Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Viðskiptaráð segir aukið atvinnuleysi fylgja evrunni

Evrunni myndi fylgja meira atvinnuleysi og óhagfelld launaþróun. Það kemur fram í skoðun sem Viðskiptaráð Íslands sendi frá sér í dag. Þar er rætt meðal annars um skýringar á efnahagssveiflum hér á landi og kemur fram að fyrirkomulag peningamála á Íslandi sé ekki meginorsök hagsveiflna. 

Viðskiptaráð segir: 

Ef Íslendingar byggju við gjaldmiðil sem væri hluti af stærra myntsvæði og myndu halda hagstjórninni áfram með óbreyttum hætti yrðu birtingarmyndir óstöðugleikans einfaldlega aðrar. Í stað gengisfalls í kjölfar hraðari launahækkana en annars staðar myndu efnahagslægðir þess í stað kalla á sársaukafull tímabil hærra atvinnuleysis og óhagfelldrar launaþróunar þegar efnahagslægðir gengju í garð.


Almenningur í Finnlandi þvingar þingið til að ræða evruna

Almenningur í Finnlandi hefur þvingað finnska þingið til að ræða um mögulega útgöngu Finnlands úr gjaldmiðilssamstarfi Evrópusambandsins með því að safna 50 þúsund undirskriftum þar að lútandi.

Hagvöxtur í Finnlandi hefur verið lítill undanfarin ár og þess vegna telja sumir Finnar að ástandið yrði betra hefðu þeir eigin gjaldmiðil. Vaxtastýring yrði auðveldari auk þess sem gengi gjaldmiðils myndi aðlagast með eðlilegri hætti að þeim efnahagslega veruleika sem til staðar er. Finnskar vörur yrðu þá ódýrari á evrusvæðinu og það gæti örvað hagvöxt.

Þetta kemur fram á vefnum visir.is


ESB skiptir sér af sköttum og útgjöldum aðildarríkja

Vefur Viðskiptablaðsins skýrir hér frá því að embættismenn í Brussel séu nú farnir að stýra útgjöldum og tekjum aðildarríkjanna. Þau ráða varla sínum málum sjálf.

Sjá meðfylgjandi:

 

Ítalía, Litháen og Austurríki fá aðvörun frá Evrópusambandinu vegna fjárlaga ríkjanna.

Evrópusambandið hefur varað þrjú ríki við því að fjárlög ríkjanna brjóti í bága við fjárlagareglur sambandsins og skorað á þau að endurskoða fjárlögin til að þau haldist innan markmiða Evrópusambandsins. The Wall Street Journal greinir frá.

Viðvörun Evrópusambandsins er hluti af nýju regluverki sem er ætla að takmarka opinberar skuldir einstakra ríkja. Samkvæmt reglunum fær Evrópusambandið að fara yfir fjárlög ríkja sambandsins áður en þau eru samþykkt. Ef Evrópusambandið kemur auga á atriði sem brjóta í bága við reglurnar þá geta þeir lagt til tillögur til endurbóta, ef þeim tillögum er ekki fylgt getur ríkið þurft að greiða sektir.

Reglunum er ætlað að setja ríkjum skorður varðandi hallarekstur og skuldahlutfall. Samkvæmt reglunum má halli á rekstri ríkisins ekki vera meiri heldur en 3% af landsframleiðslu og skuldir mega ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu. Ríki fá þó aðlögunartíma varðandi skuldahlutfall sem hluta af landsframleiðslu.

Undanþága er á reglunum varðandi ófyrirséða atburði, en fjöldi ríkja hefur óskað eftir slíkri undanþágu vegna stór aukins fjölda flóttamanna.


Íslenskur diplómati fékk nóg af Brussel og þjónkun við stórveldi álfunnar

Stundin birtir athyglistvert viðtal við Einar Hannesson lögfræðing sem gerðist sendifulltrúi fyrir Ísland í Brussel á sviði samgöngu-, fjarskipta- og ferðamála. Fyrst fannst honum auðvitað gaman að kynnast Brussel og sinna nýjum verkefnum. Ljóminn fór þó fljótt af verunni í ESB-borginni og honum fannst skriffinnskan aðallega snúast um að sinna hagsmunum stórveldis en ekki að þjóna hagsmunum almennings.

Sjón er sögu ríkari. Hér er hluti af viðtalinu við Einar í Stundinni endurbirtur:

Mér var svo árið 2002 sparkað upp í að verða diplómati fyrir Ísland á sviði samgöngu-, fjarskipta- og ferðamála. Ég flutti þá til Brussel og var í því starfi í eitt og hálft ár. Ég hætti þá að vinna fyrir íslenska ríkið en mér tókst að láta Eftirlitstofnun EFTA ráða mig eftir samkeppnis- og umsóknarferli. Það var mikið ævinýri að vera í Brussel sérstaklega framan af en svo fannst mér ljóminn aðeins vera farinn af þessu undir lokin. Þetta er sérstakur heimur og hálfgerð bóla. Teknar eru mikilvægar ákvarðanir um framtíð álfunnar í Brussel sem er skemmtileg borg til að búa í. Ég fékk hins vegar nóg. Ég fór aldrei að vinna hjá ríkinu til að verða skriffinni heldur til að þjóna almenningi. Þetta er svo mikið kerfi og hlutirnir gerast svo hægt og maður sér ekki nógu mikinn árangur erfiðisins þannig að þetta varð í staðinn spurning um þægilegt líf og vel borgaða innivinnu. 

Manni finnst Evrópusambandið ekki vera að þróast í rétta átt og þess vegna fannst mér þetta frústrerandi. Ég skynjaði ákveðna breytingu á ESB frá því að vera bandalag um aukið frjálsræði í atvinnulífinu og fyrir fólkið – þessi fjórfrelsisprinsípp sem eru gríðarlega góð – en þetta var farið að þróast út í einhverja stórveldisdrauma Frakka um heimsyfirráð. Þetta voru eins og margir feitir kettir sem vildu bjór, góðar máltíðir og hátt kaup.


Allt verður að kreppu eða krísu í ESB - stofnanir þess ráða ekki við nein vandamál

strutarÞað verður allt að kreppu eða krísu í ESB. Fjölmiðlar hafa undanfarin ár verið uppfullir af fréttum um skuldakrísuna, evrukreppuna, framleiðslustöðnunina, atvinnuleysisvofuna, útlánatregðuna, bókhaldsóreiðuna, útgjaldasukkið og nú síðast flóttamannakrísuna.

Öll mál í ESB verða að meiriháttar vandamáli, kreppu eða krísu þessi dægrin.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta stofnanafargan í ESB ræður ekki við neitt vandamál án þess að úr því verði ógnarvandi.


mbl.is Svíþjóð tekur upp landamæraeftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-leppstjórn fellur í Portúgal

Það eru vart þrjár vikur síðan forseti Portúgals hunsaði lýðræðislega niðurstöðu þingkosninga þar í landi og fól minnihlutastjórn völdin til að koma í veg fyrir að stjórnmálaöfl sem ekki fylgdu í einu og öllu tilskipunum frá Brussel kæmust til valda. Nú hefur þessi minnihluta-leppstjórn Brussel fallið þar sem hún kemur málum ekki í gegnum þingið.

Það hefur lengi verið talað um lýðræðishallann í Evrópusambandinu. Atburðirnir í Portúgal fyrir endurspegla ekki aðeins lýðræðishallann í ESB. Þeir lýsa auk þess valdaráni Brussel-elítunnar sem þó dugði skammt gegn lýðræðislegri samstöðu meirihlutaafla í stjórnmálum í landinu. 

Sky-fréttastöðin breska sagði í kvöld að atburðirnir í Portúgal gætu boðað nýja og stórfellda erfiðleika fyrir ESB.

Sjá hér og hér

 


mbl.is Hægristjórn Portúgals fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmd Schengen- og Dyflinarsamkomulags grafa undan ESB

Meðfylgjandi frétt ber með sér að flóttamannavandinn og framkvæmd Schengen- og Dyflinarsamkomulagsins séu að grafa undan ESB. Sænskir Íhaldsmenn vilja nú loka landamærum að Svíþjóð og utanríkisráðherra Lúxemborgar segir flóttamannavandann grafa undan ESB og geta leitt til stríðs.

Í dag lögðu sænskir jafnaðarmenn til að hert landamæraeftirlit og ákveðnari skráning flóttamanna yrði tekin upp í Svíþjóð og að þeir yrðu sendir til baka sem ekki uppfylltu þær kröfur sem alþjóðasamningar gera. Svíar saka Dani og aðrar þjóðir um að hleypa tugþúsundum flóttamanna hindrunarlaust í gegnum sín lönd til að þeir geti sest að í Svíþjóð. Fjörutíu þúsund flóttamenn komu til Svíþjóðar í október síðastliðnum. Styrkur Svíþjóðardemókrata, sem eru andvígastir straumi innflytjenda til landsins, hefur aukist verulega. Ríkisstjórnin segir að þolmörkum í flóttamannamálum í Svíþjóð hafi verið náð og íhaldsmenn vilja ganga harðar fram og taka upp virkara landamæraeftirlit. Boðaðir hafa verið samráðsfundir helstu stjórnmálaflokka um málið.

Svíþjóð er í hópi þeirra landa í Evrópu sem hefur hlutfallslega miðað við mannfjölda tekið á móti einna flestum flóttamönnum. Andstæðingar íhaldsmanna í landinu segja að þeir séu með tillögu sinni í dag að leggja til að Svíþjóð segi sig úr samfélagi Evrópuþjóða. Íhaldsmenn svara á móti og segja að þeir vilji bara tryggja að aðrar þjóðir fylgi Dyflinnar-reglugerðinni sem er ætlað að stuðla að því að ríki sem hælisleitendur komi til fyrst beri ábyrgð á að taka mál þeirra upp.

Flóttamenn eiga bágt en þær þjóðir sem sinna þeim mest bera líka þungar byrðar. Ef marka má yfirlýsingar forystumanna í Evrópu upp á síðkastið eru vissar grunnstoðir í Evrópu að kikna undan þeim. Vonandi rætist úr - en vandinn er mikill.  


mbl.is „Evrópusambandið getur sundrast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veigamikil rök gegn evru

Það eru mörg rök gegn því að Íslendingar taki upp evru sem gjaldmiðil. Rökin eru fyrst og fremst af efnahagslegu tagi. Dýpstu og mikilvægustu rökin varða efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar til framtíðar. Þó er einnig hægt að sækja sér rök í sögulega þróun líkt og forsætisráðherra gerði nýlega þegar hann sagði að ef Ísland hefði verið hluti af ESB og með evru hefði íslenska ríkið komist í mun verri stöðu í hruninu en þó varð og í raun orðið gjaldþrota.

Yrðum við með evru í framtíðinni myndi hagur íslensku þjóðarinnar ráðast í mun meiri og hættulegri mæli en nú er af aðstæðum í Þýskalandi og öðrum kjarnaríkjum evrusvæðisins. Þar sem hagsveiflan hér á landi er allt önnur en þar gætu afleiðingarnar orðið skelfilegar fyrir Ísland.

 

Önnur hagsveifla – önnur peningastefna hentar

Hagsveiflan er allt önnur hér á landi en á evrusvæðinu. Það gerir það m.a. að verkum að Ísland og evrusvæðið er ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði samkvæmt hagfræðilegri skilgreiningu. Þess vegna hentar ekki sama peningastefna. Afleiðingin gæti orðið ýmist mun meiri verðbólga hér á landi eða meira atvinnuleysi. Slík þróun hefur átt sér stað á Írlandi, Grikklandi og í öðrum jaðarríkjum evrusvæðisins og slíkt er að eiga sér stað í Finnlandi. Reyndar má minna á að evrusvæðið sjálft er ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði sem sést á því að mikil gliðnun hefur átt sér stað í hagþróun á svæðinu frá því að evran var tekin upp. Verðþróun á útflutningsvörum og verðlag almennt hefur verið með mun hagfelldari hætti í Þýskalandi en víðast annars staðar. Það hefur haft það í för með sér að þýskar vörur hafa selst betur og meira, Þjóðverjar hafa safnað afgangi á viðskiptum við útlönd á meðan ýmsar aðrar evruþjóðir hafa búið við halla í viðskiptum við útlönd. Þjóðverjar hafa safnað eignum á meðan margar aðrar þjóðir hafa safnað skuldum og atvinnuástandi í Þýskalandi hefur verið með besta móti á meðan talsvert atvinnuleysi hefur verið víða annars staðar. Á suðurjaðri evrusvæðisins hefur atvinnuleysið verið upp undir 50 prósent meðal ungs fólks og á sumum svæðum, og ábilinu 20-30 prósent almennt, svo sem á Grikklandi og Spáni. Ef Ísland gerðist aðili að ESB og evru er mjög hætt við því að á nokkurra ára tímabili myndu vandamálin safnast upp með líkum hætti og gerst hefur á öðrum jaðarsvæðum Evrópu. Þar með yrði velferð íslensku þjóðarinnar stefnt í voða líkt og gerst hefur í Grikklandi, á Spáni og víðar.

 

Lægri vextir?

En hvað með vextina? Vextir eru jú miklu lægri á evrusvæðinu núna. Það er alveg rétt en ástæðan eru hinir gífurlegu erfiðleikar sem eiga sér stað á evrusvæðinu. Nýlega lýsti seðlabankastjóri ástandinu þannig að hækka þyrfti vexti hér á landi vegna þess að efnahagslífið væri knúið áfram af viljugum folum sem þyrfti að hemja. Ástandið er allt annað á evrusvæðinu. Þar eru ekki viljugir folar sem draga áfram efnahagslífið heldur staðir, óviljugir og þreyttir klárar sem mega muna fífil sinn fegurri. Þess vegna eru vextir á evrusvæðinu nánast í núlli og evrubankinn nánast gefur með lánum sínum til viðskiptabankanna í þeirri von að hægt verði að koma lánsfé til þeirra sem gætu nýtt það til að skapa atvinnutækifæri. Þrátt fyrir tilraunir í nokkur ár hefur ekki samt ekki tekst að blása lífi í glæður atvinnulífs á evrusvæðinu. Þess vegna eru vextir þar svo lágir.

Svo er rétt að hafa í huga að innan evrusvæðisins eru vextir til einstaklinga og fyrirtæja mjög misjafnir og alls ekki þeir sömu. Svokallaðir smásöluvextir fara eftir aðstæðum í fjármálalífi hvers lands. Þess vegna yrði ekkert sjálfgefið að vextir á lánum til einstaklinga og fyrirtækja hér á landi yrðu þeir sömu og hjá bönkunum í Finnlandi, hvað þá hjá stórbönkunum í Þýskalandi.

Það yrði stórhættulegt fyrir íslenska þjóð til lengdar að búa við sama gjaldmiðil og sömu peningastefnu og kjarnaþjóðirnar á miðju meginlandi Evrópu. Við sjáum það á hinum hrikalegu afleiðingum sem átt hafa sér stað í Grikklandi, á Spáni og við sjáum það á því sem er nú að gerast í Finnlandi.

Þess vegna þurfum við að treysta á okkur sjálf og alls ekki gefa eftir yfirráðin í gjaldmiðilsmálum til stofnana og embættismanna í Frankfurt og Brussel.

 

 


Skeflilegt ef Ísland hefði verið í ESB

sigmundurdavidgunnlaugsÍsland hefði getað orðið gjaldþrota hefði það verið aðili að ESB í hruninu. Þá hefðu skattgreiðendur á Íslandi verið þvingaðir til að taka á sig einkaskuldir bankanna líkt og á Grikklandi og Írlandi. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í viðtali við erlenda vefinn politico.eu en Eyjan endurbirtir. Atvinnuleysi á Írlandi er nú um 10% en um 25% á Grikklandi.


Af hverju eru vextir hærri hér en í nágrannalöndunum?

Að undanförnu hefur átt sér stað umræða um það að vextir séu hærri hér en í ýmsum nágrannalöndum okkar. ESB-aðildarsinnar vilja sumir meina að ástæða hárra vaxta sé sá gjaldmiðill sem við notum. Á móti hafa ýmsir, m.a. forsætisráðherra, bent á að vextir séu mjög misjafnir í evrulöndunum og að ástæða fyrir lágum vöxtum þar nú sé hið efnahagslega kul sem þar á sér stað. Undir þetta taka hagfræðingar. 

Spyr.is birtir svar við ofangreindri spurningu en vefurinn beindi spurningunni til Seðlabanaka Íslands og fékk það svar sem að neðan greinir.

Texti Spyr.is er svohljóðandi:

Af hverju eru vextir hærri hér en í öðrum löndum?

Lesandi sendi fyrirspurn um hvers vegna vextir hér á landi væru svona háir og af hverju þeir væru ekki eins og á Norðurlöndum. Í svari frá Seðlabanka Íslands, er bent á fyrirlestur Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, sem haldin var hjá félagi atvinnurekanda í september sl. Þar kemur fram að Seðlabankanum hafi tekist að koma verðbólgu úr tæplega 20% í kjölfar fjármálakreppunnar í 2,5% markmið bankans snemma árs 2014. Síðan hefur verðbólgan hjaðnað enn frekar í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu. 

Verðbólgan hefur aukist á ný og er enn undir markmiði og er svipuð og í mörgum iðnríkum. Hagvöxtur hefur verið töluvert meiri hér á landi en í flestum öðrum iðnríkjum og hefur verið hátt í tvöfalt meiri á fyrri hluta ársins, en í flestum þeirra. Þórarinn segir að slök efnahagsþróun hér á landi yfir langan tíma, hafa gert það að verkum að trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins hafi hlotið skaða og það taki langan tíma að bæta það. 

Hefðbundnar peningastefnureglur gefa til kynna að vextir í öðrum iðnríkjum eiga að vera mjög lágir og jafnvel neikvæðir væri það mögulegt. Sambærilegar reglur gefa það til kynna að vextir hér á landi eigi að vera töluvert hærri og að núverandi vaxtastig sé ekki svo fjarri lagi. 

 

Lesandi spyr:

Af hverju eru vextir svona háir á Íslandi? 7-8 prósent vextir af íbúðalánum? Af hverju eru vextir ekki eins og á Norðurlöndunum? Hver ræður vöxtunum í bönkunum?        

Spyr.is leitaði til Seðlabankans og fyrir þeirra hönd svaraði Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri: 

„Til að svara þessum spurningum hef ég kosið að taka nokkra punkta úr nýlegum fyrirlestri Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, sem hann flutti hjá félagi atvinnurekenda. Þar spyr Þórarinn af hverju vextir séu hærri hér en í öðrum iðnríkjum.
 
Í fyrirlestri Þórarins kemur fram að Seðlabankanum hafi tekist að koma verðbólgu úr tæplega 20% í kjölfar fjármálakreppunnar í 2,5% markmið bankans snemma árs 2014 og að síðan hafi verðbólgan hjaðnað enn frekar í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu. Verðbólgan hafi aukist á ný og sé enn undir markmiði og svipuð og í ýmsum öðrum iðnríkjum en meiri en í þeim ríkjum þar sem verðbólga er minnst.
 
Í ágústspá Seðlabankans hafi verið talið að slakinn í þjóðarbúinu hafi verið horfinn í byrjun árs og að framleiðsluspenna myndist í ár sem nemur liðlega 1% af framleiðslugetu. Í flestum öðrum iðnríkjum sé hins vegar töluverður slaki enn talinn vera fyrir hendi, t.d. er hann talinn vera um 2% af framleiðslugetu í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu. Hagvöxtur mældist 5,2% á fyrri hluta ársins hér á landi en var t.d. 2,8% í Bandaríkjunum og einungis 1,1% á evrusvæðinu. Hagvöxtur hafi því verið töluvert meiri hér á landi en í flestum öðrum iðnríkjum og hafi verið hátt í tvöfalt meiri á fyrri hluta ársins en í flestum þeirra.
 
Nafnvöxtur eftirspurnar hefur einnig verið verulega meiri hér á landi en í öðrum iðnríkjum – að hluta til vegna kröftugs viðskiptakjarabata í kjölfar lækkunar olíuverðs (en það á einnig við um flest hinna ríkjanna). Nafnvöxtur vergrar landsframleiðslu var ríflega 13% á fyrri hluta ársins en á bilinu 0-5% í hinum ríkjunum.
 
Þá hafi launhækkanir hér á landi jafnframt verið langt umfram það sem þekkist í öðrum iðnríkjum: á fyrri hluta ársins hækkaði launakostnaður á framleidda einingu (hækkun launakostnaðar umfram framleiðnivöxt) um ríflega 8% en um ½-2½% í þeim ríkjum sem til samanburðar eru. Og þessi munur á eftir að aukast enn frekar þegar nýgerðir kjarasamningar koma að fullu til framkvæmda.
 
Þá kemur fram í fyrirlestri Þórarins að þessi þróun sé ekki ný af nálinni: launakostnaður á framleidda einingu hafi ítrekað hækkað langt umfram það sem þekkist meðal annarra iðnríkja – sérstaklega frá miðjum síðasta áratug. Meðalhækkun launakostnaðar hér á landi frá 2000 sé 5,2% en 1,3% meðal annarra OECD-ríkja. Það leiði til versnandi samkeppnisstöðu þjóðarbúsins og viðvarandi þrýstings á gengi krónunnar og þar með á verðbólgu.
 
Slök efnahagsstjórnun hér á landi yfir langan tíma geri það að verkum að trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins – hinnar peningalegu kjölfestu hagstjórnar – hafi beðið hnekki og það taki jafnan langan tíma að bæta. Það krefjist aðhaldssamari peningastefnu en ella og dragi úr möguleikum hennar til að styðja við raunhagkerfið á samdráttartímum.
 
Þá segir Þórarinn, og er þá kannski komið að kjarna svarsins, að hefðbundnar peningastefnureglur gefi til kynna að vextir í öðrum iðnríkjum eigi að vera mjög lágir og jafnvel verulega neikvæðir væri það mögulegt (eins og t.d. í Bandaríkjunum). Sambærilegar reglur gefi hins vegar til kynna að vextir hér á landi eigi að vera töluvert hærri og að núverandi vaxtastig sé ekki svo fjarri lagi.“

« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 1116791

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 518
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband