Leita í fréttum mbl.is

Fleiri snúningar á B35

Snúningarnir sem teknir eru á bókun 35 fara að minna á listdans á skautum.  

Hjörtur fer yfir nokkrar nýjustu vendingarnar í nýrri grein.  Ráðherrann sem fer með málið telur það helst til raka í málinu að vont væri að ESA færi með málið fyrir dóm, en Hjörtur bendir á að ef dómur verður Íslandi í óhag þá yrði niðurstaðan sú hin sama og frumvarp ráðherrans felur í sér!  Þá ríkir þögnin ein um að fyrrverandi forseti hæstaréttar telji að bókun 35 gangi gegn stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.  

Um fyrirvarann sem hnýtt er í frumvarpið segir Hjörtur þetta:

Hvað varðar fyrirvarann í frumvarpinu, þess efnis að Alþingi gæti ákveðið að forgangur innleidds regluverk frá Evrópusambandinu ætti ekki við um tiltekna innlenda lagasetningu, er hann í raun gagnslaus. Tilgangurinn með fyrirvaranum er einungis sá að reyna að tryggja stuðning við frumvarpið. Alþingi getur vitanlega alltaf sett slík lög. Kæmi hins vegar til þess myndi það kalla á sömu viðbrögð frá ESA og nú stendur að gefast upp fyrir. Hvaða líkur geta fyrir vikið talizt á því að það yrði gert og að þá yrði staðið í lappirnar?

Hann er semsagt bara til "heimabrúks" til að smyrja afgreiðslu Alþingis.  Það var og. 

https://www.visir.is/g/20242634440d/vardi-ekki-vidsnuninginn


Fleiri fundir um ósvöruðu spurninguna

Fréttir berast af innanbúðarfundum félgsmanna Sjálfstæðisflokks.  Óháð fundarefni er bókun 35 rædd.  Þar er þungt í mörgum og kemur ekki á óvart miðað við afgerandi andstöðu stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins sem kom fram í nýlegri skoðanakönnun. 

Menn spyrja:  "Hvers vegna í ósköpunum?".  Svör með tilvísun í réttindi í fæðingarorlofi duga ekki.  Það vita nefnilega allir að það er hægt að tryggja hverjum sem er botnlausan rétt í hverju sem án þess að lögfesta bókun 35.  Eins duga svör um að Evrópusambandið langi til þess skammt.  Fáir kæra sig um að skemma eigin garð til að þóknast löngun Evrópusambandsins. 

Þetta eru óboðleg svör, en engin skárri hafa komið. 

 


Dularfulli flokkurinn

Fréttamenn velta nú vöngum yfir þingflokksfundi Sjálfstæðismanna og glötuðum stórtíðindum. 

Það er vissulega ástæða til að velta vöngum. Utanríkisráðherra hefur eitt þingmál, bókun 35.  

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun eru þrír Sjálfstæðismenn á móti málinu, fyrir hvern einn sem er því hlynntur.  Í augum utanaðkomandi lítur út fyrir að ætlunin sé að reka burt það litla sem eftir er af fylgi. 

Orðið á götunni segir að reyna eigi að fá þá stjórnarflokka sem minni eru til að ríða á vaðið og afgreiða málið.  Þeir eru enn að hugsa sig um.  Þeirra kjósendur hafa engan áhuga á að auka vald Evrópusambandsins á kostnað lýðræðislegs valds á Íslandi. Flokkunum reynist erfitt að finna góð rök fyrir því að samþykkja að leggja málið fram, eina ferðina enn.  Það kemur ekki á óvart.  Það er yfirleitt erfitt að rökstyðja sjálfsmorðsleiðangra.  Það er sérstaklega erfitt í ljósi þess að bókun 35 hefur fengið að safna ryki í 30 ár, öllum að meinalausu. 

Hvers vegna leggur valdamesta fólk Sjálfstæðisflokksins ofuráherslu á bókun 35?

 

 

 

 


Blekking aldarinnar

Það er án efa ein helsta blekking aldarinnar að Íslendingar hafi átt í einhvers konar viðræðum við Evrópusambandið um hvaða reglur ættu að gilda á Íslandi, ef landið álpaðist þar inn.  

Embættismenn Evrópusambandsins hafa sagt oftar en tölu verður á komið að reglur sambandsins væru ekki umsemjanlegar. Það er ekkert flóknara.  Umræðan á Íslandi virðist þó þurfa áminningu um það öðru hverju.  Hér er myndband með ágætri áminningu.  Það mætti að ósekju spila það fyrir frambjóðendur og þingmenn árlega. 

https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8


Ráðgátur og samsæri

Það er ekki ofmælt að fylgi stjórnarflokkanna hefur verið í frjálsu falli að undanförnu.  Þar er sjálfsagt sitthvað til skýringa, en viðbúið er að undanlátssemi við Evrópusambandið sé ofarlega á þeim lista. 

Undanlátssemin er ráðgáta.  Hvers vegna vilja stjórnmálamenn fórna æru og fylgi fyrir óljósa velþóknun embættismanna gömlu nýlenduveldanna á meginlandi Evrópu?  Hvernig stendur á því að efnisinnihald raka í stjórnmálaumræðu hefur í sífellt ríkari mæli verið "vegna þess að Evrópusambandið vill það", en ekki "vegna þess að það er Íslendingum hagfellt"? 

Það er ekki undarlegt að samsæriskenningar um dulda hagsmuni spretti upp við svona aðstæður.  Þær gætu allar verið rangar, en undanlátssemi stjórnmálamanna er eftir sem áður óútskýrð. 

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=72312 


Náttúruvernd og bókun 35

Niðustaða landsfundar VG hefur veirð birt.  Þar eru fjölmörg atriði upp talin, sem flest eiga það sameiginlegt að lítið er hægt í þeim að gera, nema stjórnvald verði kyrrt í landinu.  Það hefði farið vel á að hnykkja á því. 

Þetta á ekki síst við um náttúruvernd og umhverfismál.  Á það hefur verið bent að fyrirvarar Alþingis í tengslum við orkulög Evrópusambandsins munu að líkindum gufa upp með bókun 35.  Þrýstingur orkuþystrar Evrópu og fjárfesta mun líklega vaxa. Í þeim átökum er hætt við að Evrópulög og bókun 35 verði ekki í liði með ósnortinni náttúru. 

Líklega átta þingmenn VG sig á því.  Það kemur væntanlega í ljós á næstunni. 

 

https://vg.is/greinar/alyktanir-samthykktar-a-landsfundi/ 


Markús í sarpi Hjartar

Markús Sigurbjörnsson heitir maður sem fékkst við lög um margra ára skeið, og gerir líklega enn.  Hann hafði innivinnu í hæstarétti og var sagður röskur á penna.  Markús hafði skoðun á innihaldi bókunar 35 og Hjörtur J. Guðmundsson rifjar í Vísi upp þessi merku orð Markúsar:

„Staðreyndin er hins vegar sú að ekki var mögulegt að ganga lengra innan þess ramma sem stjórnarskrá Íslands setur. Stjórnarskráin gerir hvorki ráð fyrir því að takmarka megi fullveldi lýðveldisins með framsali löggjafarvalds til alþjóðastofnana né að landslög, sem byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum eins og EES-samningnum, geti eingöngu af þeim sökum öðlast ríkari stöðu en önnur almenn löggjöf,“   

Annar maður, sem líka sinnti hæstarétti um hríð, heitir Jón Steinar Gunnlaugsson. Þeir Jón og Markús voru stundum ósammála svo að eftir var tekið. 

En þeir voru sammála um að bókun 35 gengi ekki. 

 

https://www.visir.is/g/20242630966d/stenzt-ekki-stjornarskrana


Skoðanakönnunin mætt

Fleiri andvígir bókun 35 en hlynntir


Fleiri eru andvígir frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) vegna bókunar 35 við samninginn en hlynntir eða 39% á móti 35% samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Prósent vann fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. 
 
Fleiri í röðum stuðningsmanna Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins, Framsóknarflokksins og Sósíalistaflokks Íslands eru á móti frumvarpinu en fleiri á meðal stuðningsmanna Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hlynntir samþykkt þess.

Frumvarp utanríkisráðherra gengur sem kunnugt er út á það að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn gangi framar löggjöf sem á sér innlendan uppruna. Frumvarpið var upphaflega lagt fram í mars 2023 en var ekki afgreitt á því þingi. Til stendur af hálfu ráðherrans að leggja það fram á ný á yfirstandandi þingi.

Mest andstaðan við frumvarpið er á meðal stuðningsmanna Miðflokksins samkvæmt könnuninni eða 61% á móti 16% sem eru því hlynnt. Næst koma stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Flokks fólksins með 45% andvíg frumvarpinu en 23% og 20% hlynnt því. Þá eru 42% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins andvíg frumvarpinu en 16% hlynnt. Loks er tæpur þriðjungur stuðningsmanna Sósíalistaflokksins andvígur eða 32% en 22% hlynnt.
 
Fróðlegt er að skoða stöðuna ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti frumvarpi utanríkisráðherra á meðal stuðningsmanna áðurnefndra flokka. Þá eru 79% stuðningsmanna Miðflokksins á móti frumvarpinu, 72% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, 69% stuðningsmanna Flokks fólksins, 66% stuðningsmanna Framsóknarflokksins og 59% stuðningsmanna Sósíalistaflokks Íslands.

Mestur stuðningur við frumvarp Þórdísar Kolbrúnar er á meðal stuðningsmanna Viðreisnar eða 58% á meðan 12% eru því andvíg. Næst koma stuðningsmenn Samfylkingarinnar með 45% hlynnt og 16% andvíg. Þá eru 40% stuðningsmanna VG hlynnt því en 24% andvíg. Loks styður tæpur þriðjungur stuðningsmanna Pírata frumvarpið eða 32% en 12% andvíg því.

„Könnunin sýnir það svart á hvítu að fleiri eru andvígir en hlynntir frumvarpi utanríkisráðherra um að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn verði gert æðra innlendri lagasetningu. Þá er til að mynda ljóst miðað við niðurstöðurnar að miklu meiri andstaða er við málið í röðum stuðningsmanna flokks ráðherrans sjálfs en stuðningur,“ segir Haraldur Ólafsson, formaður Heimssýnar.

Könnunin var gerð dagana 18. september til 3. október 2024. Úrtakið var 2.150 einstaklingar, 18 ára og eldri, og var svarhlutfallið 51%. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 248
  • Sl. viku: 1953
  • Frá upphafi: 1212677

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1728
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband