Leita í fréttum mbl.is

Styrmir um gagnrýna skýrslu á AGS

styrmirEftirlitsskýrsla um AGS sýnir að háttsettir starfsmenn sjóðsins voru frá upphafi blindir á vanda evrusamstarfsins og þegar Grikkland lenti í erfiðleikum var markmið endurreisnar þess að bjarga bönkum í evrulöndunum. Það var gert m.a. með því að þrengja að grískum almenningi. 

Styrmir Gunnarsson skrifar um þetta grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Greinin er holl lesning öllu áhugafólki um stjórnmál og er því endurbirt hér:

AGS í Grikklandi og á Íslandi

Fyrir rúmum tveimur vikum var gerð opinber skýrsla, sem æðsti eftirlitsaðili Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (Independent Evaluation Office) hefur tekið saman um aðgerðir sjóðsins í málefnum Grikklands og samstarf hans við ESB og Seðlabanka Evrópu í því sambandi. Um er að ræða eins konar innra eftirlit, sem sendir skýrslur sínar og athugasemdir beint til æðstu stjórnar sjóðsins. Í ljósi þess að sjóðurinn kom mjög við sögu hér á Íslandi í nokkur ár í kjölfar hrunsins vegna þeirrar aðstoðar sem þjóðin naut frá sjóðnum um skeið hlýtur skýrsla þessi að vekja athygli hér og vekja jafnframt spurningar um hvað raunverulega gerðist í samskiptum sjóðsins og íslenzkra stjórnvalda á þeim árum.

Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegur viðskiptaritstjóri brezka dagblaðsins Daily Telegraph, segir í blaði sínu hinn 29. júlí sl. að æðstu starfsmenn sjóðsins hafi afvegaleitt stjórn hans, gerzt sekir um afdrifaríkan dómgreindarskort í málefnum Grikklands, gerzt klappstýrur evrunnar, haft að engu vísbendingar um krísur framundan og ekki skilið grundvallaratriði í gjaldmiðlamálum.

Evans-Pritchard segir skýrsluna versta áfall, sem sjóðurinn hafi orðið fyrir í sögu sinni. Hún lýsi »kúltúr« kæruleysis innan stofnunarinnar, sem hafi tilhneigingu til »yfirborðslegra og vélrænna« greininga og »sjokkerandi« stjórnunarmistaka, sem veki spurningar um hver raunverulega stjórni sjóðnum.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er ekki evrópsk stofnun heldur alþjóðleg. Í stjórn sjóðsins sitja fulltrúar frá ríkjum Mið-og Suður-Ameríku svo og frá Asíuríkjum. Þeir hafi reiðst mjög vegna skýrslunnar, sem leiði í ljós, að Grikkland, Portúgal og Írland hafi fengið aðstoð, sem nam 2000% meira en kvóti þeirra sagði til um og nam í heild 80% af öllum lánveitingum sjóðsins á árunum 2011 til 2014.

Í skýrslunni kemur fram, að eftirlitsaðilar hafi ekki fengið aðgang að lykil-upplýsingum og ekki fengið upplýsingar um athafnir tímabundinna verkefnahópa. Skjöl hafi verið gerð utan reglulegra verkferla, skriflegar skýrslur um viðkvæm málefni hafi ekki fundizt og í sumum tilvikum hafi eftirlitsaðilinn ekki getað sannreynt hverjir tóku ákvarðanir.

Opinberar yfirlýsingar sjóðsins um evruna áður en hún varð til hafi verið jákvæðar og viðvörunarorð sumra starfsmanna um að skekkja væri í grundvallarhugmyndinni hafi verið höfð að engu. Þessi afstaða hafi »spillt« hugsun starfsmanna um evruna næstu árin á eftir og valdið því að sjóðurinn hafi lýst trausti á evrópska bankakerfinu og gæðum bankaeftirlits ESB þar til fjármálakreppan skall á á miðju ári 2007. Ástæðan hafi verið sú, að starfsmenn sjóðsins hafi tekið gagnrýnislaust við því sem stjórnvöld í evrulöndum og evrukerfinu sögðu þeim. AGS hafi sofið á verðinum. Jafnvel á miðju ári 2007 hafi sjóðurinn sagt að vegna aðildar Grikkja að evrunni stæðu þeir ekki frammi fyrir neinum fjármögnunarvanda.

Ambrose Evans-Pritchard segir að í skýrslunni komi fram, að það hafi aldrei verið viðurkennt að aðgerðirnar í Grikklandi hafi í raun verið aðgerðir til að verja evrópska gjaldmiðilskerfið en óréttlætið hafi verið fólgið í því að það hafi verið gert á kostnað almennra borgara í Grikklandi.

Þetta er harður dómur yfir starfsmönnum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og vinnubrögðum þeirra en skýrslan hlýtur að kalla á umræður hér. Öllum var ljóst að lánveitingum AGS til Íslands í kjölfar hrunsins fylgdu skilyrði. Innan stjórnkerfisins hér var fólki sömuleiðis ljóst að mikill þrýstingur var frá starfsmönnum sjóðsins á ýmiskonar aðgerðir, m.a. niðurskurð opinberra útgjalda til viðkvæmra málaflokka. Það var hins vegar farið svo »vel« með þessi samskipti, ef svo má að orði komast, að sviptingar milli sjóðsins og íslenzkra stjórnvalda komust aldrei í hámæli.

Það má hins vegar vel vera, að sum þeirra deilumála, sem nú eru uppi hér heima fyrir eigi rætur að rekja til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi talið sig knúna til að hlýða Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Og það má vel vera að gamlir sósíalistar í ríkisstjórn hennar eða á hennar vegum eigi erfitt með að kyngja því að þeir hafi í raun verið sendisveinar alþjóðlegra fjármálaafla.

En þrátt fyrir þá sálrænu erfiðleika er hin nýja skýrsla um vinnubrögð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins tilefni til þess að hulunni verði svipt af samskiptum stjórnvalda hér og AGS.

Hvaða kröfur gerði sjóðurinn um niðurskurð á fjárlögum? Hvað vildi hann skera niður? Að hve miklu leyti var orðið við þeim kröfum?

Hvers vegna tók fyrsta hreina félagshyggjustjórnin í sögu íslenzka lýðveldisins ákvörðun um að afhenda erlendum kröfuhöfum tvo ríkisbanka af þremur? Þegar það var gert var nærtækt að ætla að hún hefði ekki átt annan kost af fjárhagslegum ástæðum. En var ástæðan kannski sú, að AGS hefði verið að ganga erinda erlendra kröfuhafa eins og sjóðurinn gerði, þegar hann var að bjarga evrópskum bönkum með því að pína grískan almenning?

Núverandi stjórnarflokkar hafa aðgang að gögnum um þessi mál núna. Það er ekki víst að svo verði eftir kosningar.

Þess vegna eiga þeir að birta upplýsingar um samskipti AGS og stjórnvalda hér fyrir kosningar.


Bloggfærslur 13. ágúst 2016

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 18
  • Sl. sólarhring: 189
  • Sl. viku: 983
  • Frá upphafi: 1117906

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 875
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband