Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Stærsti dráttarklárinn í Evrópu hægir á ferðinni

Þetta er verulegt áhyggjuefni fyrir ESB og evrulöndin - og reyndar flest Evrópulönd. Þýskaland, stærsti dráttarklárinn í efnahagslífi Evrópu, er eitthvað að linast og atvinnuleysi eykst. Það getur dregið máttinn úr allri Evrópu.
mbl.is Fleiri atvinnulausir í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga á evrusvæðinu er komin undir núllið

eurobroken
Það er næsta víst að hin raunverulega verðbólga er neikvæð á evrusvæðinu miðað við það að opinberlega mæld verðbólga er 0,3%. Þetta segir okkur að efnahagsstjórn með evrunni er mjög erfið um þessar mundir.
 
Mbl.is greinir svo frá (þarna á væntanlega að standa að verðbólgan sé 0,3 - en ekki að hún hafi dregist saman um 0,3%). 
 
 

Verðbólga á evru­svæðinu dróst sam­an um 0,3% í sept­em­ber sam­kvæmt op­in­ber­um töl­um sem birt­ar voru í dag. Þetta er minnsta verðbólga sem mælst hef­ur á svæðinu í tæp fimm ár sam­kvæmt frétt AFP.

Fram kem­ur í frétt­inni að Evr­ópski seðlabank­inn kunni að þurfa að grípa til enn frek­ari aðgerða í kjöl­far þess­ara talna til þess að reyna að koma í veg fyr­ir að verðhjöðnun verði á evru­svæðinu.

Enn­frem­ur seg­ir að lít­il verðbólga sé orðin að helsta vanda­máli svæðis­ins. Minnk­andi eft­ir­spurn sé inn­an þess og ótt­ast að hæga­gang­ur í hag­kerf­um evru­ríkja kunni að leiða til nýrr­ar niður­sveiflu.

Þá kem­ur fram að at­vinnu­leysi á evru­svæðinu hafi mælst 11,5% í ág­úst sem sé óbreytt frá júlí­mánuði sam­hliða stöðnun á svæðinu og óvissu um áhrif refsiaðgerða gegn Rússlandi á efna­hag evru­ríkja. 

mbl.is Stöðnun ríkjandi á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bágt ástand í Evrópu bitnar á Íslandi

Bágt efnahagsástand í Evrópu, sem er fylgifiskur evrunnar, bitnar á útflutningi frá Íslandi. Um það eru hagfræðingar sammála um.
 
RUV greinir svo frá  - en það vantar reyndar alveg evrutenginguna í þessa frétt. Grunnvandinn er misvægi í verðþróun sem magnast vegna sameiginlegs gjaldmiðlis, misvægi í verði á útflutningi, misvægi í utanríkisviðskiptum, skuldasöfnun og atvinnuleysi og auk þess harkalegur samdráttur - aftur að frétt RUV: 
 
 

Afar lítill hagvöxtur er fyrirsjáanlegur í helstu löndum Evrópusambandsins á þessu og næsta ári, þrátt fyrir tilraunir Evrópska seðlabankans til að auka fjármagn í hagkerfum evrulandanna. Ástandið hefur á endanum áhrif hér á landi, segja innlendir hagfræðingar.

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Mario Draghi, yfirmaður Evrópska seðlabankans að evrópskum bönkum stæði til boða fyrsti hlutinn af 400 milljarða evra lánapakka á nánast engum vöxtum. Markmiðið með þessu er að ýta undir lánveitingar til fyrirtækja - og reyna að koma hagvexti aftur af stað.

„Það þýðir það að þeir eiga í erfiðleikum með að koma eftirspurn af stað; þeir eiga í erfiðleikum með að ýta fjárfestingu af stað og eru farnir núna að grípa meira til þeirra ráða að prenta peninga, setja peninga út í hagkerfið eins og Bandaríkjamenn og Bretar hafa gert,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, er ánægður með aðgerðir Evrópska seðlabankans. „Það hefur verið til bóta og í sjálfu sér væri ástandið mun verra ef þeir hefðu ekki gert þetta. En það þarf eitthvað fleira til og ef einkageirinn, neytendur, halda að sér höndum og fyrirtækjarekendur þora ekki að fjárfesta, þá duga lágir vextir ekki til, þá þarf annað að koma til, hugsanlega aukin ríkisútgjöld eða einhverjar slíkar aðgerðir.“

Þjóðarframleiðsla á Evrusvæðinu dróst saman í fyrra, verðbólga er nánast engin og verðhjöðnun gæti átt sér stað. Evrópuþjóðirnar horfa gjarnan til Þýskalands - sem er öflugasta hagkerfið í álfunni.

„Þýskaland mætti gjarnan keyra upp eftirspurn,“ segir Gylfi. „Þýskir neytendur þyrftu að kaupa meira, meðal annars frá nágrönnum sínum á evrusvæðinu, en þeir halda að sér höndum, flytja bara út, flytja lítið inn og það er slæmt fyrir nágrannana og slæmt fyrir evrusvæðið.“ Og allt þetta skiptir á endanum máli fyrir íslenskt efnahagslíf. „Evrusvæðið, eða Evrópusambandið er okkar stærsti viðskiptaaðili, þannig að slæmt efnahagsástand þar er ekki góðar fréttir fyrir okkur, það er einfaldlega bara þannig.“

Ásgeir tekur undir að þetta geti haft áhrif hérlendis. „Þetta eru okkar helstu markaðir og ekki bara það. Ef við viljum fá erlenda fjárfestingu þá kemur hún þaðan, þannig að það skiptir okkur gríðarlegu máli að þeim gangi að leysa úr sínum málum.“ 

Cameron reiðubúinn að styðja úrsögn Breta úr ESB

CamHol
Úrsögn Breta úr ESB er að verða æ skýrari valkostur. Nú síðast er haft eftir David Cameron að hann gæti hugsað sér að beita sér fyrir því að Bretar gangi úr ESB ef ekki tekst að endursemja með árangursríkum hætti um veru þeirra í sambandinu. Þar með er Íhaldsflokkurinn svo gott sem búinn að ábyrgjast að hann styðji úrsögn - því þær breytingar sem Bretar vilja gera myndu ganga af ESB dauðu.
 
Mbl.is segir svo frá: 
 

For­sæt­is­ráðherra Bret­lands, Dav­id Ca­meron, hef­ur gefið til kynna að hann sé reiðubú­inn að beita sér fyr­ir því að Bret­ar gangi úr Evr­ópu­sam­band­inu ef ekki tekst að end­ur­semja með ár­ang­urs­rík­um hætti um veru þeirra í sam­band­inu. Ca­meron hef­ur til þessa tala fyr­ir áfram­hald­andi veru í ESB á breytt­um for­send­um.

Fram kem­ur á frétta­vef breska dag­blaðsins Daily Tel­egraph að bú­ist sé við að Ca­meron noti ræðu sína á flokksþingi Íhalds­flokks­ins sem nú stend­ur yfir til þess að kynna áætlan­ir um að end­ur­heimta frek­ari völd yfir landa­mær­um Bret­lands og til þess að stemma stig­um við kom­um inn­flytj­enda til lands­ins frá öðrum ríkj­um ESB.

Litið er á út­spil for­sæt­is­ráðherr­ans sem viðbrögið við úr­sögn tveggja þing­manna Íhalds­flokks­ins að und­an­förnu en þing­menn­irn­ir, Mark Reckless og Douglas Carswell, hafa gengið til liðs við Breska sjálf­stæðis­flokk­inn (UKIP). 

Ca­meron hef­ur heitið því að boða til þjóðar­at­kvæðis um veru Bret­lands í ESB árið 2017 í kjöl­far samn­ingaviðræðna við sam­bandið um aðild lands­ins nái Íhalds­flokk­ur­inn meiri­hluta þing­sæta á breska þing­inu í þing­kosn­ing­un­um á næsta ári. 

mbl.is Gæti stutt úrsögn úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar Grímsson forseti gleymir tvennu

olafur-ragnar-aramot-2008

Það er rétt hjá Ólafi Ragnari Grímssyni forseta að evran hefði ekki komið að góðu haldi í hruninu sjálfu. En hann gleymir tvennu. Ef við hefðum verið með evruna á árunum fyrir hrunið hefði vandinn að sumu leyti orðið enn stærri en hann varð.  Bankarnir hefðu að öllum líkindum orðið stærri og ríkið og skattgreiðendur hefðu orðið að taka á sig miklu meiri byrðar en ella.

Í fyrsta lagi verðum við að muna að eftirlitskerfið hér á landi byggðist á samevrópskum reglum. Sjálfsagt hefðu bankarnir miklu fyrr fengið lækkaða bindiskyldu en varð í aðdraganda hrunsins og því getað þanist út fyrr og meir. Þeir kröfðust jú þess að sitja við sama borð og evrópskir bankar hvað það varðar, enda störfuðu þeir samkvæmt þeim ESB-reglum sem við höfðum tekið upp. Krónan var auk þess vissulega hraðahindrun í stækkun bankanna. Með evrunni hefðu þeir getað þanist miklu auðveldar út. 

Í öðru lagi hefðu Íslendingar orðið að fara sömu leið og Írar og aðrar þjóðir þegar kom að viðbrögðum við bankahruninu. Stjórnvöld á Íslandi hefðu orðið að ábyrgjast skuldir bankanna eins og írsk stjórnvöld gerðu, svo dæmi sé tekið. Við munum hvernig evruríkin komu fram gagnvart okkur í Icesave-málinu. Þau vildu að ríkið ábyrgðist skuldir bankanna. Þess vegna var það mikil mildi að neyðarlögin voru sett áður en samvinnan við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hófst (flestir muna jú eftir kröfum ESB-ríkjanna í stjórn AGS um að við myndum ábyrgjast Icesave). Hefðu neyðarlögin ekki verið sett áður en samvinnan við AGS hófst hefðu skattgreiðendur hér á landi ekki aðeins orðið að ábyrgjast Icesave heldur einnig miklu stærri hluta af skuldbindingum íslensku bankanna.

Vitaskuld gefst ekki mikill tími til útskýringa í stuttu sjónvarpsviðtali. Og Ólafur veit þetta alveg sem nefnt er hér að ofan þótt hann hafi ekki getað komið því að í viðtalinu.

Þess vegna er fullyrðingin í fyrirsögninni kannski aðeins of stór. En í ljósi þess sem ýmsir evru- og ESB-sinnar halda fram um að evru- og ESB-aðild hefði bjargað okkur í hruninu er rétt að undirstrika að með evru hefði skuldastaða íslenska ríkisins og skuldbindingar íslenskra skattborgara án efa verið talsvert þyngri en hún er þó í dag.


mbl.is Evran hefði ekki gagnast Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson ítrekar ESB-stefnuna í erlendum fjölmiðlum

Bjarni

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðhera ítrekaði í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina í morgun að það væri stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að vera utan ESB og að evran væri ekki góður gjaldmiðill fyrir okkur Íslendinga.

Bjarni benti enn fremur á að hin þráláta stöðnun sem ríkti í efnahagsmálum evrusvæðisins væri alvarlegt áhyggjuefni og ekkert til að sækjast eftir. 


mbl.is Bjarni: Þurfum ekki aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuttugu þúsund milljarða kostnaður á ári vegna spillingar í ESB

Ýmsum er tíðrætt um spillingu þessa dagana, meðal annars í ESB. Í skýrslu sem unnin var á þeim bæ er birt það mat að kostnaður vegna spillingar í ESB-ríkjunum sé um 120 milljarðar evra á ári eða sem nemur tæplega tuttugu þúsund milljörðum króna. Þetta er metið vera um eitt prósent af heildarvirði ársframleiðslu í ESB-ríkjunum.
 
Sjá hér:
 
http://ec.europa.eu/dgs/home-affairs/what-we-do/policies/organized-crime-and-human-trafficking/corruption/index_en.htm

Misskilningur Egils Helgasonar

silfuregils_ruv

Andstaða við aðild að ESB hér á landi byggist að mestu leyti á því að okkur muni farnast betur efnahagslega að vera fyrir utan ESB. Þannig héldum við yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindum landsins. Enn fremur er hætt við að aðild að myntbandalagi evrunnar færi illa með okkur þar sem hagsveiflur og hagþróun er með allt öðrum hætti hér á landi en á meginlandi Evrópu.

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason gerir því skóna að aðild að ESB byggist einkum á þeirri trú að ESB-aðild myndi ógna þjóðerni Íslendinga. Það er óljóst hvernig hann kemst að þessari niðurstöðu, en umræðan um aðild að ESB hefur lítið ef eitthvað snúist um þetta upp á síðkastið.

Þvert á móti snýst andstaðan við ESB-aðild að miklu leyti um það að yfirráð yfir auðlindum okkar og þar með yfir þeim grunni sem velferð okkar byggist á myndi færast til Brussel. Jafnframt byggist andstaðan á því að vald til samninga við önnur ríki, t.d. til að gera viðskiptasamninga og fiskveiðisamninga við önnur ríki, flytjist frá Íslandi til Brussel.

Andstaðan við aðild að ESB hefur því ekki snúist um þjóðerni sem slíkt heldur um inntak þess lífs sem við lifum á Íslandi og hvort við viljum stjórna okkar málum meira eða minna. Þjóðerni er þar í sjálfu sér aukaatriði.

 


Er íbúum ESB-landa fyrirmunað að vinna?

Unemployment_rates_seasonally_adjusted_July_2014

Atvinnuþátttaka í mörgum Evrópulöndum er lítil og lífeyrisaldur víða lágur. Atvinnuleysi er mikið. Á evrusvæðinu er það um 12%. Það er frá 5% í Þýskalandi og upp í 27% í Grikklandi. Vinnandi stéttir standa varla undir velferðarkerfinu og hagkerfið stendur í stað.

Hér á Íslandi er atvinnuþátttaka með því hæsta sem gerist, eða tæplega 80%. Óvíða er atvinnuþátttaka kvenna hærri, en það þykir til marks um að jafnrétti kynja sé meira hér á landi en víðast annars staðar. Atvinnuleysi hér á landi er aðeins 3,3% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Meðaltalið í evrulöndunum er um 12%. Þrjátíu milljónir manna ganga atvinnulausar í ESB-löndunum - fyrir utan álíka fjölda sem ætti að vera á vinnumarkaði en er það ekki.

Það er nefnilega sjaldan nefnt í umræðunni að þátttaka á vinnumarkaði í Evrópu er víða fremur lítil. Þannig er atvinnuþátttakan oft aðeins í kringum 60%, eins og á Ítalíu, á meðan hún er nálægt 80% hér á landi.

Þá er oft ekki talið með hið dulda atvinnuleysi þegar rætt er um atvinnuleysistölur. Þekkt er þegar Göran Persson og jafnaðarmannaflokkur Svíþjóðar töpuðu þingkosningunum árið 2006 vegna þess að sannað þótti að þeir áttu þátt í að fela atvinnuleysi með því að skrá fólk veikt og að hluta á lífeyri í stað þess að skrá það atvinnulaust.

Víða í Evrópu er eftirlaunaaldur mun lægri en hér á landi og hafa ófáar tilraunir verið gerðar til að hækka hann. Ýmsir hópar fara á eftirlaun 55 ára eða fyrr, ekki aðeins í Suður-Evrópu, heldur hefur þessi þróun náð víða.

Með hækkandi lífaldri, lágum eftirlaunaaldri og miklu atvinnuleysi eru það því sífellt færri sem standa undir velferðarkerfi Evrópulanda.

Það er verulegt áhyggjuefni.

 

Sjá nánar hér og hér.  


Hardtalk: Töpuð ár evrunnar

Einn af virtustu hagfræðingum Þjóðverja, Peter Bofinger, segir evrusvæðið enn í mikilli og viðvarandi kreppu. Forystumönnum hafi ekki tekist að leysa þann vanda sem veldur stöðnun og miklu atvinnuleysi á svæðinu.
 
 
Á Peter, sem er í ráði efnahagssérfræðinga í Þýskalandi, var að skilja að langt væri í að evrusvæðið hefði sig upp úr vandanum.
 
Merkilegt að ennþá séu þeir til hér á landi sem telja að aðild að ESB og upptaka evru muni bæta hag landsmanna.

Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 1692
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband