Leita í fréttum mbl.is

Evran hefur ekki staðist væntingar – Ísland með forskot

Í viðtali við Morgunblaðið 26. febrúar sl. segir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, að upptaka evrunnar hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Þrátt fyrir miklar væntingar um aukinn stöðugleika og efnahagslegan styrk hafi Evrópusambandið (ESB) ekki náð þeirri stöðu í heimsbúskapnum sem stefnt var að. Hagvöxtur innan sambandsins - og þá sér í lagi innan evrusvæðisins - hafi verið undir væntingum. Samanburður við þróunina á Íslandi bendi ótvírætt til þess að Ísland hafi staðið sig betur.

Ísland stendur betur:
Samkvæmt nýjustu tölum var kaupmáttarleiðrétt verg landsframleiðsla á mann árið 2023 um 24% hærri á Íslandi en í aðildarríkjum ESB og 19% hærri en í evrulöndunum. Þá hefur árlegur meðalhagvöxtur á mann frá árinu 2000 til 2023 verið 0,2% meiri á Íslandi en í ESB og 0,57% meiri en í evrulöndunum. Þótt slíkur árlegur munur virðist ekki mikill getur hann haft veruleg áhrif til lengri tíma. Sem dæmi samsvarar 0,57% árlegur viðbótarvöxtur 15% meiri landsframleiðslu eftir 25 ár.

Að sögn Ragnars er kjarni málsins sá að frá aldamótum, eftir að evran kom til sögunnar, hafi bilið í vergri landsframleiðslu á mann á milli Íslands og evruríkjanna aukist mjög verulega.

Draghi viðurkennir veikleika:
Í viðtalinu bendir Ragnar einnig á skýrslu sem framkvæmdastjórn ESB fól Mario Draghi að taka saman og sem birt var haustið 2024. Draghi gegndi meðal annars embætti seðlabankastjóra bæði Ítalíu og Evrópu, auk þess að vera forsætisráðherra Ítalíu um tíma.

Þrátt fyrir að skýrslan sé skrifuð af eindregnum stuðningsmanni ESB og frá sjónarhóli sambandsins, segir Ragnar að hún staðfesti þá efnahagslegu veikleika sem lengi hafi blasað við í opinberum hagtölum, en hingað til hafi ekki verið viðurkenndir á hæsta stjórnstigi sambandsins. Þessi viðurkenning skýri hvers vegna skýrslan hafi vakið svo mikla athygli og umtal.

ESB að dragast aftur úr:
Í skýrslunni kemur fram að Evrópusambandið sé að dragast aftur úr Bandaríkjunum, Kína og mörgum öðrum iðnvæddum ríkjum. Ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða muni það, að mati Draghis, hafa alvarlegar afleiðingar: aukna fátækt, skert öryggi og minni áhrif á eigin málefni meðal íbúa aðildarríkjanna.

Draghi telur nauðsynlegt að ríki sambandsins fjárfesti mjög verulega í nýsköpun og tæknigreinum – jafnvel allt að 5% af vergri landsframleiðslu árlega til lengri tíma. Slík fjárfesting, sem jafngildir yfir 200 milljörðum króna á ári miðað við íslenskan efnahag, geti að sjálfsögðu ekki orðið nema með því að draga úr neyslu almennings í þessum ríkjum.

Niðurstaða:
Niðurstöður viðtalsins benda til þess að þau markmið sem sett voru með upptöku evrunnar hafi ekki náðst. Þvert á móti hefur hagvaxtarmunur milli evruríkjanna og ríkja utan þeirra – þar á meðal Íslands – verið í sívaxandi óhag evrusvæðisins. Nú liggur fyrir viðurkenning á hæsta stjórnunarstigi sambandsins um að grípa þurfi til róttækra aðgerða ef koma á í veg fyrir áframhaldandi efnahagslega hnignun.

Byggt á viðtali við Ragnar Árnason prófessor í Morgunblaðinu 26. febrúar 2025


Hagfræðiprófessor telur umræðu um ávinninginn af evru og ESB-aðild byggjast á misskilningi

Í viðtali við Morgunblaðið fyrir sléttum mánuði þann 26. febrúar sagði Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, það ekki rétt sem haldið er fram að aðild að ESB eða upptaka evru leiði til þess að markaðsvextir á Íslandi verði eins og í helstu ESB-löndum, þar með talið í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi.

Markaðsvextir til fyrirtækja og heimila í aðildarlöndum ESB, jafnvel þeirra sem hafa tekið upp evru, séu langt frá því að vera þeir sömu milli landa og munur á lægstu og hæstu vöxtum mikill.

Vextir til húsnæðiskaupa séu sömuleiðis mjög breytilegir milli aðildarlanda ESB, þar með talið þeirra sem hafa tekið upp evru og er mikill hlutfallslegur munur væri á hæstu og lægstu húsnæðisvöxtum á evrusvæðinu. Sá munur hefði minnst verið tæplega 50% frá ársbyrjun 2003 en mestur orðið tæplega 350% árið 2019.

Þessar staðreyndir ættu að sýna að því fer víðs fjarri að einhverjir einir lágir vextir séu til húsnæðislána á evrusvæðinu og Ísland muni með því einu að taka upp evru njóta þeirra vaxta.


Af hverju er verið að fegra EES-samninginn?

Utanríkisráðuneytið birti 20. mars fréttatilkynningu þar sem því var haldið fram að íslenskir útflytjendur hefðu notið 33 milljarða króna tollfríðinda í fyrra, þar af 26,6 milljarða vegna EES-samningsins og tengdra viðskiptasamninga.

Í grein  sem Hjörtur J. Guðmundsson birti í kjölfarið á Vísi bendir hann réttilega á að þessi framsetning standist ekki. Meirihluti fríðindanna byggist ekki á EES-samningnum heldur á eldri fríverslunarsamningi Íslands við Evrópubandalagið frá 1972.

Sá samningur tryggði t.d. tollfrelsi fyrir ál og hluta sjávarafurða löngu áður en EES tók gildi. Íslendingar hafa aldrei notið fulls tollfrelsis á sjávarafurðum í gegnum EES, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stjórnvalda.

Á meðan hefur ESB samið um slíkt við ríki eins og Kanada, Bretland og Japan – sem standa utan EES. Það eitt og sér ætti að draga úr þeirri hugmynd að EES-samningurinn tryggi „bestu mögulegu markaðsaðgang“.

Raunverulegur ávinningur af EES-samningnum umfram það sem áður hafði þegar verið tryggt er líklega í kringum fjóra milljarða króna. Það er ekki óverulegt, en langt frá þeim 26,6 milljörðum sem kynntir voru sem „tengdir EES“.

Slík framsetning er villandi og þjónar fyrst og fremst pólitískum tilgangi. EES-samningurinn á skilið málefnalega umræðu – ekki glansmyndir eða fegrunartilburði.


Af hverju er samkeppnin við Kína orðin erfiðari en nokkru sinni fyrr

THE ECB BLOG

 

 

Á meðan Evrópa glímir við lítinn hagvöxt og stöðnun í iðnaði, heldur Kína áfram að styrkja stöðu sína sem eitt helsta afl í heimsbúskapnum - ekki lengur bara sem verksmiðja heimsins, heldur sem útflutningsveldi í hátækni og rafbílavæðingu.

Samkvæmt bloggi Seðlabanka Evrópu frá síðasta hausti nemur landsframleiðsla Kína nú 18% af heimsframleiðslu. Bandaríkin standa í 14%, en evrusvæðið aðeins í 13%. Evrópusambandið í heild nemur um 17% af heimsframleiðslu, en án sameiginlegrar hagstjórnar og með takmarkað svigrúm til sameiginlegra viðbragða.

Kína varð nýlega stærsti bílaútflytjandi heims, og útflutningur rafmagnsbíla jókst um meira en 70% á milli 2022 og 2023. Á sama tíma hefur iðnaðarframleiðsla í Þýskalandi dregist saman og fjárfesting í nýsköpun minnkað. Samkeppnishæfni Evrópu hefur veikst - bæði vegna kostnaðar og skorts á samhæfðri stefnu.

Viðskiptatölur segja sitt: ESB er með um 300 milljarða evra viðskiptahalla gagnvart Kína, en jákvæðan viðskiptajöfnuð gagnvart bandalagsríkjum og nágrönnum, þar á meðal Bandaríkjunum og Bretlandi. Evrópa hefur því yfirhöndina gagnvart vinum sínum - en dregur lægri hlut í viðskiptum við helsta keppinaut sinn.

Á meðan Kína styður eigin útflutning með niðurgreiddri orku, ríkisstuðningi og hagstæðum lánum, bregðast Bandaríkin við með tolla og opinberum styrkjum. Evrópa, aftur á móti, situr aðgerðarlaus - klofin innbyrðis og án verkfæra til að bregðast við. Ísland fylgir Evrópu í gegnum EES, án þess þó að hafa áhrif á stefnuna sem mótuð er í Brussel.

Ef þessi þróun heldur áfram, hve lengi getur ESB haldið í áhrif sín?


Framsókn hafnar nýjum aðildarviðræðum að ESB

Miðstjórn Framsóknarflokksins fundaði um helgina. Í upphafs orðum stjórnmálaályktunar fundarins kemur skýrt fram afstaða hennar til aðildarviðræðna við ESB:

"Miðstjórn Framsóknar hafnar alfarið þeirri vegferð ríkisstjórnarinnar að hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið."

Svo mörg voru þau orð!


"Öryggi Íslands yrði engu betur borgið innan ESB"

Leiðari Morgunblaðsins miðvikudaginn 19. mars greinir vel þau "villurök og hræðsluáróður" sem nú er haldið fram í umræðum um stöðuna í Evrópu. Vitnað er til málþings sem haldið var nýverið í Háskóla Íslands.

"Af þeirri umræðu mátti ráða að aðild að Evrópusambandinu gæti skipt sköpum um öryggi Íslands, þótt ekki létu allir ræðumenn að því liggja" segir m.a. í leiðaranum.

Síðan segir:

"Staðreyndin er sú að aðildin að Atlantshafsbandalaginu veitir bestu öryggistrygginguna. Evrópusambandið bætir þar engu við. Vissulega er skjálfti í mönnum. Yfirlýsingagleði Trumps getur vissulega verið ónotaleg og hefur valdið því að menn óttast jafnvel að Bandaríkjamenn snúi baki við NATO. Ólund Trumps helgast að mestu af því að honum finnst mörg hinna aðildarríkjanna í NATO ekki leggja sitt af mörkum og er hann ekki fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að vekja máls á því, þótt hann gangi fastar fram en forverar hans.

Þrjú ár eru liðin frá innrás Rússa í Úkraínu, en það er fyrst nú þegar Trump byrstir sig að umræðan um framlög til varnarmála hefur tekið við sér fyrir alvöru í Evrópu. Taki Evrópa við sér dregur úr líkum á því að Bandaríkjamenn dragi sig í hlé.

Búast má við því að á næstunni muni þær raddir gerast háværari og ágengari, sem segja að ganga þurfi í Evrópusambandið af öryggisástæðum líkt og gerðist í efnahagshruninu 2008. Þá hrundi krónan og horfur voru slæmar, en efnahagur Íslands tók hratt við sér einmitt vegna eigin myntar. Öðru máli gegndi til dæmis um Grikki. Evran var eins og myllusteinn um háls þeirra og má segja að enn súpi þeir seyðið af að hafa kastað drökmunni."

Óhætt mun að taka undir hvert orð hérna.


í örstuttu máli

Fáir hafa tíma til að setja sig inn í anga málsins sem heitir bókun 35.

Nokkur helstu atriði eru í grein á Vísi í dag.  Hér fer sú grein beint úr kúnni:

 

Nokkur at­riði í ör­stuttu máli varðandi bókun 35

Haraldur Ólafsson skrifar 20. mars 2025 11:00
 

Bókun 35 er til umfjöllunar á Alþingi. Hér eru nokkur atriði sem vert er að rifja upp.

1. Bókun 35 geirneglir kerfi sem er á afar gráu svæði gagnvart stjórnarskrá og hugmyndum alls þorra fólks á Íslandi um lýðræði. Kerfið gengur út á að færa dóms- og einkum löggjafarvald í sívaxandi mæli til embættismanna erlends ríkjasambands.

2. Bókun 35 stenst ýmist ekki eða líklega ekki stjórnarskrá að rökstuddu mati margra helstu stjórnspekinga landsins, þar á meðal fv. forseta hæstaréttar og háskólamanna í lögum. Sama sögðu sérfræðingar utanríkisráðuneytis árið 2020 og núverandi innviðaráðherra í fyrra. (sjá t.d. umsagnir Hjartar J. Guðmundssonar og Arnars Þórs Jónssonar sem eru á https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/156/85/?ltg=156&mnr=85). Óþarfi ætti að vera að minna Alþingismenn á að þeir hafa svarið eið að stjórnarskrá lýðveldisins, en skal það samt gert hér.

3. EES-samningurinn hefði að öllum líkindum aldrei verið samþykktur með bókun 35 innanborðs. Það eru mjög vond og óeðlileg vinnubrögð að koma valdaframsali í gegnum Alþingi með því að kippa framsalið í litla búta og þröngva þeim svo einum og einum í gegn.

4. Bókun 35 er ný forgangsregla sem setur lagasafn Íslands í uppnám. Hvaða lög falla úr gildi? Það er vægast sagt óljóst Mun fyrirvari um sæstreng í lögum um orkumál verða að engu, svo dæmi sé tekið? Áður en Alþingi samþykkir bókun 35, standi vilji til þess, þarf að svara spurningum af þessu tagi.

5. Bókun 35 flækir stjórnkerfi Íslands. Það er dýrt og það gerir óinnvígðum enn erfiðara að átta sig á hvað gildir og hvað ekki.

6. Það er óljóst hver hin raunverulega ástæða er fyrir því að utanríkisráðuneytið leggur allt í einu svona mikla áherslu á að Alþingi samþykki bókun 35. Fjarvera bókunar 35 í þá 3 áratugi sem EES hefur verið í gildi hefur ekki verið til teljandi vandræða og það er líka vandræðalaust að leyfa málinu að fara fyrir dóm, sé það vilji þeirra sem ráða í Brussel.

7. Meirihluti þjóðarinnar er andvígur bókun 35, skv. skoðanakönnun Prósents í september 2024. Núverandi ríkisstjórn hefur sagt að mikilvægt sé að leyfa þjóðinni að ráða í svokölluðum Evrópumálum. Nú er ágætt tækifæri til þess.

Höfundur er formaður Heimssýnar, félags um fullveldi Íslands.

 

https://www.visir.is/g/20252703654d/nokkur-atridi-i-orstuttu-mali-vardandi-bokun-35

 


Þung rök gegn óráðshjali

Fátt gerist í heiminum, sem ekki verður hinum heittrúuðu tilefni til að biðja um verða þegnar í Evrópusambandinu.   Nú síðast stríð í Úkraínu og ólga í stjórnkerfi Bandaríkjanna.  Menn geta valið úr röksemdum í máli af þessu tagi, allt eftir smekk og skoðunum.  Lítum á:

 

1. Bandaríkin og Bretar munu aldrei láta það viðgangast að ríki sem þeim er óvinveitt nái neinni fótfestu á Íslandi, óháð öllum samningum. 

2. Svokallaður "varnarsamningur" milli BNA og Íslands hefur verið í gildi í mannsaldur og enginn utan Íslands hefur lagt til að honum verði rift. 

3. Erfitt er að koma auga á hernaðarlega ógn við Ísland

4. Herleysi er að margra mati besta vörnin gegn stríði.  

5. Vesturveldin eyða nú þegar um 15 sinnum meira fé til hermála en t.d. Rússar.  

 


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 118
  • Sl. sólarhring: 262
  • Sl. viku: 1388
  • Frá upphafi: 1208057

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 1289
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband