Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

ESB-aðild óhugsandi án stjórnarskrárbreytingar

c_birgirAðild Íslands að Evrópusambandinu væri ekki möguleg að óbreyttri stjórnarskrá. Fari svo að einhvern tímann í framtíðinni myndist pólitískur vilji til þess að ganga í ESB er alveg ljóst að breyta þarf stjórnarskránni áður en samningar þar að lútandi ná fram að ganga. Skoðanir eru auðvitað skiptar um það hvort ESB-aðild sé æskileg eða ekki og þar af leiðandi hvort sé ástæða til að breyta stjórnarskránni að þessu leyti.  Um hitt ætti ekki að vera ágreiningur, að aðild fæli í sér svo mikið framsal fullveldis til fjölþjóðlegrar stofnunar, að hún gæti með engu móti talist samrýmanleg núgildandi ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Ekki samsæri vondra manna
Þetta viðhorf til stjórnarskrárinnar og ESB byggir hvorki á meinloku né samsæri vondra manna um að trufla, tefja og spilla fyrir ESB-aðild, eins og ráða mátti af ummælum prófessors Þorvaldar Gylfasonar á fundi í Háskóla Íslands sl. mánudag. Viðhorfið byggir þvert á móti á eðlilegri túlkun á stjórnarskránni og samdóma áliti þeirra fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar, sem um málið hafa fjallað.

Þorvaldur hélt fram því sjónarmiði, að 21. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað er um samninga við erlend ríki, veiti heimild til aðildarsamninga við ESB. Þetta er misskilningur. Annars vegar verður að líta til þess að 21. greinin tekur samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum í stjórnskipunarrétti til hefðbundinna þjóðréttarsamninga en aðildarsamningar við ESB eru ekki þess eðlis. Hins vegar er nauðsynlegt að líta til annarra greina stjórnarskrárinnar, einkum 2. gr., þar sem tiltekið er hverjir fari með handhöfn hinna þriggja þátta ríkisvaldsins, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Þar er innlendum stofnunum falið þetta vald og engar heimildir að finna til að framselja það til annarra.

Samdóma álit lögfræðinga
Í þessu sambandi er rétt að rifja upp, að bæði þegar Íslendingar gerðust aðilar að evrópska efnhagssvæðinu og síðar að Schengen-samstarfinu komu upp umræður um það hvort með því væri gengið of nærri fullveldinu. Í báðum tilvikum byggði meirihluti Alþingis á þeirri forsendu að svo væri ekki og studdist í því sambandi við lögfræðilegar álitsgerðir þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að samningarnir fælu ekki í sér fullveldisframsal í andstöðu við stjórnarskrána. Álit lögfræðinga á þessum tíma var á hinn bóginn samhljóða um að full aðild að ESB fæli í sér svo víðtækt framsal ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar, að ekki rúmaðist innan núgildandi stjórnarskrár. Ekkert gefur tilefni til að ætla að niðurstaðan yrði á annan veg í dag.

Skýrar heimildir í norrænum stjórnarskrám
Vegna orða Þorvaldar Gylfasonar er einnig rétt að benda á að í stjórnarskrám annarra norrænna ríkja er að finna skýra heimild til framsals ríkisvalds til fjölþjóðlegra stofnana. Það er á slíkum ákvæðum sem t.d. Danmörk og Svíþjóð byggja aðild sína að ESB og sambærilegt ákvæði er að finna í stjórnarskrá Noregs, þar sem aðildarsamningar hafa raunar tvívegis verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þessum löndum, sem búa við líkasta laga- og stjórnskipunarhefð og við Íslendingar, hefur með öðrum orðum verið talið nauðsynlegt að byggja ESB-aðild á stjórnarskrárákvæðum, sem berum orðum heimila fullveldisframsal af þessu tagi, og engin rök standa til þess að komist verði að annarri niðurstöðu hér á landi.

Það er ekkert launungarmál, að ég tel hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB en innan. Ég hygg á hinn bóginn að í hópi ESB-sinna, bæði meðal lögfræðinga og stjórnmálamanna, séu flestir mér sammála um að stjórnarskrárbreytingar væru nauðsynleg forsenda aðildar. Prófessor Þorvaldur Gylfason er fullkomlega á villigötum þegar hann heldur hinu gagnstæða fram og málflutningur hans er til þess eins fallinn að afvegaleiða umræðuna um þessi mikilvægu mál

Birgir Ármannsson,
alþingismaður

(Birtist áður í 24 stundum 21. maí 2008)


Stærsta ESB-goðsögnin

daniel_hannanFlestir hafa sjálfsagt heyrt minnst á fræga staðlaáráttu Evrópusambandsins; ferhyrnd jarðarber, bogna banana, sjómenn með hárnet - uppistaðan í fyrirsögnum breskra æsifréttablaða. Evrópusambandssinnar eru ævareiðir yfir slíkum fréttaflutningi. Skrifstofa Evrópusambandsins í London gefur t.a.m. reglulega út samantekt yfir það sem hún kallar ESB-goðsagnir ("Euro-myths") og stór hluti af heimasíðu samtaka breskra Evrópusambandssinna, "Britain in Europe", fer í umfjöllun um þær.

Það er auðvitað rétt upp að vissu marki að dagblöð eiga það til að ýkja hlutina. En það sérkennilegasta við þessar svokölluðu ESB-goðsagnir er eigi að síður hversu oft þær reynast sannar við nánari skoðun.

Þetta kom t.a.m. skýrt fram ekki alls fyrir löngu þegar nokkrir breskir embættismenn fóru fyrir dómstóla og kröfðust þess að réttur þeirra til að sækja til saka aðila sem hefðu á boðstólum banana með rangri lögun væri staðfestur. Já, það er raunverulega til reglugerð hjá Evrópusambandinu um lögun banana. Ég hef lesið hana sjálfur. Það er reglugerð nr. 2257/94. Þar er skilgreind nákvæmlega leyfileg lengd og þvermál fyrsta flokks banana og auk þess tekið fram að þeir megi ekki vera of bognir. Sem betur fer fyrir breska réttarkerfið var kröfu embættismannanna hafnað af hæstarétti Bretlands.

Sama er að segja um agúrkur. Ég hafði margoft heyrt fullyrt að allar sögurnar um bognar agúrkur hefðu einfaldlega verið samdar af æsifréttablöðunum svo ég ákvað að kanna málið sjálfur. Og viti menn! Ég rakst á reglugerð 1677/88 sem kveður á um leyfilegan heildarboga á agúrkum og nákvæmt mál er ennfremur tekið fram, 10 mm bogi fyrir hverja 10 cm í lengd.

Staðreyndin er nefnilega sú að stærsta goðsögnin af þeim öllum er þegar því er haldið fram að sögur sem þessar séu goðsagnir. Nánast hverri einustu frétt um þessi mál er algerlega hafnað af forystu Evrópusambandsins. Fyrir nokkrum árum ritaði ég grein í The Daily Telegraph þar sem ég benti á þá staðreynd að samkvæmt hinum nýju metrakerfisreglum Evrópusambandsins væri ekki lengur löglegt að selja hálfpott af bjór. Svar við greininni kom frá skrifstofu sambandsins í London, án sjáanlegrar kaldhæðni, þess efnis að það væri fullkomlega löglegt - að því tilskildu að menn notuðu ekki orðið "hálfpottur".

Það skal annars vel viðurkennast að beinir bananar munu ólíklega þýða alger endalok bresks fullveldis. Í samanburði við t.a.m. tortímingu bresks sjávarútvegs, eyðingu hinna bresku hefða um grundvallarlög og hina sameiginlegu landbúnaðarstefnu er málið varðandi bananana einungis smávægilegt atriði. En það er hins vegar meira en lítið áhugavert að fylgjast með því hvernig kerfiskallar Evrópusambandsins reyna ávallt að fela það sem þeir eru raunverulega að gera. Ef þeir eru svona viðsjárverðir varðandi ómerkilegt atriði eins og banana, getum við þá virkilega treyst þeim t.d. varðandi evruna?

Daniel Hannan,
þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu


Ræktum okkar eigin garð

ingvar_gislason_540630Þvert ofan í allar góðar vonir óttast ég að áhrifaöfl á Íslandi séu á góðri leið með að sannfæra sífellt fleiri landsmenn um „fánýti“ þess að Ísland sé til frambúðar óháð þjóðríki, sjálfstætt um löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Nú á það að vera íbúum Íslands til farsældar um afkomu sína í bráð og lengd að þeir tengist Evrópusambandinu áhrifamiklum pólitískum böndum, þ.e. afsali pólitísku sjálfstæði í ríkum mæli, skerði fullveldi ríkisins í grundvallaratriðum. Er hægt að horfa upp á slíkt óttalaust?

Ef gengið verður í Evrópusambandið verður Ísland stjórnskipulega sambandsríki, „federal state“, með tilheyrandi takmörkunum sem slíkri stöðu fylgja. Talsmenn aðildar segja að okkur sé þetta engin ofætlun því að þjóð á þjóð ofan, hvert ríkið á fætur öðru, hefur gengið í Evrópusambandið, haldið sínu og hagnast. En er það satt og rétt? Nei, vitaskuld ekki! Sama lögmál gildir um allar, að hver sú þjóð sem gerist aðili að ESB skerðir fullveldi sitt. Sú skerðing er því meiri sem þjóðin er minni (fámennari) og því fremur sem þær víkja frá megineinkennum hagkerfis bandalagsins. Fyrir Íslendinga, sem enn eru fiskveiði- og fiskiðnaðarþjóð og eiga mikið undir landbúnaði sem grundvallargrein í þjóðarbúskapnum, með afleiddum störfum út um allt, er það atvinnulega séð áhættuefni að ganga í Evrópusambandið ofan á þá pólitísku valdskerðingu sem við blasir.

Gerum okkur ljóst enn og aftur: Ef gengið verður í ESB er Ísland ekki lengur fullvalda ríki. Það verður sambandsríki, háð yfirþjóðlegri „federal“ stjórnskipun, þ. ám. lögum og reglum um fiskveiðar og fiskvinnslu, um búskaparhætti í sveitum og afurðasölu og úrvinnslu búsafurða. Í þeim efnum er óþarfi að þreifa fyrir sér í aðildarviðræðum. Hagsmunir frumframleiðslu til lands og sjávar eru fyrirfram dæmdir.

Þó er það ein helsta röksemd áhugafólks um fulla aðild að ESB að samningaviðræður, í kjölfar formlegrar umsóknar um aðild, geti einar skorið úr um ávinning af fullri aðild í stað þeirrar aukaaðildar sem felst í samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þessi röksemd kann að hljóma vel, en reynslan sýnir að Evrópusambandið gefur ekkert eftir að því er tekur til yfirstjórnar sjávarútvegsmála, hún verður alltaf á hendi alríkisstjórnar. Um það gilda engar undanþágur. Sú staðreynd er eitt skýrasta dæmið um skert fullveldi aðildarþjóða og mundi bitna harðast á Íslendingum ef á reyndi.

Ísland er eyland
Ekki mun ég þvertaka fyrir það að meginlandsþjóðum Evrópu ríður á þeirri einingarhugsjón að friður ríki milli þeirra eftir öll þúsundárastríðin og ógeðslegheit evrópskrar grimmdar í aldanna rás.

En nær þessi síðborna iðrun og yfirbótaþrá meginlandsþjóðanna til okkar Íslendinga, búandi á jöðrum hins byggilega heims? Varla! Ísland er eyland í norðurhöfum, ekki nema að nafninu til Evrópuland, land sem Miðevrópumenn kunna lítil skil á. En hafi nútímamiðevrópumenn fundið pólitískt ráð til að setja niður deilur sín í milli er það ánægjuefni, en naumast íslenskt viðfangsefni. Í umróti tímanna eiga Íslendingar að fara sér hægt. A.m.k. er hvers kyns ofboð í útrásum og afskiptasemi af eldfimum heimsmálum ekki það sem stendur okkur næst. Við eigum að búa vel um okkur í eigin landi, rækta okkar garð, stjórna landsmálum af hófsemi og hyggindum. Það eitt tryggir okkur virðingu annarra þjóða.

Ingvar Gíslason,
fyrrv. alþingismaður og ráðherra

(Birtist áður í Morgunblaðinu 21. maí 2008)


Geir Haarde talar afdráttarlaust gegn aðild að ESB

c_geir_haardeGeir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á opnum fundi í Valhöll sl. laugardag að hann væri ekki í vafa um að þegar vegnir væru kostir og gallar við aðild Íslands að Evrópusambandinu væru kostirnir léttvægari.  „Þess vegna vil ég ekki ganga í Evrópusambandið," sagði Geir.

Geir sagði, að ef Ísland væri í Evrópusambandinu hefðu stjórnvöld ekki haft jafn svigrúm til að laga sig að breytingum í alþjóðlegu umhverfi eins og gert hefði verið á síðustu mánuðum. Íslandi væru þá allar bjargir bannaðar við núverandi aðstæður. Þá hefði gengi gjaldmiðilsins verið fast og vextirnir ákveðnir í Seðlabanka Evrópu. Eini vettvangurinn, þar sem svigrúm gæfist, væri á vinnumarkaði, þar sem hægt væri að segja fólki upp og auka þannig atvinnuleysi. „Viljum við það? Ég vil það ekki," sagði Geir.

Hann sagði, að ýmsir kostir fylgdu aðild að Evrópusambandinu en einnig ókostir og þetta yrði að vega og meta og byggja síðan niðurstöðuna á því hvað væri best fyrir Ísland. „Við leggjum á vogarskálar öll atriði sem skipta máli. Í mínum huga er ekkert vafamál að kostirnir eru léttari á þessari vogarskál en gallarnir. Þess vegna vil ég ekki ganga  í Evópusambandið," sagði Geir.

Hann sagði það ranghugmyndir, að Íslendingar yrðu einhver áhrifaþjóð innan ESB. Þeir hefðu á grundvelli EES samningsins ákveðna stöðu gagnvart ESB, „en ég held að ef við værum komnir inn í sambandið og sætum við þetta stóra borð yrði lítið hlustað á okkar rödd," sagði Geir.

Hann sagði að nú stæðu yfir breytingar hjá Evrópusambandinu þegar svonefndur Lissabonsáttmáli væri að taka gildi. Hann hefði í för með sér að framkvæmdastjórnarmönnum yrði fækkað og Ísland fengi þá einn slíkan á 5-15 ára fresti ef að líkum lætur. Sagði Geir, að hyggilegt væri að sjá hvernig þessar breytingar verða áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar. „Mér finnst þetta mál ekki aðkallandi."

Geir sagði, að sér þætti ýmsir reyna að slá ryki í augun á fólki með því að segja að það væri eitthvað bjargráð að ganga í Evrópusambandið. Ríkisstjórnin væri að vinna í þessum bjargráðum og það væri bjart framundan þrátt fyrir tímabundna erfiðleika nú. „Við þurfum ekki að vera með minnimáttarkennd yfir að vera ekki í Evrópusambandinu," sagði Geir H. Haarde.

Heimild:
Geir: Ég vil ekki ganga í ESB (Mbl.is (17/05/08)

--- 

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


mbl.is Geir: Ég vil ekki ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaleikir ESB - sinna og draumaríkið

bjarni_hardarsonFréttablaðið birti fyrir nokkrum dögum tölur sem sýna að 68% þjóðarinnar vill að þjóðin hefji UNDIRBÚNING aðildarviðræðna ESB. Í raun hefur spurningin aldrei verið sett fram með svo óljósum hætti en alloft hefur þjóðin verið spurð að því hvort beinlínis eigi að hefja aðildarviðræður og 2002 vildi 91% landsmanna hefja slíkar viðræður en í sömu könnun reyndust ekki nema 52% hlynnt aðild.

Undirbúningur aðildarviðræðna er mest fólginn í að reka niður verðbólgu og vaxtaokur og sjálfur myndi ég fagna því ef stjórnvöld sneru sér að slíkum verkefnum og get því tilheyrt nefndum 68%. En ég vil ekki inn í ESB.

ESB-fylgið miklu minna en 2002
Gott yfirlit yfir kannanir um ESB - aðild er að finna á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Af þeim má lesa að frá árinu 2003 hefur fylgi við það að hefja viðræður sveiflast frá 69% niður í 55% en í sömu könnunum hefur fylgi við aðild sveiflast frá 52% niður í 36%.

Uppsláttur í Fréttablaðinu frá í febrúar um að 55% fylgi við aðildarviðræður sé met eða fullyrðingar nú um að fylgi við ESB aðild sé nú í hámarki stenst ekki skoðun þegar farið er yfir þær kannanir sem gerðar hafa verið fyrir Samtök iðnaðarins.

Vitaskuld getur staðan í þessum málum breyst mjög hratt í þeirri efnahagslægð sem nú ríður yfir. En þá aðeins sem tímabundin óánægja með slæma hagstjórn. Það er samt

Það er samt athyglisvert að í þeirri orrahríð ESB - áróðurs sem gengið hefur yfir undanfarnar vikur fer svo að eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur aðild á stefnuskrá sinni stórtapar fylgi.

Patentlausnir hugsjónamanna
Umræðan um ESB einkennist um margt af samskonar draumsýnum og einkenndu enn fylgismenn sósíalismans fyrir hálfri öld síðan. Því er til dæmis haldið fram í sama bláeyga sakleysinu að matarverð og vextir muni lækka um tugi prósenta ef við göngum í ESB. Af því bara.

Því er líka haldið fram að ESB muni styrkja íslenska landsbyggðarmenn og leggja hér hraðbrautir í afdali. Víst er mikið styrkjakerfi í ESB en þeir eru vitaskuld handa hinum fátæku og ef við ætlum að keppa við Tyrki og Slava verðum við fyrst að verða almennilega fátækir. Það eru líka til allskonar sértækir styrkir til skrýtifólks og frumbyggja en ætlum við að fara í að skilgreina Húnvetninga sem sérstakt þjóðarbrot!

Svipuð er sú mýta að efnahagsvandinn hverfi ef við tökum upp evru. Spyrjum Íra, Ítali og Spánverja sem allir óska sér þess nú að hafa eigin mynt til að geta mætt kreppunni og forðað þannig atvinnumissi og gjaldþrotum.

Bjarni Harðarson,
alþingismaður

(Birtist áður í styttri útgáfu í Fréttablaðinu og á bloggsíðu höfundar)


Hafna Írar Stjórnarskrá Evrópusambandsins?

euconstitutionBúist er við því að þjóðaratkvæðagreiðsla um Stjórnarskrá Evrópusambandsins (sem nú heitir Lissabon-sáttmálinn) verði haldin á Írlandi þann 12. júní nk. Írar eru sem kunnugt er eina aðildarþjóð sambandsins sem mun fá að kjósa um sáttmálanna, en írska stjórnarskráin krefst þess. Ráðamenn Evrópusambandsins hafa alls staðar annars staðar komið í veg fyrir að kosið yrði um stjórnarskrá sambandsins af fenginni reynslu, en Frakkar og Hollendingar hönfuðu henni í þjóðaratkvæðagreiðslum árið 2005. Það er hins vegar vinnuregla innan Evrópusambandsins að "nei" er ekki tekið sem gilt svar en þess í stað er fólk látið kjósa aftur og aftur þar til niðurstaða fæst sem er ráðamönnum sambandsins þóknanleg og þá er aldrei kosið aftur um málið. Þ.e. ef fólki er þá leyft að segja álit sitt á einhverjum samrunaskrefum á vegum þess.

Í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu Stjórnarskrá Evrópusambandsins brugðu ráðamenn sambandsins á það ráð að breyta uppsetningu hennar og gefa henni nýtt nafn, "Lissabon-sáttmálinn", með það að markmiði að koma í veg fyrir að hún yrði aftur lögð í þjóðaratkvæði innan þess, en stjórnvöld í ófáum aðildarríkjum Evrópusambandsins höfðu lofað kjósendum sínum þjóðaratkvæði um hana. Eftir að stjórnarskráin hafði verið sett í nýjan búning viðurkenndu ófáir ráðamenn aðildarríkjanna að Lissabon-sáttmálinn væri í raun Stjórnarskrá Evrópusambandsins auk þess sem gerðar hafa verið ítarlegar samanburðarrannsóknir í þeim efnum sem staðfest hafa það.

Nýjustu skoðanakannanir á Írlandi hafa bent til þess að mjög mjótt geti orðið á mununum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Stjórnarskrá Evrópusambandsins og að jafnvel geti farið svo að henni verði hafnað. Írska ríkisstjórnin hefur hins vegar róið að því öllum ráðum að hún verði samþykkt með fulltingi ráðamanna í Brussel sem m.a. hétu írskum stjórnvöldum nýverið að fresta öllum ákvörðunum sem gætu stuðað írska kjósendur þar til þjóðaratkvæðið er afstaðið. Nokkuð sem ekki átti að fara hátt en var lekið. Bág staða í írsku efnahagslífi er annars talin líkleg til að stuðla að andstöðu við stjórnarskrána, en hún er ekki síst tilkomin vegna aðildar Írlands að evrunni

Taki Stjórnarskrá Evrópusambandsins endanlega gildi verður sambandið, auk stjórnarskrárinnar sjálfrar, í raun komið með allt það sem einkennir ríki samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum s.s. sameiginlegt þing, gjaldmiðil, hæstarétt, fána, þjóðsöng, ríkisstjórn, ríkisborgararétt, ytri landamæri, utanríkisstefnu, utanríkisráðherra, utanríkisþjónustu, alríkislögreglu og forseta svo það helzta sé nefnt til sögunnar.

Tengt efni:
Stjórnarskrá Evrópusambandsins staðfest í Danmörku
Kanslari Þýskalands í áróðursferð til Írlands
Segir ákvæði um aukin áhrif þjóðaþinga aðildarríkja ESB gagnlaus
Fyrirhuguð stjórnarskrá ESB samþykkt af leiðtogum aðildarríkjanna
Stjórnarskrá ESB í dularklæðum
Ráðherrum verður bannað að vinna að hagsmunum eigin ríkja
96% stjórnarskrárinnar í "nýja sáttmálanum"
Forystumenn ESB viðurkenna að stjórnarskráin muni í raun halda sér
Reynt að komast hjá þjóðaratkvæði um stjórnarskrána
Evrópusambandið hvetur til þess að breskir kjósendur séu hunsaðir

Ítarefni:
Samanburður á Lissabon-sáttmálanum og Stjórnarskrá Evrópusambandsins
Leiðarvísir um Lissabon-sáttmálann

--- 

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


17,5% verðbólga í ESB-ríkinu Lettlandi

c_euroÞað ert vinsælt hjá íslenskum Evrópusambandssinnum að mála aðild að Evrópusambandinu upp sem einhvers konar örugga höfn fyrir Íslendinga í efnahagsmálum þar sem aldrei þyrfti aftur að hafa áhyggjur af hvers kyns vandamálum í þeim efnum. Fátt er þó fjarri raunveruleikanum eins og ófá aðildarríki sambandsins hafa fengið að reyna á undanförnum árum. Tilkoma evrunnar hefur síðan síst orðið til þess að bæta stöðu þeirra Evrópusambandsríkja sem hafa tekið hana upp í stað eigin gjaldmiðla.

Þannig mældist verðbólga í Lettlandi t.a.m. 17,5% í apríl, mæld á tólf mánaða tímabili, og hefur hún farið hækkandi á undanförnum mánuðum. Til samanburðar mældist verðbólga hér á landi í apríl, miðað við tólf mánaða tímabil, 11,8%. Lettar eru sem kunnugt er aðilar að Evrópusambandinu og hafa verið sl. fjögur ár. Þeir hafa ekki tekið upp evruna enn, en gengi lettneska gjaldmiðilsins, lats, er hins vegar tengt gengi evrunnar þannig að í raun má segja að evran sé gjaldmiðill Lettlands að því leyti að gengissveiflur evrunnar gilda þar í landi.

Þrátt fyrir að Lettar búi þannig við "töframeðölin" Evrópusambandsaðild og gengissveiflur evrunnar þá hefur það ekki komið í veg fyrir gríðarlega verðbólgu í Lettlandi og það miklu hærri en hér á landi.

Heimild:
Verðbólgan 17,5% í Lettlandi (Mbl.is 12/05/08)
The Current Monetary Policy: the Lats is Pegged to the Euro

Tengt efni:
Vaxandi ósamræmi innan evrusvæðisins skapar efasemdir um framtíð þess
Þingflokkur Frjálslynda flokksins segir evru og ESB enga lausn
Hagsveiflur og Evrópusambandið
Írar og evran
Myndi ESB og evru fylgja minni eða meiri sveiflur í efnahagslífinu?
Ísland ekki of lítið fyrir sjálfstæða gjaldeyrisstefnu
Virtur franskur banki varar við ójafnvægi innan evrusvæðisins

Ítarefni:
Kostir og gallar upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi
Á evrusvæðið framtíðina fyrir sér?


mbl.is Verðbólgan 17,5% í Lettlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskhyggja Jóns Sigurðssonar

c_sigurdurkariJón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifaði grein í Morgunblaðið sl. þriðjudag þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að nú sé tími til kominn að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Í greininni víkur Jón meðal annars að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og segir að forsendur hennar eigi ekki við á Íslandsmiðum. Við þessa fullyrðingu Jóns Sigurðssonar er ástæða til að gera alvarlega athugasemd, enda vandséð að hún eigi við rök að styðjast. Íslendingar yrðu bundnir af sjávarútvegsstefnu ESB við aðild.

Það er ekki langt síðan samin voru drög að nýrri stjórnarskrá ESB og var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna um hana í flestum aðildarríkjum þess. Sú stefnumörkun ESB um sjávarútvegsmál sem fram kom í hinni nýju stjórnarskrá var alveg skýr: Sjávarútvegsstefnan skyldi vera sameiginleg fyrir öll aðildarríkin, stjórn fiskveiða skyldi vera á hendi ESB, en ekki aðildarríkjanna, og meginreglur þess efnis skyldu lögfestar í stjórnarskrá.

Ákvæði stjórnarskrár geyma grundvallarlög sem almenn lög mega ekki brjóta í bága við. Sú meginregla gildir jafnt um stjórnarskrá Íslands og stjórnarskrár annarra ríkja. Sú réttarskipan sem kveðið er á um í stjórnarskrá á við um alla þá sem undir hana heyra. Það dettur til dæmis engum í hug að jafnræðisregla 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nái til ákveðins hóps einstaklinga í okkar samfélagi en ekki til annarra. Það dettur heldur engum í hug að tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar tryggi sumum rétt til að láta í ljós skoðanir sínar og sannfæringu en ekki öðrum. Ákvæði stjórnarskrárinnar kveður með öðrum orðum á um þá réttarskipan sem við höfum komið okkur saman um að fylgja og sömu réttindi og sömu skyldur fyrir alla borgara. Um þessi grundvallaratriði hygg ég að þurfi ekki að deila.

Þau drög að stjórnarskrá ESB, sem hér hefur verið vísað til, voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi. Í kjölfarið hvarf stjórnarskráin af yfirborði jarðar, en hefur nú skotið upp kollinum á nýjan leik. Nú í formi fjölda samninga, sem ekki munu verða lagðir fyrir íbúa sambandsins og verða vafalítið að lögum án þeirra vitundar. En efnisatriði þessara samninga eru í öllum grundvallaratriðum þau sömu og stjórnarskrárinnar sem hafnað var. Í þeim verður endanlega staðfest, að stjórn sjávarauðlinda verður á valdi ESB, en ekki aðildarríkja þess, og réttaráhrif þeirra fyrir aðildarríkin verða þau sömu.

Í ljósi þessara staðreynda vekur það furðu mína að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, skuli í grein sinni slá því föstu að forsendur sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB muni ekki eiga við á Íslandsmiðum gerist Ísland aðili að sambandinu. Öll aðildarríki ESB munu þurfa að beygja sig undir þær grundvallarreglur sem sambandið byggist á og starfar eftir. Annaðhvort eru ríkin hluti af sambandinu eða ekki með þeim kostum og göllum sem aðild fylgir.

Að mínu mati halda fullyrðingar Jóns Sigurðssonar ekki vatni, enda er ekkert sem bendir til þess að þær eigi við rök að styðjast. Fram til þessa hefur engin þjóð fengið varanlega undanþágu frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Eðlilega hafa þjóðir fengið tímabundinn frest til að laga sig að ýmsum grundvallarreglum sem gilda innan ESB, en ekki undanþágu til frambúðar. Og það er ekkert sem bendir til að annað verði uppi á teningnum í tilviki Íslands verði sótt um aðild að sambandinu.

Það er mikilvægt að upplýst, fordómalaus og yfirveguð umræða um Evrópumál fari fram hér á landi á grundvelli þeirra staðreynda sem fyrir liggja. Sú umræða má hins vegar ekki stjórnast af óraunhæfri óskhyggju og fullyrðingum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Sigurður Kári Kristjánsson,
alþingismaður og varaformaður Heimssýnar

(Birtist áður í Morgunblaðinu 4. maí 2008 og á bloggsíðu höfundar)


Byrjað á öfugum enda

c_birgirUndanfarna daga hafa ýmsir ágætir menn reifað sjónarmið í þá veru, að nú sé rétti tíminn kominn til að hefja viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Rétt sé að láta reyna á það hvaða samningskjör bjóðist í slíkum viðræðum og taka síðan afstöðu til aðildar. Ýmsum spurningum varðandi aðild verði ekki svarað til fullnustu fyrr en niðurstaða viðræðna liggur fyrir og samningar hafa tekist og þá geti þing og þjóð tekið ákvörðun um málið. Í orðum þessara manna virðist gengið út frá því að það sé svo sjálfsagður hlutur að Ísland leiti eftir aðild að það sé nánast bara tæknilegt úrlausnarefni að hefja ferlið, setja samningsmarkmið, fara út í viðræður og eftir atvikum að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.

Í orðum þeirra felst vissulega sá sannleikskjarni, að ekki er unnt að segja nákvæmlega fyrir um það hvaða samningskjör okkur bjóðast fyrr en að viðræðum loknum. Eins er ljóst að slíkur samningur yrði á endanum borinn bæði undir Alþingi og kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig ráðast hin endanlegu úrslit og þjóðin mun alltaf hafa síðasta orðið. Nærtækt er að minna á að norskir kjósendur hafa tvívegis hafnað samningum um ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu þótt ríkisstjórnin og Stórþingið hafi fyrir sitt leyti samþykkt þá.

Nú er einnig rétt að halda því til haga, að bæði þing og þjóð myndu oftar en einu sinni fá tækifæri til að taka afstöðu til einstakra skrefa í átt til ESB-aðildar. Hún er þannig óhugsandi án stjórnarskrárbreytingar, sem samþykkja þarf á tveimur þingum með alþingiskosningum á milli. Óumdeilt er að í aðild fælist slíkt framsal fullveldis til fjölþjóðlegra stofnana, að ósamrýmanlegt væri núgildandi stjórnarskrá. Afstaða til breytingar sem heimilaði fullveldisframsal myndi óhjákvæmilega ráðast af afstöðu manna til aðildar af ESB. Eins er ljóst að ríkisstjórn þyrfti að styðjast við þingmeirihluta til að fara ut í viðræður og setja sér samningsmarkmið. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að slíkur þingmeirihluti þyrfti að byggja á vilja kjósenda, sem fram hefði komið í almennum kosningum. Ekki er hægt að segja að ESB-málin hafi fram til þessa verið kosningamál hér á landi og því getur enginn fullyrt um vilja kjósenda í þessum efnum. Tilviljanakenndar niðurstöður skoðanakannana eru ekki mælikvarði sem hægt er að styðjast við í því sambandi. Hvað sem því líður er auðvitað ljóst að mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en endanleg afstaða er tekin til ESB-aðildar, og tekist verður á um hvert skref á þeirri leið.

En fyrst þarf auðvitað að taka afstöðu til þeirrar grundvallarspurningar hvort við viljum verða aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Er það fýsilegur kostur fyrir íslensku þjóðina þegar til lengri tíma er litið? Með öðrum orðum; er þetta einfaldlega markmið sem við viljum stefna að? Þá stefnu þarf að marka að undangengnum rökræðum um kosti og galla aðildar, bæði meðal almennings og á hinum pólitíska vettvangi. Nauðsynlegt er að komast að niðurstöðu í þeim efnum áður en lengra er haldið. Menn eiga ekki að ganga til samningaviðræðna nema þeim sé alvara í að ná samningum. Það að ætla sér að rjúka í aðildarviðræður við ESB og sjá svo til hvort við viljum vera með er ekki skynsamleg nálgun. Með því væri byrjað á fullkomlega öfugum enda. Helstu áhugamenn um aðild Íslands að ESB virðast því komnir langt fram úr sjálfum sér með þessum málflutningi.

Birgir Ármannsson,
alþingismaður

(Birtist áður í Morgunblaðinu 29. apríl 2008)


Sjálfsmorðsákvæði stjórnarsáttmálans

althingishusidStjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar heimilar ekki að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði settar á dagskrá þó Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinna, og fleiri Evrópusambandssinnar hafi að undanförnu viljað halda öðru fram. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, tók af allan vafa um það í umræðum á Alþingi sl. mánudag 28. apríl þar sem hann svaraði fyrirspurn Kristinns H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. Orðrétt sagði Geir í svari sínu á Alþingi:

"Hvað varðar Evrópusambandið þá er það ljóst að stjórnarflokkarnir tveir hafa ólíka afstöðu í því máli. Þeir sömdu hvorugur um það að breyta afstöðu sinni þegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var gerður. Það segir ekkert um það í stjórnarsáttmálanum að það eigi að ganga í Evrópusambandið. Það á að setja á laggirnar nefnd sem nú er að hefja störf til að fylgjast með þróuninni þar, svokallaða vaktstöð sem mun vakta ástandið. Það stendur í sjálfu sér heldur ekki að ekki eigi að ganga í Evrópusambandið. En ef það ætti að gera það, þ.e. ganga í Evrópusambandið, þyrfti að semja um það upp á nýtt og þá þyrfti annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, að skipta um afstöðu frá því sem hann hefur í dag. Það er ekki meiningin."

Þetta þýðir einfaldlega að ef ríkisstjórnin ætlaði að setja aðildarviðræður við Evrópusambandið á dagskrá yrði að semja um nýjan stjórnarsáttmála og þar með að mynda nýja ríkisstjórn. Stjórnarsáttmálinn inniheldur því m.ö.o. í raun sjálfsmorðsákvæði þegar kemur að Evrópumálunum eins og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Noregs. Forsenda þess er þó að Sjálfstæðisflokkurinn breyti stefnu sinni í Evrópumálum. Hvorugt er þó á dagskrá eins og formaður flokksins tók skýrt fram og hefur margoft gert áður.

Ófáir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ennfremur mótmælt yfirlýsingum Ingibjargar Sólrúnar um stjórnarsáttmálann og bent á það að í honum sé kveðið á um það sem ríkisstjórnin ætli að gera á kjörtímabilinu en ekki það sem hún ætli ekki að gera.

Heimild:
Umræður á Alþingi: Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að ESB

--- 

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 121
  • Sl. sólarhring: 422
  • Sl. viku: 1978
  • Frá upphafi: 1109266

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 1723
  • Gestir í dag: 111
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband