Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Þér er boðið á Fullveldishátíð 2008

auglysing2


Sjálfskipaðir ESB leiðtogar

benedikt_gudmundsson.jpgForystumenn í samtökum atvinnulífs, iðnrekenda og verkalýðshreyfingar hafa að undanförnu tekið sér forystu í að leiða íslenska þjóð inn í Evrópusambandið. Vissulega er öllum þessum mætu mönnum frjálst að hafa skoðanir á þessu máli en ég dreg stórlega í efa umboð þeirra til að tala hér fyrir munn sinna aðildarsamtaka og aðildarfélaga. Fulltrúar og  stjórnir í þeim samtökum sem hér um ræðir eru í fæstum tilvikum kjörnir til starfa út frá afstöðu til almennra þjóðmála. Hér er um að ræða hagsmunasamtök sem ætlað er að verja hag viðkomandi hópa innan þess ramma sem Alþingi og ríkisstjórn skapa. Um almenna afstöðu til þjóðmála er aðeins kosið í Alþingiskosningum.

Mikill minnihluti almennra launþega kemur að  kjöri forystumanna stóru heildarsamtaka launamanna og sama á reyndar við í hópi okkar atvinnurekenda í landinu. Því fer fjarri að hagsmunir okkar og skoðanir séu einsleitar í þessum efnum og staðreyndin er sú að umrædd félög hafa sum hver, fyrst og fremst tengsl við sína aðildarmenn í gegnum skattheimtu félagsgjalda. Einu almennu kosningarnir þar sem tekist er á um þessi mál eru kosningar til Alþingis. Og það er engin tilviljun að mikill meirihluti Alþingismanna vill  líkt og þjóðin sjálf standa vörð um fullveldi og frelsi landsins. Mál þetta er mun stærra en svo að hægt sé að horfa á það í þröngu samhengi og út frá stundarhagsmunum. Mjög margt bendir til þess að Evrópusambandið sé sökkvandi skip þó svo að vissulega valdi stærðin því að það sökkvi heldur hægar en okkar ágæta land. Að sama skapi er mjög líklegt að stærðin geri það verkum að Evrópusambandið verði mjög lengi að ná sér á strik á nýjan leik en smæðin og sveiganleikinn er okkar styrkleiki. Það er einnig umhugsunarvert að þau Evrópulönd sem best standa eru löndin sem eru utan ESB, Noregur og Sviss. Þar er atvinnuleysi til muna minna en almennt gerist á ESB svæðinu og hagvöxtur meiri.

Tækifæri  okkar  liggja ekki hvað síst í samningum og viðskiptum við þjóðir utan  ESB t.d. við Kína, Indland og Rússland. Sem sjálfstæð þjóð höfum við mikið  meira aðdráttarafl og sveiganleika t.d. í fríverslunarsamningum. Slíkir samningar eru á döfinni m.a. við Kína og geta þeir opnað alveg nýjar dyr fyrir land og þjóð svo fremi sem við höfum burði til að hugsa út fyrir rammann og vilja til að bjarga okkur á eigin forsendum. Að vonast til þess að til að mynda Bretar og Danir séu betri kostur til að gæta hagsmuna Íslendinga við samningaborð í Brussel  heldur en landsmenn einir og sér lýsir  mikilli minnimáttarkennd. Að vonast til að Íslendingar muni hafa afgerandi áhrif í kokteilboðum í Brussel þannig að hagmunir okkar vegi þyngra en annara þjóða, lýsir hins vegar vafasömu mikilmennskubrjálæði. Greinarhöfundur er m.a. atvinnurekandi með evrulán, stundarhagsmunir hans félaga réttlæta hins vegar ekki að fórna heilli þjóð á altari ESB.

Benedikt G. Guðmundsson,
framkvæmdastjóri

(Birtist áður í Morgunblaðinu 9. nóvember 2008)


Í hlekkjum óttans

brynja_bjorgÓtti er óvinur. Hann lýsir sér í bjargarleysi, órökhyggju, skammsýni, trúgirni og örvæntingu. Óttasleginn maður er tilbúinn að gera nánast hvað sem er til að komast út úr þeim aðstæðum sem hann er í. Hann er líklegur til að taka vanhugsaða ákvörðun í von um björgun.

Íslendingar eru óttaslegnir. Umtalsvert atvinnuleysi er fyrirsjáanlegt og þeir sem ekki missa vinnuna missa spón úr aski sínum. Vaxtastig er kæfandi bæði fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Kaupmáttur rýrnar með vaxandi verðbólgu og gjaldeyri skortir. Þessi ótti á rétt á sér.

Hvað er til ráða? Sumir telja rétt að bregða búi og ráðast í vist hjá Evrópusambandinu.

Í þessari umræðu verð ég helst vör við myntrökin; krónan er ónýt og því skuli taka upp evru. Gallinn er sá að Ísland uppfyllir ekki Maastricht-skilyrðin sem eru forsenda upptöku. Lönd sem uppfylla þau hafa stöðugan gjaldmiðil og þurfa ekki á öðrum að halda. Uppfylling skilyrðanna er lofsvert markmið, óháð evru og við ættum að stefna að því fullum fetum. Ef og þá þegar Ísland uppfyllir þau skilyrði, yrði evruupptaka ástæðulaus.

Einn fylgifiskur aðildar er að öll sett lög frá ESB yrðu stjórnskipulega bindandi á Íslandi hvort sem Alþingi lögfestir þau eður ei. Það er gríðarlegt afsal fullveldis og sjálfsákvörðunarréttar sem krefst stjórnarskrárbreytingar.

Annar er upptaka tollastefnu ESB gagnvart ríkjum utan þess. Þéttir tollamúrar útiloka verslun við þróunarlönd. Ísland á að versla við allar þjóðir í stað þess að niðurgreiða vörur sem framleiddar eru á meginlandi Evrópu þar sem ekki eru skilyrði til ræktunar eða framleiðslu. Rúm 50% af útgjöldum ESB fara í niðurgreiðslu landbúnaðar með einhverjum hætti.

Okkar helsta hagsmunamál er sjávarútvegurinn. Sagt hefur verið að við fengjum undanþágu og héldum auðlindum okkar óskiptum. Það má vera, í bili. Ef afli evrópskra sjómanna brestur hversu langur tími líður áður en undanþágan heyrir sögunni til?

Áður var þörf en nú er nauðsyn að hafa sveigjanlegt hagkerfi og sjálfstæða efnahagsstjórn. Einmitt nú þurfum við að geta brugðist hratt og örugglega við sveiflum á gengi, atvinnustigi og verðbólgu. Með evru yrði efnahagsstjórnin staðsett í Brussel þar sem ekkert tillit væri tekið til Íslands ef aðstæður þar væru aðrar. Við megum ekki við meira íþyngjandi reglugerðum til að ná okkur upp úr kreppunni, sveigjanleiki er nauðsynlegur.

Í því samhengi má minnast á goðsögnina um „evrópsku hagsveifluna“ að hún sé eins alls staðar í Evrópu. Hagsveiflur eru ólíkar milli landa og innan landanna. Á Íslandi er gangur sveiflna ólíkur eftir landshlutum, jafnvel atvinnugreinum.Fyrst 300.000 manna myntsvæði sveiflast ekki eins, hví ætti 300 milljóna manna myntsvæði að gera það?

Margir hugleiða landflótta vegna efnahagsástandsins. Ef burðugt ungt fólk flýr land unnvörpum á Ísland ekki framtíð fyrir sér. Lykilatriði er að koma í veg fyrir fjármagnsflótta og spekileka. Því verður að taka á strax og ESB- aðild er ekki lausnin.

Þróun verður bara ef hún er nauðsynleg. Meðan allt leikur í lyndi er engin ástæða til annars en fylgja straumnum. Þegar straumurinn hættir eða snýst við verður að róa. Við megum ekki óttast ástandið heldur taka á því og jafnvel fagna því, því það er á tímum sem þessum sem við þróumst. Látum ekki ótta knýja okkur til að gera eitthvað eftirsjáanlegt. Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan.

Brynja Björg Halldórsdóttir,
formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu

(Birtist áður í Morgunblaðinu 24. nóvember 2008)


„Höfum ekkert að gera í ESB að óbreyttri fiskveiðistefnu þess"

trawler_734905.jpgAdolf Guðmundsson, nýkjörinn formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, er ómyrkur í máli um Evrópusambandið og fiskveiðistefnu þess í viðtali í Fiskifréttum í dag. „Frá sjónarhóli íslensks sjávarútvegs höfum við ekkert inn í Evrópusambandið að gera á meðan sjávarútvegsstefna þess er óbreytt."

Greint er frá viðtalinu á heimasíðu LÍÚ. Þar kemur fram að Adolf segir umræður um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu mótast af því að menn haldi að „það sé einhver patentlausn að ganga í Evrópusambandið en það er rangt." Hann segir ennfremur að þetta sé óheppilegur tími til samningaviðræðna „því við erum ekki í neinni stöðu til þess að gera kröfur á sama tíma og við erum á hnjánum að biðja þessar þjóðir um lán."

Formaður LÍÚ hefur í viðtalinu ekki nokkra trú á því að Íslendingum takist að hnika ESB til í afstöðu sambandsins til sjávarútvegs. „Ekki ómerkari stjórnmálamenn en Margaret Thatcher og Tony Blair reyndu að fá breytingar fyrir breskan sjávarútveg en tókst ekki. Því skyldi okkur takast það frekar?"

Adolf bendir einnig á að í ráð og nefndir innan ESB sé raðað út frá mannfjölda aðildarríkjanna. „Hver verða þá áhrif okkar að mikilvægum málum?" spyr formaðurinn.

Heimild:
Höfum ekkert að gera í ESB að óbreyttri fiskveiðistefnu þess (Vísir.is 21/11/08)

Tengt efni:
ESB: Varanlegar undanþágur í sjávarútvegi ekki í boði
Engin fordæmi fyrir varanlegum undanþágum frá sjávarútvegsstefnu ESB

Sjávarútvegsstefna ESB ósamrýmanleg íslenskum hagsmunum

Sjómenn sem fyrr andvígir ESB-aðild

LÍÚ segir Evrópusambandsaðild sem fyrr ekki koma til greina

Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?

Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB fær falleinkunn í nýrri skýrslu

Ítarefni:
Héldu Íslendingar yfirráðum sínum yfir auðlind Íslandsmiða við aðild að ESB?

Hvert yrði vægi Íslands innan ESB?

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


ESB og evra – óskhyggja og raunveruleiki

BirgirÞann 31. október skrifaði ég grein hér í blaðið þar sem ég lagði til að bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar Íslands að ESB og myntbandalagi Evrópu sameinuðust um það markmið að Ísland uppfyllti hin svokölluðu Maastricht-skilyrði um efnahagslegan stöðugleika og hæfust handa við að móta og skilgreina leiðir að því markmiði. Benti ég á að þótt menn greindi á um afstöðuna í Evrópumálum væri öllum ljóst að það væri lífsspursmál fyrir íslenskt efnahagslíf að ná stöðugleika og Maastricht-skilyrðin fælu í sér skynsamlegar viðmiðanir í því sambandi. Sjálfsagt væri og nauðsynlegt að Evrópuumræðan héldi áfram, kostir og gallar væru ræddir fordómalaust, en meira vit væri í að hefja þegar vinnu við að ná þeim markmiðum sem við ættum sameiginleg heldur en að knýja fram á næstunni niðurstöðu í þeim málum sem sundra okkur.

Í Reykjavíkurbréfi blaðsins frá 1. nóvember er vikið að þessum sjónarmiðum mínum og þrenns konar rök færð fram gegn þeim. Í fyrsta er fullyrt, án frekari skýringa, að tími biðleikja á þessu sviði sé liðinn eftir fjármálahrunið nú á haustdögum. Í öðru lagi er nefnt að aðildarumsókn myndi fela í sér sterkari skuldbindingu til að ná Maastricht-skilyrðunum en ella og að með aðild að ESB fengi Ísland stuðning ESB og Seðlabanka Evrópu til að halda genginu stöðugu en utan sambandsins sé slíkan stuðning ekki að hafa. Í þriðja lagi er nefnt í Reykjavíkurbréfinu að þar sem mikill stuðningur sé við upptöku evru í skoðanakönnunum sé í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa áhyggjur af klofningi þjóðarinnar í andstæðar fylkingar í þessum efnum.

Evra í fyrsta lagi eftir 4 til 6 ár
Um öll þessi atriði má auðvitað hafa langt mál. Höfundi Reykjavíkurbréfs er að sjálfsögðu velkomið að kalla tillögu mína biðleik. Hún mótast hins vegar af þeirri staðreynd að hvorki innganga í ESB né upptaka evrunnar sem gjaldmiðils verður að veruleika án verulegs aðdraganda – þar er um að ræða ferli sem óhjákvæmilega tekur nokkur ár. Hér innanlands þarf auðvitað fyrst að útkljá margvíslegar pólitískar og stjórnskipulegar spurningar. Það þarf að ákveða hvernig staðið yrði að aðildarumsókn – ætti það að vera ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar eða ætti að fara fram um það sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla eins og margir hafa lagt til að undanförnu? Hvernig þyrfti að breyta stjórnarskránni til að ESB-aðild yrði möguleg? Hver ættu samningsmarkmið okkar að vera, svo það helsta sé nefnt. Þá þyrfti auðvitað líka að klára sjálfa samningana við ESB, sem óhjákvæmilega tæki líka nokkurn tíma. Þann tíma má auðvitað stytta með því að ganga skilmálalítið eða skilmálalaust að kröfum sambandsins, en ólíklegt verður að teljast að um slíka nálgun næðist mikil samstaða hér innanlands. Þá eru allir sammála um að um ESB-aðild verði ekki tekin endanleg ákvörðun fyrr en lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. En jafnvel að samningum samþykktum og undirrituðum væri eftir formlegt ferli innan ESB, sem líka tæki tíma, ekki síst vegna þess að aðildarsamningur þyrfti staðfestingu á þjóðþingum allra aðildarríkjanna áður en hann tæki gildi. Og þá fyrst, að öllu þessu loknu, tæki við formlegur aðlögunartími að myntbandalaginu, sem í stysta lagi tekur tvö ár miðað við regluverk ESB, en hætt er við að verði lengri í ljósi þess hversu langt við eigum í land með að uppfylla hin margnefndu Maastricht-skilyrði miðað við stöðu efnahagsmála í dag.

Ég get ekki frekar en aðrir fullyrt hvenær við gætum í fyrsta lagi tekið upp evruna í ljósi allra þessara staðreynda. Ýmsir hafa nefnt 4 til 6 ár og verður það að teljast frekar bjartsýnt mat, sem byggir á því að engir sérstakir hnökrar verði á ferlinu. Það má auðvitað kalla tillögu mína biðleik, en með sama hætti mætti kalla flesta leiki biðleiki í ljósi þess hversu langt er þar til upptaka evrunnar væri möguleg.

Mun ESB-aðild sem slík stuðla að stöðugleika?
Vissulega má færa ákveðin rök fyrir því að aðildin sem slík og formlegt aðlögunarferli að stöðugleikaskilyrðum myntbandalagins myndi auka aðhald að stjórnvöldum. Á hitt ber að líta, að reynsla annarra þjóða er mjög misjöfn í þessu sambandi. Þar má benda á að Ungverjaland og Eystrasaltsríkin eru enn mjög langt frá því að uppfylla þessi skilyrði, þrátt fyrir að þau hafi verið aðilar að ESB í fjögur ár og allan þann tíma stefnt að því að taka upp evruna. Í opinberum gögnum frá Ungverjalandi kemur fram að þarlend stjórnvöld telji að enn geti liðið 4 til 6 ár áður en af gjaldmiðilsbreytingunni geti orðið. Og benda má á að staða þeirra innan ESB megnaði ekki að forða þeim frá fjármálakreppu, ekki ólíkri þeirri sem við búum við, og stuðningur Seðlabanka Evrópu við Ungverja kom ekki til sögunnar fyrr en nú fyrir fáeinum dögum, eða um sama leyti og þeir voru að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um stuðning með sama hætti og við erum að vinna að þessa dagana. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það er hæpið að fullyrða, eins og margir ESB-sinnar gera, að ESB-aðild, eða jafnvel bara yfirlýsing um að sækja um ESB-aðild, fæli í sér einhverja sérstaka vörn fyrir íslenskt efnahagslíf. Ég er hræddur um að slík viðhorf mótist meira af óskhyggju en raunsæi.

Óhjákvæmileg átök
Þriðja atriðið, sem höfundur Reykjavíkurbréfs víkur að í skrifum sínum, er að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af klofningi þjóðarinnar í þessum málum ef mikill meirihluti þjóðarinnar vilji aðild að ESB og upptöku evru. Meirihlutinn eigi auðvitað að ráða og minnihlutinn verði að sætta sig við þá niðurstöðu. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær. Bréfritari horfir hins vegar fram hjá því að á leiðinni til aðildar og evru þarf að taka margar ákvarðanir, sem óhjákvæmilega verða umdeildar og munu skipta þjóðinni í andstæðar fylkingar. Það þarf engan sérstakan spámann til að sjá fyrir þær deilur, sem munu verða um ákvörðun um aðildarumsókn, ákvörðun um samningsmarkmið, breytingu á stjórnarskránni til að heimila fullveldisframsal og hvað þá hina endanlegu ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin skref verða tekin á þessari leið nema að undangengnum miklum umræðum og átökum.

Það er áreiðanlega rétt mat að við Íslendingar getum ekki vikist undan því að fara í gegnum þessar umræður á næstu árum. Hér er um að ræða stórmál, sem auðvitað verður að leiða til lykta fyrr eða síðar. Þegar kemur að því að útkljá ágreininginn munu þessi átök yfirskyggja öll önnur viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna. Ekki er við öðru að búast enda er um að ræða ákvarðanir sem verða afdrifaríkar fyrir allt þjóðfélagið um langa framtíð. Verði tekin ákvörðun um ESB-aðild er ljóst að þar er ekki um að ræða neina bráðabirgðaákvörðun til að mæta tilteknum erfiðleikum eða tímabundnum vanda. Slíkri ákvörðun er ætlað að standa um áratugaskeið. Spurningin sem ég velti fyrir mér er sú, hvort þessar deilur séu brýnasta verkefnið í dag og á næstu mánuðum eða hvort ekki væri nær að við reyndum að sameinast um þau viðfangsefni, sem við blasa í efnahagslífi þjóðarinnar og krefjast úrlausnar þegar í stað. Ég taldi – og tel enn – að það geti verið raunhæft fyrir okkur að ná breiðri samstöðu um að vinna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, enda miða þau óumdeilanlega að þeim efnahagslega stöðugleika, sem enginn getur efast um að við þurfum sárlega á að halda.

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 12. nóvember 2008)


mbl.is ESB-aðild á sama tíma og Króatía?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB: Varanlegar undanþágur í sjávarútvegi ekki í boði

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá Evrópusambandinu, staðfesti í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að Íslendinga gætu ekki átt von á verulegum tilslökunum frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins kæmi til þess að Ísland sækti um Evrópusambandsaðild. Rehn sagði að einhverjar tilslakanir á stefnunni væru hugsanlega mögulegar en þó gætu Íslendingar ekki búist við því að fá meiriháttar undanþágur frá henni.
 
Ljóst er að ummæli Rehn eru í fullu samræmi við málflutning sjálfstæðissinna til þessa. Varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eru ekki í boði í neinu sem máli skiptir enda engin fordæmi fyrir slíku, nokkuð sem Rehn staðfesti í samtali við Fréttablaðið 8. nóvember sl. Rétt er þó að halda því til haga að ráðamenn Evrópusambandsins hafa áður ítrekað staðfest þetta á undanförnum árum.

Í frétt Ríkissjónvarpsins var einnig rætt við Hans Martens hjá hugveitunni European Policy Centre sem sagðist hvetja Íslendinga til að reyna að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins innan frá. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Bretar hafa reynt í meira en 30 ár að ná fram breytingum á sjávarútvegsstefnu sambandsins en án alls árangurs.
 
Heimild:
ESB: Tilslakanir í veiði ólíklegar (Rúv.is 20/11/08)
 
Tengt efni:
 
Ítarefni:
 
Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.

„Krónan er ykkar styrkur“

hermann_oskarsson.jpg„Ég veit að það hljómar ekki vel á Íslandi þessa dagana en krónan er engu að síður ykkar styrkur í efnahagsástandi eins og nú ríkir. Danska krónan hjálpaði okkur ekki í kreppunni á sínum tíma,” sagði Hermann Oskarsson, hagstofustjóri Færeyja, á morgunverðarfundi sem fram fór á Grand Hótel í gær.

„Hvað getum við lært af Færeyingum?“ var yfirskrift fundarins, þar sem Hermann og Gunvör Balle, aðalræðismaður Færeyja á Íslandi, ræddu opinskátt um kreppuna sem skall á Færeyjum upp úr 1990. Í henni dróst þjóðarframleiðsla saman um þriðjung,  12% íbúanna flutti á brott og atvinnuleysi fór yfir 30% þegar mest var.

Bæði Hermann og Gunvör voru sammála í greiningu sinni á orsökum kreppunnar í Færeyjum; Langvarandi ofneysla almennings, pólitísk óstjórn og inngrip í efnahagsmál og andvaraleysi eftirlitsaðila.

Hermann sagði fólksflóttann hafa verið dýrasta gjaldið sem eyjarnar hefðu greitt. Hann sagði einnig að ef það væri eitthvað eitt sem Íslendingar gætu af færeysku kreppunni lært væri það að sporna gegn því með öllum ráðum að fólk flyttist úr landi.

Heimild:
„Krónan er ykkar styrkur“ (Líú.is 18/11/09)


Engin fordæmi fyrir varanlegum undanþágum frá sjávarútvegsstefnu ESB

trawler.jpgOlli Rehn, stækkunarmálastjóri Evrópusambandsins, ítrekaði í viðtali við Fréttablaðið 8. nóvember sl. að engin fordæmi væru fyrir varanlegum undanþágum frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þetta er í samræmi við það sem sjálfstæðissinnar hafa bent á en hins vegar algerlega á skjön við það sem margir Evrópusambandssinnar hafa margoft haldið fram. Rehn er þó langt því frá fyrsti forystumaður Evrópusambandsins sem tekið hefur þetta fram en það gerði t.a.m. Franz Fischler, þáverandi sjávarútvegsstjóri sambandsins, ítrekað á sínum tíma og benti jafnframt á að slíkar varanlegar undanþágur væru einfaldlega ekki í boði.

Í viðtali Fréttablaðsins við Olli Rehn kom fleira athyglisvert fram. Þar sagðist hann einnig "þess fullviss að Ísland gæti uppfyllt aðildarskilyrðin [í sjávarútvegsmálum] og lagað sig að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB." Ísland á m.ö.o. að laga sig að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins en það er hins vegar alls ekki í boði að sjávarútvegsstefna sambandsins verði löguð að hagsmunum Íslendinga. Þetta er í fullu samræmi við reynslu Norðmanna af síðustu aðildarviðræðum þeirra við Evrópusambandið fyrir um 15 árum síðan. Þeim var aðeins boðið upp á tímabundinn aðlögunartíma að sjávarútvegsstefnu sambandsins en varanlegar undanþágur voru ekki frekar í boði þá en í dag.

Við aðild að Evrópusambandinu heyrði íslenska fiskveiðilögsagan sögunni til og yrði eftirleiðis aðeins hluti af "Evrópusambandshafinu" eins og það er kallað. Öll yfirstjórn sjávarútvegsmála Íslendinga yrði færð til sambandsins. Þar yrðu teknar allar veigameiri ákvarðanir um íslensk sjávarútvegsmál. Aðkoma Íslendinga að þeim málum yrði eftir það nánast engin enda fer vægi aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Samkvæmt þeirri meginreglu sambandsins yrði vægi Íslands lítið sem ekkert og allir möguleikar til áhrifa eftir því. Þ.m.t. á sjávarútvegsmálin.

Heimild:
Hægt að semja fljótt um inngöngu í ESB (Fréttablaðið 08/11/08)

Tengt efni:
Sjávarútvegsstefna ESB ósamrýmanleg íslenskum hagsmunum
Sjómenn sem fyrr andvígir ESB-aðild
LÍÚ segir Evrópusambandsaðild sem fyrr ekki koma til greina
Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?
Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB fær falleinkunn í nýrri skýrslu

Ítarefni:
Héldu Íslendingar yfirráðum sínum yfir auðlind Íslandsmiða við aðild að ESB?
Hvert yrði vægi Íslands innan ESB?

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Íslandi stjórnað af brezkum stjórnvöldum?

hjortur jÍ Staksteinum Morgunblaðsins laugardaginn 8. nóvember sl. sagði að andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu væru farnir að benda á að framkoma brezkra og hollenzkra stjórnvalda í garð okkar Íslendinga gerði ekki slíka aðild fýsilegri en ella. Orðaval Staksteinahöfundar, ritstjórans Ólafs Þ. Stephensens, var að vísu nokkuð öðruvísu í samræmi við hans eigin pólitíska afstöðu til málsins en boðskapurinn var hinn sami. Ólafur sagði að Icesave-málið svokallað væri þó ekki líklegt til þess að standa í vegi fyrir íslenzkri umsókn um Evrópusambandsaðild til lengri tíma litið. Rökin voru þau að ríkin, sem komið hafa af óbilgirni fram við okkur Íslendinga, væru ekki aðeins bæði í Evrópusambandinu heldur einnig aðilar að NATO, Evrópuráðinu og OECD ásamt Íslandi.

Þessi röksemdafærsla Ólafs lýsir furðulegri vanþekkingu á eðli þeirra stofnana sem vísað er til. Ég á erfitt með að trúa því að velmenntaður stjórnmálafræðingur eins og hann telji virkilega að þær séu allar sambærilegar á þennan hátt þó erfitt sé að skilja orð hans á annan veg. T.a.m. að Evrópusambandið sé sambærilegt við NATO sem er byggt upp sem varnarbandalag á sama tíma og lítið vantar upp á að Evrópusambandið verði að einu miðstýrðu sambandsríki. Stofnanir Evrópusambandsins hafa gríðarleg völd í dag yfir málefnum aðildarríkja sambandsins, völd sem áður voru stór hluti af fullveldi ríkjanna en eru það ekki lengur. Völd stofnananna hafa sífellt aukizt á undanförnum árum og í dag er svo komið að leitun er að málaflokkum innan aðildarríkja Evrópusambandsins sem þær hafa ekki meiri eða minni yfirráð yfir.

Innan Evrópusambandsins gildir sú meginregla að vægi aðildarríkjanna, og þar með möguleikar þeirra til áhrifa, miðast fyrst og fremst við það hversu fjölmenn þau eru. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu óhagstæður sá mælikvarði yrði fyrir okkur Íslendinga. Fyrir vikið ráða stærstu aðildarríkin mestu í krafti stærðar sinnar, þá einkum Þýzkaland, Frakkland – og Bretland. Ef við gengjum í Evrópusambandið myndu brezk stjórnvöld þannig t.a.m. hafa margfalt meira með stjórn Íslands að gera en nokkurn tímann íslenzk stjórnvöld og við Íslendingar. Það er því ljóst að það er algerlega út í hött að setja það samasem merki á milli Evrópusambandsins annars vegar og NATO, Evrópuráðsins og OECD hins vegar eins og Ólafur Þ. Stephensen vill gera í þágu pólitískra skoðana sinna.

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Endurskoða þarf ESB

hjortur jFréttavefur Morgunblaðsins greindi frá því á dögunum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefði kallað eftir því á Alþingi að endurskoða þyrfti Evrópusambandið. Það er alveg ljóst að Ingibjörg hefur hér algerlega á réttu að standa, það hefur um árabil verið mikil þörf á því að taka sambandið til endurskoðunar. Svo vill nefnilega til að endurskoðendur Evrópusambandsins hafa í 13 ár samfellt, eða allar götur síðan 1995, harðneitað að staðfesta bókhald sambandsins vegna þess að vinnubrögðin við það hafa verið langt frá því að vera ásættanleg. Bókhaldið hefur verið uppfullt af alls kyns rugli og misfærslum ár eftir ár. Ekki hefur verið vitað fyrir víst í hvað mikill meirihluti útgjalda Evrópusambandsins hefur farið en um stjarnfræðilegar upphæðir er að ræða sem teknar eru úr vösum skattgreiðenda í aðildarríkjum sambandsins. Þegar liggur fyrir að niðurstaðan í ár verði sú sama og síðustu ár þegar hún verður gerð opinber síðar í þessum mánuði (nóvember).

Áður en þetta mál varð opinbert í byrjun árs 2002 höfðu ráðamenn Evrópusambandsins reynt allt til þess að sópa því undir teppið og koma í veg fyrir að almenningur kæmist á snoðir um það. Þá hafði þessi bókhaldsóreiða sambandsins fengið að ganga samfellt í 7 ár án þess að neitt væri gert í því. Þáverandi yfirmaður endurskoðendasviðs Evrópusambandsins, Marta Andreasen sem var fyrsta manneskjan til gegna embættinu með menntun til þess, reyndi að benda yfirmönnum sínum í framkvæmdastjórn sambandsins á að þetta gengi ekki, þetta yrði að laga, en talaði fyrir algerlega daufum eyrum. Eftir að hafa komið alls staðar að lokuðum dyrum hjá forystumönnum Evrópusambandsins fór Andreasen loks með málið í fjölmiðla. Í framhaldinu var henni vikið úr starfi og er enn þann dag í dag eina manneskjan sem hefur þurft að taka pokann sinn vegna málsins.

Hér er á ferðinni ein hlið Evrópumálanna sem full ástæða er til þess að ræða enda varðar hún algert grundvallaratriði. Ef forystumenn Evrópusambandsins geta ekki einu sinni haft bókhald sambandsins nokkurn veginn í lagi, hvernig í ósköpunum ætti fólk þá að geta treyst þeim fyrir svo fjölmörgu öðru mikilvægu?

Hjörtur J. Guðmundsson

Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 1693
  • Frá upphafi: 1142065

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband