Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

Frost í Evrópu

utilega1Var einhver að tala um að júlí hafi verið kaldur hér á landi í ár?? Heldur viljum við hressilega íslenska veðráttu en þann atvinnufrostavetur sem ríkir á evrusvæðinu. Þar er ellefu prósenta atvinnuleysi og eftirspurn í lágmarki þrátt fyrir neikvæða vexti.

Góða og gleðilega verslunarmannahelgi!

Og munum bara eftir því að klæða okkur í samræmi við veðrið!


mbl.is Óbreytt verðbólga og atvinnuleysi á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa breyttist aðfararnótt 13. júlí, segir Joschka Fischer

JoschkaFischerVegferð ESB tók nýja stefnu við samkomulagið um Grikkland aðfararnótt 13. júlí síðastliðinn og um leið breyttist Evrópa. Svo segir Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, í gein sem Morgunblaðið birtir í dag. Hann segir að niðurstaðan í samningunum um Grikkland hafi verið að gera Evrópu þýska í stað þess að gera Þýskaland evrópskara.

Fischer segir að með þessu og öðrum útspilum ráðamanna, t.d. fjármálaráðherra Þýskalands, sé stefnt í voða því verkefni um Evrópu sem byggir á fjölbreytni og samstöðu. 

Áhugasamir eru hvattir til að lesa þessa athyglisverðu grein eftir þennan merka stjórnmálaforingja Þjóðverja sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

Greinina má einnig finna á ensku hér á www.project-syndicate.org.


Kratahöfðinginn afneitar afkvæminu

jonbaldvinJón Baldvin Hannibalsson er Guðfaðir umsóknarinnar um aðild að ESB. Nú telur hann ESB vera úti í mýri og ekkert mæla með aðild Ísland að ESB. Á sama tíma rífast kanslari Þýskalands og fjármálaráðherra landsins um það hvort ESB eigi að taka við skattlagningarvaldinu af aðildarríkjunm eða ekki. Og Grikklandsmálin eru aðeins leyst til skamms tíma.

Æ fleiri sannfærast um það að ESB getur ekki staðist til lengdar með núverandi skipulagi. Það er einkum vegna evrunnar sem krafan hjá ýmsum forkólfum ESB gerist æ hávarari um að miðstýring verði aukin og að stofnuð verði sérstök "ríkisstjórn" og "ríkissjóður" fyrir evrulöndin sem  hafi þar með skattlagningarvald yfir aðildarríkjunum.

ESB verði því tvískipt. 

Ljóst er að við núverandi aðstæður munu Bretar, Danir og Svíar ekki vera með í innri kjarna ESB-landa, verði sú þróun að veruleika.

Stórþjóðir eins og Pólland fýsir heldur ekki þangað inn.

Finnar verða nú fyrir barðinu af ókostum evrunnar. Þeir yrðu varla tilbúnir til þess að borga skatta sem aðallega yrðu notaðir til að fjármagna neyslu annarra ESB-þjóða.

Evran átti að verða tækið til að sameina ESB-þjóðirnar. Nú er það hún sem sundrar þeim.

Ekki nóg með það. Kreppur vara að jafnaði í örfá ár.

Kreppa evrunnar hefur staðið yfir í meira en sjö ár. Og það sér ekkert fyrir endann á henni.

 


AGS þvingar ESB til eftirgjafar gagnvart Grikkjum

Svo virðist af þessari frétt og fleirum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri muni smám saman breyta afstöðu ESB til meðferðar á skuldum Grikkja. Þótt þýska stálið í fjármálaráðherra Þjóðverja, og reyndar víðar, standist enn alla áraun um skuldaniðurfellingu þá er jarðvegurinn smám saman að verða frjór fyrir skuldbreytingu að því er varðar lengd lána og kjör. 

Spurningin er bara hvort það muni nægja til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang nógu snemma og nógu hratt í Grikklandi.

 


mbl.is Lagarde krefst skuldaniðurfellinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr evruandstöðuflokkur í Þýskalandi

Bernd Lucke, sem áður var formaður þýska evruandstæðingaflokksins AFD, hefur nú stofnað nýjan flokk sem hefur það að markmiði sínu að vera á móti evrunni og björgunaraðgerðum evruhópsins án þess þó að berjast gegn straumi innflytjenda til Þýskalands eins og AFD hefur gert. 

Nýi flokkurinn er á ensku kallaður Alliance for progress and renewal eða Bandalag um framfarir og endurnýjun.

EuObserver.com segir frá.


Evrópuhugsjóninni fatast flugið

grikklandÞað er skiljanlegt að þeir sem hafa verið þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið séu fremur daprir og hljóðir þessa dagana. Umræðan um samningaumleitanir ESB og Grikklands, bæði hér heima og erlendis, er með þeim hætti að það er ekki fýsilegt fyrir þjóðir að ganga þarna inn.

Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri, greinir ástandið ágætlega í nýlegu viðtali við Morgunblaðið. Hann segir það hafa komið á daginn sem ýmsir fræðimenn, einkum í Bandaríkjunum, hafi haldið fram þegar Grikkjum var boðin aðild að ESB. Jafnframt segir hann að staðan gagnvart Grikklandi hafi sett ESB-málin hér á landi í nýtt og skýrara ljós. 

Þá hefur Alþjóðagjaldleyrissjóðurinn beðið nokkurn hnekki í Grikklandsfárinu. Svo virðist sem upplýsingum um slæmar afleiðingar aðgerða ESB gagnvart Grikklandi hafi verið haldið leyndum, líklega vegna þrýstings frá forystu ESB. Nú segir AGS fullum fetum að Grikkir munu ekki ráða við skuldafjallið sem evruaðildin og ýmis óráðsía hefur komið landinu í og nýir og væntanlegir samningar við ESB munu þar engu breyta um.

Og innan ESB heldur umræðan enn áfram um hvort henda eigi Grikkjum út úr evrusamstarfinu. Þar virðist fara fremstur í flokki fjármálaráðherra Þjóðverja. 

Grikklandsfárinu virðist því alls ekki vera að ljúka. Líklegt er að hinn mikli vandi grísku þjóðarinnar verði viðvarandi um langa hríð.

Það er skiljanlegt að hugsjónum þeirra sem aðhyllast nána samvinnu Evrópuþjóða hafi fatast flugið.


Ögmundur: Umsóknin mistök og ESB óhugnanlegt

OgmundurÖgmundur Jónasson, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, segir í grein sem birt er í DV nú um helgina að það hafi verið mikil mistök að sækja um aðild að ESB. Jafnframt segir hann að sú sýn sem nú birtist af ESB í Grikklandsmálinu sé óhugnanleg. Vandinn við ESB sé hversu ólýðræðislegt það sé og úr öllum tengslum við þjóðþing aðildarlandanna.

ESB er eitraður kokteill

Ögmundur segir að ESB sé eitraður kokteill. Sambandið krefjist ekki aðeins yfirráða yfir fiskveiðiauðlindum aðildarríkja. Ögmundur segir að sér finnist auk þess afar slæmt við sambandið hversu miðstýrt og lýðræðissnautt það er. Og ekki bæti úr skák að það krefjist markaðsvæðingar á öllum sviðum. Það sé hinn eitraði kokteill. Þá fái þing ESB engu ráðið gagnvart Stjórnarnefnd ESB og öflugu embættismannaliði sambandsins.

Hefndaraðgerð embættismannaliðs ESB

Ögmundur bætir því við að smánarleg meðferð ESB á Grikkjum nú sé ekkert annað en hefndaraðgerð embættismannaliðsins í Brussel. Nýlegar upplýsingar staðfesti það að embættismennirnir hafi gert það ljóst fyrirfram að Grikkir myndu hafa það verra af ef þeir settu fyrri samning í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað þá að hafna honum eins og þeir gerðu. Sá samningur sem nú sé verið að ganga frá sé því ekkert annað en tyftun.

Veð í eyjum, samanber Icesave-kröfur ESB.

Þá nefnir Ögmundur að þvingun ESB um að Grikkir láti af hendi eyjar og svæði sem lánsveð minni á þær hugmyndir sem heyrðust frá ESB á dögum Icesave-viðræðnanna hér á landi um að fallvötn og hverir yrðu látin upp í Icesave-skuldina.

 

Það er því alveg ljóst af þessu öllu saman að ef stefna Samfylkingar (og nú Bjartrar framtíðar) hefði fengið að ráða og Ísland hefði gengið í ESB með hraði eins og Jóhanna Sigurðardóttir stefndi að árið 2009 að ekki aðeins væri íslenska ríkið og íslenskir skattgreiðendur að ábyrgjast Icesave-skuldirnar, heldur stóran hluta af skuldum hinna föllnu íslensku banka. Þær skuldir ríkisins næmu margfaldri landsframleiðslu Íslendinga - og væru án efa meiri og þyngri en skuldir gríska ríkisins eru nú. Að auki má ætla, miðað við umræðuna og fram komnar kröfur, að ESB hefði gert kröfu til þess að íslenskir hverir og fallvötn, hafnir og þjóðvegir yrðu sett að veði fyrir einkaskuldum bankanna.

Það er svo sannarlega rétt hjá Ögmundi að þessi sýn af ESB er vægast sagt óhugnanleg.

 

 


"Vitund" Evrópu flengir Þýskalandskanslara

Heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Jürgen Habermas gagnrýnir Angelu Merkel Þýskalandskanslara harðlega vegna aðgerða ESB gagnvart Grikklandi. Hann segir ekkert vit í niðurstöðum í samningaviðræðnanna í fyrradag þar sem komið sé í veg fyrir allan hagvöxt í Grikklandi. Það að verið sé að neyða grísku stjórnina til að samþykkja efnahagslega vafasaman einkavæðingarsjóð sé ekki hægt að skilja öðruvísi en sem refsingu fyrir vinstristjórn Syrisa.

Eyjan greinir frá því að þetta komi fram í nýlegu viðtali Guardian við Habermas.

Habermas hefur verið kallaður vitund Evrópu eftir þátttöku hans í umræðum í kringum stúdentaumbyltinguna í lok sjöunda áratugs síðustu aldar. Habermas sér reyndar þá lausn eina á ESB-vandamálunum að stofna eitt stórt sambandsríki í Evrópu.

 


ESB-forystan er nakin, segir Guðni

Guðni ÁgústssonGuðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, skrifar í Moggann í dag að margir séu nú farnir að átta sig á því að leiðtogar ESB og hörðustu fylgjendur aðildar Íslands að ESB séu eins og keisarinn sem var án klæða. Til vitnis um það dregur Guðni fram Þorbjörn Þórðarson fréttamann og vitnar í ekki minni menn en Krugman Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Fólk er sem sagt loksins búið að átta sig á því hvílík gæfa það var fyrir Ísland að standa utan ESB í bankakreppunni. Hefðum við verið þar inni hefði forysta ESB-landanna þvingað okkur til að taka á okkur skuldir bankanna.

Greinin ber heitið: Loksins sá "barnið" að ESB er nakið

Gefum Guðna orðið:

Undur og stórmerki gerðust í fréttum Stöðvar 2 mánudagskvöldið 13. júlí sl. Þá spurði Telma Tómasson fréttamanninn Þorbjörn Þórðarson einfaldrar spurningar: „Hvaða lærdóm geta Íslendingar dregið af ástandinu á evrusvæðinu?“ Hann svarar frá hjartanu eins og barnið forðum sem opinberaði að keisarinn væri nakinn, og Þorbjörn sér hlutina í þessu ljósi: „Í fyrsta lagi er það nú almennt viðurkennt að íslenska ríkið,löggjafinn, hefði ekki getað sett neyðarlögin 6. okt. 2008 eftir banka- og gjaldeyrishrunið hefði Ísland verið aðili að evrópska myntbandalaginu.“ Við hefðum sem sé setið uppi með skuldir óreiðumanna eins og margbúið er að benda á. Svo sagði hann þetta: „Í öðru lagi hefðu stjórnvöld og Seðlabankinn ekki getað fellt gengið með þeim afleiðingum að sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan næðu viðspyrnu mjög hratt. Þetta hefði verið ómögulegt í myntsamstarfi.“ Af þessum sökum tók ekki við það atvinnuleysi sem Grikkir búa nú við, nógu alvarlegt var hrunið samt og landflóttinn sem því fylgdi. En hjól atvinnulífsins tóku að snúast og afla tekna sem smátt og smátt með mörgu öðru eru að endurreisa efnahag okkar. Hin smáða íslenska króna varð að bjarghring í slysinu mikla. Ekki má gleyma Icesaveklafanum sem Bretar með stuðningi ESB ætlaðu að þröngva upp á okkur, en þjóðin hafnaði í tvígang og vann svo málið fyrir EFTA-dómstólnum. Enn gerðust undur í fréttatímanum, nú var ekki talað við hina hápólitísku hagfræðinga okkar þá Þórólf Matthíasson og Gylfa Magnússon sem hafa tröllriðið umræðunni um evru og ESB-aðild og fróðlegt er að skoða þeirra vísdóm með því að gúgla „Kúba norðursins.“ Þar er að finna af þeirra hálfu pólitík, fullyrðingar og stóryrði um okkar stöðu, sem ekki hafa gengið eftir, ummæli sem ekki eru samboðin þeirra menntun.

Ekki fýsilegur kostur að ganga í ESB

Nú vitnaði Þorbjörn í Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, en hann fór hörðum orðum um Evrópusamstarfið og myntsamstarfið og varaði þjóðir við að ganga því á hönd og sagði: „Þjóðverjar geta lagt efnahag þjóða í rúst ef þær ekki hlýða.“ Svo hafði hann beina innkomu á Lars Kristensen, hagfræðing Danske bank, sem sagði að evran og myntsamstarfið væri meiriháttar mistök. Að lokum kom Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum, fram og sagði að líklegt væri að evran myndi leggjast af og væri alls ekki fýsilegur kostur fyrir Ísland. Ég verð nú að fagna þessari faglegu fréttamennsku Stöðvar 2 sem ég vildi ekki síður sjá á RÚV sem þessa dagana fjallar aðallega um að ísöld sé að bresta á af náttúrulegum ástæðum. Hins vegar sigla Grikkir, þetta mikla menningarland og gamla stórveldi, inn í efnahagslega ísöld af mannavöldum. Og við skulum minnast þess Íslendingar að litlu munaði að við færum inn í sömu ísöld og þeir. Nú hefur fréttamaður flutt okkur fréttir um hvað varð okkur til bjargar og hefur það eftir samtölum við viðurkennda fræðimenn og sérfræðinga erlendis. Ekki hefði skuldalækkun heimilanna heldur gengið eftir eða sú ætlan ríkisstjórnarinnar að losa um gjaldeyrirhöftin með stöðugleikaskatti á „hrægammasjóðina,“ og í framhaldinu að lækka skuldir ríkissjóðs um hundruð milljarða. Ég vek athygli á því að við sem höfum verið þessarar skoðunar og haldið uppi andróðri við inngöngu í ESB og ekki talið evruna okkar framtíðarmynt höfum vart mátt mæla fyrir hrópum og köllum um að við værum einangrunar-, þjóðernissinnar og afturhaldsmenn úr torfkofum. Nú fáum við nokkra uppreisn æru við þessa faglegu umfjöllun um ástandið í Evrópusambandinu. Staðan er ljós, það er ekki fýsilegur kostur að ganga í ESB.


Umsókn Íslands með ólíkindum

jon_bjarnason_1198010Nú þegar við heyrum stöðu Grikkja og samskiptin við ESB er með hreinum ólíkindum að nokkrum heilvita íslenskum stjórnmálamanni skuli hafa dottið í hug að leggjast á hnén og biðja um inngöngu í ESB sumarið 2009. Tökum gilda þá afsökun þeirra að hafa ekki vitað hvað þeir voru að gera. Þá er nú kominn tími fyrir forystumenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að biðjast fyrirgefningar á því voðaverki, þeirri yfirsjón sem Evrópusambandsumsóknin var.

Svo segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag

Þar segir Jón einnig:

Nú síðast í vor var forysta fjögurra stjórnmálaflokka á Alþingi enn blinduð í ESB-trúnni. Formenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fluttu tillögu um framhald umsóknarinnar sem þeir þó vissu að var stopp vegna krafna frá ESB og fyrirvara frá Alþingi sem ekki var heimilt að víkja frá.

Og enn fremur segir Jón:

Í ljósi hörmulegrar stöðu Grikkja er enn ríkari ástæða til að allir stjórnmálaflokkar sameinist um þann skilning að umsókn Íslands um aðild að ESB sé afturkölluð og engin áform um að sótt verði um aðild að nýju. Það er ekkert til sem heitir "að kíkja í pakkann" hjá ESB. Það fá nú Grikkir að reyna.

Þá er vert að benda á þetta atriði í grein Jóns:

Í skjóli laga og reglna Evrópusambandsins var grísku þjóðinni komið í þá erfiðu stöðu sem þeir eru nú í. Það var ljóst fyrir nokkrum árum að stefndi í hreinan ófarnað hjá gríska ríkinu. Valdið til að grípa inn í var framselt til stofnana Evrópusambandsins sem alls ekki reynast færar um að takast á við slíka stöðu. Það eina sem Evrópusambandið getur boðið eru hertar sultarólar almennings, svipuhögg og hótanir en kapítalið og valdið vilja fá sitt.

 


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 108
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 1380
  • Frá upphafi: 1143444

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 1177
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband