Leita í fréttum mbl.is

Villigötur Evrópusinna

Eiríkur Bergmann fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og lengi einn ötulasti talsmaður Evrópusamtakanna, samkvæmt heimasíðu þeirra samtaka, helgar undirrituðum heila blaðagrein í 24 stundum í desember sl. Fyrir það ber að þakka og sömuleiðis viðbrögð formanns sömu samtaka við skrifum mínum milli hátíða.

Mér þykir auðvitað leitt ef Eiríkur telur það jaðra við að ég geri hann ómarktækan að ég skuli spyrða hann við Evrópusamtökin og hefi beðið hann velvirðingar á því. Hitt þykir mér miklu mun undarlegra í grein dósentsins Eiríks að hann skuli reikna með að alþjóð viti að pólitískum afskiptum hans sé lokið. Ég hef talið að öll okkar sem tökum virkan þátt í pólitískri umræðu teljumst hafa þar afskipti.

Aftur á móti er margt í skrifum Eiríks á jaðri eðlilegrar pólitíkur eins og þegar hann skrifar um flokksbróður minn Birki Jón Jónsson. Í stuttri en afar ómálefnalegri umfjöllun um ágreining Birkis og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings tekst lektornum að hraungla saman í einni málsgrein nokkrum neikvæðum lýsingarorðum. Sagt að það sé grautfúll pyttur í að falla að efast um orð Guðmundar Ólafssonar, það sé ennfremur vont að svamla í for og illt að vera í leiðindapytt en aldrei vikið orði að rökum, hvorki Guðmundar, né Birkis Jóns. Svona er kannski umræðan hjá þeim sem eru hættir í pólitík.

Alvöru einangrunarsinnar

Andrés Pétursson formaður Evrópusamtakanna sem ég vona að sé ekki líka hættur í pólitík beitir reyndar svipuðum röksemdafærslum í Evrópuumræðunni í grein sinni 29. desember sl. Þar er ég útmálaður sem hættulegur einangrunarsinni og maklega settur á bekk með þeim sem gagnrýndu EES samninginn á sínum tíma. Ég er ennþá mjög gagnrýninn á þann samning, en látum það liggja milli hluta. Ég er nefnilega ekki einangrunarsinni eins og þeir félagar Andrés og Eiríkur eru svo sannarlega.

Allar miðaldir trúðu Evrópumenn því að hinn eiginlegi og siðmenntaði heimur næði ekki út fyrir Evrópu og allt þess utan voru lönd kýklópa og kynjadýra. Líkt er þeim mönnum farið sem nú telja að Ísland muni einangrast frá umheiminum ef það gengst Evrópuvaldinu ekki á hönd. Fyrir nokkru færði Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður fram þau rök að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópusambandið vegna þess að þá myndi það einangra sig um of og tapa tækifæri sínu til þess að þróa hér áfram alþjóðlega fjármálamiðstöð. Lönd eins og Lúxemburg hafa sopið seyðið af einangrunarstefnu Evrópu á undanförnum árum og þar er nú langt því frá eins blómleg alþjóðaþróun eins og var áður og fyrr. Staðreyndin er að Evrópusambandið er fyrst og fremst múr tolla, fólks og fjármagns í heimi þar sem Evrópa er bara pínulítil. EES samningurinn hefur gefið okkur forsmekkinn af þessari einangrun m.a. í því að nú er næsta útilokað fyrir fólk utan Evrópu að fá atvinnu á Íslandi. Léleg alþjóðavæðing það.

Ofbeldi skriffinnanna

Það er ekki rétt hjá Andrési Péturssyni að samrunaþróun Evrópu hafi orðið af fúsum og frjálsum vilja þjóðanna. Í reynd álíka lygi eins og að Íslendingar hafi gerst kristnir af fúsum og frjálsum vilja þegar gíslatöku var í reynd beitt. Samrunaþróuninni hefur verið þröngvað upp á þjóðir Evrópu með ofbeldi skriffinna sem leitt hafa fólk aftur og aftur að kjörborði um sama hlutinn þangað til það kýs rétt - og þá aldrei aftur. Ömurlegri nauðgun á lýðræðinu er vandfundin.

Báðum er hinum meintu Evrópusinnum ákaflega misboðið að ég skuli nefna þá félaga Hitler og Stalín í sambandi við Evrópusambandið. Andrés bendir þar á að Evrópusambandið sé einmitt sett upp til að koma í veg fyrir endurtekin stríð. Hitler fullvissaði Gunnar Gunnarsson líka á sínum tíma um að hann væri ákafur friðarsinni og Stalín var af mörgum talin mikil friðardúfa.

Ég dró þá kumpána fram til að minnast á þá glapstigu sem hugsjónafólk gjarnan leiðist. Allir þeir sem sjá í útlöndum eitthvert fyrirheitna land í rósrauðum bjarma eru á vondum vegi. Getur átt við um þá sem trúa á Evrópusambandið líka.

Fólkið sem trúði á Hitler og Stalín var hvorki með klaufir né hala. Sjálfur gekkst ég bæði Pol Pot og Maó á hönd í fyrsta bekk Menntaskóla. Við lásum Stalín í leshringjum. Slíkar barnagrillur eru lærdómsríkar en líka víti til að varast.

Villigötur hinna hrifnæmu

Hinir meintu Evrópusinnar eru velflestir í hópi þessara hrifnæmu manna og sjá eins og lektorinn Eiríkur Bergmann merkingabær stjórnmál í því sem hann sjálfur kallar symbólisma Evrópusambandsins. Fyrir mér er þetta dæmi um alvarlegar villigötur margra Evrópusinna. Sem og það að skrifa undir þá tilhneigingu Evrópusambandsins að setja reglur um alla skapaða hluti. Evrópusambandið á það skylt með kommúnismanum og nasismanum að vera enn ein tilraunin til alræðis í mannlegu samfélagi. Slíkt mun nú eins og áður skila sér í verra hagkerfi og minna frelsi borgaranna.

Í stað persónudýrkunar hefur innan Evrópusambandsins vaxið upp dýrkun á samrunaþróun Evrópu, ofuráhersla á einsleitni þjóða innan ESB og margskonar furðuleg kenningasmíð um góða Evrópuborgara. Auðvitað eiga talsmenn Evrópusamtakanna ekki skilið að skreyta sig með heitinu Evrópusinnar, ekki frekar en bolsarnir gömlu sem kölluðu sig verkalýðssinna. Fyrst og síðast eru hugsjónamenn skrifræðisins í Brussel alræðissinnar og slíka menn ber að varast í pólitískri umræðu.

Bjarni Harðarson,
alþingismaður

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar http://bjarnihardar.blog.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Bestu þakkir fyrir vel skrifaða grein, Bjarni.

Ólafur Als, 7.2.2008 kl. 17:00

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þessi grein var bæði málefnaleg og skemmtileg. Bestu þakkir fyrir.

Kveðja KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 8.2.2008 kl. 04:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 330
  • Sl. viku: 502
  • Frá upphafi: 1116604

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 438
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband