Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022

Að grípa inn í

heimssyn-baldur-mynd

Það er háttur sumra að vilja umfram allt binda trúss sitt við erlent vald.  Þeir hinir sömu trúa því að í stórum og glæsilegum hallarsölum útlanda sé öryggi og réttlæti og að í hátölurum hinna erlendu stórvelda hljóti sannleikurinn að búa.  Erfitt er að útskýra trú þessa fólks, en svona var áberandi á köflum á nýliðinni öld.  Sumir söfnuðir áttu í svo heitu trúarlegu sambandi við erlend stórveldi að engu skipti þótt heilu sveitirnar hryndu úr hungri, mannréttindi væru flest fótum troðin og fólk jafnvel drepið í milljónatali.  Allt slíkt töldu menn ýmist fals, ýkjur eða illnauðsynlegar fórnir. 

Og þótt komið sé fram á 21. öld er maðurinn samur við sig, ekki síst hinir frelsuðu.  Einn af trúboðum Evrópusafnaðarins á Íslandi þarf að horfast í augu við að mál- og fjölmiðlafrelsi, sem segja má að sé grundvöllur lýðræðis, sé á fallanda fæti í Evrópusambandinu.   Um það hefur trúboðinn það að segja að “Á sama tíma verði að spyrja sig spurn­inga um það hversu langt slík­ir miðlar megi ganga í því að dreifa áróðri og lyg­um” og tekur svo undir að það “þurfi einhversstaðar að grípa inn í”. 

Það er ekki erfitt að sjá þennan ágæta mann fara fyrir nefnd í framtíðarríkinu sem ákveður hvað sé lygi og hvað ekki og hvaða áróðri megi dreifa og hvaða áróðri ekki megi dreifa.  Það mun ekki standa á honum og hans vinum “að grípa inn í” fái þeir vald til þess.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/06/30/russnesk_lygi_sem_menn_a_vesturlondum_falli_fyrir/


Lærdómurinn af Brexit


heimssyn-brexitAtkvæðagreiðslan um Brexit á 6 ára afmæli. 

Af því máli öllu má helst læra að það er ekki gert ráð fyrir að lönd sleppi auðveldlega út úr Evrópusambandinu, séu þau á annað borð komin inn.  

Gleymum því aldrei.


Menningarheimar Vigdísar og Úrsúlu

heimssyn-vigdisA

 

Vigdís Finnbogadóttir, forsetaframbjóðandi á Íslandi talar til kjósenda árið 1980:

En hvaða orð skyldu nú vera fegurst á íslenskri tungu? Er það orðið friður eða sjálfstæði eða hlutleysi sem var öðrum orðum merkingarríkara og tengt orðinu ævarandi við endurreisn íslenska lýðveldisins 1944?  Þetta eru mikil orð og stór og það eina sem við eigum að vopni, meðan aðrar þjóðir framleiða stríðsvélar sér til öryggis, til að geta grandað andstæðingum sem orða sínar hugmyndir á annan veg.  Við viljum ekki taka þátt í þeim darraðadansi sem stórveldin leggja á okkur. Hver þau spor sem við stígum með hernaðarbandalögum til vesturs eða austurs eru óheillaspor, því við viljum varðveita lífið.

 

Úrsúla von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandins talar árið 2022:

Við munum kaupa vopn og afhenda þau ríki sem á í stríði. 

 

Vigdís fékk flest atkvæði í kosningunum í kjölfarið.  Ekki vitum við hversu mörg atkvæði frú Úrsúla fékk á sínum tíma. Líklega tæplega 30, en þá er til þess að líta að í forsetakosningum hafa mun færri kosningarétt í Evrópusambandinu, en á Íslandi.  

Ljóst er að þarna tala forsetaefnið og forsetinn til afar ólíkra hópa.  Það er mergurinn málsins.  Vigdís talar til Íslendinga og Úrsúla til þegna Evrópusambandsins.  Vigdís vill varðveita lífið, en hjá Úrsúlu gengur annað framar.  Í þeim löndum sem mynda kjarna Evrópusambandsins er almennt talið eðlilegt að við vissar pólitískar aðstæður séu stundaðar mannfórnir í stórum stíl og sem mest sprengt og eyðilagt.  Sú skoðun hefur á hinn bóginn ekki átt miklu fylgi að fagna á Íslandi frá því Sturlungar hurfu til feðra sinna.  Þarna er mikill munur. 

Engu að síður vildu margir af stuðningsmönnum Vigdísar að Ísland segði sig undir Evrópusambandið fyrir rúmum áratug síðan.  Það hlýtur að flokkast sem einn helsti misskilningur síðari tíma, nefnilega að Evrópusambandið hafi ekkert með stríð og hernað að gera.  Það hefur nú verið rækilega leiðrétt, svo varla láta núlifandi friðarsinnar Evrópusambandið plata sig aftur.

 

  


Sjálfstæði þjóðar og mannfórnir

330px-Sigurðsson_by_Þorláksson

Þegar ágreiningur nær ákveðnu stigi í Evrópu, og víðar um heiminn, hefjast mannfórnir.  Þær standa nú yfir í A-Evrópu í stórum stíl.  Annað veifið tala valdamenn á þann veg að það sé ekki alveg nógu gott, en þess á milli eru fórnirnar lofsungnar.  Á endanum linnir manndrápum og kemur þá niðurstaða sem allir, sem vilja, sjá að fá hefði mátt fá án þess að drepa nokkurn mann.  Fáir verða þó til að segja það, en meira verður talað um helgi þeirra og dýrð sem drápu og voru drepnir.  Verður þá hlé á vopnaskaki um hríð, uns tilefni finnst til að hefja fórnir á ný.  Slík er saga Evrópu. 

Það er gæfa Íslendinga að hafa ekki sogast inn í þennan útlenda vitleysisgang og skylda okkar sem lifum nú að forða afkomendum okkar frá því.  Það verður best gert með því að standa vörð um sjálfstæði og fullveldi Íslands.  Minnumst þess nú á afmæli lýðveldisins.

Gleðilega þjóðhátíð.    


Hjörtur og Carl á Kálfskinni

Á þeirri tíð er Íslendingar lærðu dönsku af amerískum myndablöðum var saga af manni sem átti sér tvíþætta vörn í máli um brotna diska.  Í fyrsta lagi hefði hann alls ekki fengið diska að láni og í öðru lagi hefðu diskarnir verið sprungnir þegar hann fékk þá að láni.

Samtal Hjartar J. Guðmundssonar og Carls Baudenbacher á síðum Morgunblaðsins minnir á ofanritaða sögu og hefur samtalið fengið minni athygli en tilefni er til.  Í hugmyndaheimi EES mynda EFTA og Evrópusambandið tvær jafnar stoðir.  Þegar í ljós kemur að þær eru ekki jafnar þarf að útskýra.  Verður sú umræða öll á dýptina, því í ljós kemur að þær eru i fyrsta lagi jafnar og í öðru lagi ekki jafnar.    

Að áeggjan Hjartar hefur Carl bæði viðurkennt og reynt að útskýra stöðuna.  Hún er í stuttu máli sú að EFTA-menn séu svo miklir fúskarar og aular að alvöru menn í Evrópusambandinu geta ekki, sóma síns vegna, tekið mark á þeim.  Hið margrómaða tveggja stoða kerfi í EES-samstarfinu er semsagt þannig að þegar Evrópusambandsstoðin nennir EFTA-stoðinni ekki lengur, þá er það Evrópusambandið sem ræður.

Það var auðvitað barnaskapur frá upphafi að halda að tveggja stoða kerfið væri annað en tímabundin sjónhverfing, ætluð til að smyrja vélina sem átti að hjálpa Evrópusambandinu að éta EFTA.

https://www.mbl.is/mogginn/bladid/grein/1810338/


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 106
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 1378
  • Frá upphafi: 1143442

Annað

  • Innlit í dag: 88
  • Innlit sl. viku: 1175
  • Gestir í dag: 87
  • IP-tölur í dag: 87

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband