Leita í fréttum mbl.is

Átökin um framtíð Evrópusambandsins eru rétt að byrja

hjorleifur guttormssonESB er ekki það sama og Evrópa, jafnvel þótt Ríkisútvarpið og aðrir miðlar haldi því fram. Þeir sem vilja stíga skref inn í ESB draga um leið úr lýðræði og líkum á þjóðaratkvæðagreiðslum í framtíðinni.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr ágætri grein sem Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, skrifar og Morgunblaðið birtir í dag.

Greinin er endurbirt hér í heild.

 

Átökin um framtíð Evrópusambandsins eru rétt að byrja

Margt í íslenskri orðræðu um Evrópusambandið ber vott um fákunnáttu um eðli þess, sögu og uppbyggingu í tímans rás. Einna furðulegast er þegar fjölmiðlar, Ríkisútvarpið ekki undanskilið, setja samasemmerki milli hugtaksins Evrópa og ESB þvert á viðtekna skilgreiningu um austurmörk álfunnar við Úralfjöll. Með þessu er étin upp áróðursklisja sem lengi hefur tíðkast í höfuðstöðvunum í Brussel og er hluti af útþenslustefnu gömlu meginlandsstórveldanna. Slík orðnotkun er til þess fallin að upphefja ESB og smætta þá sem utan við það standa.

Evrubandalag undir þýskum veldissprota

Myntbandalagi ESB var komið á um síðustu aldamót og átti það að vera stórt skref í frekari samruna. Öll aðildarríki ESB, að Bretlandi og Danmörku frátöldum, skyldu taka upp evru sem gjaldmiðil og undirgangast þau viðmið sem kveðið var á um í Maastricht-sáttmála ESB, m.a. um opinbera skuldsetningu. Nú hafa 19 af 28 aðildarríkjum ESB tekið upp evru en þau sjö sem hafa skuldbundið sig til þess sýna þess engin merki að bætast í hópinn. Þar á meðal eru Svíþjóð, Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Ástæðurnar blasa við: Undirstöður myntbandalagsins hafa reynst fúnar vegna ólíkra þjóðhagslegra forsendna frá upphafi og afleiðingarnar birst í skuldasöfnun, stöðnun og gífurlegu atvinnuleysi. Undantekning er Þýskaland, sem ásamt Frakklandi var frumkvöðull samrunans. Fyrir liggur að Þýskaland hefur efnahagslega hagnast mikið á sameiginlegu myntinni á kostnað annarra evruríkja og er í gegnum þessa svikamyllu að ná þeim markmiðum sem þýska auðvaldið dreymdi um í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar.

Sundrung eða hertur samruni

Grikklandsfárið opnaði pandórubox sem tekist hafði að halda loki yfir um árabil. Við það komu í ljós þeir brestir sem þjáð hafa Evrópusambandið í sívaxandi mæli og sem umbúnaðurinn um gjaldmiðilinn á drýgstan þátt í að skapa, þ.e. sameiginleg mynt án samræmdrar efnahags- og fjármálastjórnar. Átökin um áframhaldandi aðild Grikkja að evrusamstarfinu hafa opinberað pólitískan klofning í áður óþekktum mæli. Forystumenn öxulsins Berlín-París hafa nú séð sig knúna til að sýna á spilin um framtíðarúrræði. Francois Hollande, forseti Frakklands, segir að Evrópusambandið þurfi sem fyrst eigin fjármálaráðherra og heimildir til að grípa inn í fjárlög aðildarríkja undir eftirliti sérstaks Evrusvæðisþings sem stofnað verði til hliðar við núverandi ESB-þing í Strassborg. Þessar hugmyndir falla allvel að áherslum þýska fjármálaráðherrans Wolfgangs Schäuble. Hann vill ganga sem lengst í samruna, m.a. með því að ESB eignist beinan hlut í sköttum aðildarríkjanna. Svipaðar hugmyndir hafa lengi legið á borðum kommissaranna í Brussel. Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, telur að gerð hafi verið grundvallarmistök gagnvart Grikkjum; Þjóðverjar láti nú stjórnast af þröngum eiginhagsmunum á kostnað samheldni innan ESB (Sjá grein hans »Vondi Þjóðverjinn snýr aftur«, Mbl. 28. júlí sl.).

Óveðursský hrannast upp

Með hertum samruna yrði innsiglaður klofningurinn í núverandi Evrópusambandi með Bretland á útleið og hin löndin átta sem nú standa utan evrusvæðisins skorin frá. Gagnvart flóttamannastraumnum úr suðri virðist Evrópusambandið standa ráðþrota og afleiðingarnar birtast í auknu fylgi við þjóðernissinnaða flokka. Lýðræðishallinn blasir hvarvetna við í ESB og á eftir að vaxa til muna, leiði yfirstandandi viðræður bak við lokaðar dyr milli Bandaríkjanna og ESB um TTIP (Trade and Investment Partnership) til samkomulags. Markmiðið með þeim er að samræma og fjarlægja viðskiptahindranir milli þessara svæða og afleiðingarnar yrðu neikvæðar á fjölmörgum sviðum, ekki síst í umhverfismálum. - Nýjasta dæmið er síðan svonefndir verktakasamningar (»outsourcing« innan fyrirtækja) eins og þeir sem Rio Tinto Alcan reynir nú að knýja fram í álveri sínu í Straumsvík. Þess konar samningar sækja á innan ESB og ógna starfsöryggi og réttindum fjölda fólks. Þannig birtist ESB í sívaxandi mæli sem málsvari fjölþjóðafyrirtækja sem keppast við að bæta hag sinn á kostnað launafólks.

Píratar sem álfar úti á hól

Margir stjórnmálamenn og flokkar hérlendis hafa lengi reynt að koma sér undan því að taka efnislega afstöðu til Evrópusambandsins. Gönuhlaupið með aðildarumsóknina 2008 verður lengi í minnum haft og síðan platan gatslitna um að kíkja í pakkann, sem alltaf lá opinn á borðinu fyrir hvern sem nennti að kynna sér innihaldið. Kátbroslegust er þó líklega afstaða Pírata til aðildar Íslands að ESB, eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingu þeirra: »Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild en aftur á móti eiga þeir að vera búnir undir hvora niðurstöðuna sem er«, þ.e. útkomu úr bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Píratar virðast ekki hafa áhyggjur af því að það gæti orðið síðasta kosning af því tagi hérlendis um stórmál, þar eð þjóðaratkvæðagreiðslur eru sem kunnugt er eitur í beinum Evrópusambandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 194
  • Sl. sólarhring: 224
  • Sl. viku: 2306
  • Frá upphafi: 1112348

Annað

  • Innlit í dag: 165
  • Innlit sl. viku: 2073
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 161

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband