Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Þetta er s.s. "þroskuð umræða" um Evrópumálin?

Eins og kunnugt er hefur umræðan um Evrópumálin á undanförnum vikum og mánuðum einkennst af tilraunum Evrópusambandssinna til þess að hagnýta sér þá tímabundnu efnahagserfiðleika sem við er að etja hér á landi (og raunar miklu víðar) því áhugamáli sínu til framdráttar að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið og afsala sér þar með sjálfstæði sínu. Seint verður sagt að málflutningur þeirra í því skyni hafi verið yfirvegaður heldur miklu fremur einkennst af upphrópunum og hræðsluáróðri um að allt sé að fara norður og niður hér á Fróni og því þurfi íslenzka þjóðin að gefast upp á að standa á eigin fótum og segja sig til sveitar. Nokkuð sem þó er svo óralangt frá öllum tengslum við raunveruleikann. En eðlilega vilja skósveinar Evrópusambandsins draga upp sem allra dekksta mynd af stöðunni, enda ljóst að fátt er líklegra til að verða þeirra málstað til framdráttar en að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar verði sem allra, allra verst. Það þarf því ekki að segja mér að ófáir í þeirra röðum hlakki ekki yfir ástandinu.

Í 24 stundum í dag segir Valgerður Sverrisdóttir að umræðan um Evrópumálin hafi "þroskast gríðarlega mikið á tiltölulega fáum vikum." Á sínum tíma talaði Halldór Ásgrímsson mikið um að umræðan um málaflokkinn þyrfti að þroskast og einhverjar umræður voru um það þá hvað fælist í því orðalagi hans. Flestum var þó væntanlega ljóst að um var að ræða hefðbundið tal í anda Evrópusambandssinna sem telja víst að ekki sé um að ræða vitiborna umræðu um Evrópumál, eða umræðu yfir höfuð, nema hún hafi þann útgangspunkt að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Þeir sem eru annarrar skoðunar eru þ.a.l. alls ekkert að ræða málin! Gott ef slíkir aðilar eru þá ekki bara óþroskaðir í skoðanamyndun sinni á málaflokknum í ofanálag? Enginn hroki þar á ferð og allt saman mjög í anda lýðræðislegrar hugsunar.

En nú þarf enginn að velkjast í vafa um, í ljósi þessara orða Valgerðar sem hefur verið einhvers konar pólitískur merkisberi Halldórs Ásgrímssonar í íslenzkri stjórnmálaumræðu eftir að hann sneri sér að öðrum viðfangsefnum, að þetta var nákvæmlega það sem Halldór átti við með svokallaðri "þroskaðri umræðu" um Evrópumálin. Þó það hafi vitanlega legið fyrir.

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


ESB á krossgötum

bjarni_jonsson1Umdeild stjórnarskrá fyrir ESB er til umfjöllunar hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins.  Ágreiningur þeirra um peningamálastefnuna, t.d. vexti ECB, Evrópubankans í Frankfurt,  gæti gengið af evrunni dauðri, eins og rakið var í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dags. 19. apríl 2008.  Þá bregður svo við í upphafi efnahagslægðar af völdum alþjóðlegrar lánsfjárkreppu, að upp gýs umræða á Íslandi um nauðsyn aðildarumsóknar landsins að ESB, helzt sem fyrst.

Lögspekingar eru sammála um, að stjórnarskrárbreytingar séu forsenda aðildar.  Eðlileg framvinda er þá, að Alþingi fjalli fyrst um þær stjórnarskrárbreytingar, sem nauðsynlegar eru taldar til að heimila þinginu fullveldisframsal til annarra ríkja eða yfirþjóðlegs valds.  Án slíkrar stjórnarskrárbreytingar verður að líta svo á, að ríkisstjórnina skorti umboð til samninga um aðild Íslands að ESB.

Ekki er líklegt í náinni framtíð, að Alþingi fallist á, að síðasta orðið um mikilvægustu hagsmunamál Íslands verði hjá ráðherraráði ESB, framkvæmdastjórninni í Brussel, Evrópuþinginu eða erlendum ríkisstjórnum.  Það er samt sjálfsagt að láta á þetta reyna á Alþingi þessa kjörtímabils.

Hvers vegna ætti Alþingi að afsala sér fullveldi um skipan mála á Íslandi og innan íslenzkrar efnahagslögsögu ?  Til þess að stíga svo afdrifaríkt skref þarf að sýna fram á með óyggjandi hætti, að auðlindastjórnun ESB sé betur fallin til langtíma afraksturs en auðlindastjórnun Alþingis og að peningamálastjórnun ECB henti íslenzkum atvinnuvegum betur og stuðli að örari vexti efnahagskerfisins en sú innlenda stjórnun, sem Alþingi hlutast til um eða fram fer í skjóli Alþingis.  Í þessum efnum ber að hafa í huga, að ákvörðun um inngöngu í ESB virðist vera nánast óafturkræf.   

Staðreyndir tala sínu máli um téða mælikvarða.  Fiskveiðistjórnun ESB þykir almennt standa hinni íslenzku langt að baki. Íslenzkur sjávarútvegur gæti e.t.v. fengið veiðiheimildir á rýrum miðum innan lögsögu ESB, en yrði þá í staðinn að deila Íslandsmiðum með öðrum.  Engar líkur eru á, að Íslendingum mundi farnast betur, ef síðasta orðið um auðlindanýtingu lífríkis hafsins eða orkulindanna yrði í Brussel.  Í Brussel hefur verið mótuð stefna um verulega aukningu raforkuvinnslu með sjálfbærum hætti.  Mætti eiga von á tilskipun um nýjar sjálfbærar virkjanir innan ESB til að berjast við gróðurhúsaáhrifin, þar sem minni hagsmunum yrði vikið til hliðar fyrir meiri ? 

Það eru ýmsar aðrar ástæður fyrir því, að ólíklegt er, að meirihluti myndist á Alþingi fyrir fullveldisframsali.  Þær eru t.d. af sögulegum toga, og nægir að nefna ártalið 1262 í því samhengi.

Hagvöxtur hefur verið mun meiri á Íslandi en að jafnaði innan ESB. Hver prósenta í hagvexti hefur gríðarleg áhrif á það, sem verður til skiptanna í þjóðarbúskapinum til lengdar.  Lætur t.d. nærri, að eftir 20 ár verði landsframleiðslan 50 % hærri með 4 % hagvexti en 2 %.  Hagvaxtarmunurinn á Íslandi og evrusvæðinu gæti hæglega orðið meiri en þessi að óbreyttu á næstu áratugum.

Unnt á að vera að reikna það út með viðunandi nákvæmni, hvaða áhrif það hefði á hagvöxtinn á Íslandi að taka upp evru.  Slík líkön eru líklega til í Seðlabankanum og víðar.  Væru niðurstöður slíkra útreikninga fræðimanna þarft innlegg í þessa umræðu.  Er því hér með beint til starfandi Evrópunefndar, þar sem tveir hagfræðimenntaðir Alþingismenn gegna formennsku, að þeir geri gangskör að því að aðlaga eða semja frá grunni hagfræðilíkan, sem getur reiknað út langtímahagvöxt miðað við gefnar forsendur.  Þar þurfa mögulegir stikar að vera íslenzk króna og evra.  Næmnigreining á niðurstöðum þarf að vera möguleg.

Fyrir nokkrum árum rannsakaði fjármálaráðuneyti Bretlands á hvaða gengi Bretum væri hagfelldast að skipta á sterlingspundum og evru, og hvort hagþróun á Bretlandi væri í nægilegum samhljómi við hagþróun evrusvæðisins til að hagstætt gæti orðið fyrir Breta að skipta um mynt.  Bretar komust að þeirri niðurstöðu, að hagsveiflan, sem ákvarðanir Evrópubankans í Frankfurt um vexti og aðrar peningalegar ráðstafanir eru reistar á, væri í of miklu ósamræmi við hagsveifluna á Bretlandseyjum til að gjaldmiðilsskipti væru áhættunnar virði.  Írar eru enn ekki búnir að bíta úr nálinni með þetta. Gjaldmiðilsskipti á Íslandi væru þeim mun hættulegri fyrir hagvaxtarþróun og atvinnustig á Íslandi en á Bretlandi sem munurinn á efnahagssveiflunni miðað við evrusvæðið er meiri á Íslandi en á  Bretlandi.

Í stað gaspurs um nauðsyn gjaldmiðilsskipta hérlendis þarf að beita vísindalegri greiningu á viðfangsefnið og komast þannig að niðurstöðu um, hvað þjónar langtímahagsmunum landsins bezt.  Einn mikilvægasti mælikvarðinn í því samhengi er hagvöxturinn.

Aðild Íslands að innri markaði ESB er viðskiptaleg nauðsyn.  Náið samstarf við ESB er okkur stjórnmálaleg, menningarleg og jafnvel öryggisleg nauðsyn.  Að taka upp evru mundi vafalítið greiða enn fyrir viðskiptum okkar við evrulöndin og auka erlendar fjárfestingar á Íslandi.  Vega þessir kostir upp á móti göllunum ? Við erum nú þegar á innri markaði ESB, en sitjum hins vegar ekki við borðið, þar sem ákvarðanir eru teknar í ESB.  Miðað við tillöguna um stjórnkerfisbreytingarnar, sem nú er til umfjöllunar hjá þjóðþingum aðildarlandanna, mundi slík nærvera fulltrúa Íslands sáralitlu breyta um íslenzka hagsmunagæzlu.  Til að gera stjórnkerfi ESB skilvirkara, er verið að auka hlut fjölmennu þjóðanna á kostnað hinna.

Félagsgjald að þessum klúbbi er ekkert smáræði.  Það gæti á næstu árum nálgast að nema helmingi af árlegum rekstrarkostnaði Landsspítalans, svo að dæmi sé tekið.  Ef aðildin eykur hagvöxt hér, gæti þetta samt orðið arðsöm fjárfesting, en ef enginn hagvaxtarauki yrði af aðildinni, þá væri hér um að ræða þunga byrði á ríkissjóð.  Það er þess vegna brýnt fyrir umræðuna um hugsanlega inngöngu í ESB, að með viðurkenndum, fræðilegum hætti verði hagvöxtur á Íslandi áætlaður innan og utan ESB, með ISK og með EUR. 

Því fer víðs fjarri, að aðild Íslands að ESB geti verið liður í lausn á aðsteðjandi efnahagsvanda.  Ísland er fjarri því að uppfylla kröfur myntráðs Evrópu.  Jafnvel þó að okkur tækist það með spennitreyju á efnahagslífið, eins og t.d. ríkjum Suður-Evrópu tókst að uppfylla tímabundið skilyrðin um upptöku evru, mundi að líkindum ekki líða á löngu þar til hagvöxtur hér mundi stöðvast, eins og nú er að gerast í S-Evrópu, af því að vaxtaákvarðanir Evrópubankans yrðu aldrei í samræmi við þarfir íslenzks efnahagslífs.

Bjarni Jónsson
verkfræðingur

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?

ragnar_arnaldsMargir trúa því að við Íslendingar komumst ekki undan ESB-aðild vegna þess hve fljótandi gengi krónunnar sveiflast mikið á ólgusjó erlendra markaða. En vilja menn fórna 200 mílna landhelgi og margs konar fullveldisréttindum til að fá stöðugra gengi? Ég er sannfærður um að landsmenn samþykkja aldrei í þjóðaratkvæði að erlend ríki fái úrslitavald yfir fiskimiðum landsmanna, vald sem í eðli sínu er ígildi eignarréttar og nær yfir hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft.

Mikið var gert úr nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins og hún túlkuð sem stuðningur landsmanna við ESB-aðild þótt spurningin væri bæði loðin og leiðandi. Í september sl. var niðurstaðan hjá sama blaði hins vegar þveröfug: 56% voru andvíg því að skipta út krónu fyrir evru og 51 % andvíg aðild. Skoðanakannanir um ESB-aðild sveiflast upp og niður og í þetta sinn hafði gengisfall krónunnar mikil áhrif. Alþjóðlegir markaðir verðfelldu krónuna vegna vandræða stóru íslensku bankanna sem erlendir keppinautar gerðu að skotmarki og stimpluðu sem risa á brauðfótum vegna þess hve mjög þeir hafa þanist út á fáum árum.

En bankarnir rétta brátt úr kútnum og gengi krónunnar nær aftur jafnvægi. Þótt of lágt gengi valdi erfiðleikum er alltof hátt gengi hálfu verra; það veldur stöðnun og atvinnuleysi þegar til lengri tíma er litið. Við getum hrósað happi meðan efnahagslífið er ekki gikkfast í ofurháu gengi evrunnar sem einmitt nú er stóra vandamálið á evrusvæðinu.

Hátt vaxtastig á Íslandi er önnur helsta röksemdin fyrir ESB-aðild. Háu vextirnir eru helsta tæki kerfisins í baráttu við ofþenslu og verðbólguháska. Sumir ESB-sinnar snúa reyndar vaxtaumræðunni á hvolf og fullyrða að sjálfstæð peningastefna sé einskis virði því að háir stýrivextir hafi engin áhrif. Það eru miklar ýkjur enda væri þá ekki kvartað svo mjög yfir háu vaxtastigi. Og sannarlega væri gott að vera laus við háu vextina. En þá þarf að finna önnur úrræði í stað stýrivaxta Seðlabankans og skapa stöðugleika með því að hafa hemil á stórframkvæmdum sem setja allt á annan endann. Hitt er aftur á móti hlægileg ögrun við heilbrigða skynsemi að nefna evruna sem bjargvætt í glímunni við verðbólgu. Augljóst er að á undanförnu þensluskeiði hefðu evruvextir verkað hér á landi sem olía á verðbólgueldinn. Engir hefðu komið jafn-illa út úr því og launafólk. Sambland af alltof háu gengi evrunnar og lágum vöxtum kann að virðast girnilegur réttur við fyrstu sýn, en er í eðli sínu skaðlegasta mixtúra sem unnt væri að gefa efnahagslífi okkar eins og sakir standa og hefði valdið óðaverðbólgu en síðar stórfelldu atvinnuleysi þegar efnahagslífið hefði fest sig í sjálfheldunni.

Spurningin er þá: eru landsmenn orðnir svo þreyttir á fljótandi gengi krónunnar og meðfylgjandi gengisflökti að ekki verði hjá því komist að breyta til? Ef svo er mætti að sjálfsögðu taka aftur upp fast gengi sem sveiflast innan vissra marka miðað við meðalgengi nokkurra helstu mynta, svo sem evru, dollars og punds eins og var fyrir fáum árum. En hitt að fórna yfirráðum yfir fiskimiðunum til að geta tekið upp evru er að fara úr öskunni í eldinn. Þá væri þó skárra að taka upp gjaldmiðil ríkis sem ekki heimtar 200 mílna landhelgina í kaupbæti.

En talsmenn ESB-aðildar skauta alltaf létt framhjá landhelgismálinu og fullyrða blákalt að Íslendingar fengju undanþágur í sjávarútvegsmálum. Þeir benda einkum á undanþágu sem Danir fengu varðandi sumarbústaði útlendinga á vesturströnd Jótlands! Er þar ekki nokkuð ólíku saman að jafna? Vissulega finnast dæmi um undanþágur sem aðildarríki hafa fengið frá meginreglum ESB. En æðstu ráðamenn ESB hafa margsagt í viðræðum við íslensk stjórnvöld að Íslendingar geti aldrei undanþegið 200 mílna landhelgi sína; það myndi skapa fordæmi fyrir aðrar þjóðir, t.d. Breta sem haft hafa uppi sömu kröfu.

Margir hallast að inngöngu í ESB vegna þess hve mörg Evrópuríki hafa gengið þá götu; eðlilegast sé að fylgja straumnum. En menn verða að átta sig á að innganga í ESB er langtum óhagstæðari fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir. Í engu Evrópuríki vegur útflutningur sjávarafurða eins þungt og hér á landi eða um 38% (2007) en um leið er fiskurinn eina auðlindin sem ESB hefur beinlínis lagt undir sína stjórn. Á árlegum ráðherrafundi ESB eru ákvarðanir teknar um nýtingu sameiginlegra fiskimiða og er sá fundur oft nefndur „nótt hinna löngu hnífa“. Þar hefðu okkar menn 3 atkvæði af um 350.

Vel má vera að ráðherrar annarra ríkja sýni Íslendingum sanngirni og taki tillit til þess að við höfum setið einir að fiskimiðum okkar undanfarna áratugi. En eftir að við hefðum framselt þeim réttinn til að ráða yfir fiskimiðunum hefðum við enga tryggingu fyrir því að við yrðum ekki órétti beittir. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á stjórnarskrársáttmála ESB og þar er endanlega geirneglt að ESB hafi úrslitavald (exclusive competence) á sviði nýtingar sjávarauðlinda. Ljóst er að þessari meginreglu yrði ekki haggað í aðildarviðræðum.

Ragnar Arnalds,
fyrrv. ráðherra og formaður Heimssýnar.

(Birtist áður í Morgunblaðinu 26. apríl 2008 og á bloggsíðu höfundar)


Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Hreyfingin var stofnuð þann 27. júní 2002 en markmið hennar er að stuðla að opinni umræðu um Evrópu- og alþjóðasamstarf. Ávarp sem rúmlega hundrað félagsmenn í Heimssýn sendu frá sér í kjölfar stofnfundarins, og birtist í helstu prentmiðlum landsins, hljóðaði svo:

"Íslendingar hafa á tæpri öld fest sig í sessi sem sjálfstæð þjóð með öflugt atvinnu- og menningarlíf þar sem velferð þegnanna er tryggð. Einstakur árangur fámennrar þjóðar væri óhugsandi nema fyrir það afl sem felst í sjálfstæðinu. Við undirrituð leggjum áherslu á vinsamleg samskipti og víðtæka samvinnu við aðrar þjóðir í Evrópu og heiminum öllum en teljum það ekki samrýmast hagsmunum Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Við hvetjum til opinnar umræðu um Evrópu- og alþjóðasamstarf á þessum grunni og höfum stofnað samtök sem bera heitið Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum."

Merki hreyfingarinnar er auga með heiminn sem augastein og stendur fyrir það sjónarmið hennar að horfa beri til alls heimsins eftir frjálsum og friðsamlegum samskiptum, viðskiptum og samvinnu á jafnréttisgrunni en einblína ekki á afmarkaðan hluta hans.

Heimssýn hefur frá upphafi reitt sig alfarið á frjáls framlög til starfsemi sinnar. Sé áhugi á því að styrkja Heimssýn er hægt að leggja inn á reikning hreyfingarinnar nr. 101-26-5810. Kennitala Heimssýnar er 680602-5810.

Á aðalfundi Heimssýnar 5. júní 2007 var ný stjórn fyrir starfsárið 2007-2008 kjörin. Ragnar Arnalds, rithöfundur, var endurkjörinn formaður.

Aðalstjórn:
Formaður: Ragnar Arnalds, rithöfundur.
Varaformaður: Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður.
Gjaldkeri: Bjarni Harðarson, alþingismaður.
Ritari: Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur.
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður.
Gísli Freyr Valdórsson, stjórnmálafræðinemi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur. 
Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi.
Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra.

Varastjórn:
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður.
Davíð Örn Jónsson, verkfræðinemi.
Brynja Björg Halldórsdóttir, menntaskólanemi.
Eyjólfur Eysteinsson, fyrrv. útsölustjóri.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður.
Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Ingvar Gíslason, fyrrv. menntamálaráðherra.


Stjórnarskrá Evrópusambandsins staðfest í Danmörku

eu_constitutionForsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, sagði á sínum tíma að fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins myndi hafa slíkar breytingar í för með sér á sambandinu að ekki væri annað hægt en að leggja hana í dóm danskra kjósenda. Síðan var stjórnarskráin felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi og síðan kynnt til sögunnar á ný í breyttu formi og með nýtt nafn, Lissabon-sáttmálinn, þó innihaldið sé í öllum grundvallaratriðum það sama eins og ófáir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa staðfest.

En Rasmussen neitaði hins vegar alfarið að leggja Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæði, enda var lögð þung áherzla á það af hálfu Evrópusambandsins að koma yrði í veg fyrir að almenningur í aðildarríkjum sambandsins fengi tækifæri til að kjósa um sáttmálann - og hafna honum. Fyrir vikið verður væntanlega hvergi kosið um hann nema á Írlandi og aðeins vegna þess að írska stjórnarskráin krefst þess. Og nú hefur danska þingið staðfest Lissabon-sáttmálan án þess að danskir kjósendur fengu að segja álit sitt á honum. Og þannig mun að óbreyttu verða staðið að málum alls staðar innan Evrópusambandsins utan Írlands.

Tengt efni:
Kanslari Þýskalands í áróðursferð til Írlands
Segir ákvæði um aukin áhrif þjóðaþinga aðildarríkja ESB gagnlaus
Fyrirhuguð stjórnarskrá ESB samþykkt af leiðtogum aðildarríkjanna
Stjórnarskrá ESB í dularklæðum
Ráðherrum verður bannað að vinna að hagsmunum eigin ríkja
96% stjórnarskrárinnar í "nýja sáttmálanum"
Forystumenn ESB viðurkenna að stjórnarskráin muni í raun halda sér
Reynt að komast hjá þjóðaratkvæði um stjórnarskrána
Evrópusambandið hvetur til þess að breskir kjósendur séu hunsaðir

Ítarefni:
Samanburður á Lissabon-sáttmálanum og stjórnarskrá Evrópusambandsins
Leiðarvísir um Lissabon-sáttmálann

--- 

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


mbl.is Danska þingið samþykkir Lissabon-áætlunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi ósamræmi innan evrusvæðisins skapar efasemdir um framtíð þess

Financial Times greindi frá því 9. apríl sl. að vaxandi ósamræmis gætti á milli hagkerfa aðildarríkja evrusvæðisins sem gerði Seðlabanka Evrópusambandsins erfitt fyrir að halda úti sameiginlegri peningamálastefnu fyrir evruríkin. Eitt af því sem tilkoma evrusvæðisins átti að stuðla að var að hagsveiflur aðildarríkja þess samlöguðust sem er í raun ein forsenda þess myntbandalag geti starfað með eðlilegum hætti og þótt æskilegur kostur. Reyndin hefur þó orðið önnur og í raun hefur evrusvæðið aldrei uppfyllt þau hagfræðilegu skilyrði sem allajafna eru talin nauðsynlegar forsendur til þess að myntbandalög geti talist hagkvæmur kostur.

Samkvæmt kenningu bandaríska hagfræðingsins Robert Mundell, sem notið hafa vinsælda og viðurkenningar á meðal flestra hagsfræðinga, má skipta þessum skilyrðum í þrennt:

  1. Hagsveiflur á milli þeirra ríkja sem mynda viðkomandi myntbandalag verða að vera í takt þannig
    að ekki sé þörf á sjálfstæðri peningamálastefnu fyrir hvert ríki.
  2. Laun þurfa að vera sveigjanleg þannig að þau lækki þegar og þar sem eftirspurn minnkar en hækki þar sem eftirspurn eykst. Þannig sé tryggt að atvinnustigið haldist stöðugt þrátt fyrir að hagsveiflan sé ekki alls staðar sú sama og sjálfstæð peningamálastjórntæki aðildarríkjanna hafi verið tekin úr sambandi.
  3. Vinnuafl þarf að vera hreyfanlegt innan myntbandalagsins þannig að fólki geti á auðveldum hátt flutt af þeim svæðum þar sem atvinnuleysi ríkir þangað sem eftirspurn er eftir vinnuafli.

Samkvæmt kenningu Mundells nægir að eitt þessara skilyrða sé uppfyllt til að aðild að myntbandalagi geti talist hagkvæmur kostur. En eins og áður segir uppfyllti evrusvæðið þessi skilyrði ekki í upphafi og gerir ekki enn. Engu að síður var farið af stað með verkefnið. Nokkuð sem í sjálfu sér ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að evrusvæðið er fyrst og síðast hugsað sem pólitískt fyrirbæri, þ.e. stórt skref í átt til aukins samruna innan Evrópusambandsins, en ekki hagfræðilegt. M.ö.o. var það sem réð för pólitík en ekki hagfræði.

Heimildir:
European growth rates pull in different directions (Financial Times 09/04/08)
Euro-Zone Growth Slows, As North, South Diverge (Wall Street Journal 03/04/08)

Tengt efni:
Issing segir efnahagslegar undirstöður evrusvæðisins vera gallaðar

Ítarefni:
Kostir og gallar upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi
Á evrusvæðið framtíðina fyrir sér?

--- 

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Þingflokkur Frjálslynda flokksins segir evru og ESB enga lausn

Efnahagsvandinn og fjármálakreppa bankakerfisins verða ekki leyst með aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Tal um slíkt er ábyrgðarlaust. Upptaka annars gjaldmiðils leysi heldur ekki vandann.

Þetta segir í ályktun þingflokks Frjálslynda flokksins um efnahagsvandann og Evrópusambandið. Jafnframt segir að flokkurinn hafi allan vara á um hugsanlega Evrópusambandsaðild enda ófrávíkjanleg afstaða flokksins að Íslendingar fari með forræði fiskistofnanna og fiskveiðilögsögunnar og annarra sameiginlegra auðlinda

Heimild:
Engin lausn í evru eða ESB (Fréttablaðið 10/04/08)

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 142
  • Sl. sólarhring: 416
  • Sl. viku: 1999
  • Frá upphafi: 1109287

Annað

  • Innlit í dag: 131
  • Innlit sl. viku: 1742
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 130

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband