Leita í fréttum mbl.is

Á evrusvæðið framtíðina fyrir sér?

euro-coin1Tilkoma evrunnar var fyrst og fremst hugsuð sem stórt samrunaskref innan Evrópusambandsins. Tilgangurinn var öðru fremur pólitískur en ekki efnahagslegur, þ.e. að knýja enn frekar á um pólitískan samruna innan Evrópusambandsins. Fyrir vikið kemur sennilega fáum á óvart að fjöldi virtra hagfræðinga og fjármálastofnana hafi á undanförnum árum í vaxandi mæli lýst miklum efasemdum um að evrusvæðið eigi framtíð fyrir sér. Svæði sem samanstendur af hagkerfum sem eru mörg hver afar ólík í grundvallaratriðum og í raun vandséð að eigi samleið sem eitt myntsvæði út frá hagfræðilegum sjónarmiðum.

Samkvæmt kenningu bandaríska hagfræðingsins Robert Mundell, sem stundum hefur verið titlaður faðir evrusvæðisins, um hið hagkvæma myntbandalag þarf myntbandalag að uppfylla þrjú skilyrði til þess að geta talizt hagkvæmur kostur. Það er athyglisvert að evrusvæðið hefur aldrei uppfyllt neitt þeirra en þessi skilyrði eru:

  1. Hagsveiflur á milli þeirra ríkja sem mynda viðkomandi myntbandalag verða að vera í takt þannig að ekki sé þörf á sjálfstæðri peningamálastefnu fyrir hvert ríki.
  2. Laun þurfa að vera sveigjanleg þannig að þau lækki þegar og þar sem eftirspurn minnkar en hækki þar sem eftirspurn eykst. Þannig sé tryggt að atvinnustigið haldist stöðugt þrátt fyrir að hagsveiflan sé ekki alls staðar sú sama og sjálfstæð peningamálastjórntæki aðildarríkjanna hafi verið tekin úr sambandi.
  3. Vinnuafl þarf að vera hreyfanlegt innan myntbandalagsins þannig að fólki geti á auðveldum hátt flutt af þeim svæðum þar sem atvinnuleysi ríkir þangað sem eftirspurn er eftir vinnuafli.

Kenning Mundells hefur notið vinsælda og viðurkenningar hjá flestum hagfræðingum. Samkvæmt henni nægir þó að eitt þessara skilyrða sé uppfyllt til að aðild að myntbandalagi geti talist hagkvæm. En eins og áður segir uppfyllti evrusvæðið þessi skilyrði ekki í upphafi og gerir ekki enn. Engu að síður var farið af stað með verkefnið.

Fjármálakreppa sem nú gengur yfir heiminn hefur aukið mjög á áhyggjur af því að þessir og fleiri ágallar evrusvæðisins muni leiða til þess að það liðist í sundur í nánustu framtíð. Fréttir þess efnis heyrast æ oftar og gildir þar einu hvort um er að ræða harða Evrópusambandssinna, alþjóðlegar fjármálastofnanir eða virta fræðimenn. Þannig var t.d. greint frá því í Financial Times 9. apríl 2008 að vaxandi ósamræmis gætti á milli hagkerfa aðildarríkja evrusvæðisins sem gerði Seðlabanka Evrópusambandsins erfitt fyrir að halda úti sameiginlegri peningamálastefnu fyrir evruríkin. Það sem hentaði einu evruríki hentaði ekki öðru o.s.frv. Sérstaklega gætti mikillar og vaxandi togstreitu í þessum efnum á milli norður- og suðurhluta evrusvæðsins.

Hinn virti franski banki BNP Paribas sendi frá sér skýrslu í janúar 2008 undir nafninu "EMU Concerns" þar sem  varað var við vaxandi spennu innan evrusvæðisins á milli norður- og suðurhluta þess. „Því meira sem hagkerfin þróast í mismunandi áttir, því óhagstæðari verður peningamálstefnan. Það sem kann að vera of þröngt fyrir suma kann að vera of vítt fyrir aðra innan Myntbandalags Evrópusambandsins (EMU) sem aftur leiðir til þess að mismunurinn á milli hagkerfa eykst enn meira," segir m.a. í skýrslunni. Ennfremur kemur fram í henni að miðstýrt peningamálakerfi evrusvæðisins sé fyrir vikið ótraust í grundvallaratriðum. Bankinn vildi ekki ganga svo langt að spá fyrir um endalok evrusvæðisins, en gat þess engu að síður í skýrslunni að það væri ekki tilviljun að öll misheppnuð myntbandalög hefðu verið lögð niður á tímum spennu í efnahagslífinu. (The Daily Telegraph 09/01/08)

Í september 2006 gaf brezka rannsóknarstofnunin Centre for European Reform úr skýrslu sem bar heitið "Will the eurozone crack?" þar sem varað var við hættunni á því að evrusvæðið liðaðist í sundur í náinni framtíð, sem aftur myndi setja allan innri markað Evrópusambandsins í hættu, ef aðildarríki sambandsins - þá einkum og sér í lagi Ítalía - kæmu ekki á mikilvægum efnahagsumbótum. Samkvæmt skýrslunni leiddi tilkoma evrusvæðisins til þess að ríkisstjórnir aðildarríkja þess urðu værukærar og töldu sig ekki lengur þurfa að koma á óvinsælum efnahagsumbótum. Fyrir vikið sé sú staða uppi að Ítalía gæti sé hag sínum borgið með því að segja skilið við evrusvæðið. "Misheppnist Ítalíu að auka samkeppnishæfni sína mun það skapa efasemdir um aðild landsins að evrusvæðinu og tilvist Myntbandalags Evrópusambandsins sem slíks," segir ennfremur í skýrslunni. (Euobserver.com 10/09/06)

Í apríl 2006 lýsti Paul de Grauwe, hagfræðiprófessor við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu, þeirri skoðun sinni í samtali við AP-fréttastofuna að evrusvæðið muni líða undir lok innan 10 til 20 ára ef ekki komi til aukinn samruni innan Evrópusambandsins. Þetta mat byggir hann á ítarlegri rannsókn sinni. De Grauwe, sem er einn af hugmyndafræðingum evrusvæðisins, benti á að ekkert myntbandalag í sögunni hefur lifað af án pólitísks samruna, þ.e. eins ríkis. (Eubusiness.com 22/04/06)

Í grein í franska dagblaðinu Les Echos í marz sama ár varaði Bradford Delong, prófessor í hagfræði við Berkeley-háskóla í Kaliforníu, við því að evran væri sífellt að stuðla að meiri vandamálum í efnahagslífi evruríkjanna og ef ekki kæmi til nauðsynlegra umbóta gæti evrusvæðið hreinlega hrunið. (Les Echos 07/03/06)

Þann 26. janúar 2006 lýsti Frits Bolkestein, fyrrverandi yfirmaður innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, efasemdum sínum um að evran ætti framtíð fyrir sér til lengri tíma litið. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt á fundi í London með hollenzkum fyrirtækjastjórnendum. Sagðist hann telja að evran myndi einkum standa frammi fyrir mikilli prófraun eftir um áratug þegar líklegt væri að ýmis aðildarríki Evrópusambandsins þyrftu að standa undir langtum meiri lífeyrisskuldbindingum en til þessa vegna hækkandi meðalaldurs íbúa þeirra. (Euobserver.com 26/01/06)

Alþjóðlega fjárfestingafyrirtækið JP Morgans komast að þeirri niðurstöðu haustið 2005 að evrusvæðið kynni að heyra sögunni til innan áratugar. Fyrirtækið sagði líklegt að einhver evruríkjanna kunni að segja skilið við evrusvæðið og að ætlaðir kostir þess að taka upp evruna hefðu engan veginn skilað sér eins og lofað var. (Jyllands-Posten 20/09/05)

HSBC bankinn í London, sá annar stærsti í heiminum, gaf út ítarlega skýrslu í júlí sama ár þar sem kemur fram að reynslan af evrusvæðinu sé svo slæm að það gæti verið sumum af aðildarríkjum þess í hag að yfirgefa það og taka upp sína fyrri sjálfstæðu gjaldmiðla á ný. Það sem einkum veldur þessu að mati bankans er miðstýring Seðlabanka Evrópusambandsins á stýrivöxtum innan evrusvæðisins sem henti engan veginn öllum aðildarríkjum þess. Þetta hafi leitt af sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir ríkin og gert þeim erfitt fyrir að hafa eðlilega stjórn á hagkerfum sínum. (The Daily Telegraph 12/07/05)

Í apríl 2005 kom út skýrsla frá bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley þar sem sagði m.a. að evran stæði frammi fyrir „banvænni“ þróun sem gæti haft í för með sér endalok evrusvæðisins. Fjármálamarkaðir væru í auknum mæli farnir að hafa áhyggjur af t.a.m. vaxandi verndarhyggju í Þýzkalandi, brestum í fjármálastjórn Evrópusambandsins (þá einkum vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá Frakka og Þjóðverja til að standa við stöðugleikasáttmála evrusvæðisins) og áhrifa stækkunar evrusvæðisins til austurs sem þýði að enn ólíkari hagkerfi muni verða þar innanborðs. (The Daily Telegraph 20/04/05)

Að síðustu mætti nefna að í viðtali við fréttavefinn Euobserver í maí 2004 lýsti bandaríski hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Milton heitinn Friedman þeirri skoðun sinni að sterkar líkur séu á því að evrusvæðið kunni að hrynja innan fárra ára. Sagðist hann fyrst og fremst hafa áhyggjur af þeim erfiðleikum sem það hefði í för með sér að viðhalda myntbandalagi á milli ríkja með jafn ólík efnahagskerfi, menningu og tungumál. Sagðist hann ennfremur telja að vandamál af þessum toga muni aukast við það að ný aðildarríki Evrópusambandsins taki upp evruna. Lagði Friedman til að fyrri gjaldmiðlar evruríkjanna yrðu teknir upp aftur. (Euobserver.com 17/05/04)

Það er því kannski ekki að furða að margir hafi efasemdir um evruna. Fyrir utan allt annað er einkennilegt í ljósi slíkra framtíðarspáa að sumir skuli leggja það til að tekin verði upp evra hér á landi í stað íslenzku krónunnar. Ekki sízt í ljósi þeirrar staðreyndar að ef Ísland gengur í Evrópusambandið og tekur upp evruna verður ekki aftur snúið. Eins og staðan er í dag er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að ríki segi skilið við sambandið. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að þau ríki, sem einu sinni gangi í Evrópusambandið, verði þar um aldur og ævi.

Hjörtur J. Guðmundsson


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 155
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 2267
  • Frá upphafi: 1112309

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 2038
  • Gestir í dag: 128
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband