Leita í fréttum mbl.is

Seðlabanki Evrópu erfiður Írum

Vera Íra í ESB og með evru jók á skuldavanda írsku þjóðarinnar. Það er mat Karls Whelan, prófessors í hagfræði við University College í Dublin, en hann hefur skrifað nokkrar fræðigreinar um evrukrísuna á Írlandi, meðal annars fyrir þing ESB. Í nýlegri grein segir hann auk þess að framferði stjórnenda Seðlabanka Evrópu veki upp alvarlegar spurningar um gegnsæi og ábyrgð bankans.
 
Þetta kemur fram í nýlegri grein sem Whelan hefur birt. Whelan segir að Seðlabanki Evrópu hafi þvingað evruríki inn í mjög íþyngjandi efnahagsaðgerðir með hótunum um hætta lánafyrirgreiðslu ella. Auk þess hafi Seðlabanki Evrópu krafist þess að írsk yfirvöld og skattgreiðendur tryggi ákveðnum lánardrottnum endurgreiðslu og þannig haft veruleg áhrif á kostnaðinn við endurreisnaraðgerðir á Írlandi. 
 
Whelan hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki réttlætanlegt að Seðlabanki Evrópu hafi svo mikil völd í ljósi þess hve ógegnsæ starfsemi bankans er og í ljósi þess hve óskýr ábyrgð stjórnenda bankans er. 
 
Þótt Whelan segi ábyrgð ríkisstjórna og stjórnmálamanna vera mikla í sambandi við efnahagsörðugleikana á Írlandi þá segir hann að ekki sé hægt að líta framhjá því að vera Íra í ESB og í evrusamstarfinu hafi haft mjög íþyngjandi áhrif. Whelan nefnir nokkur dæmi því til stuðnings. Þau eru meðal annars:
  • Lágir vextir sem fylgdu evrunni sem ýttu undir aukna skuldasöfnun.
  • Krafa Seðlabanka Evrópu um opinbera ábyrgð á skuldbingingum bankanna.
  • Krafa Seðlabanka Evrópu um ríkisábyrgð á neyðarlánum til bankanna.
Niðurstaða Whelans er að þótt innlendir aðilar beri mikla ábyrgð, þá séu afleiðingar af evrusamstarfinu miklar og íþyngjandi, en einna alvarlegast sé upplýsingaskorturinn varðandi samstarf Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Írlands, sem geri það að verkum að hann setur alvarlegan fyrirvara við starfsemi Seðlabanka Evrópu í þeirri mynd sem verið hefur.

Frakkar kvarta yfir evrunni

Frakkar kvarta æ ofan í æ að evran sé þeim erfið. Nú segir Michel Sapin, fjármálaráðherra Frakklands, að gengi evrunnar sé of hátt, hún standi útflutningi frá Frakklandi fyrir þrifum og stuðli þar með að litlum hagvexti en miklu atvinnuleysi.

Það þýðir þó líklega lítið fyrir ráðherrann að kvarta. Frakkland verður bara að lækka hjá sér verð á framleiðslunni ætli þeir að standast Þjóðverjum snúning. 

 


mbl.is Kvartar undan styrk evrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helsti kosturinn við ESB aukinn aðgangur að klámi!

Franskur stjórnmálamaður segir best að útskýra fyrir ungum kjósendum í dag að kosturinn við ESB sé sá að hægt sé að ferðast óhindrað yfir til Þýskalands til að kíkja á klámmynd og auk þess þurfi ekki lengur að borga í þýskum mörkum!
 
Ummæli franska stjórnmálamannsins, Joseph Daul, féllu í viðtali við franskt staðarblað nærri þýsku landamærunum og er í endursögn EUbusiness.
 
Ekki er sagt frá viðbrögðum við þessum ummælum franska stjórnmálamannsins né hvort ungir franskir kjósendur séu almennt sammála þessum franska aðdáanda þýskra klámmynda. Um það skal reyndar efast.
 
Hins vegar gætu þessi ummæli verið til marks um örvæntingu evrópskra stjórnmálamanna við að draga unga kjósendur að kjörborðinu þegar kosið verður til ESB-þingsins í lok næsta mánaðar. 
 
 

AGS hefur áhyggjur af efnahag ESB-landa

imf_seal

Í nýútkominni skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kynnt var á vorfundi sjóðsins um helgina koma fram miklar áhyggjur af efnahagsástandinu á evrusvæðinu. Ein helsta hættan sem nú er talin steðja að heimsbúskapnum er verðhjöðnun á evrusvæðinu og misheppnaðar tilraunir stjórnvalda ESB-landa til að koma hagkerfinu aftur í gang.

Sjóðurinn hefur nokkrar áhyggjur af ríkisfjármálum í álfunni, en þó enn meiri af því að stöðnun verði viðvarandi með of lítilli verðbólgu, of lítilli eftirspurn og áframhaldandi miklu atvinnuleysi.

Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er aðgengileg hér

Ýmsir búast við því að ekki muni líða á löngu áður en Seðlabanki Evrópu fari að pumpa peningum í auknum mæli inn í evrópska banka til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og til þess að verðbólgan nálgist tveggja prósenta verðbólgumarkmiðið neðan frá. 


80 særast í mótmælum gegn ESB-sparnaði

Sparnaðaraðgerðir þær sem almenningur í París og Róm mótmæla í tugþúsundatali eiga rætur sínar í stefnu ESB. Svo harkaleg voru mótmælin í Róm að áttatíu slösuðust.

Það er ekki mikil gleði yfir ESB í þessum löndum. 


mbl.is 80 særðust í mótmælum í Róm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuhraðlestin heldur áfram á 365

Það er nú öllum ljóst að fréttastofur 365-miðla hjálpa til að draga vagn þeirra sem vilja færa Ísland nær ESB. Yfirlýsing fréttamanns Stöðvar 2 síðast liðinn föstudag er eitt dæmi um það. Einn af helstu þráðum umfjöllunar í þættinum á Sprengisandi er annað dæmi en þar fer ekkert á milli mála hvar áhugi þáttastjórnandans liggur. Einræður Mikaels Torfasonar í Minni skoðun er þriðja dæmið.
 
Það er út af fyrir sig ágætt að vita hvar skoðanir þessara þáttastjórnenda og fréttamanna liggja. En spurningin er hvort vinnubrögð af þessu tagi þjóni lýðræðinu eða einhverjum sérhagsmunum.

Fréttamaður 365 hefur gefist upp á hlutleysinu

Það var athyglisvert að heyra á rás tvö hjá RUV í morgun hvernig fréttamaður 365, Lóa Pind Aldísardóttir, hefur gefist upp á umræðunni í kringum ESB-málin og þráir það heitast að klára viðræðurnar til þess að hægt sé að losna við umræðuna um ESB.
 
Sjálfsagt markast viðhorf hennar að einhverju leyti af ríkjandi viðhorfum innan fréttastofu 365-miðla. 
 
Undir eðlilegum kringumstæðum væri það algjört brot á hlutleysi fréttamanns að lýsa yfir svo afgerandi skoðun í viðkvæmu máli. Lóa hefur þó vitaskuld fullkominn rétt á að hafa þessa skoðun og það getur verið fullkomlega skiljanlegt að hún sé búin að fá nóg af umræðum um ESB.
 
En það er reginmisskilningur að umræðunni um ESB ljúki hvernig sem niðurstaðan verður. Við sjáum það á ástandi ESB í dag að umræðu um kosti og galla sambandsins mun seint ljúka. Jafnvel þótt við gengjum alla leið, héldum áfram viðræðum, fengjum samning sem við myndum hafna þá myndu aðildarsinnar ekki hætta. Við sjáum það best á svokölluðum Evrópusinnuðum sjálfstæðismönnum. Þeir hafa ítrekað orðið undir í Sjálfstæðisflokknum, þrátt fyrir alls kyns málamiðlanir í gegnum tíðina, en þeir hafa ekki gefist upp.
 
Lóa Pind hefur hins vegar gefist upp fyrir áróðri aðildarsinna. Það segir sitt bæði um hana og um fréttastofu 365 miðla. 

Tálsýn um evru

Flestir átta sig nú orðið á þeim vandræðum sem evran hefur skapað í Evrópu. Hún á stóran þátt í litlum hagvexti, miklu atvinnuleysi og mikilli skuldasöfnun í mörgum evruríkjanna. Samt eru margir enn þeirrar skoðunar hér að evran sé helsti kosturinn við ESB. Hörður Ægisson, viðskiptablaðamaður Morgunblaðsins, skrifar í dag um tálsýnina um evru á viðskiptasíðum Morgunblaðsins.
 
Hann segir:
 
Skýrsla Alþjóðamálstofnunar sýnir fram á að afnám fjármagnshafta og aðild að ESB og upptaka evru eru tveir aðskildir hlutir. Ísland getur ekki orðið hluti af ERM II-samstarfinu, formlegu aðlögunarferli að upptöku evrunnar, fyrr en höftin hafa verið afnumin. Þar er engin aðstoð í boði af hálfu Evrópska seðlabankans - nema það sé pólitískur vilji fyrir því að ríkið taki risalán í evrum til að hleypa út erlendum krónueigendum.
Í skýrslunni er fullyrt að Ísland ætti að geta tekið upp evru á aðeins 2-3 árum eftir að gengið er inn í ERM-II ferlið. Ekki er hins vegar gerð nein tilraun til þess að útskýra þann lærdóm sem evruríkin hafa dregið eftir fjármálakreppuna. Þá kom í ljós að mörgum evruríkjum var hleypt inn í ERM-II á fölskum forsendum. Engar líkur eru á að Íslandi yrði veitt heimild til að ganga inn í ERM-II á sama tíma og landið glímir við djúpstæða greiðslujafnaðarkreppu.
Fengi Ísland inngöngu í ERM-II þá er jafnframt ljóst að Seðlabanki Íslands þyrfti að bera hitann og þungann af því að verja gengi krónunnar innan 2,25% vikmarka gagnvart evru - að minnsta kosti í tvö ár. Slíkt yrði hægara sagt en gert og útheimtir talsvert handafl í formi gjaldeyrisforða. Skuldsettur forði Seðlabankans kæmi þar að litlu gagni.
Upptaka evru við núverandi aðstæður á Íslandi er tálsýn - og beinir sjónum okkar frá óleystum vandamálum heima fyrir. 
 

 

 

 



« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2014
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 387
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 350
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband