Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Frá lýðræði til evru

kristinn-h-gunnarssonHið almenna fyrirkomulag efnahagsmála í lýðræðisríkjum er á þann veg að ríkisstjórn með meirihluta þjóðþings á bak við sig ber höfuðábyrgð á ríkisfjármálum, svo sem ákvörðun skatta og útgjalda. Jafnframt hefur ríkisstjórnin í hendi sér tæki peningamálastjórnunarinnar beint eða óbeint með áhrifum sínum á löggjöf. Grundvallaratriðið er að þeir sem nú fara með valdið eru kosnir og styðjast við meirihluta kjósenda í störfum sínum. Evran brýtur upp þetta mynstur. Upptaka evru þýðir að stjórn peningamála er færð í hendur sameiginlegs yfirþjóðlegs stjórnvalds í Seðlabankanum í Frankfurt.

Stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa ekkert yfir Seðlabanka Evrópu að segja. Athyglisvert er að fram kemur í bókinni: Hvað með evruna? eftir þá Eirík Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson, sem kom út fyrr á þessu ári, að völdin sem Seðlabanka Evrópu eru færð, séu óafturkræf. Leiðin til evrunnar er leiðin undan áhrifum kjósenda. Hún er leiðin frá lýðræðinu.

Lækkun launa
Bókin, sem ég nefndi áðan: Hvað með evruna? er fróðleg lesning og ágætt innlegg í umræðuna um Evrópumálin. Ég vil hvetja áhugamenn um þessi málefni til þess að kynna sér efni bókarinnar. Höfundar eru fylgjandi evrunni og aðild að Evrópusambandinu, en reifa málið engu að síður út frá báðum hliðum. Þar er meðal annars rakin sú breyting á launum og vinnumarkaði sem verður þegar gengi og vextir í einu ríki eru ekki lengur ákvarðaðir út frá aðstæðum þar heldur á miklu stærra efnahagssvæði. Eðlilega tekur Seðlabanki Evrópu mið af heildinni í störfum sínum. Gengisbreyting er
þá ekki lengur leið til þess að lækka framleiðslukostnað í niðursveiflu heldur verður eina ráðið í viðkomandi ríki bein launalækkun eða aukið atvinnuleysi. Ég hygg að verkalýðshreyfingin á Íslandi hafi aldrei samið um lækkun launa og ólíklegt er að hún muni gera það.

Á þetta mun örugglega reyna í evruumhverfi. Breytileg launaþróun eftir löndum hverfur ekki úr sögunni við það eitt að taka upp evru, ekkert frekar en breytilegir vextir milli evrulanda. Þeir Eiríkur Bergmann og Jón Þór benda á í bók sinni að laun í nokkrum evrulöndum hafi frá 1999 hækkað meira en t.d. í Þýskalandi og Austurríki. Það veldur hærri framleiðslukostnaði og fyrirtæki þar standa lakar að vígi í samkeppni við fyrirtæki í löndunum þar sem launin eru lægri. Eina leiðin til þess að jafna samkeppnisskilyrðin er að lækka launin með beinum hætti eða horfast í augu við atvinnuleysi. Önnur úrræði hafa stjórnvöld ekki.

Fjármálastefnunefnd
Sú staðreynd að stjórn peningamála er hjá Seðlabanka Evrópu en efnahagsstjórnunin að öðru leyti í höndum ríkisstjórna veldur togstreitu þarna á milli. Peningamálastefna og ríkisfjármálastefna verða að spila saman. Þetta veldur því að uppi eru kröfur um aukin áhrif hins yfirþjóðlega valds Evrópusambandsins í efnahagsmálum. Ákvörðun um sameiginlegan gjaldmiðil getur varla leitt til annars en einhverrar útgáfu af Evrópuríki með miðlæga efnahagsstjórn, að öðrum kosti er vandséð hvernig evran muni eiga framtíð fyrir sér.

Þeir Eiríkur Bergmann og Jón Þór Sturluson eru greinilega á þeirri skoðun og leggja til að þegar Ísland hefur tekið upp evruna verði sett á fót sérstök fjármálastefnunefnd, skipuð sérfræðingum á sviði hagfræði og efnahagsmála. Hin nýja nefnd fari með stjórn á tilteknum afmörkuðum tekjustofnum hins opinbera og þurfi ekki að fá staðfestingu Alþingis eða framkvæmdavaldsins á ákvörðunum sínum. Þetta telja þeir afar mikilvægt þar sem annars gæti tekið alllangan tíma að móta aðgerðir og fá þær samþykktar á þjóðþinginu. Þá fer myndin að skýrast, evran er greinilega upphaf vegferðar frá lýðræðinu byggð á vantrú á þjóðkjörnum stjórnmálamönnum og á oftrú á sérfræðingum.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum 29. júlí 2008)


Evran: Undraelexír?

orvar_marteinssonÍ fjölmiðlum sumarsins hefur fátt farið hærra en umræða um gjaldmiðilsvandræði og Evrópusambandsaðild. Mikið er gert úr vandræðum okkar hérna á Íslandi, mikilli verðbólgu og kreppu. Lausnin sem helst er nefnd er að varpa gjaldmiðlinum okkar – krónunni – út í hafsauga og ganga í Evrópusambandið. Það á að vera það sem bjargar okkur. Ég ætla aðeins að tjá mig um þetta:

Í fyrsta lagi langar mig að benda á það að þegar evran var innleidd á Ítalíu lækkaði ekki vöruverð heldur hækkaði um upp undir 50% (á mörgum vörum 100% til nokkurs tíma en leiðréttist svo aðeins). Launin hækkuðu hins vegar lítið sem ekkert. Margt fólk lenti í miklum vandræðum og ástandið er rétt um það bil að ná sér á strik núna – mörgum árum seinna. Svipaða sögu er að segja um önnur Evrópusambandsríki.

Í öðru lagi eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar m.a. stöðugleiki í efnahagsmálum, lítill viðskiptahalli, lítil verðbólga og litlar erlendar skuldir. Þannig að þegar við mættum taka upp hina æðislegu evru sem á að lækna alla okkar kvilla – þurfum við að vera búin að losa okkur við kvillana sjálf. Það er eins og ef maður kæmi með veikt barn til læknis og hann segðist eiga frábært lyf til að lækna það. Það eina sem þyrfti að gera væri að vera orðinn heilbrigður til að fá lyfið!

Í þriðja lagi velti ég því oft fyrir mér hvað það er sem fólk telur sig fá út úr evrunni. Lægri vextir? Engin verðtrygging? Ok, má vera. En hvað þá? Getur fólk þá haldið áfram að lifa um efni fram á lágvaxtakjörum? Heldur fólk í alvöru að það verði ekkert mál að fá peninga og aftur peninga, án þess að borga nokkuð fyrir það? Heldur fólk að bankarnir láni óverðtryggða milljón og sætti sig við að fá aðeins andvirði 900 þúsunda til baka? Í hvaða draumaheimi lifir fólk eiginlega?

Í fjórða lagi vil ég benda á það að Evrópusambandið er ekki gjaldmiðill. Ýmsir aðilar hafa lýst því yfir að þeir vilji aðildarumsókn að ES til lausnar á gjaldmiðilsvanda okkar. Það er nokkuð ljóst að krónan okkar er ekki gallalaus. En að ganga í Evrópusambandið er ekki bara að taka upp annan gjaldmiðil. Það fylgir því svo óendanlega margt annað – svo miklar hömlur, svo margir gallar, fullveldisframsal, sennilegar launalækkanir og síðast en ekki síst óendanlegt reglugerðarfargan og hömlur á stærri og sérstaklega smærri fyrirtæki. Ég vil sérstaklega vara ferðaþjónustufyrirtæki við aðild. Hvaða sérstöðu eiga ferðamenn að sækjast í hér á Íslandi þegar allt verður komið undir samræmda Evrópusambandsstaðla?

Mér finnst það í rauninni lúalegt bragð Evrópusambandssinna að nota sér efnahagslægðina til að ýta okkur inn í Evrópusambandið. Efnahagslægðin er úti um allan hinn vestræna heim og eldsneytisverð og matvælaverð hefur alls staðar rokið upp í hæstu hæðir. Kreppan hérna heima er ekki tilkomin vegna þess að við erum ekki í Evrópusambandinu og lausnin er ekki sú að ganga þar inn. Fyrir svo utan það að kreppan verður löngu búin þegar við gætum tekið upp evruna. Þetta gerist ekkert á einni nóttu! Ég óttast hins vegar að með Evrópusambandssinna við stjórnvölinn gangi hægt að vinna í öðrum lausnum vandans. Sá vonarneisti hefur nefnilega kviknað að kreppan geti verið nothæf átylla til að sannfæra okkur um nauðsyn aðildar.

Við þurfum að líta í eigin barm. Hætta að eyða um efni fram, enda hlýtur það að vera augljóst að það gengur ekki upp til lengdar að eyða meiru en maður aflar. Sennilega verður þetta sársaukafull aðlögun en hún er óumflýjanleg og vonandi lærdómsrík. Evran er engin undraelexír enda þarf efnahagslífið að ná heilbrigði til að mega njóta hans. Það er hins vegar markmið sem verður að nást.

Örvar M. Marteinsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 28. júlí 2008 og á bloggsíðu höfundar)


Pólitískt bandalag

kristinn-h-gunnarssonEvrópusambandið er, þegar grannt er skoðað, fyrst og fremst pólitískt bandalag þjóða. Það byrjar sem öryggis- og varnarsamtök sem ætlað er að styrkja friðinn í Evrópu með því að gera þjóðirnar sem háðastar hver annarri. Síðan þróast bandalag þjóðanna yfir í formlegt ríkjasamband sem stefnir í átt til sambandsríkis með eigin ríkisstjórn, þing og dómstól og eigin mynt, rétt eins og Bandaríkin. Undanfarin ár hefur verið rætt um Evrópusambandið hér á landi nær eingöngu á afmörkuðum efnahagslegum forsendum. Þar hefur ekki verið sem skyldi litið til þess að Evrópusambandið er reist á pólitískum áherslum og að litið er til heildarinnar fremur en einstakra fámennra aðildarríkja. Bæði öryggis- og efnahagsleg sjónarmið Evrópusambandsríkjanna eru að miklu leyti önnur en Íslendinga. Til þessa hefur hagsmunum okkar verið mun betur varið utan ESB en innan.

Þjóðir í Evrópu hafa háð styrjaldir hver við aðra öldum saman og kannski aldrei eins illvígar og á síðustu öld, þegar þær urðu tvisvar að heimsstyrjöldum. Evrópubandalaginu er ætlað að koma í veg fyrir stríð. Leiðin er sú að starfa saman friðsamlega og að gera þjóðirnar hver annarri háðar á sem flestum sviðum. Með því móti verður stríð öllum óbærilegt og vonandi óhugsandi. Þetta er alveg eðlileg viðleitni og ef Íslendingar væru í miðri Evrópu með öll gömlu stórveldin umhverfis sig, Frakka, Þjóðverja, Austurríkismenn, Ítala o.s.frv. og hefðu um aldir mátt þola yfirgang og stríð, þá hygg ég að flestir myndu telja skynsamlegt að vera aðilar að þessu bandalagi. En svo er ekki, Íslendingar eru ekki í þessari stöðu og hafa aldrei verið.

Austur-Evrópuríkin hafa þyrpst inn í Evrópusambandið eftir hrun Sovétríkjanna. Það eru að mörgu leyti eðlilegar ástæður fyrir því. Þau eru að tryggja öryggi sitt gagnvart Rússum og fela Evrópusambandinu að koma fram við þá fyrir sína hönd. Þau eru mörg háð olíu og gasi frá Rússlandi og yrðu ein og sér algerlega undir hælnum á þeim. Að auki hafa margar Austur-Evrópuþjóðir sóst eftir aðild að NATO sem færir þeim hernaðarstuðning Bandaríkjamanna. Íslendingar hafa tryggt öryggi sitt með aðild að NATO og þurfa ekki á Evrópusambandinu að halda í þeim efnum.

Þriðja atriðið sem vert er að benda á er að lífskjörin í ríkjum gömlu Austur-Evrópu voru og eru víða enn miklu lakari en vestan járntjaldsins. Með aðild að Evrópusambandinu fengu þjóðirnar viðamikla efnahagslega aðstoð sem með tímanum á að koma þeim úr fátækt og skapa velferðarþjóðfélag. Kostnaðurinn er gríðarlegur og lendir á fáum þjóðum. En sjónarmið þeirra er að kostnaðurinn sé þess virði, með þessu verði nýju aðildarríkin í austrinu bandamenn en ekki óvinveitt og öryggi Evrópu og friður verði betur tryggt. Sem fyrr eru þetta aðstæður sem eiga ekki við um Ísland og því ekki þörf á að tryggja öryggi landsins með því að greiða háar fjárhæðir til Evrópusambandsins.

Þær pólitísku forsendur sem skópu Evrópubandalagið eru aðrar en eiga við á Íslandi. Að auki þá eru lífskjör á Íslandi mun betri en í flestum Evrópusambandsríkjum og hér er ekki viðvarandi atvinnuleysi sem er landlægt í Evrópu. Íslendingar hafa komist áfram og skapað þjóðfélag sem er í fremstu röð í heiminum þegar litið er til þátta eins og menntunar, heilsufars, umönnunar og lífskjara. Það hefur verið gert með því að nýta auðlindir lands og sjávar og hafa heiminn allan undir í viðskiptum. Evrópubandalagið hefur breyst í Evrópusambandið og stefnir í Evrópuríkið. Aðild að því getur vissulega haft sína kosti, en því fylgir líka mikið og vaxandi afsal fullveldis. Slík þróun hefur áður orðið hérlendis og ekki reynst vel.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum 24. júlí 2008)


Seðlabanki ESB kemur ekki Írum, Spánverjum og Portúgölum til hjálpar

jean-claude_trichetForseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópusambandsins, Jean-Claude Trichet, sagði í samtali við írska dagblaðið Irish Times 18. júlí sl. að bankinn myndi ekki beita peningamálastefnu sinni til þess að koma evruríkjum eins og Írlandi, Spáni og Portúgal, sem eiga við mikil efnahagsvandamál að stríða, til aðstoðar.Sagði Trichet að Seðlabanki Evrópusambandsins yrði að horfa á heildarhagsmuni evrusvæðisins á hliðstæðan hátt og Seðlabanki Bandaríkjanna gæti ekki tekið sérstakt tillit til hagsmuna Missouri, Kaliforníu eða Texas. Sem út af fyrir sig verður að teljast athyglisverður samanburður í ljósi þess að aðildarríki Evrópusambandsins eiga að heita fullvalda ríki.

Ummæli Trichet eru annars mikið umhugsunarefni og staðfestir það sem áður hefur komið fram, s.s. í greinargerð um kosti og galla upptöku evru á Íslandi sem Hagfræðastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Evrópunefnd forsætisráðherra, að ef Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki upp evru myndi peningamálastefnan sem þá gilti hér á landi seint taka tillit til íslenskra hagsmuna og ekki einu sinni þó Íslendingar væru nokkrar milljónir og jafnvel tugmilljónir.

Heimild:
Trichet warns ECB will not alter policy to help Ireland (Irish Times 18/07/08)

Tengt efni:
17,5% verðbólga í ESB-ríkinu Lettlandi
Vaxandi ósamræmi innan evrusvæðisins skapar efasemdir um framtíð þess
Þingflokkur Frjálslynda flokksins segir evru og ESB enga lausn
Hagsveiflur og Evrópusambandið
Írar og evran
Myndi ESB og evru fylgja minni eða meiri sveiflur í efnahagslífinu?
Ísland ekki of lítið fyrir sjálfstæða gjaldeyrisstefnu
Virtur franskur banki varar við ójafnvægi innan evrusvæðisins
Issing segir efnahagslegar undirstöður evrusvæðisins vera gallaðar

Ítarefni:
Kostir og gallar upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi
Á evrusvæðið framtíðina fyrir sér?

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Evrópuhugsjónin og Ísland

arni_helgasonEftir að Lissabon-sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi í síðasta mánuði (sama plaggið og Frakkar og Hollendingar felldu árið 2005) hefur verið tekist á um framtíðarþróun Evrópusambandsins. Skiptar skoðanir eru um sífellt nánari samruna með auknum áhrifum frá aðildarríkjunum til stofnana ESB í Brussel og eins hvort Evrópusambandið sé ekki farið að útvíkka starfssvið sitt meira en ráð var fyrir gert í upphafi.

Hin upphaflega Evrópuhugsjón gekk ekki út á umsvifamikið stjórnkerfi sem blandaði sér í nánast öll innri málefni aðildarríkjanna. Hugsjónin um Evrópu og samstarf Evrópuríkjanna gengur út á að greiða fyrir verslun og viðskiptum og koma í veg fyrir að hindranir og höft dragi úr möguleikum og tækifærum einstaklinga og fyrirtækja.

Nánari samruni felldur
EES-samningurinn felur einmitt þetta í sér, þ.e. að tryggja fjórfrelsið og skapa sameiginlegan innri markað. Þetta hefur skilað öllum þátttakendum óumdeildum ávinningi og það var mikið heillaspor fyrir Ísland að taka þátt.

Aftur á móti virðast sífellt fleiri íbúar Evrópu setja spurningamerki við þá stefnu forystu Evrópusambandsins að færa til sín aukin völd á kostnað aðildarríkjanna í málaflokkum sem ekki tengjast beint viðskiptum eða markaði. Þessi tortryggni íbúanna sést ágætlega í því að íbúar Írlands, Hollands og Frakklands hafa nú á þremur árum fellt hugmyndir sambandsins um stjórnarskrá og dýpri pólitískan samruna í þjóðaratkvæðagreiðslum, en þessar þrjár þjóðir voru þær einu sem fengið hafa að kjósa beint um þessar hugmyndir.

Í nýlegri könnun ICM fyrir samtökin Global Vision í Bretlandi kom fram að nærri tveir þriðju aðspurðra myndu vilja samvinnu við Evrópusambandið sem byggðist eingöngu á viðskiptum og verslun.

ESB beitir sér víða
Umræða og ummæli þeirra sem ráða ferðinni innan Evrópusambandsinseru oft í hróplegu ósamræmi við hugmyndir um laustengdara samband og þá falleinkunn sem aukinn samruni hefur fengið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Nicolas Sarkozy, sem leiðir ráðherraráð Evrópusambandsins næsta hálfa árið, sagði um daginn að það væri sérstakt áhyggjuefni hve margir Evrópubúar virtust horfa til síns þjóðríkis varðandi vernd og öryggi í daglegu lífi í stað þess að horfa til Evrópusambandsins.

Laszlo Kovacs, yfirmaður skattamála hjá Evrópusambandinu, hefur boðað að gjaldtaka á sígarettur innan sambandsins verði hækkuð, mest hjá nýju aðildarþjóðunum sem gætu búist við allt að 50% gjaldhækkun á sígarettur. Þetta verður gert til þess að vinna að heilbrigðismarkmiðum sambandsins og þá hyggst þingmaður á Evrópuþinginu beita sér fyrir löggjöf um að sígarettur verði bannaðar árið 2025.

Nýverið ákvað framkvæmdastjórn sambandsins að draga ítölsk stjórnvöld fyrir dómstól vegna þess að sorphirða í Napólí væri í ólestri.

Í öllum þessum nýlegu dæmum vaknar spurningin um réttmæti þess að ESB hafi afskipti af innri málefnum aðildarríkjanna. En slík sjónarmið virðast ekki hafa mikið vægi hjá forystu sambandsins.

Því er stundum haldið fram að staða Íslands í Evrópusamstarfinu skaprauni forystu ESB vegna þess að við njótum kostanna við samstarfið en tökum ekki á okkur allar skyldurnar. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Við eigum auðvitað að byggja á þeirri hugsjón um Evrópusamstarf sem við trúum á en standa utan við þann hluta hennar sem er okkur síður að skapi.

Árni Helgason,
framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna

(Birtist áður á 24 stundum 24. júlí 2008)


Meirihluti Íra sáttur við höfnun Stjórnarskrár ESB

irish_flagSamkvæmt nýbirtri skoðanakönnun er meirihluti Íra sáttur við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) sem fram fór 12. júní sl., en þar var honum hafnað með 53% þeirra sem greiddu atkvæði. Könnunin var gerð fyrir írska dagblaðið Irish Times daginn eftir þjóðaratkvæðið en niðurstöður hennar voru ekki birtar fyrr en í gær, 25. júlí. 54% aðspurðra sögðust ánægð með niðurstöðurnar, þar af tæplega einn af hverjum 10 sem greiddu atkvæði með sáttmálanum. Einungis 34% sögðust vera ósátt við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins og 11% voru óákveðin.

Heimild:
Majority are happy with Lisbon result - poll (Irish Times 25/07/08)

Tengt efni:
Lýðræðisást ESB-sinna
Lýðræðið hafnar stjórnarskrá ESB aftur
Evrópusambandið gegn sjálfstæði
Ótíðindi fyrir ESB
Írar hafna Stjórnarskrá Evrópusambandsins
Djúpstæður trúnaðarbrestur
Óþægir Írar kjósa um framtíð ESB
ESB-lýðræði á brauðfótum

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Evran - bezt í heimi?

Í Fréttablaðinu 7. júlí sl. birtist grein eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, undir fyrirsögninni "Íslenska krónan - best í heimi?" þar sem hann gerði að umfjöllunarefni sínu nýlega úttekt danska viðskiptablaðsins Børsen. Niðurstaða hennar var á þá leið að íslenzka krónan væri um þessar mundir einn veikasti gjaldmiðill heimsins og hefði þannig fallið um 30% gagnvart dönsku krónunni frá síðustu áramótum. Svona lagað þekkist aðeins hjá þjóðum sem við erum ekki vön að bera okkur saman við eins og hjá íbúum einræðisríkja á borð við Zimbabwe og Túrkmenistan sagði Árni laus við allt yfirlæti.

Evran = stöðnun
Árni Páll er sem kunnugt er einhver ákafasti talsmaður þess hér á landi að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru. Hann hefur verið iðinn við að reka áróður fyrir þeirri afstöðu sinni á undanförnum árum og er umrædd grein hans þar engin undantekning. Að venju á allt að verða svo miklu betra ef Ísland legði nú bara niður sjálfstæðið og gerðist svo gott sem áhrifalaust hérað í því evrópska ríki sem verið er að breyta Evrópusambandinu í og þá ekki sízt með tilliti til gengismála.

Staðreyndin er þó sú að sá gengisstöðugleiki sem Evrópusambandsaðild og evra býður upp á heitir réttu nafni stöðnun sem sést t.a.m. ágætlega á stöðu mála í Þýzkalandi undanfarin ár. Evrusvæðið býr í raun við fastgengisstefnu og sveiflurnar sem ekki koma fram í gjaldmiðilunum koma fyrir vikið einfaldlega fram annars staðar, þá einkum í miklu og viðvarandi atvinnuleysi sem á stundum hefur farið upp í tveggja stafa tölu. Atvinnuleysi á meðal ungs fólks víða innan Evrópusambandsins er ta.m. um og yfir 20%  og hefur verið lengi.

Ónothæfur gjaldmiðill?
Það er þó langt frá því að evran sveiflist ekki eins og allir aðrir gjaldmiðlar. Árna Páli er eins og áður segir tíðrætt um veika stöðu íslenzku krónunnar um þessar mundir og telur greinilega að það sé til marks um að hún sé ónothæfur gjaldmiðill (það er þó ekki langt síðan hún var einn sterkasti gjaldmiðill heimsins).

Þá má rifja upp að ekki er lengra síðan en 2005 að evran var einn veikasti gjaldmiðill heimsins það árið samkvæmt úttekt brezka viðskiptablaðsins Financial Times. Þegar 58 helztu gjaldmiðlar heimsins voru skoðaðir var evran aðeins í 50. sæti! Það eru heldur ekki mörg ár síðan evran féll um 30% á fáeinum mánuðum gagnvart dollaranum. M.ö.o. væntanlega alls ónothæfur gjaldmiðill samkvæmt kenningu Árna Páls, sambærilegur við það sem gerist í Túrkmenistan og Zimbabwe?

Í dag er evran einn sterkari gjaldmiðill heimsins ef ekki sá sterkasti og hefur fyrir vikið ekki sízt leikið útflutningsgreinar í evruríkjunum vægast sagt grátt. Einkum þær sem greiða rekstrarkostnað sinn í evrum en selja vörur sínar t.a.m. í dollurum eða pundum eins og t.d. evrópska flugvélaframleiðandann Airbus sem hefur fyrir vikið m.a. þurft að segja þúsundum starfsmanna sinna upp störfum undanfarin misseri. Og þetta er því miður aðeins eitt dæmi af fjölmörgum.

Er þetta það sem við viljum? Ég fyrir mína parta kýs að afþakka.

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Aðeins einn kostur: krónan áfram

kristinn-h-gunnarssonVandinn í efnahagsmálum er meiri en verið hefur í rúman hálfan annan áratug. Við honum þurfa stjórnvöld og landsmenn að bregðast og eiga þann eina kost að gera það af eigin rammleik, á eigin ábyrgð og með eigin úrræðum. Við getum ekki búist við því að skattgreiðendur erlendis vilji taka á sig byrðar og greiða skuldir annarra þjóða. Ef við leitum nú til annarra, svo sem Evrópusambandsins, og viljum fá að taka upp gjaldmiðil þeirra, þá er verið að óska eftir fjárhagsaðstoð og hún fæst ekki nema gegn gjaldi. Það þarf alltaf að borga til þess að komast út úr efnahagsvandanum. Að auki þarf að koma á efnahagslegum stöðugleika með lágum vöxtum og lágri verðbólgu áður en gjaldmiðilssamstarf er til umræðu.

Það er sama hvernig litið er á málið, Íslendingar þurfa alltaf sjálfir að ná tökum á efnahagsmálunum með sinn eigin gjaldmiðil, krónuna, áður en lengra er haldið. Því til viðbótar, þá er hugsanlegur ávinningur af aðild að Evrópusambandinu eða gjaldmiðilssamstarfi, svo sem á vexti og verðlag, bundinn því að rekin sé skynsamleg efnahags- og ríkisfjármálastjórn innanlands. Við tryggjum ekki erlendis í þessum efnum. Þegar upp er staðið er það alltaf í okkar höndum hvernig til tekst, innan sem utan Evrópusambandsins. Núna reynir á ríkisstjórnina og framtíð hennar veltur á því hvort hún veldur verkefni sínu. Það er ekki góðs viti að helmingur ríkisstjórnarinnar er upptekin af Evrópusambandinu og talar þannig að aðild að því komi í staðinn fyrir efnahagsstjórnun.

Skárri horfur
Að undanförnu hafa atvinnurekendur kvartað yfir háum vöxtum og skorti á lánsfé og frá verkalýðshreyfingunni hefur mest borið á áhyggjum af vaxandi atvinnuleysi. Nýjustu upplýsingar staðfesta þetta ekki, enn sem komið er. Samtök atvinnulífsins gerðu könnun meðal félagsmanna sinna í síðustu viku og hún leiddi í ljós að 72% svarenda höfðu ekki glímt við lausafjárskort og að tæpur helmingur fyrirtækjanna hyggst halda óbreyttum fjölda starfsmanna til áramóta. Framkvæmdastjóri samtakanna viðurkenndi að niðurstaðan kæmi sér skemmtilega á óvart. Eðlilega því hann hefur haft stór orð uppi um yfirvofandi hrun. Hagstofan birti svo í vikunni upplýsingar um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi á 2. ársfjórðungi 2008. Það reyndist hafa minnkað frá sama tíma í fyrra, var 3,1% í stað 3,2%. Atvinnulausir voru að meðaltali 5.700, en voru 5.800 í fyrra og 7.200 á 2. ársfjórðungi ársins 2006.

Það eru ekki komin fram þau áhrif sem óttast var, sem betur fer. Líklegt er að samdráttur í atvinnu komi mun seinna fram en haldið hefur verið fram, sem gefur stjórnvöldum meiri tíma til þess að undirbúa aðgerðir og tímasetja þær þannig að þær komi í kjölfar lækkandi verðbólgu. En hafa verður í huga að þótt störfum muni ef til vill fækka um 3-4000 á næsta ári þá er það aðeins um 15% af þeim 25.000 sem starfandi hefur fjölgað frá 2004. Stækkun vinnumarkaðarins um 16% á aðeins 4 árum er gríðarleg og endurspeglar mikla þenslu í íslensku efnahagslífi. Mikilvægt er að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins fari ekki á taugum og leggi raunhæft mat á aðstæður. Engin ástæða er til þess, hins vegar, að draga úr því að erfiðleikar eru framundan bæði hjá almenningi og fyrirtækjum. Til dæmis glíma bændur við miklar verðhækkanir á sínum aðföngum sem eru þeim þungbærar.

Jafnvægi í viðskiptum
Mikilvægast er að draga úr umsvifunum í þjóðfélaginu og ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Undanfarin ár hafa einkennst af erlendri lántöku fyrir innlenda neyslu og ýmis útgjöld. Segja má að hluti af lífskjörunum hafi verið tekin að láni erlendis. Slíkt gengur ekki til lengdar og það endaði auðvitað með því að gengið féll. Nú er komið að skuldadögunum og þá þarf að draga saman seglin þar til að jafnvæginu er náð. Því fyrr sem það gerist þeim mun betra. Þá styrkist gengið þar sem þörfin fyrir gjaldeyri en ekki meiri en framboðið og það verður stöðugra. Eitt af því sem þarf að huga að er staða viðskiptabankanna og skuldsetningu þeirra erlendis. Huga þarf að reglum um fjármagnsflutninga sem styðja við jafnvægi á gjaldeyrismarkaði.

Verðbólgan sem nú ríður yfir er að hluta til af orsökum sem við ráðum ekki við en að stórum hluta til vegna þenslunnar innanlands. Háir vextir eru óhjákvæmilegir meðan verðbólgan er svo há sem raun ber vitni. Verði orðið við kröfum um vaxtalækkun strax þá er hætta á því að vextir verði neikvæðir. Það kemur skuldurum að vísu vel fyrst um sinn, en viðheldur þenslunni og þar með verðbólgunni með þeim afleiðingum að sparifjáreigendur og lífeyrissjóðir munu tapa. Þess vegna er lykilatriðið í efnahagsstjórnuninni að ná niður verðbólgunni. Það eiga allir mest undir því þegar til lengdar lætur, sérstaklega skuldsett heimili og fyrirtæki.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 19. júlí 2008 og á heimasíðu hofundar)


Trúarjátningar sambandssinna

Undanfarna mánuði hafa blöðin verið full af trúarjátningum fólks sem vitnar um að ef við værum í Evrópusambandinu þá væru betri lífskjör, engin kreppa og lægra verð á vörum.

Í þessu tali er að sjálfsögðu ekki tekið fram að mörg svæði innan Sambandsins búa við kreppu. Það er heldur ekkert verið að velta sér upp úr því að Evrópulönd sem standa utan sambandsins (t.d. Sviss, Noregur og Ísland) bjóða þegnum sínum betri kjör en flest lönd innan þess – enda stílbrot að troða upptalningu á staðreyndum inn í trúarlega texta.

Í öllum þessum játningabókmenntum fer lítið fyrir rökum. Sjaldan er vitnað í rannsóknir. Hlutlausar upplýsingar eru ósköp litlar.

Hversu sennilegt er að við sleppum við alþjóðlega kreppu með því að ganga í sambandið? Trúir því einhver að efnahagsvandi sem hér bætist við kreppuna og stafar af eyðslu umfram tekjur (skuldasöfnun og viðskiptahalla) leysist með einhverju öðru en ráðdeild og sparsemi? (Já - vandinn stafar ekki af litlu myntsvæði heldur eyðslusemi sem kemur fólki í koll hvaða mynt sem það notar.)

Ekkert af þessu er raunar svo mikið sem hið minnsta líklegt í augum þeirra sem aðeins hafa jarðlegan skilning. Menn þurfa að horfa með sjónum trúarinnar til að virðast þetta sennilegt.

Fyrir okkur sem ekki höfum slík æðri skilningarvit virðist samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fullgóður og jafnvel of mikið af því góða. Sú jarðbundna þjóð Englendingar virðist á svipuðu máli því kannanir sem þar voru gerðar í vor benda til að um tveir þriðju hlutar landsmanna vildu frekar eitthvað í dúr við EES heldur en fulla sambandsaðild. Frá þessu segir í frétt The Telegraph þar sem stendur:

"Könnun The Global Vision/ICM leiddi í ljós að þegar breskir kjósendur voru spurðir um hvernig samband við Evrópu þeir álitu best kusu 41% samband sem byggðist aðeins á viðskiptum og samvinnu. 27% vildu að Bretar yrðu áfram fullir aðilar að Evrópusambandinu og 26% vildu draga sig algerlega út úr því.

64% sögðust mundu kjósa samband sem aðeins snerist um viðskipti ef boðið væri upp á þann kost í kosningum.

(The Global Vision/ICM survey found that when British voters were asked about their ideal relationship with Europe, 41 per cent chose one based simply on trade and co-operation. Some 27 per cent wanted Britain to stay a full EU member while 26 per cent wanted to withdraw altogether.

If the “trade-only” option were offered in a referendum, 64 per cent said they would vote in favour.)"

Atli Harðarson,
heimspekingur

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Hvorki evra né fastgengi

kristinn-h-gunnarssonUndanfarin ár hefur gengi íslensku krónunnar ráðist á markaði. Þá er gengið í samræmi við aðstæður í íslenska hagkerfinu á hverjum tíma. Þegar mikill halli er á viðskiptum við útlönd um langan tíma endar með því að gengið fellur og innlendir aðilar verða að draga saman seglin. Þetta er kostur við að hafa gengið á floti. Segjum sem svo að við hefðum haft evru undanfarin ár. Þá hefði viðskiptahallinn ekki haft nein áhrif á gengi evrunnar þar sem efnahagur Íslendinga er svo lítill í samanburði við evrusvæðið. Hægt hefði verið að halda áfram að fljóta að feigðarósi mun lengur en ella í skjóli styrks evrunnar og lágir vextir á þenslutímum hefðu ekki bætt úr.

Annar möguleiki væri að hverfa frá markaðsgengi krónunnar og taka upp fastgengi. Þá er gengi krónunnar ákveðin föst stærð gagnvart öðrum gjaldmiðli, t.d. evru eða körfu gjaldmiðla. Fastgengið getur verið einhliða eða í samkomulagi við annað myntsvæði. Einhliða fastgengi er algerlega á ábyrgð og kostnað okkar sjálfra og hefur verið reynt með slæmum árangri. Fastgengisstefnan varð ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að falli fyrir 20 árum. Í fastgengisstefnu hafa stjórnvöld tilhneigingu til þess að skrá gengið of hátt til þess að halda aftur af verðbólgu innanlands. Stöðugleiki verður um tíma meðan fastgengið heldur en síðan verður fjármálakreppa. Vandséð er hver ávinningur er af einhliða fastgengi umfram markaðsgengi þar sem styrkurinn á bak við gengið er sá sami í báðum tilvikum.

Tvíhliða fastgengi hefur þann kost að um er að ræða samstarf tveggja eða fleiri seðlabanka sem sameiginlega verja gengi gjaldmiðilanna sem eru þá tengdir saman á ákveðnu gengi. Styrkurinn vegur miklu meiri og ef litið er til evrunnar þá má giska á að Seðlabanki Evrópu sé um 1000 sinnum stærri en Seðlabanki Íslands og honum myndi ekki muna um það að verja gengið. Spurningin er þá hvort Evrópusambandið hefði áhuga á gjaldmiðilssamstarfi og svo hvort það væri okkur hagstætt.

Það liggur nokkur ljóst fyrir að Evrópusambandið ljær ekki máls á slíku samstarfi og raunar ekki þó það væri á útfært þann veg að við myndum taka upp evruna. Þannig að til lítils er að setja fram þá hugmynd. Auðvitað væri hægt að skoða tvíhliða samstarf við aðra en Evrópusambandið, en það er sömu annmörkum háð. Almennt vilja þjóðir ekki að aðrir taki upp þeirra gjaldmiðil. Helst kæmi til álita að ræða við Norðurlandaþjóðirnar, Dani, Norðmenn og Svía. En þar eru Danir eiginlega strax úr leik þar sem þeir eru í tvíhliða gengissamstarfi við Evrópusambandið og Svíar eru í ESB .

Þannig að eftir standa þá Norðmenn og það hefur svo sem verið nefnt í umræðunni að kanna vilja þeirra til gjaldmiðilssamstarfs. Það má vel vera að rétt sé að athuga þennan möguleika frekar, þótt mér finnist ráðlegast að halda áfram að hafa íslensku krónuna og glíma við það verkefni að stjórna efnahagsmálum okkar sjálfir. Það endar svo sem alltaf á því, jafnvel þótt tekin sé upp erlend mynt, að gæfa og gengi íslensku þjóðarinnar er í okkar höndum. Evran afstýrir ekki ógæfu ef okkur eru mislagðar hendur hvort sem er. Ef menn trúa því að Íslendingar ráði ekki við verkefnið, þá eru þeir sömu þeirrar skoðunar, að við ráðum ekki við sjálfstæðið.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í Fréttablaðinu 17. júlí 2008 og á heimasíðu höfundar)


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 177
  • Sl. viku: 1693
  • Frá upphafi: 1142065

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband