Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Nei við ESB halda upp á fyrsta maí og bjóða í kaffi

esbneitakk
Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold – félag ungs fólks gegn ESB–aðild og Herjan, félag stúdenta gegn ESB-aðild, ganga saman 1. maí undir merkjum Nei við ESB.
 
Samtökin leggja áherslu á eftirfarandi: 
  1. Við óskum launafólki til hamingju með hátíðisdag verkafólks.
  2. Á Íslandi teljum við það sjálfsagt að hafa vinnu.
  3. Í Evrópusambandinu eru yfir 27 milljónir manna án atvinnu.
  4. Við teljum hagsmunum verkafólks á Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins.
Mæting er við Hlemm kl. 13:00 og allir eru hjartanlega velkomnir í kaffi kl. 15:00 – 17:00 á skrifstofu Nei við ESB að Lækjartorgi 5. Gengið er inn frá Lækjartorgi og er skrifsofan á annarri hæð í lyftuhúsi. 

Öllu snúið á hvolf


 
Bergþór Ólason skrifaði athyglisverða grein um ESB-málin sem birt var í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag. Þar minnir hann á að ESB-aðildarsinnar hafi í umræðum snúið ýmsu á hvolf í umræðunni um aðildarumsókn og að ýmsir fjölmiðlamenn hafi orðið fyrir áhrifum af því. 
 
Bergþór segir meðal annars: 
„Í tilraunum sínum til að fæla stjórnarþingmenn frá því að fylgja yfirlýstri stefnu beggja flokka í ESB-málum hafa ESB-sinnar snúið mörgu á hvolf. Þeir hafa jafnvel hamrað á því að núverandi stjórnarflokkar hafi farið fram með miklu óðagoti í málinu. »Offors« kallaði blaðamaður Morgunblaðsins það í vikunni. En hver ætli staðreyndin sé? Það hefur reyndar verið offors og óðagot í umsóknarmálum, en sú er alls ekki raunin nú. Offorsið var árið 2009, en þá létu ESB-sinnar og fréttamenn sér það vel líka. Kosið var til alþingis í lok apríl 2009. Fyrir kosningar og síðast í umræðum kvöldið fyrir þær lofuðu vinstri grænir að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu kæmust þeir í ríkisstjórn. Steingrímur J. Sigfússon sagði sérstaklega að það yrði ekki gert það sumar, og alls ekki í maímánuði. Síðan var kosið og strax í stjórnarsáttmála 10. maí var tilkynnt að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Fréttamenn sáu ekkert að því.

 

Hálfur mánuður þá, tæpt ár nú

 

Hálfum mánuði eftir kosningar, sama dag og nýir ráðherrar settust í stólana, var tilkynnt að Ísland ætlaði í Evrópusambandið. Þá hafði Alþingi ekki enn komið saman eftir kosningarnar. Tveimur mánuðum og sex dögum síðar var búið að samþykkja inngöngubeiðnina á Alþingi. Hvar voru þá ESB-sinnarnir með upphrópanir sínar um »óðagot«, »offors« og »flýtimeðferð«? Vinstrimeirihlutinn á þingi hafnaði tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um það hvort Ísland yrði umsóknarríki að ESB. Hvar voru þá undirskriftasafnanir »lýðræðissinna«? Hvar voru þá útifundirnir og pistlahöfundarnir?
En hvað er upp á teningnum núna? Kosið var í apríl 2013. Í síðari hluta febrúar 2014 kemur ríkisstjórnin loks með tillögu um að inngöngubeiðnin verði afturkölluð. Fréttamenn spurðu strax hvaða óðagot þetta væri. Síðan eru liðnir tveir mánuðir og tillagan er enn í nefnd og fréttamenn þráspyrja hvort henni verði ekki örugglega breytt í nefndinni, í von um að einhverjir stjórnarþingmenn hefji undanhald sem endi með því að Ísland verði áfram umsóknarríki. »Hvað liggur eiginlega á?« spyrja þeir sem árið 2009 keyrðu allt í gegn á tveimur mánuðum. »Á að svínbeygja lýðræðið?« spyrja þeir sem fengu samtals 20% atkvæða í síðustu kosningum og ákváðu fyrir fjórum árum að ekki þyrfti þjóðaratkvæðagreiðslu til að senda inngöngubeiðnina til Brussel. Og fréttamenn reka erindi þeirra í von um að stjórnarþingmenn guggni.“
 Í lokin segir Bergþór:
„Ofstækið í málinu er allt á aðra hliðina. Í umsókn um aðild að Evrópusambandinu felst yfirlýsing lands um að það hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið og vilji nú vita hvaða reglum sínum það þurfi að breyta til að verða tekið inn. Umsókn snýst ekki um að »sjá hvað er í boði«. Þegar hvorki meirihluti þings né þjóðar vill ganga í ESB er hreint ofstæki að láta Ísland verða umsóknarríki. Það er hins vegar ekki ofstæki að afturkalla slíka umsókn, þegar hvorki þjóðkjörið þing né ríkisstjórn vilja ganga inn. Það mega allir sjá hvorum megin offorsið og ofstækið er. Ekkert í viðbrögðum ESB-sinna í málinu þurfti hins vegar að koma á óvart. Það eina sem gæti komið á óvart væri ef einhverjir forsvarsmenn stjórnarflokkanna byrjuðu að taka undir sönginn. Með því væri öllu snúið á hvolf.

Reglufarganið í ESB stuðlar að spillingu

Flóknar reglur ESB gera það að verkum að hætta er á spillingu, meðal annars þar sem ýmsir voldugir hagsmuna- og þrýstihópar geta betur komið sínu í gegn en aðrir. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu.
 
Í skýrslunni er það talið alveg sérstakt vandamál hversu lítil innsýn og eftirlit er með samspili fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, ESB-þingsins og ráðherraráðsins um lagasetningu.
 
Erlendir miðlar fjalla um þetta.
 
Sjá hér: EUObserver: Complex rules make EU vulnerable to corruption, says report - http://euobserver.com/news/123921
 

Hrakspár íslenskra ESB-sinna falla dauðar

bjorn_bjarnason
Íslenskir ESB-aðildar sinnar höfðu uppi stór orð um alvarlegar afleiðingar fyrir Íslendinga ef þeir samþykktu ekki ICESAVE-samningana. Svipað sögðu þeir um makrílmálið ef Íslendingar ætluðu sjálfir að standa þar á eigin fótum. Þriðja málið voru gjaldeyrishöftin sem ESB-aðildarsinnar sögðu að væru að koma okkur út af EES-svæðinu. Ekkert af þessu hefur staðist.
 
Björn Bjarnason skrifar um þetta ágætan pistil á Evrópuvaktinni, sjá tengingu hér. Til hægðarauka er pistillinni birtur hér í heild sinni:
 
 
 

Þrjár hrakspár ESB-aðildarsinna falla dauðar


BJÖRN BJARNASON
26. apríl 2014 klukkan 10:05

Á sínum tíma ráku ESB-aðildarsinnar mikinn hræðsluáróður vegna Icesave-samninganna. Ef Íslendingar færu ekki að einhliða kröfum Hollendinga og Breta yrðu þeir útilokaðir frá samskiptum við aðrar þjóðir, litið yrði á þá sem utangarðsmenn sem neituðu að borga skuldir sínar. Ekkert af þessu gekk eftir þegar á reyndi. Að loknum tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem samningum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var hafnað fór málið fyrir EFTA-dómstólinn þar sem málstaður þeirra sem voru andvígir undanlátsstefnu ríkisstjórnarinnar og ESB-aðildarsinna sigraði.

Annað mál svipaðs eðlis er makríldeilan. Í því hafa ESB-aðildarsinnar tiplað á tánum í kringum ESB og meira að segja sagt á fyrstu stigum málsins að líklega væri málstað Íslendinga betur borgið innan ESB en utan. Menn gætu séð það á stöðu Skota!

Þegar Færeyingar, Norðmenn og fulltrúar ESB gerðu makrílsamning til fimm ára á bakvið Íslendinga hinn 12. mars sl. tóku ESB-aðildarsinnar andköf. Nú hefði ríkisstjórnin ekki aðeins brotið allar brýr að baki sér gagnvart ESB heldur einnig gagnvart Færeyingum og Norðmönnum. Hinn 13. mars talaði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á alþingi um hin „hrikalegu afglöp sem við verðum hér vitni að, að ríkisstjórnin missi algerlega sjónar á því að ná samningum um þetta brýna hagsmunamál og endi á að vera skilin eftir og afturreka“.

Enn einu sinni hófst hræðslusöngurinn um að varðstaða um hagsmuni Íslendinga mundi gera þá að einangruðu viðundri meðal þjóða heims.

Sjávarútvegsráðherra tilkynnti einhliða þriðjudaginn 22. apríl að íslensk skip hefðu heimild til að veiða 147.574 lestir af makríl á vertíðinni 2014. Framkvæmdastjórn ESB fagnaði þessari ákvörðun í tilkynningu sem birt var fimmtudaginn 24. apríl og sagði hana jákvætt skref. „Við hvetjum Íslendinga þess vegna til þess að setjast með hinum aðilunum þremur að samningaborðinu við fyrsta tækifæri til að unnt sé að leggja lokahönd á fjögurra strandríkja samning um makríl,“ sagði í tilkynningu frá Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB.

Þar með fauk hræðsluröksemd ESB-aðildarsinna um að varðstaða um markíl-hagsmunina yrði til að brjóta allar brýr að baki Íslendingum í samskiptum við aðra.

ESB-aðildarsinnar hafa ekki sýnt sérstakan áhuga á að losa Íslendinga úr gjaldeyrishöftum nema það gerist samhliða aðild að ESB. Þeir hafa látið eins og höftin séu annars vegar tilefni þess að Íslendingar séu litnir hornauga af ESB vegna brota á EES-samningnum og hins vegar að það þurfi sérstaka velvild af hálfu ESB til að viðhalda höftunum. Verði ekki gengið í ESB til að losna við höftin einangrist þjóðin ekki aðeins viðskiptalega heldur einnig pólitískt. ESB geti ekki þolað þessa stöðu.

Í vikunni birtist frétt um skriflegt svar sem Catherine Ashton, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, gaf hinn 14. apríl 2014 dönskum ESB-þingmanni, Morten Løkkegaard, frá danska Venstre-flokknum, sem vildi vita hvort höftin stæðust EES-samninginn að mati Ashton. Svarið var afdráttarlaust: Já, höftin eru tímabundin, þau standast EES-samninginn enda hefur EFTA-dómstóllinn staðfest að svo sé. Ekki sé nein ástæða að hrófla við EES-samningnum vegna þeirra.

Í þriðja meginmálinu féllu hrakspár ESB-aðildarsinna dauðar. Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvaða hagsmunamál Íslendinga þeir taka til við að afflytja næst í viðleitni sinni til að hræða þjóðina til stuðnings við málstað sinn. 

Ítalir gerast fráhverfir evrunni

Eftir því sem kosningar til ESB-þingsins nálgast fjölgar þeim röddum og þær gerast háværari sem ræða um möguleikann á því að Ítalía yfirgefi evrusvæðið. Kannanir benda til  þess að frambjóðendur og flokkar sem eru gagnrýnir á evrusamstarfið muni fá um helming atkvæða í kosningunum í lok maí.

Það eru alls kyns hópar og flokkar sem hafa vantrú á evrunni, allt frá grínframboðum til hópa á ystu köntum. Flokkur grínistans Beppe Grillo vill að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um úrsögn úr evrusamstarfinu. Þekktur hagfræðingur á Ítalíu, Alberto Bagnai, gaf árið 2012 út bók sem vakið hefur athygli en þar segir hann að Ítalir geti aðeins bætt samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum löndum með því að lækka laun og auka þannig á fátækt í landinu. Miklu betra væri ef Ítalía hefði líruna og gæti látið hana vera mýkri stuðpúða til að ná sama árangri.

Renzi forsætisráðherra Ítalíu vill ekki yfirgefa evrusvæðið, en hann hefur þó gagnrýnt Brusselvaldið harkalega fyrir að þvinga upp á ítalíu aðgerðum sem haldi fleiri Ítölum atvinnulausum en nauðsynlegt sé, en í því efni horfir Renzi m.a. til Bretlands sem hafa sitt pund fyrir gjaldmiðil. 

 


ESB-þingmaður rekur mál kröfuhafa gegn Íslendingum

Morten
Það er ljóst að þessi danski ESB-þingmaður, Mortens Lökkegaard, er hér að reka mál erlendra kröfuhafa gegn Íslendingum. Fyrirspurn hans ber slík merki. Hagsmunir kröfuhafa gegn föllnum íslenskum bönkum er það sem er kveikjan að fyrirspurninni.
 
Þetta er enn ein birtingarmyndin af mörgum um að stjórnmálamenn og ýmsir háttsettir embættismenn ESB-ríkjanna vinna gegn hagsmunum Íslendinga. Fyrir hrunið veittu þeir íslenskum stjórnvöldum þau ráð að ábyrgjast allar skuldir bankanna. Í hruninu kröfðust þeir þess að almennur skattborgari á Íslandi ábyrgðist ICESAVE-skuldirnar, auk þess sem bresk stjórvöld settu íslenska banka á lista með hryðjuverkamönnum og stuðluðu þannig frekar að falli allra bankanna og tregðu í viðskiptum við útlönd. Eftir hrunið héldu þessir aðilar því til streitu að skattborgarar á Íslandi ábyrgðust ICESAVE.
 
Erlendir kröfuhafar eiga greiða leið að ýmsum til að koma sjónarmiðum sínum að. Í þessu tilviki er það danskur ESB-þingmaður sem gerist léttadrengur kröfuhafanna.
 
Það hefur fyrir löngu komið fram að höftin voru sett á í samræmi við EES-samninginn. EFTA-dómstóllinn úrskurðaði um lögmæti haftanna í desember 2011. Stofnanir ESB verða að sætta sig við þá niðurstöðu.
 
Höftin eru sem sagt í fullu samræmi við alþjóðlega samninga Íslendinga. Fram kemur í svari utanríkismálastjóra ESB að í þessu efni skipti máli að Íslendingar séu að vinna að afnámi haftanna. Samt lætur þingmaður ESB nota sig með þessum hætti. Þeir hafa svo sem fátt þarft að gera, því ekki stýra þessir þingmenn lagasetningu í ESB. Þeir mega ekkert frumkvæði hafa í þeim efnum heldur mega þeir aðeins stimpla upp á tillögur framkvæmdastjórnarinnar.
 
Það er því út af fyrir sig ánægjulegt að danski þingmaðurinn skuli hafa fundið fjármagnshöftin á Íslandi sem viðfang í aðgerðaleysi sínu og undirstrikað með fyrirspurn sinni að við Íslendingar förum að öllum samningum í þessum efnum.
 


mbl.is Höftin ekki brot á EES-samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagur Evrópubúa lítill af myntsamstarfinu

Sérfræðingur á vegum Seðlabanka Grikklands hefur unnið skýrslu sem bankinn heffur birt þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að heildarávinningur af Efnahags- og myntsamstarfinu (evrusamstarfinu) frá upphafi sé enginn þegar litið er til þróunar fjármálamarkaðar. Ástæðan er sú að ávinningurinn sem varð af samstarfinu fyrstu árin sé jafn kostnaðinum sem fjármálakreppan frá 2007 skapaði.

Fram kemur í skýrslunni að fram til 2007 hafi samþætting fjármálamarkaða, þ.e. hlutabréfamarkaða og skuldabréfamarkaða, haft talsverðan ávinning í för með sér m.a. í formi lægri kostnaðar og aukinnar skilvirkni, en eftir að kreppan hóf innreið sína hafi sundurleitni verið ríkjandi bæði innan hvers evrulands og eins yfir svæðið í heild, kostnaður aukist og heildarávinningur þar með orðið enginn.

Núverandi staða hljóti að vera alls óásættanleg. 

Eina leiðin til bjargar evrusvæðinu, segir höfundurinn, George T. Palaiodimos, er að ríkisfjármál evruríkjanna verði samþætt og auk þess verði eitt sameiginlegt bankaeftirlit sett upp í allri álfunni. Aðeins þannig verði hægt að stuðla að raunverulegu gjaldmiðlabandalagi.

Víða um Evrópu eru menn að gera sér betri og betri grein fyrir því á hvílíkum brauðfótum evrusamstarfið hefur hvílt.

Hér á landi er hins vegar hópur sem virðist ekki fylgjast með því sem er að gerast í Evrópu og ætlar að stofna sérstakan flokk í kringum evruupptöku og annað sem því fylgir. 

Því má svo bæta við að ef gerð yrði úttekt á heildarávinningi af veru okkar Íslendinga á EES-svæðinu er næsta víst að við kæmum út í mínus vegna þess mikla skaða sem varð mögulegur vegna þess að bankarnir gátu hreyft sig óhindrað innan EES-svæðisins og gátu þannig stækkað íslensku hagkerfi yfir höfuð með þekktum afleiðingum. 

 


Mannréttindamál í mikilli lægð í Evrópu

Spilling, mansal, kynþáttahyggja og misrétti eru alvarleg vandamál í Evrópu í dag samkvæmt nýbirtri skýrslu Evrópuráðsins.  

Samkvæmt skýrslunni sem birt var á miðvikudag er ástandið nú hið versta í meira en 20 ár, en skýrslan nær til 47 landa, þar á meðal Úkraínu og Rússlands. Fram kemur að brot gegn þjóðarhópum eru alvarlegt vandamál í 39 löndum og að spilling sé útbreidd í 26 landanna. 

Aukið atvinnuleysi og fátækt, svo sem í Grikklandi, er ein af ástæðunum fyrir því að öfgahópum í pólitík hefur vaxið fiskur um hrygg.

Rétt er að hafa í huga að það er almennt samkomulag meðal flestra nú um að efnahagsaðgerðir í boði ESB eiga stóran þátt í auknu atvinnuleysi og fátækt í ESB-löndunum. 


Seðlabanki Evrópu erfiður Írum

Vera Íra í ESB og með evru jók á skuldavanda írsku þjóðarinnar. Það er mat Karls Whelan, prófessors í hagfræði við University College í Dublin, en hann hefur skrifað nokkrar fræðigreinar um evrukrísuna á Írlandi, meðal annars fyrir þing ESB. Í nýlegri grein segir hann auk þess að framferði stjórnenda Seðlabanka Evrópu veki upp alvarlegar spurningar um gegnsæi og ábyrgð bankans.
 
Þetta kemur fram í nýlegri grein sem Whelan hefur birt. Whelan segir að Seðlabanki Evrópu hafi þvingað evruríki inn í mjög íþyngjandi efnahagsaðgerðir með hótunum um hætta lánafyrirgreiðslu ella. Auk þess hafi Seðlabanki Evrópu krafist þess að írsk yfirvöld og skattgreiðendur tryggi ákveðnum lánardrottnum endurgreiðslu og þannig haft veruleg áhrif á kostnaðinn við endurreisnaraðgerðir á Írlandi. 
 
Whelan hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki réttlætanlegt að Seðlabanki Evrópu hafi svo mikil völd í ljósi þess hve ógegnsæ starfsemi bankans er og í ljósi þess hve óskýr ábyrgð stjórnenda bankans er. 
 
Þótt Whelan segi ábyrgð ríkisstjórna og stjórnmálamanna vera mikla í sambandi við efnahagsörðugleikana á Írlandi þá segir hann að ekki sé hægt að líta framhjá því að vera Íra í ESB og í evrusamstarfinu hafi haft mjög íþyngjandi áhrif. Whelan nefnir nokkur dæmi því til stuðnings. Þau eru meðal annars:
  • Lágir vextir sem fylgdu evrunni sem ýttu undir aukna skuldasöfnun.
  • Krafa Seðlabanka Evrópu um opinbera ábyrgð á skuldbingingum bankanna.
  • Krafa Seðlabanka Evrópu um ríkisábyrgð á neyðarlánum til bankanna.
Niðurstaða Whelans er að þótt innlendir aðilar beri mikla ábyrgð, þá séu afleiðingar af evrusamstarfinu miklar og íþyngjandi, en einna alvarlegast sé upplýsingaskorturinn varðandi samstarf Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Írlands, sem geri það að verkum að hann setur alvarlegan fyrirvara við starfsemi Seðlabanka Evrópu í þeirri mynd sem verið hefur.

Frakkar kvarta yfir evrunni

Frakkar kvarta æ ofan í æ að evran sé þeim erfið. Nú segir Michel Sapin, fjármálaráðherra Frakklands, að gengi evrunnar sé of hátt, hún standi útflutningi frá Frakklandi fyrir þrifum og stuðli þar með að litlum hagvexti en miklu atvinnuleysi.

Það þýðir þó líklega lítið fyrir ráðherrann að kvarta. Frakkland verður bara að lækka hjá sér verð á framleiðslunni ætli þeir að standast Þjóðverjum snúning. 

 


mbl.is Kvartar undan styrk evrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 158
  • Sl. sólarhring: 414
  • Sl. viku: 2015
  • Frá upphafi: 1109303

Annað

  • Innlit í dag: 146
  • Innlit sl. viku: 1757
  • Gestir í dag: 145
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband