Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018
Föstudagur, 31. ágúst 2018
Ræða Bjarna á fundi sjálfstæðismanna
Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur flutti áhugaverða ræðu á fundi á vegum hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldinn var síðdegis í gær. Bjarni hefur orðið við beiðni Heimssýnar og leyft birtingu ræðunnar hér.
Áhrif Þriðja orkupakka Evrópusambandsins á gerð íslenzka raforkumarkaðarins
Í ályktun atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í marz 2018 er eftirfarandi í kaflanum um iðnaðar- og orkumál:
Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.
Spurningin er: snertir þessi ályktun efni Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB ?
Lítum fyrst á nýtt embætti, sem verður til hérlendis, ef Alþingi staðfestir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn:
Embættið hefur manna á millum fengið íslenzka heitið Landsreglari, og á norsku heitir það Reguleringsmyndighet for energi eða Yfirvald orkustjórnunar.
Embættið mun fara á íslenzku fjárlögin og taka við yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki Orkustofnunar og Iðnaðarráðuneytisins með einokunar- og sérleyfisþáttum orkugeirans, þ.e. Landsneti og dreifiveitunum, yfirfara og samþykkja netmála þeirra og gjaldskrár.
Starfsemi Landsreglarans á að verða algerlega óháð yfirvöldum landsins, þ.e. framkvæmdavaldinu, og endanlegt úrskurðarvald um ágreiningsmál vegna starfa hans verður hjá EFTA-dómstólinum. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, verður hinn formlegi eftirlits- og stjórnunaraðili Landsreglarans, en ESA mun taka við tilmælum, ákvörðunum og úrskurðum frá ACER-Orkustofnun ESB (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB. Það er yfirlýst forsenda þessa fyrirkomulags, að ESA geri samhljóða samþykktir og ACER. Þannig lýtur Landsreglarinn í raun boðvaldi Orkustofnunar ESB.
Hlutverk Landsreglarans verður m.a. að hafa eftirlit með raforkumarkaðinum hérlendis. Hann skal sjá um, að þessi markaður starfi með eins viðskiptalega skilvirkum hætti og kostur er, og í ESB-löndunum hefur þetta verið túlkað sem frjáls samkeppnismarkaður, þar sem seljendur og kaupendur hittast rafrænt í raforkukauphöll með sín sölu- og kauptilboð á tilgreindu orkumagni á tilteknu tímabili. Slíkt uppboðskerfi raforku tíðkast í nokkrum svæðiskauphöllum, sem í heild spanna allt ESB-svæðið, þannig að uppboðskerfi raforku er hið viðtekna viðskiptakerfi ESB með raforku.
Annars konar fyrirkomulag, eins og t.d. hið íslenzka, þar sem auglýstar gjaldskrár tíðkast fyrir raforku til almennings og langtímasamningar um mikil orkukaup, er innan ESB/ACER ekki talið til þess fallið að nýta raforkuna með hagkvæmasta hætti og að beina raforkunni helzt til þeirra, sem hæsta verðið vilja borga.
Landsnet hefur um nokkurra ára skeið unnið að undirbúningi raforkukauphallar og reyndar rekið vísi að slíkri fyrir eina tilgreinda þjónustu, útvegun jöfnunarorku, sem er mismunur áætlaðrar og notaðrar orku fyrir hverja klukkustund.
Líklegt er, að Landsreglarinn muni hvetja til markaðsvæðingar á raforku til almennings í anda ESB og benda á, að slíkt sé góður undirbúningur fyrir hugsanlega sæstrengstengingu við Evrópu. Það blasa hins vegar við alvarlegir annmarkar á slikri markaðsvæðingu, m.a. vegna fákeppni og yfirburðastöðu eins orkuvinnslufyrirtækisins, Landsvirkjunar, með um 80 % heildarmarkaðshlutdeild. Til samanburðar er heildarmarkaðshlutdeild Statkraft í Noregi 34 %. Til leiðréttingar á þessu mikla misvægi á markaði er ekki loku fyrir það skotið, að markaðsaðilar muni kvarta við ESA eða ESA jafnvel eiga frumkvæði að kröfugerð á hendur stjórnvöldum um ráðstafanir til að jafna samkeppnisstöðuna á raforkumarkaðinum.
Um 80 % íslenzka raforkumarkaðarins er bundinn með langtímasamningum. Þeir munu ekki haggast út gildistíma sinn, hvort sem Ísland gengur í Orkusamband ESB eða ekki, en meiri áhöld eru um, hvað tekur þá við, og hvernig nýir raforkusamningar verða, þ.e. hvort langtímasamningar, t.d. til 20 ára, um raforkuviðskipti, verða taldir í samræmi við reglur um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði.
Í þessu sambandi má líta til samskipta ESA við norsku ríkisstjórnina. Til að laða til Noregs fjárfestingar stóriðjufyrirtækja bauð ríkisraforkufyrirtækið Statkraft slíkum fyrirtækjum lengi vel hagstæðara raforkuverð en á boðstólum var víðast hvar annars staðar í Evrópu gegn skuldbindingum um langtíma raforkukaup í dreifðum byggðum Noregs. Flestir samninganna runnu út á tímabilinu 2004-2011. Þegar ríkisstjórnin árið 1999 gerði sig líklega til að framlengja samningana, þótt uppboðsmarkaður á raforku hefði verið við lýði í Noregi síðan 1991, barst skýr aðvörun frá ESA: slíkir samningar yrðu metnir til ríkisstuðnings, sem eru óleyfilegir samkvæmt EES-samninginum. ESA mat þetta þannig, að slíkir langtímasamningar, sem taldir voru þó báðum aðilum hagstæðir, skekkti samkeppnisstöðu annarra evrópskra stóriðjufyrirtækja og tók þá ekkert tillit til meiri fjarlægðar frá mörkuðum og hærra kostnaðarstigs í Noregi en á meginlandi Evrópu. Norska ríkisstjórnin hlýddi ESA og ákveðið var að framlengja ekki raforkusamningana. Mikil vinna fór í að finna lausn á þessu, og árið 2011 ábyrgðist norska ríkið, til að viðhalda starfsemi orkukræfra verksmiðja í Noregi, að þær fengju hagstæðara verð en á markaðinum. Síðan hafa verið gerðir langtímasamningar, sem þó taka mið af markaðsverði. Þetta hefur ESA samþykkt. Segja má, að þessi staða auki óvissu um það, hvort nýir langtímasamningar muni takast á Íslandi, þegar gamlir samningar renna sitt skeið á enda og þegar reynt verður að gera viðbótar samninga við þá, sem fyrir eru.
Nú er spurningin sú, hvaða breytingum má búast við á raforkuverðinu á Íslandi með uppboðsmarkaði fyrir raforku án aflsæstrengs til útlanda ? Við því er varla hægt að gefa annað en véfréttarsvar: verðið mun ráðast af framboði og eftirspurn. Þetta þýðir, að það mun sveiflast innan sólarhringsins, vikunnar og árstímans.
Víkjum nú að millilandatengingum rafkerfa. Eitt af meginstefnumiðum Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og eitt af meginhlutverkum Orkustofnunar ESB, ACER, er að auka flutningsgetu raforku á milli ESB-landanna úr núverandi 10 % af vinnslugetu raforku og í 30 % og útrýma þar með flöskuhálsum flutningskerfisins, svo að forsendur skapist til jöfnunar raforkuverðs á milli ESB-landanna. Miðað er við, að munurinn verði mest 2 EUR/MWh eða 0,25 ISK/kWh. Til að vinna þetta með skipulegum hætti lét framkvæmdastjórn ESB semja kerfisþróunaráætlun til 10 ára um æskilegar millilandatengingar og ber öllum aðildarlöndum að laga sínar kerfisáætlanir að henni og styðja við framkvæmd hennar með ráðum og dáð.
Nú vill svo til, að á forgangsverkefnaskrá kerfisþróunaráætlunar ESB/ACER er aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands. Hann er þar á hagkvæmniathugunarstigi, og stærð hans er þar af leiðandi óákveðin. Ef þessi sæstrengur kemst upp á hönnunarstig og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn verður samþykktur á Alþingi, þá verður Landsnet að taka hann með í kerfisáætlun sína.
Það verður Landsreglarinn, sem fá mun það hlutverk að skilgreina kröfurnar, sem þarf að uppfylla til að fá leyfi fyrir lagningu sæstrengs. Ef umsækjandinn uppfyllir alla skilmálana, þá verður ekki séð, hvernig leyfisveitandinn, Orkustofnun, getur hafnað umsókninni. Slíkt verður illa þokkað af ACER, og stjórnvöld hérlendis verða þar með talin leggja stein í götu sameiginlegrar kerfisþróunaráætlunar. Það er mjög líklegt, að umsækjandinn kæri slíka synjun til ESA, og það er litlum vafa undirorpið, hvernig ESA og EFTA-dómstóllinn munu úrskurða um þennan sæstreng.
Verði lagður hingað aflsæstrengur, er það Landsreglarinn, sem ákveður í hvaða raforkukauphöll Ísland verður, og Landsreglarinn setur reglurnar um það, hvernig orkuflæðinu verður stjórnað um strenginn. Það er langlíklegast, að raforkumarkaður Nord Pool verði fyrir valinu, og þar eru fyrir 20 Evrópulönd, t.d. hin Norðurlöndin, Bretland og Þýzkaland.
Það er líklegt, að hinn örlitli markaður almennra raforkunotenda á Íslandi muni finna harkalega fyrir tengingunni inn á Nord Pool. Verðið þar núna markast mest af eldsneytisverði og framboði slitróttra endurnýjanlegra orkulinda á borð við sól og vind. Raforkuverð í landinu mun án vafa hækka, og heildsöluverð rafmagns verða líklega litlu neðan við verðið á Bretlandi. Raforkuverðið á Bretlandi er sveiflukenndara en á Norðurlöndunum, og þess mun þá gæta hérlendis. Ekki mun bæta úr skák, að gjaldskrár Landsnets til almennings og stóriðju munu hækka, af því að samkvæmt reglum ESB/ACER verða landsmenn sjálfir að bera kostnaðinn af nauðsynlegri styrkingu flutningskerfisins frá virkjunum að landtökustað sæstrengsins.
Spurningunni, sem varpað var fram í upphafi verður þess vegna aðeins með réttu svarað þannig, að tilvitnuð Landsfundarályktun á algerlega við Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB. Téður lagabálkur felur raunverulega í sér valdframsal frá Íslandi til Orkustofnunar ESB.
Garðabæ, 30.08.2018 / Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. ágúst 2018
Sjálfstæðismenn eru algjörlega á móti orkupakka ESB
Af gefnu tilefni, um leið og við minnum á fund sjálfstæðismanna um málið á eftir, endurflytjum við þessa frétt frá því í maí í ár:
Íslendingar eru á móti því valdaframsali í orkumálum sem nýjar tilskipanir ESB fela í sér. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem Heimssýn hefur fengið fyrirtækið Maskínu til að gera. Spurt var: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært ti l evrópskra stofnana? Samtals eru 80,5% þjóðarinnar andvíg því að færa vald yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana. Þar af eru 57,4% mjög andvíg og 23% frekar andvíg. Hins vegar eru 8,3% hlynnt því.
Sjá hér áréttingu Heimssýnar í tilefni af áformum um upptöku þriðja orkupakka ESB i EES-samninginn.
Mbl.is greinir svo frá könnuninni:
Tryggja þarf fullveldi EFTA-ríkjanna
Tilefni könnunarinnar er umræða á undanförnum mánuðum um fyrirhugaða þátttöku Íslands í svonefndum þriðja orkupakka Evrópusambandsins og Orkustofnun sambandsins í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna aðildar landsins að EES-samningnum.
Meirihluti kjósenda allra flokka andvígur
Meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi er andvígur því að færa vald yfir orkumálum á Íslandi til evrópskra stofnana. Mest andstaðan er á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem 91,6% eru andvíg og 2,8% hlynnt.
Þar á eftir koma stuðningsmenn Flokks fólksins með 64,1% andvíg og 6,3% hlynnt, Samfylkingarinnar með 63,8% andvíg og 18,6% hlynnt og loks stuðningsmenn Pírata með 60,8% andvíg og 18,7% hlynnt. Aðrir stuðningsmenn flokkanna eru í meðallagi andvígir/âfylgjandi.
Þeir sem búa utan Reykjavíkur andvígari
Þegar kemur að kynjum eru 83,8% kvenna andvíg því að vald yfir stjórn íslenskra orkumála sé fært til evrópskra stofnana og 5,5% fylgjandi á meðan 77,7% karla eru andvíg og 10,4% hlynnt. Andstaðan eykst eftir því sem fólk er eldra og meiri andstaða er utan Reykjavíkur.
Hvað menntun varðar eru þeir sem eru með framhaldsskólapróf/âiðnmenntun mest andvígir eða 85,6% þeirra en 5% hlynnt. Þá koma þeir sem eru með grunnskólapróf (79,2% andvíg og 8,2% hlynnt) og þeir sem hafa háskólapróf (77,8% andvíg og 9,7% hlynnt).
Þegar kemur að tekjum er andstaðan við slíka færslu á valdi úr landi mest á meðal þeirra sem eru með 800-999 þúsund krónur í mánaðarlaun (88,5% andvíg og 3,5% hlynnt) og næst mest hjá þeim sem eru með 400-549 þúsund krónur (84,4% hlynnt og 5,7% hlynnt).
Þriðjudagur, 28. ágúst 2018
ESB grefur undan lýðræði í Svíþjóð
Sænska ríkisútvarpið greinir frá nýbirtri rannsóknarskýrslu vísindamanna sem gagnrýna hve lítið rætt er um stór ESB-mál fyrir kosningarnar sem verða í byrjun næsta mánaðar. Vísindamennirnir segja að þar með sé grafið undan lýðræðislegri umræðu um stór mál svo sem aðildargjöld Svíþjóðar, innflytjendamál og Brexit.
Rolf Fredriksson, fréttamaður SVT, segir ýmislegt benda til að aðildargjöld Svíþjóðar muni aukast - en um það sé ekkert rætt í Svíþjóð. Þá kemur fram að kjósendur viti varla hvaða skoðanir flokkar og stjórnmálamenn hafi á ESB-málum. Ein af ástæðum þess að ESB-málin eru ekki rætt eru mismunandi skoðanir stjórmmálamanna og kjósenda þeirra. Stjórnmálamenn vilji einfaldlega ekki ræða um stór álitamál sem tengjast ESB af því að kjósendur þeirra eru ósammála þeim. Þetta er stórt lýðræðislegt vandamál, segja höfundar nýlegrar skýrslu um efnið.
Mánudagur, 20. ágúst 2018
Ine Marie leggst á Guðlaug Þór
Þingmaður norska Miðflokksins, Sigbjørn Gjelsvik, telur forkastanlegt að utanríkisráðherra Noregs, Ine Marie Eriksen Søreide, skuli vera að reyna að beita Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, og Íslendinga þrýstingi til að samþykkja tilskipun um þriðja orkupakka Evrípusambandsins. Þingmanninum finnst að Íslendingar eigi taka sjálfir ákvörðun án þess að Norðmenn séu að skipta sér af slíku. Norskir fjölmiðlar greina frá þessu - og Morgunblaðið segir frá þessu hér.
Sögð beita Ísland þrýstingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 15. ágúst 2018
Klárt stjórnarskrárbrot ef framselja á vald í orkumálum til Evrópusambandsins
Það er klárt stjórnarskrárbrot ef framselja á vald í orkumálum til Evrópusambandsins. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Haraldar Ólafssonar formanns Heimssýnar í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu í gær.
Haraldur segir þær hugmyndir um valdaframsal í þessum efnum fráleitar, enda sé nánast öll þjóðin á móti valdaframsali það er alveg ótrúlegt að nokkrum skuli detta í hug að leggja slíkt til við sjálft Alþingi, þetta er alveg ótrúlegt og alveg út í höll,segir Haraldur. Haraldur segir að það að framselja vald til Evrópusambandsins megi líkja við það sem hann kallar pylsukenninguna ef þú tekur sneið af spægipylsu þá er alveg sama hversu þunna sneið þú skerð þá verður pylsan á endanum búin, og þannig allt vald komið yfir til Evrópusambandsins.
Hlusta má á þáttinn hér.
Miðvikudagur, 15. ágúst 2018
Óli Björn segir framsal valdheimilda óstjórnlegt reglufargan
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að framsal valdheimilda með EES-samningnum hafi orðið meira en nokkurn óraði fyrir og að íslenskt samfélag sé að breytast í reglugerðarsamfélag. Hvorki almenningur né kjörnir fulltrúar á Alþingi eigi möguleika á að móta regluverkið að neinu marki.
Óli Björn segir EES-samninginn nú allt annan en þann sem var samþykktur á sínum tíma. Þá segir Óli Björn að Alþingi hafi aldrei látið reyna á stjórnskipulegan fyrirvara sem þó hafi verið ein helsta forsenda þess að samningurinn var samþykktur hér á landi í upphafi.
Þá segir Óli og vitnar til orða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins:
Í umræðum um lög um afleiðuviðskipti í febrúar síðastliðnum benti hann á að Íslendingar stæðu frammi fyrir því í hverju málinu á eftir öðru, það er nánast orðinn árlegur viðburður, að Evrópusambandið krefst þess þegar við tökum upp Evrópugerðir, tilskipanir eða reglugerðir, að við Íslendingar fellum okkur við að sæta boðvaldi, úrslitavaldi, sektarákvörðunum eða með öðrum hætti skipunum frá alþjóðastofnunum sem Evrópusambandið hefur komið sér upp en við eigum enga aðild að. Með þessu sé vegið að grunnstoðum EESsamningsins og tveggja stoða kerfinu.
Grein Óla Björns er birt í Morgunblaðinu í dag.
Sunnudagur, 5. ágúst 2018
Auðlindir í eigu þjóðar er árétting um fullveldi
Þeir atburðir sem nú hafa orðið, m.a. stórfelld jarðakaup erlendra aðila og áhyggjur af eignarhaldi einstaklinga eða lögaðila á landi eða bújörðum eru þess eðlis að varpa öðru ljósi á hugmyndir um stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir.Yfirlýsing um að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni felur í sér áréttingu á fullveldi Íslands yfir landi og auðlindum.
Þetta kemur m.a. fram í grein um fullveldi og auðlindir eftir Ágúst Þór Árnason og Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, kennara við lagadeild Háskólans á Akureyri, sem birt var í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag.
Í greininni segir m.a.:
"Umræða þessi er mikilvæg og tímabær, ekki síst í ljósi þess áhuga sem Íslendingar hafa sýnt því að binda í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir. Eign á landi fylgja ýmis réttindi, eins og til auðlindanýtingar, en flestar auðlindir Íslands eru bundnar landi. Fullveldisréttur Íslands yfir landi er einn þáttur/hluti fullveldisins og þess að vera sjálfstæður lögaðili að þjóðarétti. Fullveldisréttur Íslands felur það í sér að Ísland hefur eitt heimild til þess að setja lög og reglur og að framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu.
Eins og málum er háttað eru nær engar hömlur á kaupum EES-borgara á landi á Íslandi. Fram til þessa hefur nauðsyn þess að setja í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir fyrst og fremst snúist um fiskveiðiauðlindina og nauðsyn þess að lýsa tilteknar auðlindir þjóðareign, þ.e. að auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru undirorpnar einkaeignarrétti. Ákvæði af því tagi er hins vegar takmarkað að því leyti að það snýst fyrst og fremst um eignarrétt á auðlindum en lögum samkvæmt ríkir ekki svo mikil óvissa um hann. Þessi áhersla á eignarrétt að auðlindum birtist til að mynda í þjóðaratkvæðagreiðslu þeirri sem fram fór árið 2012 þar sem spurt var: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Af gildum atkvæðum svöruðu 74% spurningunni játandi en mestur stuðningur fékkst við að stjórnarskrárbinda auðlindaákvæði af þeim sex spurningum sem atkvæði voru greidd um."
Síðar segir:
"Þær tillögur sem komið hafa fram um breytingar á stjórnarskrá eru því marki brenndar að þær leysa ekki sérstaklega úr þessu álitaefni þar sem þær hafa um of beinst að eignarhaldi. Með tveimur undantekningum þó. Annars vegar tillaga stjórnlaganefndar frá árinu 2010 um að auðlindir í náttúru Íslands væru þjóðareign sem bæri að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Hins vegar tillaga sem fram kom í frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi haustið 2016 þar sem því er lýst í 1. mgr. að auðlindir í náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni. Þær ber[i] að nýta á sjálfbæran hátt og til hagsbóta landsmönnum öllum.
Ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í náttúru Íslands er því ákaflega vandmeðfarið. Það þarf að gagnast þegar upp koma óþekkt og ný vandamál og því er mikilvægt að það feli í sér stefnu og hugmyndir okkar um það hvernig við viljum að náttúruauðlindir séu nýttar, til hagsbóta hverjum og hverjum þær tilheyra. Yfirlýsing um að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni felur í sér áréttingu á fullveldi Íslands yfir landi og auðlindum. Það fer því vel á því að ræða þennan þátt fullveldisins á aldarafmæli þess."
Nýjustu færslur
- Á 17. mínútu
- Bókunarstríðið að hefjast - Leiðin út
- Nei, nei, nei, nóg er nóg.
- Skynsemi
- Skjöldur að sunnan
- Valdalaus bleikja
- Gagnleg samantekt um séríslenska umræðuþoku
- Meira lýðskrum
- Það molnar undan
- Hver á að ráða hverjir mega koma í heimsókn?
- Samkvæmisleikur stórvelda
- Hver er valkosturinn?
- Ósannindi aldarinnar
- Friðsamir krókódílar
- Eldað í flórnum
Eldri færslur
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.9.): 179
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 1961
- Frá upphafi: 1142064
Annað
- Innlit í dag: 152
- Innlit sl. viku: 1739
- Gestir í dag: 148
- IP-tölur í dag: 147
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar