Leita í fréttum mbl.is

Nýr forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um evruna og ESB

c_euro645_100770Dr. Gunnar Ólafur Haraldsson er nýr forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og tók hann við af Dr. Tryggva Þór Herbertssyni sem lét af þeim störfum um síðustu áramót. Markaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, innti í gær Gunnar um skoðun hans á þeirri umræðu sem verið hefur í gangi að undanförnu um evruna og krónuna. Gunnar sagði fyrir það fyrsta ekki vera búið að skoða nægilega vel allar hliðar málsins til þess að hægt sé að taka ákvörðun um að kasta krónunni. „Það hefur til að mynda ekki verið fullskoðað hvernig við myndum haga hagstjórninni, með lítil sem engin áhrif á gjaldmiðilinn. Að taka upp evruna getur líka haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn og þau áhrif hafa heldur ekki verið rannsökuð ofan í kjölinn. Þetta er ekki bara spurning um að telja kostina og ókostina. Það þarf að vega og meta hversu þungt þessir kostir og ókostir vega. Spurningin um fyrirkomulag þessara mála á ekki að vera dægurmál."

Gunnar telur ekki ráðlagt að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. „Ef við tækjum upp evruna þyrftum við strax að reyna að aðlaga íslenska hagkerfið sem best að sveiflum í evrópska hagkerfinu. Sögulega séð hefur Ísland oft verið í uppsveiflu á meðan Evrópa er í niðursveiflu og öfugt. Ef við tækjum upp evruna án þess að ganga í sambandið gætum við lent í því að vera með lága vexti í uppsveiflu og háa vexti í kreppu." Hann bendir líka á að þótt Íslendingar tækju upp evruna væru hagstjórnarvandamál hvergi nærri úr sögunni.

„Áhrifin af uppsveiflu eða niðursveiflu koma alltaf einhvers staðar fram. Ef það gerist ekki að hluta til í gegnum gengið, þá gerist það bara einhvers staðar annars staðar. Svo má heldur ekki gleyma því að við verðum ekki laus við áhrifin af gengissveiflum þótt við tökum upp evruna. Aðrir gjaldmiðlar sveiflast líka, þetta verða þá bara ekki gengissveiflur sem verða til af ástandinu hérna innanlands. En sveiflurnar myndu vissulega minnka."

(Athugasemd Heimssýnarbloggsins: Því er við þetta að bæta að hvorki er ein hagsveifla til staðar innan Evrópusambandsins né evrusvæðisins þó sveiflurnar þar á bæ séu allajafna miklum mun líkari en það sem gengur og gerist á milli Íslands og aðildarríkja sambandsins. Sums staðar er uppsveifla innan evrusvæðisins, s.s. á Spáni, á meðan erfiðlega hefur gengið að örva hjól atvinnulífsins t.a.m. í Þýskalandi og Frakklandi. Miðstýrðir stýrivextir Seðlabanka Evrópusambandsins, sem gilda á öllu evrusvæðinu, hafa fyrir vikið verið einhvers konar málamiðlun og í raun ekki hentað neinu af evruríkjunum. Hugmyndafræðingar evrusvæðisins gerðu ráð fyrir því í upphafi að hagsveiflur evruríkjanna myndu smám saman samlagast en það hefur þó enn ekki gerst heldur hafa sveiflurnar til þessa miklu fremur fjarlægst.)

Ýmsir hafa haldið því fram að evran muni, hvort sem okkur líkar betur eða verr, lauma sér bakdyramegin inn í íslenskt efnahagslíf, samfara því að umsvif íslenskra stórfyrirtækja verði í sífellt meira mæli í erlendum gjaldmiðli. Fullyrt hefur verið að það myndi gera peningamálastjórn Seðlabankans áhrifalausa. „Ég sé ekki að þetta myndi breyta miklu frá því sem nú er, því að stórum hluta hafa stýrivextir Seðlabankans ekki virkað sem skyldi. Bankarnir hafa nú þegar greiðan aðgang að erlendu lánsfjármagni og eru því að miklu leyti undanskildir áhrifum af stýrivöxtum Seðlabankans. Ég held það sé alltaf, þrátt fyrir allt [s.s. hvort sem hér á landi væri í notkun evra eða króna], almenningur í landinu sem ber þyngstu byrðarnar af peningamálastjórninni."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka fyrir og fagna faglegri umræðu um evruaðildina. Viðtalið við Gunnar Ólaf hjá Hagfræðistofnun HÍ er sérlega kærkomið. Varðandi það að <i>hugmyndafræðingar evrusvæðisins hafi gert ráð fyrir því að hagsveiflur evruríkjanna myndu smám saman samlagast</i>, og að það hafi ekki gengið eftir, þá er ég ekki fyllilega sammála Gunnari.  Bendi í þeim efnum á hversu mikið verðblólgan hefur lækkað á Spáni, Ítalíu og í Grikklandi frá því Evran var tekinn upp í þessum löndum. Grikkland var áður talið vera "vandræðabarn" Evrópusambandssins hvað verðbólgu áhrærir. Verðbólga í suður Evrópu var um og yfir 20% fyrir upptöku Evrunnar, en er nú 2,9% í Grikklandi, 2,6% á Ítalíu og um 3,1% á Spáni: [heimild: http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/country_focus/2004/cf12en.pdf]. . Það er mikilvægt að halda þessu til haga þegar rætt er um hagsveiflur evruríkjanna. Evran sem slík stýrir ekki eftirspurnar- og fremleiðsludrifnum hagsveiflum innan Evrópu frekar en krónan stýrir upp- eða niðursveiflum á Íslandi. Þannig höfum við horft upp á uppsveiflu á Austfjörðum síðustu ár en samdrátt á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið. Ef munurinn á verðbólgu milli landa eða svæða er lítill hefur það áhrif til að draga úr hagsveiflum að öðru jöfnu. Gunnar bendir réttilega á að áhrifin komi alltaf fram einhvers staðar fram. Stóra spurningin varðandi evruaðildina finnst mér vera sú hvort Íslendingar séu tilbúnir til þess að taka sveiflujöfnunina út í atvinnuleysi í stað minnkandi verðgildi krónunnar. Þar getur hver svarað fyrir sig. Etv er komið að því að Íslendingar láti af "beggar thy neighbor" pólitíkinni og taki upp alvörugjaldmiðil? Það er krónan varla - því miður.

Jens P. Jensen MSc. þjóðhagfr. (áður fyrr vinnufél Gunnars á Þjóðhagsstofnun :).

Jens P. Jensen (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 17:27

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Kærar þakkir fyrir þetta áhugaverða innlegg Jens. Rétt er að geta þess til að forðast frekari misskilning að textinn innan svigans, þ.e. um hagsveiflur evrusvæðisins, eru ekki skoðanir Gunnars heldur mín skrif sem ritstjóra þessarar bloggsíðu sem aftur er ástæða þess að sá hluti var settur innan sviga. Til öryggis hef ég nú bætt við færsluna til að undirstrika þetta betur, enda að sjálfsögðu ekki ætlunin að bera Gunnar fyrir mín skrif.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.1.2007 kl. 20:01

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Gallinn við evrusvæðið er vitanlega ekki sízt sá að ef bullandi uppgangur er á Spáni en niðursveifla í Þýzkalandi flytja ekki tugþúsundir Þjóðverja til Spánar vegna ýmissa hindrana sem fólk setur fyrir sig, s.s. með tungumálalegs eðlis, sem aftur er allajafna ekki fyrir að fara innan hvers evruríkis fyrir sig né innan Íslands eða Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum eru stórir hópar fólks sem fer bara þangað sem vinnu er að fá eins og þekkt er og tungumál eða annað slíkt er yfirleitt ekki vandi þar á bæ. Þetta gerist bara ekki innan evrusvæðisins nema í sáralitlum mæli þó nýju aðildarríki Evrópusambandsins í Austur-Evrópu séu nokkuð sér á báti í því sambandi eins og við þekkjum (sem eru vitanlega ekki enn komin með evruna utan Slóveníu). Inn í þetta spila ennfremur öflug velferðarkerfi víðast hvar í Vestur-Evrópu. Fólk fer sennilega upp til hópa fremur á bætur ef það fær ekki vinnu í sínu heimalandi fremur en að flytjast búferlum til annars evruríkis. Þetta heitir víst skortur á sveigjanlegum vinnumarkaði og mér vitanlega bendir fátt til þess að eitthvað eigi eftir að breytast í þessum efnum í tilfelli evrusvæðisins í framtíðinni. Þetta er því væntanlega bein ávísun á mikið atvinnuleysi sem er einmitt til staðar víðast hvar á evrusvæðinu. það má því kannski segja að hefðbundnar hagfræðikenningar eigi þarna illa við, a.m.k. verður að taka inn í myndina ýmsar menningarlegar hindranir á milli einstakra aðildarríkja evrusvæðisins sem ekki virðist hafa verið tekið of mikið tillit til í byrjun. Sennilega er það eitt af því sem Dr. Otmar Issing, fyrrv. aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópusambandsins, átti við sl. sumar þegar hann sagði að efnahagslegar undirstöður svæðisins hafi verið gallaðar þegar það var sett á laggirnar, m.a. með tilliti til sveigjanlegs vinnumarkaðar.

Eins og þú segir þýðir þetta að stjórna verður hagsveiflum m.a. með atvinnuleysi og þá væntanlega jafnvel í gegnum lægri laun til handa almenningi ef út í það yrði farið.

Es. Hér er frétt um hagsveiflur innan evrusvæðisins og hvernig þær hafa ekki verið að samlagast eins og gert var ráð fyrir. Eðlilega hafa þær samlagast eitthvað, skárra væri það nú. En á heildina litið mun niðurstaðan vera mikil vonbrigði fyrir Evrópusambandið.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.1.2007 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 100
  • Sl. viku: 2125
  • Frá upphafi: 1112167

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1920
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband