Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Klappsteinn um áramót

Framtíð Íslands er til umfjöllunar í Morgunblaðinu 30. desember.   Einn þeirra sem skrifar er Róbert Spanó. Róbert fer um víðan völl og flest það sem hann fjallar um er hreint ágætt að flestra mati.  Lífið er gott, en gæti verið enn betra.  Inn á milli laumast almennt orðaðar hugleiðingar um að það þurfi að „efla stöðu landsins í samfélagi Evrópuþjóða“, að það þurfi að ræða inngöngu í Evrópusambandið af „yfirvegun og festu“, þó svo Róbert treysti sér ekki að fullyrða fullum fetum að Ísland eigi að ganga þar inn.  Þá er tekið undir sönginn um að samningurinn um EES hafi gjörbreytt Íslandi til hins betra.

Allt eru þetta kunnugleg stef, en sjálfsagt að minna á að aðild að Evrópusambandinu hefur verið rædd af yfirvegun og festu i áratugi.  Niðurstaðan er alltaf sú sama, að það sé langsamlega farsælast að Íslendingar stjórni sér sjálfir, en ekki bandalag undir stjórn gömlu nýlenduveldanna á meginlandi Evrópu.  Ekkert mælir með síðarnefnda fyrirkomulaginu.    

Þá hefur heldur ekkert handfast komið fram sem bendir til þess að samfélag á Íslandi væri lakara en það er, ef ekki hefði verið EES.  Reyndar má færa fyrir því rök að töluverður, og sívaxandi, beinn og óbeinn kostnaður sem tengist EES hefði sparast og það hlýtur að koma að því að það samstarf verði endurskoðað með frjálsa verslun að leiðarljósi.

Að svo mæltu óskar Heimssýn landsmönnum og öðrum jarðarbúum friðar, gæfu og gengis á nýju ári


Undirtónn Birgis

Ástæða er til að vekja athygli á ágætu viðtali við Birgi Örn Steingrímsson á Útvarpi sögu. Þeir Birgir og Pétur Gunnlaugsson ræða stjórnmálin á Íslandi og sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn.  Mörg mál eru tekin til krufningar, en það er áberandi að undirtónninn í þeim öllum er að það er grundvallaratriði að halda stjórnvaldinu í landinu og láta það ekki í hendur vandalausra í útlöndum.

Það ætti að vera augljóst, en svo er að sjá að furðu margir Alþingismenn og aðrir sjái það ekki. 

https://utvarpsaga.is/valdaleysi-stjornvalda-ad-kenna-ad-ekki-se-virkjad/

 


Kjarni Evrópuhugsjónarinnar, fátækrahjálp og öryggi Íslendinga

 

Í grein í Heimildinni 11. desember sl. fer Ole Anton Bieltvedt nokkrum orðum um Evrópuhugsjónina svokölluðu og kemst nokkuð nærri kjarna máls þegar kemur að hinum raunverulegu rökum fyrir innlimun Íslands í Evrópusambandið.

Ole Anton telur að Íslendingar eigi að „leggja þar til þau gæði, sem landið og þjóðin býr yfir, til tryggingar álfunni og þjóðabandalagi hennar“.  Hann fer mörgum orðum um að Evrópumenn standi framar öðrum hvað varðar flest sem gott þykir, Evrópa sé „miðstöð lýðræðis, baráttunnar gegn spillingu, mannréttinda, virðingar við jörðina, velferðar og öryggis.“  Síðast en ekki síst telur hann að öryggi Íslendinga mannréttindum og lýðræði sé best borgið ef Íslendingar afsala sér landsréttindum sínum til gömlu evrópsku nýlenduveldanna.  Fer þá að kárna gamanið því Ole Anton segir nefnilega réttilega að þjóðarleiðtogar hafi verið með ýmsum hætti í Evrópu, sumir ægilega vondir. 

Hættulegt er smáþjóð að færa slíkum félagsskap fjöregg sitt.  Það verður fyrr eða síðar soðið og étið af einhverjum af þeim vondu.

 

Fátækrahjálp

Það er falleg hugsjón að hjálpa fátækum og hún skín í gegn í orðum Ole Antons sem er þekktur fyrir að vera málsvari málleysingja.  Það verður þó ekki gert með því að afhenda Evrópusambandinu eitt eða neitt, þó ekki væri nema vegna þess að stærstu þjóðirnar í því eru með þeim ríkustu í heiminum.  Þeir fátæku eru í Asíu og Afríku.  Það má færa fyrir því góð rök að okkur beri að hjálpa þessum fátæku þjóðum, en það gerum við vitaskuld ekki með því að afhenda þarlendum stjórnvöldum völd yfir auðlindum Íslands, heldur með því að kenna sem vilja læra til verka eða borga fyrir önnur þörf og uppbyggileg verkefni.

 

 

Pútín í hlaðvarpanum

Þá má skilja Ole að landsréttur Íslendinga sé sanngjarnt verð fyrir tryggingu fyrir lýðræði og mannréttindum og að Íslendingar verði fyrst öruggir þegar þeir eru komnir í einhvers konar framtíðarhernaðarbandalag með gömlu nýlenduveldunum á meginlandi Evrópu. 

Menn hljóta þá að spyrja sig hvað ógni Íslendingum.  „Pútín og hans menn“  kynni einhver að svara.  Það er afar langsótt af ýmsum ástæðum, en telji einhver að það halli á vesturlönd í vígvæðingu þá er að líta á að NATÓ eyðir nú þegar um 20 sinnum meira til hernaðar en Rússar.  Það er nokkuð augljóst að eitthvað fleira en ótti við Rússa drífur áfram aukin framlög margra Evrópuríkja til hervæðingar og spurning hvort nokkur Íslendingur vilji með í þá vegferð.  

Sá Íslendingur sem ber ugg í brjósti gæti líka spurt sig hvort hann telji líklegt að Bandaríkjamenn og Bretar mundu sætta sig við að ríki, þeim óvinveitt, tæki land á Íslandi og reisti þar herstöð með eða án samþykkis Íslendinga. Svarið er augljóst.  Í framhaldi af því gæti hann spurt sig hvort skynsamlegt væri að Íslendingar gengju í hernaðarbandalag sem hvorki Bretar né Bandaríkjamenn væru aðilar að og gæti lent í andstöðu við þá einhvern tímann í framtíðinni, þótt það sé kannski ekki líklegt núna. 

Síðast en ekki síst verður ekki horft framhjá því að margt bendir til að mannréttindi og jafnvel lýðræði standi höllum fæti í Evrópusambandinu.  Í kóvitfaraldrium gengu mörg lönd Evrópusambandsins miklu lengra en tilefni var í því að skerða mannréttindi og mun lengra en íslensk stjórnvöld.  Sterk hreyfing er í átt til aukins eftirlits með þegnum Evrópusambandsins og ritskoðun hefur verið hert.  Þar eru sumir fjölmiðlar bannaðir.  Í Austur-Evrópu er nýbúið að drepa og limlesta á aðra milljón manna.  Mannréttindi þeirra fórnarlamba voru vegin og léttvæg fundin af Evrópusambandslöndunum og fleirum sem líka kyntu ófriðarbálið af öllum mætti.  Í meginatriðum er allt þetta gert með stuðningi eða þegjandi samþykki þegna sambandsins.  Það er mjög umhugsunarvert. 

 

Alltaf sama niðurstaða

Eflaust má margt bæta á Íslandi, en í þessum efnum standa Íslendingar einfaldlega framar flestum ríkjum Evrópusambandsins.  Það er því vægast sagt öfugsnúið að kaupa Evrópusambandið til að verja mannréttindi á Íslandi og borga fyrir með aleigunni.

Það er sama hvernig fátæktar-, mannréttinda- og svokölluðum öryggismálum er snúið, niðurstaðan verður alltaf sú að gæta beri fullveldis Íslands.  Í leiðinni má minnast þess að stjórnvald sem tapast á einum degi getur tekið mannsaldra að endurheimta.  Það sýnir sagan. 

 

 


Umsögn Heimssýnar um loftslagsskatt

Umsögn um

frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

 Heimssýn hefur efasemdir um að rétt sé að Alþingi samþykki ofangreint frumvarp sem lýtur sérstaklega að skattlagningu á ferðum á sjó og í lofti.

Frekar dýrt er að reka lítið nútímasamfélag í óblíðu veðurfari, fjarri öllum helstu heimsmörkuðum.  Sú skattlagning sem hér um ræðir bætir í þann aukakostnað því hún leggst sérstaklega þungt á Ísland, líklega mun þyngra en nokkurt annað land á Evrópska efnahagssvæðinu.   Ekki er augljós sanngirni í því.  Í því samhengi má minna á að Ísland hefur nú þegar gengið í gegnum orkuskipti í húshitun og nánast ekkert rafmagn á Íslandi er að jafnaði framleitt með jarðefnaeldsneyti.

Helsta markmið skatta af því tagi sem hér um ræðir er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og beina starfsemi í þá átt að draga úr losun.  Það kann að virka vel þar sem ýmsir valkostir eru, t.d. í samgöngum á meginlandi Evrópu.  Varla er hægt að tala um aðra valkosti en núverandi fyrirkomulag í samgöngum til Íslands, svo megináhrif útblástursskattsins verða því að afla fjár fyrir þann sem þiggur skattféð og aukaáhrif verða að draga úr komum ferðamanna til Íslands með tilheyrandi tapi fyrir íslensk fyrirtæki.

Af gögnum tengdum frumvarpinu má ráða að drjúgur hluti af því sem greitt verður í tengslum við ferðir til Íslands á sjó og í lofti renni í fjárhirslur erlends ríkjasambands.  Efast má um að sú tilfærsla á fé frá Íslandi til útlanda sé nauðsynleg til að vernda umhverfið, sem er yfirlýst markmið laganna.

Ekki verður annað séð en að upphæð þess skatts sem hér er til umræðu, eða verð losunarheimilda, geti breyst og það jafnvel mjög mikið.  Sagan hefur reyndar sýnt það.  Vekur það upp efasemdir um að þessi gjörð standist 40. grein stjórnarskrárinnar sem segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. 

Líklegt er að skatturinn á flugið muni beina flugi yfir N-Atlantshaf, milli Evrópu og N-Ameríku, frá Íslandi.  Það yrði án augljóss ávinnings fyrir umhverfið, og til skaða í sumum tilvikum, og til verulegs skaða fyrir atvinnulíf á Íslandi.

Skattur þessi eykur flækjustig samfélagsins og þar af leiðandi kostnað við rekstur.  Hann rýrir lífskjör á Íslandi og hefur óljós áhrif til að bæta umhverfið. 

 


Kveikur í graut

Sérkennilegur þáttur um peningamál var sýndur á sjónvarpsstöð sem kallar sig RÚV og margir kannast við.  Þátturinn ber nafnið Kveikur og var sýndur 5. desember síðastliðinn.

Í þættinum er margoft endurtekið að sum fyrirtæki á Íslandi geri upp í erlendri mynt, en slíkt standi heimilum ekki til boða.  Ekki er ljóst hvers konar uppgjör er vísað í, því eins og flestir vita skila hvorki einstaklingar né einkaheimili bókhaldi, hvað þá ársreikningum.  Það er hinn bóginn ljóst að mönnum er frjálst að semja um launagreiðslur í nánast hverju sem er, þar með talið evrum, dölum, salti eða gulli. Eins geta menn keypt útlenda peninga fyrir öll launin sín og geymt þá undir koddanum eða annars staðar þar sem hentar.

Þá má af sjónvarpinu skilja að með því að gera ekki upp krónum, heldur dölum eða evrum sé hægt að láta bókhald fyrirtækja líta svo vel út að það verði auðveldara að fá lán og að lánið verði jafnvel ódýrara en ef gert er upp í krónum.  Allt er það sérkennilegt og virðist byggjast á því að hægt sé að stunda bókhaldssjónhverfingar sem bankar sjái ekki í gegnum þegar þeir skoða rekstur og eignir fyrirtækja sem vilja fá lán. Hvað skyldu bankamenn segja um það?     

Ótalmargt fleira sem ástæða væri til að ræða frekar var kynnt í fyrrnefndum þætti, en eitt af því undarlegasta var þegar viðmælandi sagði undir lok 9. mínútu þáttarins að raunvextir á íbúðalánum á Íslandi væru rúmlega 10%.  Eins og flestir vita er það ekki rétt.  Raunvextir á íbúðalánum í stærsta banka Íslands eru rúmlega 3%.  Öllum getur orðið á og í beinni útsendingu verða mismæli ekki löguð eftir á. Hér er á hinn bóginn ekki bein útsending, heldur þáttur þar sem klippt er út og suður og allt hægt að laga og leiðrétta.  Það er samt ekki gert. Þáttastjórnandi leiðréttir viðmælandann ekki og tökumaður slekkur ekki og byrjar upp á nýtt eins og venjan er þegar viðmælandi ruglast í ríminu. Ekkert er heldur lagað í vinnslu þáttarins.  Það vekur óneitanlega upp spurningar um hversu vel þeir sem að verkinu standa skilja það sem fjallað er um.  Eru áhorfendur kannski að horfa inn í einhvers konar hliðarveruleika þar sem allt er í graut og óljós tengsl við raunveruleikann?

 


Bragarbót

Heimssýnarbloggið mætti að mati sumra færa fram fullveldisrökin í bundnu máli.  Það er vandalaust, því flest skáld eru vitaskuld fullveldissinnar.  

 

Guðjón Bragi Benediktsson ríður á vaðið.  Við tökum við fleiri kvæðum til birtingar og ævarandi varðveislu. 

 

Skattajól

 

 

Ísalands landráða fól

á Alþingi eiga sér skjól

Þar stimpla þeir evrópsk skjöl

Í pokanum óhreint mjöl

 

 

Þeir skattleggja flug og frakt

sem forríkra eykur makt

En láglaunamaðurinn blæðir

því vöruverð stígur í hæðir

 

 

Loftslags landráðfól

losunarheimildir skerða

sultaról almúgans herða

Ísafoldar  eykst nú böl

Í lífskjarafangelsið vantar þjöl

 

 

Ísalands Quislinga hjörð

Svipa köld og hörð

á eigin þjóð -hve dapurt það ljóð

Í þriðju þingmeðferð haninn gól

Svikastjórn býður gleðileg jól

 

Guðjón Bragi Benediktsson


Grafið undan lýðræði

Valdaframsal til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er áhygguefni.  Arnar Þór Jónsson hefur tekið saman minnisblað um málið sem vísað hefur verið til hér og finna má á Moggabloggi Arnars Þórs.  Í nýlegri færslu tekur hann saman nokkra punkta sem ástæða er til að endurtaka hér.  Þeir eru:

  • WHO yrði veitt sjálfdæmi þegar kemur að því að lýsa yfir alþjóðlegri heilbrigðisvá (e. PHEIC) og leyft að víkka skilgreiningu á hættuástandi þannig að það nái til loftslagsbreytinga og umhverfisvanda. Þetta vald er hvergi temprað og hvergi gert ráð fyrir möguleika aðildarríkja / borgara til að leita endurskoðunar eða aftra því að WHO framlengi slíka yfirlýsingu um hættuástand með endurteknum hætti.
  • Tilmæli sem áður bundu ekki aðildarríki eiga nú að verða bindandi gagnvart þeim, auk þess sem bætt er við ákvæðum um eftirlit af hálfu WHO og jafnvel refsiaðgerðir gagnvart ríkjum.
  • WHO yrðu veittar heimildir til að stýra upplýsingaflæði og beita ritskoðunarvaldi þegar kemur að gagnrýni og almennri umræðu. Þetta yrði gert undir því yfirskini að nauðsynlegt sé að berjast gegn röngum upplýsingum og upplýsingaóreiðu. Þessar áætlanir fela í sér aðför að lýðræðinu, því engin valdastofnun má fá einkaleyfi / skilgreiningarvald yfir sannleikanum.
  • Nýju IHR reglurnar gera ekki ráð fyrir að valdinu sé dreift á fleiri hendur til að verja menn gegn valdníðslu og ofríki valdhafa. Þetta brýtur auðsjáanlega í bága við stjórnskipulegar undirstöður Íslands eins og annarra vestrænna ríkja.
  • IHR reglurnar gera ekki ráð fyrir að handhafar valdsins hjá WHO beri neina ábyrgð gagnvart almenningi. Engin þjóð sem þekkir réttarsöguna kallar slíkt vald yfir sig án umræðu, því valdhafar sem bera enga ábyrgð munu fyrr eða síðar misnota það vald.
  • IHR reglurnar ógna grundvallarmannréttindum og mannlegri reisn. Sú hætta telst raunveruleg í ljósi reynslu síðustu ára, því ef dómstólar veita ekki viðnám og kjósa jafnvel að líta fram hjá stjórnarskrárákvæðum eins og gert var hér á Íslandi í „kófinu“ þá er almenningur í reynd varnarlaus fyrir ofríki stjórnvalda. Fórnir fyrri kynslóða til að verja borgarana fyrir ofríki stjórnvalda með skýrum stjórnarskrárákvæðum mega ekki verða gengisfelldar með því að fólki sé gert að hlýða fyrirskipunum valdhafa og þóknast þeim í hvívetna.

Þótt helmingurinn af þessu væri oftúlkun, sem allt bendir til að sé ekki, væri málið mikið áhyggjuefni.  Alþingismenn komast ekki hjá því að taka á málinu næstu vikur og mánuði. 

https://arnarthorjonsson.blog.is/blog/arnarthorjonsson/entry/2296947/


Ísland fullvalda í 105 ár

Í dag höldum við upp á 105 ára afmæli fullveldis Íslands.   Segja má að fullveldið sé gjöfulasta auðlind Íslendinga, því án þess væri óvíst með nýtingu annarra auðlinda og allt eins líklegt að flest væri í doða og dáðleysi á Íslandi.

Fjölmargir Íslendingar taka reglulega til máls um mikilvægi fullveldis, og eftir því sem meira er sótt að fullveldinu, því fleiri verða raddirnar sem koma því til varnar. Hjörtur J. Guðmundsson er einn þeirra manna sem ekki hefur setið þegjandi.  Sómi er af skrifum hans á vefinn fullveldi.is. Hjörtur ritar fullvediskveðju á Fasbókarsíðu sína og gerum við hana að kveðju okkar til landsmanna:

 

Fullveldisdagurinn er í dag en á þessum degi árið 1918 varð Ísland sem kunnugt er frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna við Danmörku. Lýðveldið var síðan stofnað 17. júní 1944. Höfðu Íslendingar þá verið undir erlendri yfirstjórn í rúma sex og hálfa öld. Sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lauk þó hvorki 1918 né 1944. Fram að því snerist baráttan um það að endurheimta valdið yfir málum hennar en síðan um það að tryggja að það sem ávannst glatist ekki. Sjálfstæðisbaráttunni lýkur þannig aldrei frekar en annarri frelsisbaráttu.
Hér fyrir neðan eru nokkrar valdar tilvitnanir í valinkunna einstaklinga í tilefni dagsins:
 
„Veraldarsagan ber ljóst vitni þess að hverri þjóð hefir þá vegnað bezt þegar hún hefir sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu.“
Jón Sigurðsson forseti.
 
„Fylkið ykkur jafnan undir merki þeirra, er vilja vernda og efla íslenzkt þjóðerni og íslenzka tungu, og reynið ávallt að fylgja málstað þeirra sem berjast fyrir því sem er rétt, gott og fagurt.“
Margrét Jónsdóttir, skáld og höfundur ljóðsins Ísland er land þitt.
 
„Ranghverfð og öfugsnúin ættjarðarást hefur oft verið höfð við undirgosið, þegar blásið var að glóðum ófriðar. Slíkt er auðvitað að afhenda fjandanum góða Guðs gjöf …“
Sigurbjörn Einarsson, fyrrverandi biskup Íslands.
 
„Við þurfum að gera skýran greinarmun á heilbrigðri ættjarðarást annars vegar, virðingu fyrir landi og sögu og gleði yfir þeim góðu þáttum sem sameina okkur, og þjóðrembu hins vegar, drambi og tortryggni í garð annarra, öfgahyggju og þröngsýni.“
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
 
„Á þessum þjóðfrelsisdegi heiðrum við minningu þeirra ótöldu Íslendinga sem í orði og verki lögðu grunn að því þjóðríki sem við tókum í arf. Það er okkar að gæta fengins frelsis og við megum ekki gleyma liðinni tíð og tapa áttum. Staðfastur vilji til að ráða lífi okkar og gerðum skiptir meginmáli.“
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
 

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 1692
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband