dýrmætara en fiskimiðunum. Ykkar mesta auðlegð liggur nefnilega ekki í hafinu í kringum landið ykkar heldur í huga ykkar. Þið búið yfir einhverju best menntaða fólki í heiminum, frumkvöðlastarfsemi er mikil sem og öll framtakssemi. Þið hafið byggt árangur ykkar á minna regluverki, skattalækkunum og frjálsum viðskiptum. En þið mynduð reka ykkur á það að þið hefðuð gengið til liðs við fyrirbæri sem er fyrst og fremst skriffinnskubákn grundvallað á gríðarlegri miðstýringu á öllum sviðum og háum verndartollum í viðskiptum við ríki utan þess.

Ég get upplýst ykkur um þá sorglegu staðreynd að afstaðan til ykkar er ömurleg í Brussel. Það er litið niður á ykkur. Daginn sem það lá fyrir að allir bankarnir ykkar höfðu lent í erfiðleikum komu þrír Evrópusinnaðir þingmenn á Evrópuþinginu til mín glottandi hver í sínu lagi: „Jæja Hannan, Íslendingarnir þínir eru ekki beinlínis að gera það gott þessa dagana, ha? Þeir sem hafa viljað standa utan við ESB. Þeir hafa alltof lengi fengið að hafa hlutina eftir eigin höfði, þeir áttu þetta skilið!“

Tilvist ykkar ein og sér sem sjálfstæð og velmegandi þjóð hefur skapað öfund í Brussel. Ef 300 þúsund manna þjóðfélag norður við heimskautsbaug getur náð betri árangri en ESB þá er allur Evrópusamruninn í hættu að áliti ráðamanna sambandsins. Árangur ykkar gæti jafnvel orðið ríkjum sem þegar eru aðilar að ESB hvatning til þess að líta til ykkar sem fyrirmyndar. Það er fátt sem ráðamenn í Brussel vildu frekar en gleypa ykkur með húð og hári.

Þið hafið valið. Þið getið orðið útkjálki evrópsks stórríkis, minnsta héraðið innan þess, aðeins 0,002% af heildaríbúafjölda þess. Eða þið getið látið ykkar eigin drauma rætast, fylgt ykkar eigin markmiðum, skráð ykkar eigin sögu. Þið getið verið lifandi dæmi um þann árangur sem frjálst og dugandi fólk getur náð. Þið getið sýnt heiminum hvað það er að vera sjálfstæð þjóð, sjálfstæð í hugsun og athöfnum sem er það sem gerði ykkur kleift að ná þeim árangri sem þið hafið náð á undanförnum áratugum. Hugsið ykkur vandlega um áður en þið gefið það frá ykkur.
 
Daniel Hannan,
þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu.
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 3. janúar 2009)
 

« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 249
  • Sl. viku: 935
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 817
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband