Leita í fréttum mbl.is

Alþingi þarf að eyða skaðlegum áhrifum dóms

erna_bjarnadottirÍsland er ekki aðili að stefnu ESB í landbúnaðarmálum. Sterkir fyrirvarar voru settir við það þegar samningurinn um EES var samþykktur, m.a. til að tryggja öryggi og heilbrigði í meðferð matvæla. Eftir sem áður komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ólögmætt sé að takmarka innflutning á fersku kjöti. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands segir í nýlegri grein sem birt var í Morgunblaðinu af þessu tilefni að dómstólaleiðin á vettvangi EES hafi nú verið tæmd í þessu máli og að öðru jöfnu sé íslenska ríkið skuldbundið til að hlíta dómi af þessu tagi. Standi hins vegar almennur vilji til að verja sérstöðu okkar beri stjórnmálamönnum að slá skjaldborg um hana og leita til þess allra löglegra leiða. Löggjöf og reglur séu mannanna verk.

Í grein Ernu frá 18. nóvember, sem ber yfirskriftina Viðskiptahagsmunir teknir fram yfir heilsufarsrök, segir m.a.:

 

Horft framhjá varnöglum

Með dómnum er enn eitt skrefið tekið að því marki að ryðja á brott einum af hornsteinum í stefnu er varðar heilsu búfjár og jafnframt lýðheilsu. Sögu þessa máls má rekja allt aftur til samþykktar EES-samningsins sem var undirritaður fyrir 25 árum. Þar var landbúnaður alveg undanskilinn. Sameiginleg löggjöf um matvælaheilbrigði var ekki til á þeim tíma heldur þróaðist síðar eftir áföll og hneykslismál. Hins vegar var í EES-samningnum að finna ákvæði sem telja má fullvíst að margir þeirra sem fjölluðu um samninginn hér á landi á sínum tíma töldu vera hald í, kæmi til þess að knúið yrði á um breytingar á innflutningi landbúnaðarvara síðar meir. Ágætt er að rifja upp að á þessum tíma var innflutningur landbúnaðarvara að meginreglu bannaður en leyfður þegar þær vörur sem framleiddar voru hér á landi voru ekki til. Þegar samningar innan WTO voru til lykta leiddir tveimur árum síðar og öllum innflutningsbönnum var breytt í tolla fékk Ísland staðfestar heilbrigðisreglur vegna sérstöðu dýraheilbrigðis sem unnið hefur verið eftir æ síðan.

Ísland er ekki aðili að stefnu ESB í landbúnaðarmálum

Augljóst var að 13. grein EES-samningsins var ætlað að skapa möguleika fyrir einstök lönd að bregðast við þar sem sérstakir hagsmunir voru í húfi en þar kemur fram að aðildarríki samningsins megi grípa til aðgerða til verndar heilsu dýra og manna. Hins vegar er að finna ákvæði í 18. gr. EES-samningsins sem gerir ráð fyrir að unnt sé að semja um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Í greininni segir: „Með fyrirvara um sérstakt fyrirkomulag varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir skulu samningsaðilar tryggja að fyrirkomulaginu, sem kveðið er á um í 17. gr. og a- og b-lið 23. gr. varðandi aðrar vörur en þær er heyra undir 3. mgr. 8. gr., verði ekki stofnað í hættu vegna annarra tæknilegra viðskiptahindrana. Ákvæði 13. gr. skulu gilda.“

Viðskiptasjónarmið ráða för

Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar. Undir merkjum alþjóðavæðingar virðast viðskiptasjónarmið ráðandi en sjónarmið eins og heilbrigði manna og dýra látin litlu skipta. Heilbrigði manna og dýra felur þó í sér mikil gæði sem eru óafturkræf komi eitthvað upp á. Vísindamenn eru ekki allir sammála um þær hættur sem fylgja innflutningi á þeim vörum sem dómurinn tekur til. Það er þó óumdeilt að rannsóknir eru hvergi nærri búnar að upplýsa allt sem hér skiptir máli. Ný eða áður óþekkt smitefni koma fram og þróun sýklalyfjaónæmra klasakokka er hröð. Þegar útbreiðsla þeirra og tengsl milli dýra og manna eru ekki fullrannsökuð er óábyrgt að tefla sérstöðu okkar í tvísýnu. Það eru ekki rök fyrir því að minnka varnir okkar á þessu sviði að við séum að standa okkur illa á öðrum sviðum. Við eigum einfaldlega að bæta okkur og gera allt sem unnt er til að halda í þau verðmæti sem í þessu felast.

Boltinn er hjá stjórnmálamönnum

Í nýjum dómi EFTA-dómstólsins er ekki fjallað efnislega um þau atriði sem haldið hefur verið fram í málsvörn íslenskra stjórnvalda, þ.e. að heimilt sé að halda uppi einhverjum lágmarksvörnum til að vernda það sérstaka heilbrigðisástand manna og dýra sem ríkir hér á landi. Dómurinn virðist eingöngu byggjast á því að þar sem markmið matvælalöggjafarinnar sé að samræma löggjöf á þessu sviði innan EES-svæðisins komi ekki til álita að heimilt sé fyrir einstök lönd sem eiga aðild að samningnum að beita fyrir sig 13. grein hans.

Varla er vafi á að lögfræðingar líta þessa túlkun misjöfnum augum og jafnvel er hægt að álykta að hér sé beinlínis verið að breyta EES-samningnum því að 18. gr. áskilur berum orðum að 13. gr. skuli gilda eins og fyrr segir. Sé svo stenst það vitaskuld ekki þar sem allt annað ferli þarf að eiga sér stað til að gera breytingar á honum.

Dómstólaleiðin á vettvangi EES hefur nú verið tæmd í þessu máli og að öðru jöfnu er íslenska ríkið skuldbundið til að hlíta fyrrgreindum dómi. Standi hins vegar almennur vilji til að verja okkar sérstöðu ber stjórnmálamönnum að slá skjaldborg um hana og leita til þess allra löglegra leiða. Löggjöf og reglur eru mannanna verk.

 


Vilja virkja Gullfoss!

SvavarHalldorsHugmyndir um að virkja Gullfoss voru á sínum tíma kynntar undir flaggi framfara og ódýrari raforku. Nú eru fæstir á því að hugmyndin hafi verið góð. Sterk öfl virðast samt enn á ný vera tilbúin að að taka áhættu með einstaka íslenska náttúru og erfðafræðilegra sérstöðu fyrir skammtímagróða. Málflutningurinn er klæddur í svipaðan búning viðskiptafrelsis og framfara eins og gert var fyrir rúmri öld.

Þetta segir Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri í grein í Morgunblaðinu í dag. 

Hann segir enn fremur í greininni:

Íslenskir stofnar eru einstæðir og viðkvæmir

Íslensku stofnanir eru litlir og einangrunin veldur því að þeir hafa ekki komist í tæri við ýmsa sjúkdóma sem eru landlægir víða annars staðar. Þeir er því viðkvæmir gagnvart hvers konar sýkingum. Nýlegt dæmi er hrossapestin sem olli hér miklum búsifjum árið 2010 en talið er líklegt að hún hafi borist með notuðum reiðtygjum. Þá hafa allar tilraunir til innflutnings á sauðfé til kynbóta valdið skaða vegna sjúkdóma sem bárust með innfluttu dýrunum. Skaðinn var stundum mikill og litlu hefur mátt muna að íslenska sauðfjárkynið þurrkaðist út. Hættan er raunveruleg, en samkvæmt FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, hafa um eitt þúsund búfjárkyn dáið út í heiminum á síðustu hundrað árum. 

Miklu færri dýrasjúkdómar hér

Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE) heldur utan um tölfræði um 119 dýrasjúkdóma í heiminum. Alls hafa 18 þeirra, eða 15%, fundist á Íslandi. En 101 þeirra, eða 85%, hefur aldrei orðið vart hér. Til samanburðar hafa a.m.k. 90, eða 76% þeirra fundist á Spáni. Í Þýskalandi hefur a.m.k. 71, eða 60% þessara sjúkdóma fundist. Spánn og Þýskaland eru meðal þeirra ríkja þar sem mest er notað af breiðvirkum sýklalyfjum í landbúnaði í Evrópu og því miklar líkur á stökkbreyttum fjölónæmum bakteríum sem geta valdið óviðráðanlegum sjúkdómum. Nú þegar er flutt inn frosið kjöt hingað frá þessum löndum en frysting minnkar verulega líkurnar á því að sjúkdómar berist með innflutningum.

Hrátt kjöt er stór áhættuþáttur

Samkvæmt OIE brutust þeir sjúkdómar sem fylgst er með alls 6.879 sinnum út í heiminum árið 2016 (e. outbreaks). Tilfelli í Evrópu voru 5.595. Á Íslandi greindist eitt tilfelli (riðuveiki í sauðfé). Dýrasjúkdómar breiðast út með ýmsum hætti, t.d. með flutningi á lifandi dýrum eða tækjum og áhöldum sem notuð eru við dýraeldi eða í matvælaiðnaði. Einn af áhættuþáttunum er flutningur á hráu kjöti. Mörg lönd, sérstaklega eyríki, beita ströngu regluverki til að vernda dýrastofna. Frægasta dæmið er líklega á Galapagos-eyjum en einnig má nefna Japan og Nýja-Sjáland sem er með mjög strangar hömlur á innflutningi matvæla og annarra dýraafurða – sérstaklega á hráu kjöti. Þar er fyrst og fremst verið að hugsa um möguleg áhrif á húsdýrastofna.

Galnar hugmyndir ganga aftur

Stjórnvöld og almenningur í þessum löndum gera sér grein fyrir því að berist nýir sjúkdómar til eyjanna getur það mögulega þýtt útdauða dýrategunda. Samfélagsleg og efnahagsleg áhrif gætu orðið mikil auk neikvæðra áhrif á náttúru og líffræðilegan fjölbreytileika. Þrátt fyrir að hugmyndir um virkjun Gullfoss hafi á sínum tíma verið kynntar undir flaggi framfara og ódýrari raforku, eru fæstir á því núna að hugmyndin sé góð. Sterk öfl virðast samt enn á ný vera tilbúin að að taka áhættu með einstaka íslenska náttúru og erfðafræðilegra sérstöðu fyrir skammtímagróða. Málflutningurinn er klæddur í svipaðan búning viðskiptafrelsis og framfara eins og gert var fyrir rúmri öld.

Óafturkræf náttúruspjöll

Innflutningur á hráu kjöti eykur verulega líkur á því að áður óþekktir dýrasjúkdómar berist hingað til lands. Mótstaða innlendu búfjárkynjanna er ekki til staðar og hugsanlegt, fari allt á versta veg, að þau hreinlega þurrkist út. Fari svo verður ekki aftur snúið. Engu máli skiptir þótt hægt sé að reikna sig niður á að líkurnar séu ekki miklar. Skynsamlegra væri að horfa heldur til landa eins og Nýja-Sjálands til að tryggja að við getum skilað einstæðri náttúru og erfðaauðlind Íslands til komandi kynslóða.


Ráðherra stendur ekki í lappirnar

jon_bjarnason_1198010Íslendingar þurfa að standa fastar á rétti sínum í samskiptum við ESB að mati Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, en hann fjallar í vefskrifum sínum í dag um það hvernig stjórnvöld og jafnvel hagsmunaaðilar virðast lyppast niður gagnvart skeytasendingum erlendis frá í stað þess að standa á rétti sínum og vinna að því að hér verði öryggi og heilbrigði sem mest þegar kemur að meðferð matvæla.

Pistill Jóns Bjarnasonar er aðgengilegur hér

Meðal þess sem Jón segir er að EES samningurinn hefði aldrei verið samþykktur á Alþingi ef landbúnaður, fiskveiðar og matvæla- og dýraheilbrigði hefði ekki verið þar undanskilinn.

Er fólk gjörsamlega búið að gleyma? 

Ætlar fólk virkilega að láta taka sig með þessari Monnet-spægipylsu-koníaksaðferð?

 


Hriktir í evrunni vegna stjórnarkreppu í Þýskalandi

Eins og meðfylgjandi frétt Morgunblaðsins ber með sér titrar evran nú og lækkar gengi hennar þegar Merkel hefur siglt stjórnarmyndunarviðræðum í strand. Verð á hlutabréfum hefur einnig lækkað og fréttamiðlar fjalla um að evran muni sveiflast meira vegna þessarar óvissu um stjórnarmyndun í öðru helsta móðurlandi evrunnar. Meginspurningin núna er: Mun evran þola fall Merkel?


mbl.is Evran lækkar í kjölfar viðræðuslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirskipanir ESB hér á landi valda tjóni

Fyrirskipanir ESB hér á landi í gegnum EES-samninginn geta valdið ís­lensk­um land­búnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjár­heilsu að mati Bændasamtaka Íslands. Nái þetta fram að ganga er hætt við því að hingað verði fluttar hormóna- og sýklalyfjafylltar landbúnaðarafurðir í stórum stíl frá Mið-, Suður- og Austur Evrópu. Viljum við það?

 

 


mbl.is Dómur EFTA geti „ógnað lýðheilsu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrrverandi Brexit-útgönguráðherra kynnir Íslendingum stöðuna

DavidJonesnyBretar vilja fá eigið fullveldi að nýju, sagði David Jones, fyrrum Brexit-útgönguráðherra á fundi Heimssýnar og stúdentafélaganna Ísafoldar og Herjans í Háskóla Íslands á fimmtudag í síðustu viku. Athygli vakti að sendiherra ESB á Íslandi, Michael Mann, mætti með fríðu föruneyti á fundinn til að takast á við Jones.

 

David Jones, fyrrverandi Brexit-útgönguráðherra, var hér á fundi í síðustu viku í boði Heimssýnar og stúdentafélaganna Herjan og Ísafold, en félögin héldu fund með Jones, sem er nú þingmaður fyrir Wales, í Háskóla Íslands fimmtudaginn 9. þessa mánaðar. Jones hélt erindi um aðdraganda þess að Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við ESB og greindi auk þess frá stöðunni í dag og þeim viðhorfum sem eru framundan.

 

Bretland hefur alltaf haft sérstöðu

Jones hóf mál sitt með því að rekja viðhorf forystumanna Evrópuþjóða á upphafsárum Evrópusamrunans, s.s. GeGaulle Frakklandsforseta, sem sagði að eðlilegt væri að Bretar væru utan Evrópusamvinnunnar þar sem Bretar væru eyþjóð umvafin hafi og hefði sín sérkenni og væri ólík öðrum Evrópuþjóðum. Jones bætti því við, kankvís á svip, að vissulega væru Bretar að ýmsu leyti ólíkir öðrum þjóðum í álfunni, enda hefðu þeir umferðina vinstra megin, þeir kynnu að fara í biðraðir og drykkju auk þess volgan bjór. Bretar  hefðu þó samþykkt að gerast aðilar að þessum samvinnuvettvangi Evrópuþjóða, en þó á allt öðrum grunni en væri í dag. Þeir hefðu viljað taka þátt í frjálsri verslun en ekki því pólitíska samrunabandalagi sem ESB væri orðið. Breytingin á ESB væri ástæðan fyrir því að Bretar væru nú að fara út. Þeir vildu taka sín mál í eigin hendur á nýjan leik.

 

Frelsi í viðskiptum meginatriðið

David Jones lagði áherslu á að Bretar væru hlynntir frjálsum viðskiptum landa á milli; Bretar hefðu jú samþykkt aðild að forvera ESB með það að markmiði en ESB væri hins vegar að þróast í átt að stjórnmálasambandi sem væri að taka æ meiri völd frá aðildarríkjunum. Þessi þróun ESB frá samvinnu um frjáls viðskipti yfir í pólitískt yfirsamband hefði valdið æ meiri óánægju og deilum í Bretlandi og leitt til mikillar sundrungar í Íhaldsflokknum og þess að Sjálfstæðisflokkurinn breski hefði verið stofnaður. Ekki nóg með það: Þetta hefði leitt til þess að breska þjóðin hefði klofnað í andstæðar fylkingar. Sú djúpa gjá og sú sundrung sem þetta hefði leitt yfir breskt þjóðlíf hefði á endanum knúið David Cameron til þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að losa um þann hnút sem breska Evrópusamvinnan væri komin í.

 

ESB hefur sogað til sín völd og áhrif

David Jones fór fyrir Brexit-sinnum í Wales í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar, enda á hann rætur í Wales og er þingmaður fyrir Walesverja. Hann sagði að baráttan fyrir Brexit hefði verið fjörlegasta og eftirminnilegasta kosningabarátta sem hann hefði tekið þátt í vegna þess mikla áhuga sem kjósendur sýndu málefninu og það langt umfram venjulegar þingkosningar.  Hann sagði að almenningur í Bretlandi hefði upplifað baráttuna þannig að nú væri hann loksins að eygja möguleika á að fá að taka sín mál í eigin hendur að nýju. Stjórn á eigin málum var helsta baráttumálið eftir það hægfara valdaframsal sem ESB og forverar þess höfðu komið til leiðar. Bretar vildu fá eigið fullveldi að nýju.

 

Lýðræði ábótavant í ESB

David Jones sagði að mikið skorti á það lýðræði í ESB sem annars staðar þekktist. Allar helstu ákvarðanir þyrftu að koma frá framkvæmdastjórn sambandsins og ýmsum opinberum embættis- og starfsmönnum en kæmu ekki frá hinum kjörnu fulltrúum í þingi ESB. Sambandið væri því stærsta regluveldi (bureaucracy) í heimi. Vald framkvæmdastjórnarinnar væri gífurlegt en samt þekktu fáir til þeirra einstaklinga sem þar sætu fyrir aðildarríkin.

Jones sagði að þrátt fyrir að flestir stærstu og öflugustu fjölmiðlar Bretlands hefðu stutt áframhaldandi veru Bretlands í ESB hefðu breska þjóðin samþykkt með 52% atkvæða að segja skilið við ESB. Alls hefðu 17,4 milljónir Breta samþykkt útgöngu. Það væri stærsta lýðræðislega yfirlýsing þjóðarinnar til þessa. Cameron hefði sagt af sér í kjölfarið sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, enda hefði hann stutt áframhaldandi veru í ESB á þeim grunni sem samningar  höfðu náðst um. Theresa May tók þá við forystu Íhaldsflokksins og forsætisráðuneytinu og meðal hennar fyrstu verka var að stofna sérstakt útgönguráðuneyti úr ESB og nýtt utanríkisviðskiptaráðuneyti. Frummælandinn á fundi Heimssýnar, Herjans og Ísafoldar, David Jones, varð svo fyrst fyrir valinu hjá May sem útgönguráðherra.

 

Tilvistarkreppa ESB-forystunnar

Það var fróðlegt að heyra David Jones lýsa viðbrögðum forystumanna í ESB við niðurstöðu Brexit-kosninganna. Helstu forystumenn ESB hefðu orðið agndofa yfir niðurstöðunni og vægast sagt tekið henni fálega. Forysta ESB hefði í rauninni lent í tilvistarkreppu yfir því að eitt af stærstu og öflugustu ríkjum ESB hefði viljað yfirgefa sambandið. Theresa May, nýr forsætisráðherra Breta, hefði þá undirstrikað að Bretar væru ekki að yfirgefa Evrópu heldur aðeins ESB. Bretar væru alveg tilbúnir að eiga víðtæka samvinnu við Evrópu, t.d. í menntamálum, en þá með tvíhliða samningum.

 

ESB tregt í taumi

Fram kom að Bretar eru eina þjóðin sem hefur ákveðið að yfirgefa ESB fyrir utan Grænlendinga fyrir mörgum áratugum síðan . Það var talsvert átak fyrir Grænlendinga á sínum tíma og það er líka mikið, erfitt og flókið verkefni fyrir Breta að yfirgefa ESB núna. Þeir hefðu hins vegar ákveðið þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016 og svo virkjað útgöngugreinina nr. 50 í Lissabon-sáttmálanum í mars í ár.

Jones sagði að ESB hefði verið tregt í taumi og ekki viljað ræða framtíðarsamning við Breta fyrr en búið væri að ganga frá málum er vörðuðu íbúa ESB í Bretlandi, ýmis fjármál við útgöngu og fleira, s.s. atriði er varða landamæri Norður-Írlands og Írlands. Aðstæður eru þannig að um 2,5 milljónum fleiri íbúar ESB búa í Bretlandi en íbúar Bretlands í ESB. Jones sagði að þótt kosningarnar sem May boðaði í ár hefðu ekki farið eins og hún hefði óskað væri þó alveg ljóst að ekki yrði aftur snúið. Ekkert pólitískt afl í Bretland, sem vert væri að nefna, vildi snúa af þessari þróun. Spurningin væri aðeins um leiðina út en ekki hvort farið yrði út. Þjóðin hefði talað í þeim efnum og því bæri að fylgja. May hefði sagt að Brexit þýddi Brexit – og að engir samningar væru betri en slæmir samningar – en þá yrðu samskipti Bretlands og ESB á grunni samninga Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, WTO.

Jones sagði að samningar Breta við ESB að loknu Brexit ættu að geta orðið álíka og þeir samningar sem ESB hefði þegar gert við Kanada. Þjóðverjar og fleiri ESB-þjóðir yrðu að hafa í huga að það væri þeim í hag að semja við Breta, m.a. í ljósi þess að Bretar keyptu mun meira af vörum frá ESB-löndunum en ESB-löndin frá Bretlandi. Því væri það hagur fyrir ESB að ná samningum við Breta.

 

Ekki EES eða EFTA

Í fyrirspurnum og umræðum að framsögu Jones lokinni kom m.a. fram að hann teldi samninginn um evrópska efnahagssvæðið eða aðild að EFTA ekki vera ákjósanlega fyrir Breta. EES-samningurinn væri aðeins hálfköruð ESB-aðild með hliðstæðu valdaframsali og ESB-aðild. Slíkt væri engin lausn fyrir Breta. Þeir yrðu þá áfram háðir regluverki ESB og það vildu þeir ekki. Lausn sú er Sviss hefði náð væri heldur ekki góð því það hefði kostað endalausar erjur á milli Sviss og ESB (sem kunnugt er urðu Svisslendingar svo þreyttir á framkomu forystu ESB að þeir ákváðu nýverið að draga formlega í gegnum þjóðþingið til baka áratugagamla umsókn sem í huga flestra, nema skriffinnanna í Brussel, var löngu dauð).

(Eins og fram kemur á öðrum stað á þessum bloggvef mætti sendiherra ESB á fundinn með David Jones, greinilega útsendur af ESB til þess að reyna að grafa undan málflutningi David Jones. Það var hin mesta sneypuför fyrir sendiherrann eins og hér er frá greint).


Sendiherra ESB á Íslandi með uppsteyt á fundi Heimssýnar

MichaelMannÞað vakti talsverða athygli fundargesta á nýlegum fundi Heimssýnar og fleiri með David Jones, fyrrverandi Brexit-útgönguráðherra Breta, á fimmtudag í síðustu viku þegar nýr sendiherra ESB á Íslandi, Michael Mann, mætti til fundarins með fríðu föruneyti og var með uppsteyt í lok fundarins.

Sendiherrann tók til máls þegar komið var að fyrirspurnum og mótmælti ýmsu í málflutningi Jones, s.s. um tilhneigingu til samrunaþróunar í ESB. David Jones hlustaði á athugasemdir sendiherrans, en þegar Jones hóf að svara greip sendiherrann til ráða sem varla er hægt að kenna við góða hegðun diplómata og greip margsinnis fram í með nöldurtón og skiptist á búkhljóðum og meðfylgjandi augngotum og svipbrigðum við starfsfólk sitt. Að endingu varð Jones að biðja sendiherrann um að fylgja viðurkenndum fundarreglum og sýna álíka kurteisi og aðrir fundarmenn höfðu sýnt.

Nánar verður greint frá fundinum fljótlega hér á bloggsíðunni.


Formaður Heimssýnar vill ekki á þetta hótel

erna_bjarnadottirErnu Bjarnadóttur, formanni Heimssýnar, hugnast ekki gisting á þeim stað sem ekki er hægt að yfirgefa. Þetta sagði hún í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar (á 10.mín) sem tekið var í tilefni af því að fyrrum útgönguráðherra Breta, David Jones, mætir til fundar við fólk í Háskóla Íslands í dag til að deila reynslu Breta af Brexit. Erna sagði að reynsla Breta sýndi hversu gífurlega flókið það væri að yfirgefa ESB fyrir ríki sem eru komin þangað inn.

Af því tilefni vísaði Erna til söngtexta í vinsælu lagi bandarísku hljómsveitarinnar The Eagles, en þar segir m.a. „You can check-out any time you like, But you can never leave! " Sagt er að textahöfundur lagsins hafi sótt hugmyndina til orða hagfræðings sem fjallaði um erfiðleika við að ná fjárfestingu sinni frá tilteknum löndum.

Fundurinn með David Jones verður í Háskóla Íslands í dag, Háskólatorgi, stofu HT105 og hefst klukkan 17:30.

David mun flytja erindi og svara fyrirspurnum. Erindi hans ber yfirskriftina „The British Experience of Brexit“. David Jones er nú þingmaður breska Íhaldsflokksins en hann á rætur í stjórnmálum í Wales. Theresa May, forsætisráðherra Breta, valdi hann til að sinna Brexit-málum eftir kosningarnar 2016 og hélt Jones því ráðherraembætti þar til í ár. 

David Jones kemur hingað til lands á landi á vegum samtakanna „The Red Cell“, en þau beittu sér fyrir samþykkt Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi í fyrra og er gestur Heimssýnar og félaganna Herjans og Ísafoldar. 

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Heimssýn, Herjan og Ísafold


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 149
  • Sl. sólarhring: 189
  • Sl. viku: 2261
  • Frá upphafi: 1112303

Annað

  • Innlit í dag: 124
  • Innlit sl. viku: 2032
  • Gestir í dag: 122
  • IP-tölur í dag: 121

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband