Leita í fréttum mbl.is

Íslandi stjórnað af brezkum stjórnvöldum?

hjortur jÍ Staksteinum Morgunblaðsins laugardaginn 8. nóvember sl. sagði að andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu væru farnir að benda á að framkoma brezkra og hollenzkra stjórnvalda í garð okkar Íslendinga gerði ekki slíka aðild fýsilegri en ella. Orðaval Staksteinahöfundar, ritstjórans Ólafs Þ. Stephensens, var að vísu nokkuð öðruvísu í samræmi við hans eigin pólitíska afstöðu til málsins en boðskapurinn var hinn sami. Ólafur sagði að Icesave-málið svokallað væri þó ekki líklegt til þess að standa í vegi fyrir íslenzkri umsókn um Evrópusambandsaðild til lengri tíma litið. Rökin voru þau að ríkin, sem komið hafa af óbilgirni fram við okkur Íslendinga, væru ekki aðeins bæði í Evrópusambandinu heldur einnig aðilar að NATO, Evrópuráðinu og OECD ásamt Íslandi.

Þessi röksemdafærsla Ólafs lýsir furðulegri vanþekkingu á eðli þeirra stofnana sem vísað er til. Ég á erfitt með að trúa því að velmenntaður stjórnmálafræðingur eins og hann telji virkilega að þær séu allar sambærilegar á þennan hátt þó erfitt sé að skilja orð hans á annan veg. T.a.m. að Evrópusambandið sé sambærilegt við NATO sem er byggt upp sem varnarbandalag á sama tíma og lítið vantar upp á að Evrópusambandið verði að einu miðstýrðu sambandsríki. Stofnanir Evrópusambandsins hafa gríðarleg völd í dag yfir málefnum aðildarríkja sambandsins, völd sem áður voru stór hluti af fullveldi ríkjanna en eru það ekki lengur. Völd stofnananna hafa sífellt aukizt á undanförnum árum og í dag er svo komið að leitun er að málaflokkum innan aðildarríkja Evrópusambandsins sem þær hafa ekki meiri eða minni yfirráð yfir.

Innan Evrópusambandsins gildir sú meginregla að vægi aðildarríkjanna, og þar með möguleikar þeirra til áhrifa, miðast fyrst og fremst við það hversu fjölmenn þau eru. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu óhagstæður sá mælikvarði yrði fyrir okkur Íslendinga. Fyrir vikið ráða stærstu aðildarríkin mestu í krafti stærðar sinnar, þá einkum Þýzkaland, Frakkland – og Bretland. Ef við gengjum í Evrópusambandið myndu brezk stjórnvöld þannig t.a.m. hafa margfalt meira með stjórn Íslands að gera en nokkurn tímann íslenzk stjórnvöld og við Íslendingar. Það er því ljóst að það er algerlega út í hött að setja það samasem merki á milli Evrópusambandsins annars vegar og NATO, Evrópuráðsins og OECD hins vegar eins og Ólafur Þ. Stephensen vill gera í þágu pólitískra skoðana sinna.

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Endurskoða þarf ESB

hjortur jFréttavefur Morgunblaðsins greindi frá því á dögunum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefði kallað eftir því á Alþingi að endurskoða þyrfti Evrópusambandið. Það er alveg ljóst að Ingibjörg hefur hér algerlega á réttu að standa, það hefur um árabil verið mikil þörf á því að taka sambandið til endurskoðunar. Svo vill nefnilega til að endurskoðendur Evrópusambandsins hafa í 13 ár samfellt, eða allar götur síðan 1995, harðneitað að staðfesta bókhald sambandsins vegna þess að vinnubrögðin við það hafa verið langt frá því að vera ásættanleg. Bókhaldið hefur verið uppfullt af alls kyns rugli og misfærslum ár eftir ár. Ekki hefur verið vitað fyrir víst í hvað mikill meirihluti útgjalda Evrópusambandsins hefur farið en um stjarnfræðilegar upphæðir er að ræða sem teknar eru úr vösum skattgreiðenda í aðildarríkjum sambandsins. Þegar liggur fyrir að niðurstaðan í ár verði sú sama og síðustu ár þegar hún verður gerð opinber síðar í þessum mánuði (nóvember).

Áður en þetta mál varð opinbert í byrjun árs 2002 höfðu ráðamenn Evrópusambandsins reynt allt til þess að sópa því undir teppið og koma í veg fyrir að almenningur kæmist á snoðir um það. Þá hafði þessi bókhaldsóreiða sambandsins fengið að ganga samfellt í 7 ár án þess að neitt væri gert í því. Þáverandi yfirmaður endurskoðendasviðs Evrópusambandsins, Marta Andreasen sem var fyrsta manneskjan til gegna embættinu með menntun til þess, reyndi að benda yfirmönnum sínum í framkvæmdastjórn sambandsins á að þetta gengi ekki, þetta yrði að laga, en talaði fyrir algerlega daufum eyrum. Eftir að hafa komið alls staðar að lokuðum dyrum hjá forystumönnum Evrópusambandsins fór Andreasen loks með málið í fjölmiðla. Í framhaldinu var henni vikið úr starfi og er enn þann dag í dag eina manneskjan sem hefur þurft að taka pokann sinn vegna málsins.

Hér er á ferðinni ein hlið Evrópumálanna sem full ástæða er til þess að ræða enda varðar hún algert grundvallaratriði. Ef forystumenn Evrópusambandsins geta ekki einu sinni haft bókhald sambandsins nokkurn veginn í lagi, hvernig í ósköpunum ætti fólk þá að geta treyst þeim fyrir svo fjölmörgu öðru mikilvægu?

Hjörtur J. Guðmundsson

Evrópusambandið – fyrir hverja?

gudbergur.jpgÞingmenn Samfylkingarinnar nýta hvert tækifæri til þess að koma Evrópusambandsáróðri á framfæri. Fremst fara þar í flokki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Á slíkum óvissutímum sem nú ríkja er það forkastanlegt ábyrgðarleysi af fólki í helstu ábyrgðarstöðum þjóðarinnar að blanda slíkri pólitík inn í núverandi ástand. Það er ekki á bætandi. Verkefni dagsins er að hækka gengi krónunnar og koma á einhverjum stöðuleika en ekki að draga enn frekar úr trúverðugleika krónunnar eins og Samfylkingin leggur sig nú í líma við.

Í landsfundarályktun Samfylkingarinnar frá árinu 2007 um Evrópumál segir: „Eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna er að skapa atvinnulífi og fjölskyldum rekstrarumhverfi og starfsskilyrði sem búa í haginn fyrir áframhaldandi velsæld, meiri lífsgæði og aukinn stöðugleika. Íslensk heimili búa við hæstu vexti og hæsta matvælaverð í Evrópu.“ Ég velti því fyrir mér hvaða fyrirtæki Samfylkingin á við; eru það þau hundruð fyrirtækja sem bændur reka víðsvegar um landið eða þau fyrirtæki sem hafa með matvælavinnslu að gera?

Staðreyndin er sú að ef Ísland gengi í Evrópusambandið, myndi opnast fyrir óheftan innflutning á matvælum frá Evrópu og stór hluti þessara fyrirtækja missa rekstrargrundvöll sinn og leggjast af. Er Samfylkingin kannski að hugsa um sjávarútvegsfyrirtækin? Staðreyndin er sú að ef Ísland gengi í Evrópusambandið myndum við missa yfirráðarétt yfir okkar helstu auðlind, hafinu sjálfu. Við fengjum einhvern aðlögunartíma en síðan myndu reglur Evrópusambandsins taka hér fullt gildi.

Í Evrópuályktuninni er einnig hugað að velsæld fjölskyldna. Ég velti fyrir mér hvaða fjölskyldna. Eru það bændafjölskyldur, fjölskyldur sem lifa af sjávarútvegi eða matvælavinnslu eða þær fjölskyldur sem treysta á tekjur frá þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem þjónusta fyrrnefndar greinar atvinnulífsins? Samfylkingin lítur einnig framhjá því grundvallaratriði að án matar er engin velsæld, hvorki hjá fjölskyldum né fyrirtækjum. Nú þegar framleiðum við ekki nema um 50% þeirra hitaeininga sem við neytum og því ætti frekar að auka matvælaframleiðslu á Íslandi en að grafa undan rekstrarskilyrðum hennar með inngöngu í Evrópusambandið. Einangrun landsins undanfarnar vikur ætti að hafa kennt okkur það.

Í ályktuninni kvartar Samfylkingin undan háu matvælaverði á Íslandi. Slíkur samanburður af Samfylkingarinnar hálfu hefur verið settur fram á röngum forsendum. Samfylkingin hefur sagt matvælaverð á Íslandi það hæsta í Evrópu í krónum talið en hefur ekki tekið fram að t.d. í Portúgal þar sem matvælaverð hefur verið með því lægsta, nota Portúgalar stærri hluta tekna sinna til matarkaupa en Íslendingar. Hvernig skyldi slíkur samanburður líta út nú eftir fall krónunnar? Haldið er fram að meiri stöðuleiki fáist með upptöku evru en undanfarið hefur evran fallið um 19% gagnvart dollaranum. Það er nú stöðuleikinn þar. Það sem Samfylkingin virðist ekki skilja er að það er ekki til nein töfralausn og grasið er ekkert grænna hinum megin við lækinn.

Við Íslendingar eigum heima í stórkostlegu landi sem býr yfir miklum auðlindum sem við erum öfunduð af um allan heim. Gefum auðlindirnar ekki frá okkur og treystum á okkur sjálf. Það er alla vega ekki hægt að treysta stjórnmálamönnum sem ekki treysta sér sjálfir til að stjórna landinu og vilja færa valdið til Brussel.

Áfram Ísland.

Guðbergur Egill Eyjólfsson,
bóndi og nemi við Háskólann á Akureyri

(Birtist áður í Morgunblaðinu 2. nóvember 2008)


Bankahrunið – ESB – framtíðin?

Fólk úr ýmsum áttum ræðir atburði seinustu vikna á almennum fundi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu n.k. miðvikudag 5. nóvember kl 12.00 – 13.15

Stutt ávörp flytja:

Brynja B. Halldórsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Hörður Guðbrandsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Grindavík
Ingi Björn Árnason, formaður Félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði
Viðar Guðjohnsen, formaður Félags ungra frjálslyndra

Pallborðsumræður og fyrirspurnir úr sal.

Fundarstjóri verður Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur

Heimssýn
hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum

Evróputrúboðið

hjorleifur guttormssonÍ janúar sl. ritaði ég grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Sjúkt og ósjálfbært efnahagskerfi. Þar benti ég á fjölmörg teikn um aðsteðjandi kreppu og sagði m.a.: „En kreppa samtengds fjármála- og efnahagskerfis heimsins er langtum djúpstæðari en atburðir síðustu mánaða vitna um. Driffjöður þessa kerfis er neysla og ofurneysla á Vesturlöndum þvert ofan í þá vitneskju sem fyrir liggur um áhrifin á umhverfið og heilsu manna í þokkabót. Hnattvædda efnahagskerfið sem innleitt var í núverandi mynd með hömlulausum rafrænum fjármagnsflutningum fyrir 15-20 árum er orðið að meinvætti sem seint verður ráðið við, ef bábyljan um óskeikulleika markaðarins verður höfð að leiðarljósi." Þróunin það sem af er þessu ári hefur því miður staðfest svörtustu hrakspár. Ráðamenn og almenningur sitja nú yfir brunarústum vængbrotins efnahagskerfis og þörfin fyrir endurmat og nýja hugsun er brýn.


Fáránlegt ákall eftir ESB-aðild
Hérlendis hefur mest farið fyrir ákalli eftir að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og að tekin verði upp evra sem gjaldmiðill í stað krónu. Árinni kennir illur ræðari. Gjaldþrot bankanna og fall íslensku krónunnar var afleiðing óstjórnar síðustu ára en ekki orsök. Ef hér hefði verið skapleg efnahagsstjórn og eðlilegar skorður verið settar við útrás og skuldsetningu hefði Ísland ekki verið verr sett nú en aðrar Norðurlandsþjóðir í þeirri alþjóðlegu kreppu sem yfir gengur. Útrásarbrjálæðið íslenska gerðist raunar í skjóli EES-samningsins. Nú vilja margir ganga lengra í von um evru og skjól frá Evrópska seðlabankanum, sem tómt mál er að tala um næstu árin. Það grafalvarlega í stöðunni er að það er annar ríkisstjórnarflokkurinn, Samfylkingin, sem ásamt fleirum heldur þessu gamla stefnumáli sínu um ESB-aðild til streitu í stað þess að leggjast á árar á raunsæjum forsendum um endurreisn íslensks efnahagslífs og verjast um leið frekari áföllum.

Aðild að Evrópusambandinu snýst um fjölmörg atriði, þar á meðal grundvallarspurningar er varða fullveldi, forræði yfir náttúruauðlindum og stöðu Íslands meðal þjóða. Það er í senn ósiðlegt og andstætt góðum lýðræðishefðum að ætla að knýja fram afstöðu í svo örlagaríku máli með þjóðina í losti eftir þau áföll sem nú hafa dunið yfir.


Hvað verður um myntbandalag ESB?
Þær hremmingar sem nú ganga yfir efnahagskerfi veraldar eiga eftir að hafa djúpstæð áhrif og innan tíðar getur blasað við gjörbreytt landslag í viðskiptum og alþjóðamálum. Það á m.a. við um forsendur hnattvæðingarinnar og ríkjasamsteypur eins og Evrópusambandið. ESB og Evru-svæðið innan þess er afar illa búið undir þá kreppu sem nú ristir æ dýpra í efnahagslíf heimsins. Þýskaland, sem ásamt Frakklandi er burðarás í Evru-myntbandalaginu, er sem vöruútflytjandi afar viðkvæmt fyrir samdrætti. Þótt Evru-löndin séu ekki skuldsettari á heildina litið en Bandaríkin hefur hagvöxtur þar verið langtum minni og aldurssamsetning önnur og óhagstæðari og hið sama á einnig við um Japan. Að auki er atvinnuleysi innan ESB þegar gífurlegt vandamál, um 70% meira en í Japan og tvöfalt meira en verið hefur í Bandaríkjunum. Efnahagsvöxturinn sem átti að fylgja innri markaðnum hefur látið á sér standa og ESB er þannig afar illa undir frekari samdrátt búið.

Leiðandi ríki á Evrusvæðinu hafa að undanförnu brotið meginreglur Maastricht-sáttmálans um ríkisfjármál, skuldsetningu og efnahagslegan stöðugleika. Aðsteðjandi kreppa getur því fyrr en varir sett myntbandalagið í uppnám. Kjarninn í hertum áróðri hérlendis fyrir að Ísland sæki um aðild að ESB hvílir þannig á ótraustum grunni, svo ekki sé litið til annarra þátta sem mæla gegn aðild. Heilvita menn ættu að sjá að við núverandi aðstæður og dýpkandi alþjóðlega kreppu framundan væri hreint glapræði að fara að bindast Evrópusambandinu í meira mæli en orðið er.

Í stað villuljósa er verkefnið framundan að brjótast út úr skuldafjötrum og sníða stakk að vexti. Halda þarf þétt utan um auðlindir landsins og óspillta náttúru, efla menntun og rækta fjölþjóðasamstarf sem byggi á því besta sem Ísland hefur að bjóða umheiminum.

Hjörleifur Guttormsson,
fyrrverandi þingmaður og ráðherra

(Birtist áður í Fréttablaðinu 1. nóvember 2008)


Sjávarútvegsstefna ESB ósamrýmanleg íslenskum hagsmunum

EinarKr„Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er sannarlega eitt af því sem er ósamrýmanlegast íslenskum hagsmunum,“ sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra í ræðu sem hann hélt fyrir stundu á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna. „Eða vill einhver halda því fram að sjávarútvegi okkar yrði betur borgið innan laga og regluverks ESB en hins íslenska?“ sagði Einar ennfremur. Einar sagði að þunginn í kröfunni um aðild að ESB og evru hefði aukist og gagnrýndi hvað Evrópuumræðan væri þröng; hún snerist að mestu um evruna. Líta þyrfti á málið á víðari grunni og fram þyrfti að fara blákalt hagsmunamat þegar búið væri að draga fram kosti og galla aðildar að ESB.

Hvað sjávarútvegsstefnu ESB áhrærir sagði Einar að því væri haldið fram að Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur frá henni. „Þegar glöggt er skoðað er þó alveg ljóst að þær undanþágur sem vísað hefur verið til eru af þeim toga að þær kæmu að litlu gagni fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð. Takmarkaðar undanþágur sem miðast við vanbúinn flota, sem veiðir fáein hundruð tonn, svo sem á Möltu sem stundum hefur verið tekið sem dæmi að fyrirmynd, eru auðvitað ekki almennt fordæmi sem fylgt verður þegar slík mál verða rædd við okkur,“ sagði Einar K.

„Takmarkaðar undanþágur sem helgast af viðkvæmum, afmörkuðum hafsvæðum gefa okkur ekki nein fyrirheit um að vera skilgreind sem sérstakt fiskveiðisvæði sem ekki lyti öllum almennum reglum fiskveiðistjórnunar Evrópusambandsins, eins og eitt sinn var nefnt. Hinn hlutfallslegi stöðugleiki sem er kjarni sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er ansi valt völubein í ljósi þess að við endurskoðun fiskveiðistefnu ESB sem nú er að hefjast, er það fyrirkomulag undir. Þessir þættir og fleiri verða ekki undan skildir í því hagsmunamati sem fram mun fara á næstunni.“

Heimild:
Sjávarútvegsráðherra: Sjávarútvegsstefna ESB ósamrýmanleg íslenskum hagsmunum (Vb.is 30/10/08)


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2008
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 92
  • Sl. sólarhring: 467
  • Sl. viku: 2002
  • Frá upphafi: 1237437

Annað

  • Innlit í dag: 84
  • Innlit sl. viku: 1801
  • Gestir í dag: 84
  • IP-tölur í dag: 84

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband