Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Um mikilvægi dreifingar skónúmera

Á dögum umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu heyrðist stundum að Ísland væri svo líkt löndunum á meginlandi Evrópu að það væri í góðu lagi að þau fengju að stjórna Íslandi. Ekki fylgdi af hverju gömlu nýlenduveldin væru betur til þess fallin en lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi, enda mjög erfitt að útskýra það.

En er Ísland eins og hver annar hreppur í Þýskalandi? 

Líklegt að á báðum stöðum sé dreifing skónúmera svipuð, margir á báðum stöðum hlusti á Beethoven og finnist Einstein og Rembrandt hafa verið býsna lunknir náungar.  Í báðum löndum sjúga menn í sig hveitilengjur með sósu, sparka bolta eða syngja hástöfum og finnst það ágætt.   Þau líkindi skipta bara engu máli í því samhengi sem hér um ræðir.   Það eru ólíkindin sem leiða til þess að heppilegt er að Íslendingar stjórni sér sjálfir, en að þeim sé ekki stjórnað af umboðsmönnum gömlu evrópsku nýlenduveldanna.

Atvinnulíf á Íslandi er mjög ólíkt iðnvæddum héruðum Evrópu og gjaldeyrisöflun er með öðrum hætti en annars staðar í álfunni.  Stærð og lega Íslands, sem og veðurfar, þéttbýli og síðast en ekki síst mannfjöldi, gera að verkum að samgöngur, samskipti og fleira í gangverki samfélagsins er með öðrum hætti en annars staðar í Evrópu.  Þá er menningarlegur munur töluverður.  Á Íslandi er nefnilega töluð örtunga sem á í vök að verjast.  Og hvað sem mönnum kann að finnast um yfirstandandi stríð í A-Evrópu er það staðreynd að stórfelld iðnvædd manndráp í pólitísku skyni eru óþekkt á Íslandi en inngróinn þáttur í menningu flestra annarra ríkja í Evrópu.

Lög og reglur Evrópusambandsins taka mið af aðstæðum og hagsmunum á meginlandi Evrópu, ekki á Íslandi og skiptir þá auðvitað engu máli hvort Ísland er innanborðs eða ekki.


Andspyrnan

Eins og komið hefur fram á þessum vettvangi hefur furðu mikil og óskýrð stöðnun ríkt í efnahagsmálum í Svíþjóð síðustu áratugi.  Svíar gerðust þegnar í Evrópusambandinu fyrir um 30 árum síðan og bundu margir miklar vonir við að það mundi leiða af sér blóm í haga og yfirfulla maga.  Þeir voru reyndar ekki færri sem sáu tækifæri til að kenna öðrum Evrópubúum hvernig best væri að fara að, því það vissu Svíar vel. 

Svíar hafa vel í sig og á, en sá blómagarður, sem sumir gerðu sér vonir um, er ekki enn sprunginn út.  Gróska er þó í félagsmálum, því félagið Nej till EU dafnar. Það gefur út tímaritið Kritiska EU-fakta þar sem fjallað er um vandamálin við Evrópusambandið og aðildina að því.

Í hjálögðu hefti af Kritiska EU-fakta er fjallað um ýmis mál.  Meðal annars er sagt frá því að svokallað bankasamband Evrópusambandsins hlaði undir stóra banka og sagt er að það auðveldi bönkum að ganga í opinbera sjóði. Þá er sagt frá því að í undirbúningi sé að veita yfirvöldum í Evrópusambandinu mjög víðtækar heimildir til að afla upplýsinga um einstaklinga og eins að fyrirhuguð séu lög sem veiti yfirvöldum tæki til að hafa víðtæka stjórn á flæði upplýsinga.  Þá er sagt frá fiskveiðum Evrópumanna á Indlandshafi og átökum þeirra við heimamenn.

Óhætt er að mæla með tímaritinu Kritiska EU-fakta sem er ókeypis á netinu, þótt greinarnar skilji iðulega eftir fleiri spurningar en svör, eins og gefur að skilja þegar um stutt yfirlit er að ræða.

 

https://nejtilleu.se/wp-content/uploads/2023/06/KEF-170_.pdf

 


Leiktjöld Evrópusambandsins

Ein af biblíum Evrópusambandsins ber nafnið Kaupmannahafnarviðmiðin og er þar meðal annars fjallað um réttarríkið, mannréttindi, lýðræði og réttindi minnihlutahópa. 

Bent hefur verið á að nokkuð hafi vantað upp á réttindi minnihlutahópa í sumum af þeim ríkjum sem gengið hafa í Evrópusambandið á síðari árum.  Kannski fannst yfirvöldum viðkomandi landa það bara leiðindalið sem reglurnar ættu ekki að taka til.  Það er að minnsta kosti þannig með sumar fréttastofur, en eins og lesendum þessarar bloggsíðu er kunnugt eru sumar rússneskar fréttastofur bannaðar í Evrópusambandinu.  Það bann gengur gegn meintum hornsteini bandalagsins sem er lýðæði. 

Evrópusambandið uppfyllir með öðrum orðum ekki skilyrðin sem þarf að uppfylla til að ganga í Evrópusambandið. 

 


Þegar umhverfisskattur virkar öfugt við það sem honum er ætlað

Svokallaðir mengunarskattar eru m.a. ætlaðir til að breyta neyslumynstri til að draga úr mengun.  Kolefnisskattar eru af þeirri gerð, þó svo deilt sé um hvort rétt sé að kalla koltvísýring mengun. Skattarnir virka misvel, ekki síst eftir því hverjir valkostirnir eru á hverjum stað.  Fleira getur ruglað dæmið, til dæmis ef nýtt neyslumynstur leiðir til meiri mengunar í fjarlægu landi eða á öðru sviði sem ekki er í bókhaldinu.

Stundum virkar mengunarskattur í gagnstæða átt við það sem honum er ætlað.  Lítum til dæmis á ferðalag frá Mílanó til Seattle.  Ekki er kostur á beinu flugi, svo það verður að millilenda.  Stysta leið liggur yfir suðvestanvert Ísland, svo millilending í Keflavík er ákjósanleg.  Leiðin milli Mílanó og Keflavíkur verður skattlögð í botn, svo hún kemur varla til greina.  Farþeginn velur því til dæmis að fljúga um Nýju Jórvík, sem er miklu lengri leið, en líklega ódýrari vegna skattfrelsis.  

Niðurstaðan verður að skatturinn leiðir til meiri mengunar. 

Nokkur íslensk fyrirtæki missa líka spón úr aski sínum, en það er annað mál.   

 


Ábending til vinstrimanna – og hinna líka

Árið 2009 óskaði Alþingi eftir inngöngu í Evrópusambandið og réði stór hluti þingflokks VG þar úrslitum.  Lítill vafi er á að margir héldu á þeim tíma að Evrópusambandið væri eitthvað allt annað en það er.  Tímabært er að rifja upp tvennt sem gerst hefur síðastliðin misseri sem ýmsir stuðningsmenn umsóknarinnar hefðu aldrei trúað að gæti gerst.

Í fyrsta lagi heldur Evrópusambandið kjötkvörn í Úkraínu gangandi af fordæmalausu kappi, en hún vinnur að líkindum á tæplega þúsund ungmennum á dag.  Sambandið kaupir stríðstól og byssukúlur fyrir himinháar upphæðir og sendir austureftir.

Í öðru lagi bannar Evrópusambandi fréttaveitur sem þeim leiðist – og almenningur tekur því þegjandi.

 

https://www.aljazeera.com/news/2023/7/20/eu-draws-up-plans-for-22bn-ukraine-weapons-fund

https://www.politico.eu/article/russia-rt-sputnik-illegal-europe/


Undarleg heimssýn og dögg fyrir sólu

Sú skoðun er furðu algeng að EES-samningurinn sé nánast forsenda fyrir byggð á Íslandi.  Á þeim þremur áratugum sem liðnir eru frá því hann var gerður virðist hafa gleymst að fyrir var fríverslunarsamningur, kenndur við EFTA, og að flest samfélagsmál voru í svipuðum farvegi og í nágrannalöndunum. 

Engum hefur tekist að benda á neitt sem augljóslega væri í ólestri á Íslandi ef ekki væri EES-samningur.  Fylgismönnum EES-samningsins hefur engu að síður tekist að koma því viðhorfi rækilega á framfæri að ef ekki væri EES væri íslenskt samfélag í vanda og viðskipti við flest lönd á meginlandi Evrópu í uppnámi.  

Það er undarleg heimssýn, en hún á sér hliðstæðu í Noregi.  Morten Harper ræðir það í hjálagðri grein og rifjar upp að meirihluti Norðmanna hefur ekki hugmynd um að í gildi er fríverslunarsamningur með iðnvarning við Evrópusambandið og að sá samningur er óháður EES, enda eldri.  Þessi ranghugmynd er líklega forsenda þess stuðnings sem eftir er við EES í Noregi.  Sá stuðningur gæti því farið sömu leið og dögg í sólskini.

https://neitileu.no/aktuelt/myten-om-markedet


Dýrar reglur

Vera má að mest af þeim kostnaði sem felst í svokölluðu Evrópusamstarfi eigi rætur að rekja til reglna sem dýrt er að fylgja.  Eflaust eiga sumar þeirra rétt á sér, en sterkur grunur leikur á að margt mætti betur fara í þessum málum.

Hjörtur J. Guðmundsson ræðir um íþyngjandi reglur og segir m.a.:

Vert er að lokum að hafa það í huga að óheimilt er samkvæmt EES-samningnum að innleiða regluverk frá Evrópusambandinu minna íþyngjandi en það kemur í gegnum hann á meðan ríflegt svigrúm er til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Væri samningnum skipt út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, líkt og flest ríki kjósa að semja um í dag, væri hins vegar hægt að setja minna íþyngjandi reglur í stað þess eða alls engar. 

https://www.fullveldi.is/?p=30687


Annar kjarni í útblástursskattsumræðunni

Umhverfisskattar eru iðulega lagðir á til að breyta neyslu fólks og fyrirtækja.  Á meginlandi Evrópu keppast stjórnvöld við að koma ferðafólki og vörum í lestir.  Áhersla er á að hætta að brenna kolum og nota t.d. frekar gas.  Síðast en ekki síst er oftast hagstæðara fyrir umhverfið að kaupa heimagert tæki frekar en sambærilegt tæki sem framleitt er í fjarlægu landi.

Nánast ekkert af þessu á við um Ísland.  

Ef til vill má bæta orkunýtingu eitthvað í sjóflutningum, en það er erfitt að finna kol til að hætta að brenna á Íslandi og langmest af neysluvarningi verður að sækja yfir hafið.

Skattkerfinu sem í útlöndum er fyrst og fremst ætlað að breyta neyslumynstri verður fyrst og fremst kerfi til afla tekna þegar það er tekið upp á Íslandi. Drjúgur hluti þeirra tekna rennur í aðra en íslenska vasa


Hjörtur í Noregi

Þeir sem fylgjast með norsku samfélagi eru líklega flestir ef ekki allir sammála um að litlar sem engar líkur séu á að Noregur álpist inn í Evrópusambandið á næstunni.  Þeir sem síður fylgjast með eiga það til að túlka stöku fréttir af landsfundum frjálslega og fá aðra niðurstöðu. 

Hjörtur J. Guðmundsson er einn þeirra sem fylgist með.  Hann fer yfir málin í þessari ágætu grein: 

 

https://www.fullveldi.is/?p=31723 

 

Og við minnum á Fasbók Heimssýnar.  Það vantar alltaf fleiri áskrifendur:

https://www.facebook.com/groups/heimssyn


Fleiri og alvarlegar hliðar á útblástursskattinum

Útblástursskatturinn sem rætt er um þessa dagana og ætlunin er að leggja á samgöngur við Ísland í lofti og á sjó á sér ýmsar hliðar.

Í fyrsta lagi eru greiðar samgöngur um langan veg lífsnauðsynlegar fyrir samfélag á Íslandi. Staða Íslands er að því leyfi ólík hreppum Evrópusambandsins.  Er eðlilegt að bjóða erlendu ríkjasambandi að fá slíkt kverkatak á Íslendingum sem skattlagning samgangna er?   

Í öðru lagi breytist gjaldið án aðkomu kjörinna fulltrúa.  Losunarheimildir eru seldar á markaði og þar hefur verðið rokið upp úr öllu valdi.  Þarna er semsagt um að ræða skatt á samgöngur við Ísland sem hefur alla burði til að hækka stjórnlaust og ýmislegt sem bendir til þess að svo verði.

Hvaernig hefðu Íslendingar á miðöldum tekið því ef Noregskonungur hefði lagt til stjórnlausan skatt á siglingar til Íslands?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 21
  • Sl. sólarhring: 452
  • Sl. viku: 1767
  • Frá upphafi: 1120550

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1509
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband