Leita í fréttum mbl.is

Össur sakar ríkisstjórnina um að brjóta gegn stjórnarskránni vegna EES

ossur

Ætlar ríkisstjórn Íslands að samþykkja breytingar á fjármálaeftirliti sem ganga gegn stjórnarskrá Íslands. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, veltir því fyrir sér. Það er fyllsta ástæða til þess að gefa orðum Össurar gaum að þessu sinni.

Sjá hér einnig umfjöllun norsku samtakanna Nei til EU um sama mál

Össur segir í ræðu sinni á Alþingi 15. október 2014:

Herra forseti. Ég hef á umliðnum missirum margsinnis vakið máls á því að ég tel að framkvæmd EES-samningsins sé komin töluvert umfram það sem stjórnarskráin heimilar. Við höfum á síðustu árum samþykkt allnokkur mál þar sem við höfum framselt vald út úr landinu til yfirþjóðlegra stofnana. Þetta hefur verið varið hér á Alþingi og af ýmsum stjórnarskrárspekingum með því að ef maður skoði hvert einstakt afmarkað mál þá sé það að minnsta kosti á gráu svæði. Ég tel hins vegar að ef við skoðum heildaráhrifin öll saman þá séum við fyrir löngu komin út fyrir þau mörk.

Nú held ég hins vegar að komið sé að kaflaskilum í þessu máli. Ríkisstjórnin hefur í þessari viku lýst því að hún hefur náð samkomulagi um það með hvaða hætti á að innleiða flóknar og djúpstæðar tilskipanir frá Evrópusambandinu um fjármálaeftirlit. Það er að sönnu fyrirhugað að byggja það á hinu tveggja stoða kerfi sem EES-dæmið allt saman gengur út á. Það breytir hins vegar engu um að með þessu er verið að selja til yfirþjóðlegrar stofnunar mikið vald til að seilast í innviði fjármálakerfisins á Íslandi ef slíkar aðstæður skapast. Ég tel að það sé ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá. Ég tel að ekki sé hægt að innleiða þetta nema stjórnarskránni sé breytt.

Það er athyglisvert að sjá hvernig Norðmenn hafa nálgast þetta. Þeir hafa skoðað málið og í gær lýsti ríkisstjórnin því yfir að um væri að ræða svo mikið framsal valds að hún treysti sér hvorki til að leggja fram frumvörp né samþykkja þau nema það verði gert á grundvelli sérstaks ákvæðis norsku stjórnarskrárinnar sem heimilar slíkt en kveður jafnframt á um að það þurfi ¾ allra þingmanna til að samþykkja það. Því miður hefur stjórnarskrá okkar ekkert slíkt ákvæði og þess vegna tel ég að þetta sé ekki hægt nema við breytum stjórnarskránni áður.

Ég vildi segja þetta, herra forseti, vegna þess að ég tel að þingið verði að gera sér grein fyrir því að þetta eru kaflaskipti. 


mbl.is Telur að breyta þurfi stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frakkar og sjö önnur evrulönd brjóta reglur ESB um ríkisfjármál

Sum ríki ætla sér greinilega ekki að afsala sér valdi yfir eigin fjárlagagerð til ESB án vandræða. Nú er komið á daginn að Frakkland, Ítalía, Belgía, Lúxemborg, Eistland, Írland, Malta og Portúgal hafa ekki skilað fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 til framkvæmdastjórnar ESB fyrir tilskilinn frest eins og reglur og samþykktir kveða á um.

EUObserver greinir frá þessu.

 


Guðlaugur Þór segir misskilnings gæta um ESB

GudlaugurThor

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður segir að andstaða við aðild að ESB sé það mikil meðal Íslendinga að innganga verði aldrei að veruleika. Hann segir einnig að vel sé hægt að taka upplýsta ákvörðun um málið nú þegar þar sem við vitum hvað felst í því að ganga í ESB. Allt efni sem skipti máli hvað það varðar liggi fyrir eins og opin bók.

Þetta kemur fram í viðtali við Guðlaug Þór í Viðskiptablaðinu fyrir viku síðan.  Þar segir Guðlaugur m.a. gæta misskilnings um eðli og tilgang Evrópusambandsins. Það hafi verið hugsað til að binda saman valdamestu þjóðir Evrópu til að draga úr líkum á stríði þeirra í milli. Liður í því var að gera verslun á milli landanna frjálsa, en reisa svo tollamúra umhverfis bandalagið til að vernda innlenda framleiðslu sambandsríkja frá samkeppni að utan. Evrópusambandið hafi aldrei verið leiðandi í því að gera verslun í heiminum frjálsari. Þar hafi Bandaríkin og Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, dregið vagninn.

Þá segir Guðlaugur að við Íslendingar ættum í gegnum samstarf okkar við EFTA-ríkin að stuðla að miklu meiri viðskiptum og samskiptum við ríki utan ESB. Þar séu ótal tækifæri. 


Óþörf sturtuhausatilskipun frá ESB

Tilskipun ESB um þrengri sturtuhausa er algjörlega óþörf hér á landi. Hið sama má segja um tilskipun sem bannar að vatnið verið heitara en 41 gráða á Celsius. Þessar meðaltalsreglur ESB sem ganga út frá ástandinu í Mið-Evrópu eru farnar að nálgast mörk hins fáránlega. Frosti Sigurjónsson þingmaður telur að þetta þurfi að stöðva. Er enginn annar að bregðast við þessu?

Morgunblaðið greinir frá þessum nýju viðmiðum ESB í dag - á blaðsíðu 14. Dropateljaraviðmiðin verða alsráðandi þegar fólk fer í sturtu ef fram fer sem horfir. 


Fróðlegur pistill á RUV um efnahagsstöðuna í Evrópu

Það gengur hægt fyrir evrulöndin að rétta úr kreppukútnum. Þetta var sérstaklega rætt á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um síðustu helgi. Það eru hins vegar pólitísk átök um hvernig eigi að taka á kreppuvandanum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fróðlegum pistli Sigrúnar Davíðsdóttur sem fluttur var í Spegli Ríkisútvarpsins nýverið. 

Þar kemur fram að menn séu smám saman að hverfa frá þeirri sparnaðarhneigð til að bjarga evrunni sem Þjóðverjar hafa helst verið talsmenn fyrir. Nú er meira að segja AGS farið að tala fyrir því að ríkisstjórnir evrulandanna verði að auka útgjöld, t.d. með fjárfestingum, til þess að komast út úr vandanum. Það sé eina leiðin til að vinna á atvinnuleysi sem er að meðaltali um 12%, en er allt upp í 50% á vissum svæðum og hjá yngstu aldurshópunum.

Sjá pistilinn hér:  Efnahagsstaðan í Evrópu.


Evran olli hruni í Finnlandi

Forsætisráðherra Finnlands segir að það þurfi að byggja Finnland upp að nýju eftir hina fölsku byrjun sem landið fékk með evrunni fram undir 2008.

Vitanlega skiptir þarna fleira máli en evran. Hún er hins vegar einn megin áhrifavaldurinn á stöðu Finna í dag.

Sjá frétt EUObserver um málið hér

 


Efnahagsstaða evruríkjanna versnar

Lánshæfiseinkunnir meta efnahagsstöðu ríkjanna og árangur efnahagsstjórnar. Þessar einkunnir hjá evruríkjunum fara versnandi eins og meðfylgjandi frétt ber með sér. Þótt það komi ekki á óvart, ætti það að vekja sérstaka athygli hjá þeim sem hafa hampað Finnlandi sérstaklega, að lánshæfiseinkunn finnska evruríkisins fer nú lækkandi. Evran á sinn þátt í að valda falli í einkunn Finna.
mbl.is Meðaleinkunn ESB-landa versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr formaður Heimssýnar: Þessi umsókn er búin

Fáir þekkja betur til umsóknarferlisins að ESB á sínum tíma en Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Hann er nýkjörinn formaður Heimssýnar og segir í nýlegu viðtali við Eyjuna.is að umsóknin sem send var ESB á sínum tíma sé úr gildi fallin. Hér er rétt að minna á þær forsendur sem gerðar voru í umsókninni, m.a. um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál, en það var einmitt fyrst og fremst vegna þeirra sem ESB treysti sér ekki til að halda áfram með umsóknina.
 
 
Föstudagur 10.10.2014 - 12:17 -

Nýr formaður Heimssýnar: Þessi umsókn er búin

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar. Eyjan/Gunnar

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar. Eyjan/Gunnar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

„Það þarf að ljúka þessu máli. Umsóknin er stopp og hefur siglt í strand. Það er ekki hægt að halda áfram á grundvelli samþykktar Alþingis og því á að afturkalla umsóknina eins og stjórnarflokkarnir hafa lofað að gera,“ segir Jón Bjarnason, nýkjörinn formaður Heimssýnar.

Á aðalfundi Heimssýnar var Jón kjörinn formaður og Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, kjörin varaformaður.

Jón segir að þrátt fyrir breytingar í aðalstjórn hreyfingarinnar verði stefnumálin eftir sem áður þau sömu. Þar efst á blaði sé að afturkalla aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Tilraun til þess var gerð á síðasta þingi. Viðræðum var formlega slitið en tillaga utanríkisráðherra um að afturkalla umsóknina náði ekki í gegn að ganga, meðal annars vegna mikillar andstöðu í samfélaginu. Aðspurður hvers vegna umsóknin megi ekki liggja í þeim farvegi, þar sem ljóst er að stjórnarflokkarnir munu ekkert aðhafast í málinu á kjörtímabilinu, svarar Jón:

Við erum enn umsóknarríki og höfum undirgengist þær skuldbindingar sem í því felst. ESB lítur á okkur sem umsóknarríki. Það er hlé á þessum viðræðum og það hefur komið í ljós með skýrslum Hagfræðistofnunar og Alþjóðamálastofnunar að þeir sem sækja um aðild verða að taka yfir öll lög og reglur sambandsins og framselja valdið til Brussel í fjöldamörgum málum. Það liggur fyrir og Alþingi gaf ekki heimild til frekara framsals. Þess vegna er þessi umsókn stopp en hún bindur okkur inn í ákveðið ferli við ESB á meðan hún liggur þar. Þess vegna þarf að afgreiða þetta mál,

segir Jón og bætir við:

Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að afturkalla umsóknina. Við munum hvetja þau til að standa við þessi loforð sín, því allt sem fram hefur komið í efnisumræðunni lýtur að því að það eigi að afturkalla umsóknina. Það er svo sjálfstætt mál ef menn vilja sækja um á öðrum forsendum. En þessi umsókn er búin.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Okt. 2014
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 388
  • Frá upphafi: 1121179

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 351
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband