Leita í fréttum mbl.is

ESB-forystan er nakin, segir Guðni

Guðni ÁgústssonGuðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, skrifar í Moggann í dag að margir séu nú farnir að átta sig á því að leiðtogar ESB og hörðustu fylgjendur aðildar Íslands að ESB séu eins og keisarinn sem var án klæða. Til vitnis um það dregur Guðni fram Þorbjörn Þórðarson fréttamann og vitnar í ekki minni menn en Krugman Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Fólk er sem sagt loksins búið að átta sig á því hvílík gæfa það var fyrir Ísland að standa utan ESB í bankakreppunni. Hefðum við verið þar inni hefði forysta ESB-landanna þvingað okkur til að taka á okkur skuldir bankanna.

Greinin ber heitið: Loksins sá "barnið" að ESB er nakið

Gefum Guðna orðið:

Undur og stórmerki gerðust í fréttum Stöðvar 2 mánudagskvöldið 13. júlí sl. Þá spurði Telma Tómasson fréttamanninn Þorbjörn Þórðarson einfaldrar spurningar: „Hvaða lærdóm geta Íslendingar dregið af ástandinu á evrusvæðinu?“ Hann svarar frá hjartanu eins og barnið forðum sem opinberaði að keisarinn væri nakinn, og Þorbjörn sér hlutina í þessu ljósi: „Í fyrsta lagi er það nú almennt viðurkennt að íslenska ríkið,löggjafinn, hefði ekki getað sett neyðarlögin 6. okt. 2008 eftir banka- og gjaldeyrishrunið hefði Ísland verið aðili að evrópska myntbandalaginu.“ Við hefðum sem sé setið uppi með skuldir óreiðumanna eins og margbúið er að benda á. Svo sagði hann þetta: „Í öðru lagi hefðu stjórnvöld og Seðlabankinn ekki getað fellt gengið með þeim afleiðingum að sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan næðu viðspyrnu mjög hratt. Þetta hefði verið ómögulegt í myntsamstarfi.“ Af þessum sökum tók ekki við það atvinnuleysi sem Grikkir búa nú við, nógu alvarlegt var hrunið samt og landflóttinn sem því fylgdi. En hjól atvinnulífsins tóku að snúast og afla tekna sem smátt og smátt með mörgu öðru eru að endurreisa efnahag okkar. Hin smáða íslenska króna varð að bjarghring í slysinu mikla. Ekki má gleyma Icesaveklafanum sem Bretar með stuðningi ESB ætlaðu að þröngva upp á okkur, en þjóðin hafnaði í tvígang og vann svo málið fyrir EFTA-dómstólnum. Enn gerðust undur í fréttatímanum, nú var ekki talað við hina hápólitísku hagfræðinga okkar þá Þórólf Matthíasson og Gylfa Magnússon sem hafa tröllriðið umræðunni um evru og ESB-aðild og fróðlegt er að skoða þeirra vísdóm með því að gúgla „Kúba norðursins.“ Þar er að finna af þeirra hálfu pólitík, fullyrðingar og stóryrði um okkar stöðu, sem ekki hafa gengið eftir, ummæli sem ekki eru samboðin þeirra menntun.

Ekki fýsilegur kostur að ganga í ESB

Nú vitnaði Þorbjörn í Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, en hann fór hörðum orðum um Evrópusamstarfið og myntsamstarfið og varaði þjóðir við að ganga því á hönd og sagði: „Þjóðverjar geta lagt efnahag þjóða í rúst ef þær ekki hlýða.“ Svo hafði hann beina innkomu á Lars Kristensen, hagfræðing Danske bank, sem sagði að evran og myntsamstarfið væri meiriháttar mistök. Að lokum kom Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum, fram og sagði að líklegt væri að evran myndi leggjast af og væri alls ekki fýsilegur kostur fyrir Ísland. Ég verð nú að fagna þessari faglegu fréttamennsku Stöðvar 2 sem ég vildi ekki síður sjá á RÚV sem þessa dagana fjallar aðallega um að ísöld sé að bresta á af náttúrulegum ástæðum. Hins vegar sigla Grikkir, þetta mikla menningarland og gamla stórveldi, inn í efnahagslega ísöld af mannavöldum. Og við skulum minnast þess Íslendingar að litlu munaði að við færum inn í sömu ísöld og þeir. Nú hefur fréttamaður flutt okkur fréttir um hvað varð okkur til bjargar og hefur það eftir samtölum við viðurkennda fræðimenn og sérfræðinga erlendis. Ekki hefði skuldalækkun heimilanna heldur gengið eftir eða sú ætlan ríkisstjórnarinnar að losa um gjaldeyrirhöftin með stöðugleikaskatti á „hrægammasjóðina,“ og í framhaldinu að lækka skuldir ríkissjóðs um hundruð milljarða. Ég vek athygli á því að við sem höfum verið þessarar skoðunar og haldið uppi andróðri við inngöngu í ESB og ekki talið evruna okkar framtíðarmynt höfum vart mátt mæla fyrir hrópum og köllum um að við værum einangrunar-, þjóðernissinnar og afturhaldsmenn úr torfkofum. Nú fáum við nokkra uppreisn æru við þessa faglegu umfjöllun um ástandið í Evrópusambandinu. Staðan er ljós, það er ekki fýsilegur kostur að ganga í ESB.


Umsókn Íslands með ólíkindum

jon_bjarnason_1198010Nú þegar við heyrum stöðu Grikkja og samskiptin við ESB er með hreinum ólíkindum að nokkrum heilvita íslenskum stjórnmálamanni skuli hafa dottið í hug að leggjast á hnén og biðja um inngöngu í ESB sumarið 2009. Tökum gilda þá afsökun þeirra að hafa ekki vitað hvað þeir voru að gera. Þá er nú kominn tími fyrir forystumenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að biðjast fyrirgefningar á því voðaverki, þeirri yfirsjón sem Evrópusambandsumsóknin var.

Svo segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag

Þar segir Jón einnig:

Nú síðast í vor var forysta fjögurra stjórnmálaflokka á Alþingi enn blinduð í ESB-trúnni. Formenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fluttu tillögu um framhald umsóknarinnar sem þeir þó vissu að var stopp vegna krafna frá ESB og fyrirvara frá Alþingi sem ekki var heimilt að víkja frá.

Og enn fremur segir Jón:

Í ljósi hörmulegrar stöðu Grikkja er enn ríkari ástæða til að allir stjórnmálaflokkar sameinist um þann skilning að umsókn Íslands um aðild að ESB sé afturkölluð og engin áform um að sótt verði um aðild að nýju. Það er ekkert til sem heitir "að kíkja í pakkann" hjá ESB. Það fá nú Grikkir að reyna.

Þá er vert að benda á þetta atriði í grein Jóns:

Í skjóli laga og reglna Evrópusambandsins var grísku þjóðinni komið í þá erfiðu stöðu sem þeir eru nú í. Það var ljóst fyrir nokkrum árum að stefndi í hreinan ófarnað hjá gríska ríkinu. Valdið til að grípa inn í var framselt til stofnana Evrópusambandsins sem alls ekki reynast færar um að takast á við slíka stöðu. Það eina sem Evrópusambandið getur boðið eru hertar sultarólar almennings, svipuhögg og hótanir en kapítalið og valdið vilja fá sitt.

 


Evrópustofu loksins lokað?

ESB_sinkingEvrópustofu verður lokað í september að óbreyttu. Skrifstofan var sett á laggirnar í tengslum við umsókn Íslands að ESB, var rekin af stækkunardeild ESB og var ætlað að auðvelda inngöngu Íslands í ESB með birtingu á áróðri og upplýsingum fyrir fleiri hundruð milljónir króna.

 


Þorvaldur Gylfason vonsvikinn með ESB og evruna

thorvaldurÞorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag. Þar fer hann hörðum orðum um stjórn ESB og leiðtoga evrusvæðisins í málefnum Grikklands og greinir meðal annars frá þeim markaðsmistökum evrunnar þegar Grikkir fengu evrulán á allt of hagstæðum kjörum. 

Í greininni segir Þorvaldur meðal annars (þetta er stytt en greinina í heild má sjá í Fréttablaðinu):  

Samábyrgð ESB

Fráleitt væri að halda því fram að Grikkir beri enga ábyrgð á óförum sínum. ... Ábyrgðin liggur þó víðar. Þjóðverjum, Frökkum og öðrum forustuþjóðum ESB bar að bregðast við óskum grískra kjósenda um hraðferð inn í meginstraum evrópskra stjórnmála með því að veita grískum stjórnvöldum aðhald. ... ESB hefði með lagni átt að beina Grikklandi inn á rétta braut en gerði það ekki. ... En ESB á að geta haft fleiri bolta en einn á lofti í einu. Þarna brást Þjóðverjum og Frökkum bogalistin. Við bættist að ESB sá ekkert athugavert við ótæpilegar lánveitingar þýzkra og franskra banka til Grikklands eins og enginn væri morgundagurinn. ESB svaf á verðinum  ... Alvarlegasta skyssa Þjóðverja var þó sú að þýzka stjórnin tók forustu fyrir þríeyki ESB, AGS og Seðlabanka Evrópu í samningum við Grikkland um lausn á skuldavanda landsins og beitti mikilli hörku. AGS varaði við afleiðingum of mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum úr því að ekki var hægt að bregðast við niðurskurðinum með vaxtalækkun til mótvægis þar eð Grikkland er evruland, en Þjóðverjar féllust ekki á röksemdir sjóðsins. .....


Afturbatafantur skammar flagð undir fögru ....

neiesb1mai2015Oft hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið skammaður fyrir fantaskap gagnvart ríkjum í efnahagslegum vandræðum. Nú ber svo við að AGS húðskammar leiðtoga ESB fyrir efnahagslegar þvinganir og fantaskap gagnvart grísku þjóðinni. AGS segir Grikki ekki geta staðið undir þeim byrðum sem ESB vill leggja á þá.

Markaðsmistök vegna evrunnar, undarleg stjórnsýsla ESB, óráðsía grískra stjórnvalda, almenn spilling og græðgi fjárglæframanna hefur komið Grikklandi í þá stöðu sem það er.

Grískur almenningur blæðir fyrir vikið. Fréttastofa útvarpsins skýrir svo frá:

 

AGS gagnrýnir evruhópinn harðlega

 
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) gagnrýnir harðlega það samkomulag sem leiðtogar og fjármálaráðherrar evruríkjanna þvinguðu grísku stjórnina til að samþykkja á mánudag. Gagnrýni AGS er vatn á myllu þeirra sem hafna vilja samkomulaginu.
 

Í nýrri úttekt greiningardeildar sjóðsins á samkomulaginu kemur fram að atburðarás síðustu tveggja vikna hafi gert illt efnahagsástand í Grikklandi mun verra og enn eigi eftir að syrta í álinn. Á næstu tveimur árum muni skuldir gríska ríkisins vaxa og nema allt að 200% af landsframleiðslu. Áður gerði sjóðurinn ráð fyrir að hámarkinu hefði verið náð í fyrra, þegar skuldirnar námu 177% af landsframleiðslu.

Í spá Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um þróun skuldamála Grikklands, sem birt var fyrir tveimur vikum, er ennfremur gert ráð fyrir því að skuldir gríska ríkisins muni nema 142% af landsframleiðslu árið 2022, en nú er gert ráð fyrir að þær muni nema 170% af landsframleiðslu það ár.

Nokkrar af meginforsendum samkomulagsins eru einnig dregnar mjög í efa. Telja sérfræðingar sjóðsins afar óraunhæft að ganga út frá því að 3,5% tekjuafgangur verði á ríkisrekstrinum gríska næstu ár og áratugi. Einnig þykir vafasamt að gera ráð fyrir því að framleiðni breytist úr því að vera ein sú lægsta sem þekkist á evrusvæðinu í það að verða með því hæsta sem gerist, og ekki síður því, að umbætur í bankakerfinu geti orðið með þeim hætti og skilað þeim árangri sem ætlast er til.

Aðeins ein leið er fær til að gera Grikkjum kleift að standa undir skuldabyrði sinni, að mati sjóðsins, og hún felist í því að létta þá byrði umtalsvert og dreifa greiðslunum af því sem eftir stendur á mun lengri tíma en nú er kveðið á um. Þetta er sú leið sem stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins lagði til þegar hún birti spár sínar um framhaldið fyrir hálfum mánuði.

Harðlínustefna evruhópsins, með Þjóðverja og Finna fremsta í flokki, gerir hins vegar ekki ráð fyrir neinum skuldaniðurfellingum og ein helsta forsenda samkomulagsins er sú krafa evruhópsins, að Grikkir taki meiri lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Gallinn er hins vegar sá að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kærir sig ekki um að koma að neinum frekari björgunaraðgerðum nema evruhópurinn lýsi sig reiðubúinn til mikilla afskrifta. Upp er því komin ákveðin pattstaða, þar sem tveir af þremur stærstu lánardrottnum Grikkja virðast algjörlega ósammála um hvaða leið beri að fara út úr vandanum sem við blasir. 

Grískir þingmenn, og þá sérstaklega þingmenn Syriza og samstarfsflokks hans í ríkisstjórn, hafa lengi haldið því fram að Grikkir þurfi fremur á niðurfellingu skulda að halda en enn meiri og harðari aðhaldsaðgerðum. Tsipras sjálfur er þar ekki undanskilinn, en hann sagðist hafa samþykkt tilboð evruhópsins nauðbeygður. Þessi greining AGS á samkomulaginu mun því ekki auðvelda Tsipras róðurinn á þinginu í dag, þar sem hann verður í þeirri óvenjulegu og erfiðu stöðu að þurfa að mæla fyrir sársaukafullum aðhaldsaðgerðum sem einn af stóru lánardrottnunum þremur gerir kröfu um en annar fordæmir - og hann er sjálfur andvígur í raun.


Af hverju eru Jóhanna og Steingrímur ekki krafin svara?

JogaSteinkiÞað vekur talsverða furðu að forystufólk Evrópusambandsaðildar skuli ekki vera dregið fram núna þegar í ljós er komið að sýn þeirra á stjórnarhætti innan ESB var rammfölsk.

Meira að segja hinn hógværi fréttamaður, Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2, visi.is og Bylgjunni, sem gerði sér ferð til Grikklands til að kynna sér málin betur, segir nú að neyðarlögin sem björguðu Íslandi frá frekara falli hefðu aldrei verið samþykkt hefðum við verið í ESB. Þá hefðum við, þ.e. þjóðin, í gegnum íslenska ríkið, þurft að taka á okkur skuldbindingar sem numið hefðu margfaldri landsframleiðslu Íslendinga. Við hefðum verið í enn verri málum en Grikkir. 

Þetta var það sem leiðtogar ESB-landa, næstum allir með tölu og sérstaklega hinna stærri og jafnvel þeir sem standa okkur næst, vildu að Íslendingar gerðu. Þeir vildu að Íslendingar gerðu þetta til að bjarga evrunni! Írar og fleiri þjóðir voru þvingaðir til að gera þetta en byrði þeirra var þó sem betur fer hlutfallslega minni.

Nú standa ýmsir ESB-aðildarsinnar, auk ýmissa sem kallaðir eru Evrópusinnar, upp og segja Evrópuhugsjónina vera illa laskaða. Þorvaldur Gylfason prófessor er einn þeirra. Egill Helgason er annar. Jafnvel Össur muldrar einhver vanþóknunarorð.

En hvers vegna er þetta lið sem ætlaði að koma okkur með hraði inn í ESB og evruna, sem hefði kostað okkur ómælda fjármuni og ennþá meiri skaða, látið ótruflað í ljósi þess harmleiks sem ESB og evran lætur dynja á grísku þjóðinni?

Hvers vegna er þetta fólk ekki spurt út í þá rammföslku mynd af ESB sem það hélt að þjóðinni?

Er Jóhanna heilög?

Er Steingrímur, sem einu sinni ætlaði sér að verða landsstjóri í Grikklandi, líka heilagur?


ESB stjórnað án umboðs og laga

Yanis VaroufakisÞað er athyglisvert að lesa frásögn Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, um ólýðræðisleg vinnubrögð forystumanna evrusvæðisins. Þegar það hentar forystu ESB (evrusvæðisins) er hægt að halda ríki eða ríkjum utan við ákvörðun enda eru ekki til neinar skráðar reglur um hvernig taka skuli ákvarðanir, t.d. um evruna, sem þó skipta sköpum fyrir afkomu fólks á svæðinu. 

Eins og Varoufakis segir hér í lauslegri þýðingu:
"Þessi hópur, sem er í raun hvergi til sem slíkur, hefur ofurvald til að taka ákvarðanir um líf Evrópubúa. Þessi hópur þarf ekki að standa skil á sínu gagnvart neinum þar sem hann er í raun ekki skráður í nein lög. Engar fundargerðir eru haldnar og allt er leynilegt. Íbúar ríkjanna munu aldrei fá að vita hvað sagt er þar inni . . . Þarna er um að ræða ákvarðanir sem varða næstum líf og dauða og enginn fulltrúi þarna inni er ábyrgur gagnvart neinum."

Sjá hér

After a handful of calls, a lawyer turned to him and said, “Well, the Eurogroup does not exist in law, there is no treaty which has convened this group.”

 “So,” Varoufakis said, “What we have is a non-existent group that has the greatest power to determine the lives of Europeans. It’s not answerable to anyone, given it doesn’t exist in law; no minutes are kept; and it’s confidential. No citizen ever knows what is said within . . . These are decisions of almost life and death, and no member has to answer to anybody.”


Varoufakis sparkað fyrir "hættulegar" hugmyndir

Varoufakis_hugsiYanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, var sparkað fyrir að setja fram róttækar hugmyndir sem leiðtogar ESB-ríkjanna þoldu ekki að heyra. Ef ekki hefði verið fyrir ást grísku þjóðarinnar á manninum hefði Varoufakis verið sparkað löngu fyrr.

Það sem fyllti mælinn hjá leiðtogum ESB og fékk Tsipras til að láta undan þrýstingi og biðja Varoufakis að taka pokann sinn var sú staðreynd að Varoufakis orðaði þá hugmynd lauslega í samtali við viðskiptaritstjóra The Telegraph að Grikkir gætu tekið upp hliðargjaldmiðil fyrir innlend viðskipti, þ.e. stundað erlend viðskipti með evrum en að ríkið greiddi innlend útgjöld með innlendum gjaldmiðli. 

Sjá hér viðkomandi ummæli í The Telegraph:

Ambrose Evans-Pritchard: Creditors will gain nothing from toppling Varoufakis

Martin Schulz, head of the European Parliament, was still insisting on Sunday that a "No" vote must mean expulsion from the euro, but his view is becoming untenable.

Jean-Claude Juncker, the Commission's chief, is equally trapped by his own rhetoric after warning last week that a No vote would be a rejection of Europe itself, leading to calamitous consequences.

Top Syriza officials say they are considering drastic steps to boost liquidity and shore up the banking system, should the ECB refuse to give the country enough breathing room for a fresh talks.

"If necessary, we will issue parallel liquidity and California-style IOU's, in an electronic form. We should have done it a week ago," said Yanis Varoufakis, the finance minister.

Nánar síðar um lýsingu Varoufakis á stjórnarháttum innan evru-hópsins.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2015
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 50
  • Sl. sólarhring: 352
  • Sl. viku: 800
  • Frá upphafi: 1119177

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 687
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband