Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ísland og Evrópusambandið

Þegar rætt er um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru oft færð fram rök um efnahagslegan ávinning. Slík rök byggjast gjarnan á flóknum útreikningum sem almenningur getur átt erfitt með að leggja mat á. Vissulega skipta efnahagsleg rök máli en að mínu mati ber fyrst að líta til þess hvers konar fyrirbæri Evrópusambandið er. Hvers konar stjórnsýsla er þar viðhöfð? Hvaða áhrif hefur aðild á sjálfstæði aðildarríkjanna? Hvaða áhrif hefur aðild á ákvörðunarrétt aðildarríkjanna í eigin málum? Færist ákvarðanataka frá aðildarlöndunum til Brussel í málum sem eðlilegt er að taka ákvarðanir um heima fyrir? Þjappast vald á fárra hendur? Hvaða áhrif hefur regluverk Evrópusambandsins á atvinnulífið og nýsköpun á því sviði? Er kerfið fljótt að leiðrétta sig ef tekin er röng stefna? Spurningum sem þessum þurfum við að byrja á að svara.

Ef stjórnsýsla Evrópusambandsins er með einhverjum hætti óeðlileg og möguleikar á breytingum takmarkaðir mun aðild fyrr eða síðar hafa neikvæð áhrif, einnig á efnahag aðildarríkjanna jafnvel þótt útreikningar bendi til ávinnings til skemmri tíma litið. Heilbrigð stjórnsýsla er forsenda efnahagslegra framfara og góðs samfélags. Mikilvægi réttrar stjórnsýslu er vel þekkt meðal fólks sem rekur fyrirtæki af ýmsum stærðum. Þar skiptir höfuðmáli að ákvarðanir séu teknar á réttum stöðum, boðleiðir séu skýrar og skipulagið gagnsætt.

Þó svo að mannkynið myndi eina heild sem þarf að koma sér saman um margt er mikilvægt að valdi sé dreift á smærri einingar sem hafa ákvörðunarrétt um sín sérstöku mál. Einstaklingurinn er minnsta eining samfélagsins, þá fjölskyldan, sveitarfélögin og þjóðir. Síðan hafa þjóðirnar með sér ýmiss konar samstarf. Ef bandalög þjóða taka sér vald sem eðlilegt er að sé á höndum einstakra þjóða er hætta á ferðum. Rétt eins og þegar ríkisstjórnir taka að ráðskast með mál sem einstakar fjölskyldur eða sveitarfélög ættu að taka ákvarðanir um.

Ísland er fámenn þjóð og boðleiðir tiltölulega stuttar. Þess vegna eigum við á svo mörgum sviðum auðvelt með að aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta er mikill kostur sem við megum ekki glata. Eftir því sem ég fæ séð vantar töluvert á að Evrópusambandið bjóði upp á heilbrigt og eðlilegt samstarf þjóða. Það teygir arma sína mun lengra inn fyrir landamæri þjóðanna en ég tel eðlilegt. Mér finnst Evrópusambandið því ekki álitlegur kostur og tel farsælla að byggja upp samstarf við þjóðir á öðrum grunni en þar er boðið upp á.

Guðni Þorvaldsson,
jarðræktarfræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. desember 2007. Birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar)


Björgólfur Thor lítt spenntur fyrir Evrópusambandinu

"Ég tel að það myndi takmarka okkur. Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir inn í ESB."

Þetta er á meðal þess sem Björgólfur Thor Björgólfsson, sennilega umsvifamesti viðskiptamaður Íslands, hafði um Evrópusambandið og hugsanlega aðild að því að segja í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í tilefni þess að blaðið valdi hann sem viðskiptamann ásrins 2007. Eins og VefÞjóðviljinn hefur bent á eru ummæli Björgólfs sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að íslenskir Evrópusambandssinnar hafa reynt að telja fólki trú um að Evrópusambandsaðild væri einhver sérstök krafa viðskiptalífsins hér á landi.


Hættulegir Evrópusinnar

Evrópusambandið hefur nú ákveðið að innleiða með valdboði að ofan stjórnarskrá þá sem þegnar sambandsins hafa áður hafnað í almennri atkvæðagreiðslu og sýnir nú heiminum nýja mynd af lýðræðisviðhorfum sínum. Það sem áður hét stjórnarskrá heitir nú Lissabonsamningar.

Við fyrri samrunasamninga sína hefur sá háttur verið hafður á í sambandi þessu að láta kjósendur greiða atkvæði aftur og aftur þar til samþykki fengist líkt og við þekkjum hér á landi við sameiningu sveitarfélaga og er mikil og raunaleg nauðgun á lýðræði.

Lýðræðinu pakkað saman
Nú bregður svo við í Evrópu að hið miðstýrða Brusselbákn á sér ekki lengur möguleika á að sigra í atkvæðagreiðslum og kommisarar þess sjá að hversu oft sem síðasta stjórnarskrá yrði keyrð í gegnum þjóðaratkvæði yrðu svör þjóðanna alltaf nei. Þjóðirnar í Evrópu eru orðnar ríkjasamrunanum andvígar. Því er brugðið á það ráð að búta pólitískar ákvarðanir stjórnarskrárinnar niður í nokkra smærri samninga og þröngva þeim svo til samþykkis meðal þjóðríkjanna án atkvæðagreiðslu.

Eiríkur Bergmann, talsmaður Evrópusamtakanna, sem ötulast hefur barist fyrir málstað ES á Íslandi, staðfesti þessa túlkun atburða í viðtali í Silfri Egils um helgina. Efnislegar breytingar sem voru í stjórnarskránni eru margar ef ekki flestar í Lissabonsamningunum, sagði Eiríkur orðrétt í samtali við Egil en taldi það ómark því hinir „symbólsku“ væru það ekki. Þetta ku þættir eins og innleiðing á Evrópudegi sem sérstökum hátíðisdegi, Evrópufána og „vísan í sameiginleg einkenni.“

Ónotahrollur
Það fór um mig ónotahrollur undir þessum útskýringum evrópusinnans. Kannski því að kenna að ég hefi verið að lesa bókina Skáldalíf um ritsnillingana Þórberg og Gunnar sem báðir voru þó miklir hugsjónaglópar í pólitík. Annar trúði staðfastlega á Stalín og hinn var um tíma svag fyrir Hitler. Báðir bjuggu við þá vöntun að þurfa að trúa á eitthvað það í pólitíkinni sem er manninum stærra og meira, eitthvað symbólískt, guðlegt og yfirmannlegt. Hjá heilbrigðu fólki tilheyrir symbólismi trúarbrögðum og miðaldafræði.

Svoldið svipað þessari vöntun er í gangi hjá æstustu talsmönnum Evrópuvitleysunnar. Einhver upphafning og síðan er talað í gátum sem enginn skilur um verðmæti sem enginn veit almennilega hver eru, - launhelgum.

Það er mikill munur á slíkum launhelgum í stjórnmálum og heilbrigðum skoðunum og hugsjónum. Skýrast í þessum mun er vitaskuld að hugsjónir er hægt að útskýra í einföldu og auðskildu máli. Hinar pólitísku launhelgar og allur yfirmannlegur háloftamígur einkennist aftur á móti af óskiljanlegri og upphafinni orðræðu.

Staðlausir trúarórar
Dæmi um þessar yfirmannlegu gátur og staðleysur í málflutningi eru fullyrðingar um að enginn viti lengur hvað orðið fullveldi þýðir! Að umræða um Evrópumál þurfi að þroskast (=andstæðinarnir eru óþroskuð fífl)! Að efnahagsframfarir undanfarinna ára á Íslandi séu bara allar vegna EES-samningsins!!! Að Evrópusamruninn sé söguleg nauðsyn (sem er ómerkileg forlagatrú)! Að evran muni koma, hvað sem dauðlegir stjórnmálamenn segi!

Nauðhyggjan er hér stór þáttur. Sömu fullvissu báru gömlu kommarnir í brjósti og snillingur þeirra Jóhannes úr Kötlum orti austur í Hveragerði,- „Sovét Ísland hvenær kemur þú.“ Ekki hvort, heldur bara hvenær!

Það er útaf nauðhyggjunni og upphafningunni sem menn leyfa sér að láta fólk kjósa aftur og aftur eða þegar það dugar ekki afnema kosningaréttinn. Hinar upphöfnu skoðanir eru hafnar yfir allt sem heitir lýðræði og skoðun hinna upphöfnu manna er einfaldlega sú eina og sú rétta.

Ég ætla ekki að fullyrða að í Evrópuórunum felist ógn sem sambærileg er ógnum hinna gömlu alræðisherra, Stalíns og Hitlers. En ég held að hugsandi fólk eigi alltaf að vera á varðbergi þegar stjórnmálamenn fara að slá um sig með symbólisma og öðru sem ekki verður skilið jarðlegum skilningi.

Bjarni Harðarson, alþingismaður

(Birtist áður í 24 stundum og á bloggsíðu höfundar)


Hver er lykillinn að velgengni Íslendinga?

"Ég er þeirra skoðunar að listir og menning skipti miklu máli. Hvaða gildi skipta máli þegar fólk horfir til baka eftir 100 ár. Það verða ekki eingöngu hinir hagrænu mælikvarðar sem verða tíndir til, einnig listir, svo sem myndlist, tónlist og skáldverk. Menninguna munu afkomendur okkar skoða og leggja mælistikuna á, ekki síður en afkomutölurnar.

Til eru forystumenn í atvinnulífinu sem geta ekki beðið eftir því að við slátrum krónunni, gjaldmiðlinum okkar, og forstjórar í útrás kvarta yfir því að þurfa að burðast með íslenskuna. Ég undrast svona ummæli. Ein af ástæðum þess að okkur gengur eins vel og raun ber vitni er sú að við tölum íslensku. Við eigum ævafornt tungumál sem ristir djúpt og við eigum okkar gjaldmiðil og erum sjálfstæð þjóð. Það gerir okkur sérstök þegar við erum að hasla okkur völl erlendis. Um leið og við hættum að tala íslensku og förum að nota evru höfum við ekki sérstöðu lengur. Við töpum mikilvægum parti af okkur sjálfum."

Sigurður Gísli Pálmason í viðtali við Morgunblaðið 13. desember 2007


Fyrirhuguð stjórnarskrá ESB samþykkt af leiðtogum aðildarríkjanna

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu í gær fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins í Lissabon, höfuðborg Portúgals. Stjórnarskráin mun þó þar með ekki taka gildi heldur verða aðildarríkin að staðfesta hana hvert um sig annað hvort í gegnum þjóðþing sín eða þjóðaratkvæði. Ólíklegt er þó talið að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið annars staðar en á Írlandi þar sem slíkt er bundið í stjórnarskrá landsins. Annars staðar mun almenningur ekki fá tækifæri til að segja álit sitt á hinni fyrirhuguðu stjórnarskrá Evrópusambandsins, en eins og kunnugt er var henni hafnað af frönskum og hollenskum kjósendum í byrjun sumars 2005.

Sú stjórnarskrá sem samþykkt var í gær er að vísu eilítið breytt útgáfa frá þeirri sem Frakkar og Hollendingar afþökkuðu, en rannsóknir hafa sýnt fram á að 96% efnisins hefur haldið sér í nýju útgáfunni og þ.m.t. öll grundvallaratriði hennar. Þetta hefur sömuleiðis verið staðfest af ófáum forystumönnum Evrópusambandsins auk aðalhöfundar fyrri útgáfunnar, Valéry Giscard d'Estaing fyrrv. forseta Frakklands.

En ráðamenn sambandsins ætla ekki að gera þau mistök aftur að hafa almenning með í ráðum.


Fiskveiðistefna ESB fær falleinkunn

Fiskveiðistefna Evrópusambandsins fær falleinkun í nýrri endurskoðunarskýrslu sem Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins hefur gefið út. Í skýrslunni segir m.a. að upplýsingar um fiskveiðar séu óáreiðanlegar og ófullkomnar og eftirlitskerfi ómarkviss og komi ekki í veg fyrir brot. Á það er einnig bent að ef ekki er hægt að styðjast við réttar upplýsingar, eftirlit og framkvæmd reglna fiskveiðistjórnunar, þá sé ómögulegt að byggja upp raunhæfa fiskveiðistefnu á vettvangi ESB. 

Skýrsla Endurskoðunarréttarins kemur í framhaldi af ítarlegri rannsókn þar sem könnuð var starfsemi framkvæmdastjórnarinnar og hvernig staðið væri að því að innleiða reglur í tengslum við fiskveiðistefnu ESB og miðla upplýsingum um veiðar í sex aðildarríkjum (Danmörku, Frakklandi, Ítalíu Hollandi, Spáni og Bretlandi).

Óhætt er að segja að skýrslan staðfesti það sem haldið hefur verið fram af hálfu forsvarsmanna LÍÚ að framkvæmd sjávarútvegsstefnu ESB sé í miklum ólestri, en flestir fiskistofnar á yfirráðasvæði sambandsins eru ofveiddir og í hættu.

Niðurstöður endurskoðunarskýrslunnar eru annars í stuttu máli eftirfarandi:

  • Upplýsingar um fiskveiðar eru óáreiðanlegar og ófullkomnar.  Ekki er því   hægt   að vita hver raunveruleg veiði er.  Vegna þess að upplýsingar eru rangar geta þær ekki skapað réttan grunn fyrir ákvarðanir um fiskveiðikvóta.
  • Eftirlitskerfi aðildarríkjanna eru ómarkviss og koma ekki í veg fyrir brot á fiskveiðireglum og stefnu ESB í fiskveiðum.
  • Sektir aðildarríkjanna vegna brota á fiskveiðireglum hafa ekki fælingaráhrif.

Í skýrslunni er bent á að Framkvæmdastjórn ESB hafi ekki úrræði til að bregðast við með skjótum hætti til að þrýsta á aðildarríki þegar þau fara ekki eftir settum reglum. Ekki eru heldur til staðar eftirlitskerfi sem tryggja að réttar upplýsingar um framkvæmd fiskveiðireglnanna í aðildarríkjunum berist til Framkvæmdastjórnarinnar.  Því er einnig haldið fram að styrkjakerfi  ESB og aðgerðir sem miða að því að draga úr umframafkastageta fiskveiðiflotans séu ekki að skila árangri og geti ýtt undir brottkast og tilhneygingu til að gefa upp minni afla.

Skýrslan þykir undirstrika mikilvægi þess að framkvæmdastjórn sambandsins taki fiskveiðistefnuna til endurskoðunar, en áætlað er að á síðari hluta næsta árs verði ný stefna kynnt.  

Heimildir:
Fiskveiðistefna ESB fær falleinkunn (Líú.is 07/12/07)
Fiskveiðistefna ESB fær falleinkunn (Viðskiptablaðið 08/12/07)


Afgerandi andstaða gegn ESB-aðild í Noregi

Mikill meirihluti Norðmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið samkvæmt nýrri skoðanakönnun þar í landi sem gerð var fyrir norsku dagblöðin Nationen, Klassekampen og Dagen. Samkvæmt henni eru nú 53,4% Norðmann andvíg aðild en aðeins 34,6% henni hlynnt. Sé aðeins tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu með eða á móti eru 60,6% á móti aðild en 39,3% henni fylgjandi.

Fjöldi skoðanakannana eru gerðar árlega í Noregi um afstöðu landsmanna til Evrópusambandsaðildar og hafa niðurstöðurnar verið upp og ofan í gegnum tíðina, en síðan Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins í byrjun sumars 2005 hefur verið viðvarandi afgerandi meirihluti gegn aðild að sambandinu.

Heimild:
Stort flertall mot EU i Ap og Frp (Verdens gang 03/12/07)


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 54
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 1326
  • Frá upphafi: 1143390

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1130
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband