Leita í fréttum mbl.is

Íslandsskattur

Svo virðist að fáir hafi áttað sig á að tollar sem Evrópusambandið leggur á innflutning frá löndum utan bandalagsins lenda að langmestu leyti í sjóðum bandalagsins. 

Íslendingar kaupa mun meira af Bandaríkjamönnum, en meðaljón í Evrópu.  Þeir mundu því fóðra sjóði Evrópusambandsins af mun meiri dugnaði en flestir, ef ekki allir aðrir, ef Íslandi væri í bandalaginu og það vaæri í tollastríði af því tagi sem nú er í uppsiglingu. 

Þar væri kominn enn einn Íslandsskatturinn.  Og voru þeir þó nokkrir fyrir. 

 


Hin æpandi þögn um blákaldan raunveruleika

Stjórnvöld í BNA ætla að hækka tolla á vörur frá Evrópusambandslöndum verulega, strax eftir hálfan mánuð. 

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu, væri nú efnahagslegt uppnám á Íslandi. 

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu, væru Íslendingar ekki í neinni stöðu til að semja um eitt eða neitt við Bandaríkin. Íslendingar gætu sent bænaskjal til Brussel.  Víst er að það færi ofan í skúffu.

Líklegt er að mótleikur Evrópusambandsins verði tollar á bandarískar vörur. Ef Ísland væri í Evrópusambandinu rynnu þeir tollar að langmestu leyti í sjóði Evrópusambandsins - EKKI Í RIKISSJÓÐ ÍSLANDS. Þannig magnaðist enn frekar hið efnahagslega uppnám á Íslandi.

Er ekki tímabært að yfirvöld á Íslandi horfist í augu við þennan raunveruleika og hætti að reyna að koma Íslandi í Evrópusambandið?

 

Að svo mæltu færum við Frökkum bestu óskir á þjóðhátíðardeginum. 

 


Trump, tollar og ótroðnar slóðir

Donald Trump hefur tilkynnt að hann hyggist leggja 30% toll á vörur frá Evrópusambandinu frá og með 1. ágúst. Þetta undirstrikar hve grunnt er á því góða á milli ESB og Bandaríkjanna, sem virðast ekki geta komið sér saman um grundvallarmálefni með áhrif víðs vegar um heiminn. Þetta á við bæði um viðskipti og öryggismál.

Fyrr í sumar beitti Trump aðildarríki NATO þrýstingi til að auka framlög til varnarmála og nýju tollarnir minna á það sem margir í Evrópu vilja forðast að horfast í augu við: að bandalagið stendur veikt, bæði gagnvart bandamönnum og keppinautum.

Í þessu samhengi hyggjast íslensk stjórnvöld boða þjóðina til atkvæðagreiðslu um að "halda áfram" viðræðum um inngöngu í þetta sama samband án þess að skilgreina markmið, ramma eða stefnu.

Slíkt er ekki stefnumótun heldur innantómt uppátæki sem gæti kostað þjóðina háar fjárhæðir og var ekki boðað í síðustu alþingiskosningum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi "kássa" verður borin á borð fyrir þing og þjóð á næstu mánuðum.


Þegar spurningunni má svara, en umræðan fær ekki að halda áfram

Nýverið lýsti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra veiðigjaldamálinu sem baráttunni um Ísland. Þó þetta hafi ekki verið sagt um það mál sem hér hefur verið fjallað um í vikunni, þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um ESB aðild, er þetta orðaval athyglisvert. Í dag liggur svo fyrir að þessi orð falla í samhengi þess að réttlæta að lokað verði fyrir umræðu um málið með beitingu 71. greinar þingskapalaga.

Ef mál eru orðin "baráttan um Ísland", þá hlýtur umræðan sjálf að skipta máli. En hvað ef umræðunni er markvisst lokað?

Í 71. gr. segir að hægt sé að marka umræðu tímamörk og knýja fram afgreiðslu. Það kann að hljóma tæknilegt – en í framkvæmd er það pólitískt tæki. Og þegar það er notað gegn gagnrýni í nafni þess að meirihlutinn tali fyrir þjóðina, þá erum við ekki lengur í klassískum stjórnmálaágreiningi heldur í orðræðu sem minnir óþægilega á popúlisma.

Þar með er þingið gert að hindrun í málsmeðferðinni. Gagnrýni er þá ekki eðlilegur hluti ferlisins lengur heldur stillt upp sem andstöðu gegn þjóðinni sjálfri. Þá er verkfæri eins og 71. grein ekki beitt til að ljúka umræðu heldur til að takmarka hana.

Það vekur upp spurningu sem þarf að spyrja áður en tekið verður til við að ræða risa stórt stefnumál, aðild að Evrópusambandinu.

Þegar stjórnmálamenn réttlæta það að loka umræðu með því að tala í nafni þjóðarinnar, gegn þinginu eða stjórnarandstöðunni, þá er lýðræðið ekki að vinna. Nei popúlísk sjálfmynd tekur þá völdin.

Ef stjórnvöld beita slíkum aðferðum í deilu um veiðigjöld sem í eðli sínu eru skattahækkanir, hverju má þá búast við þegar aðildarviðræður við ESB verða "réttur dagsins"?


Þjóðaratkvæði um draugaviðræður – með texta frá Brussel

Ríkisstjórnin boðar til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki um aðild að ESB. Ekki um samningsmarkmið í þeirri vinnu. Ekki einu sinni um hvort Ísland eigi að sækja um inngöngu. Nei! Þjóðinni á að kjósa um það hvort halda skuli áfram viðræðum sem enginn veit nákvæmlega hvar eru niðurkomnar.

Viðræðum sem voru stöðvaðar árið 2013.
Viðræðum sem stjórnvöld lýstu formlega lokið árið 2015.
Viðræðum sem Evrópusambandið hefur ekki minnst á síðan og engin merki eru um að það ætli að rifja upp stöðuna á.

Samt á að bjóða þjóðinni að kjósa um að "halda þeim áfram". Eins og það nægi að rifja upp gömul skjöl áður en mætt er á næsta fund. Hver á að mæta? Með hvaða umboð? Og með hvaða markmið?

Þetta er ekki skýr stefnumótun. Þetta eru ekki hreinskiptin stjórnmál. Þetta er tilraun til að stíga aftur inn í ferli sem var aldrei klárað og enginn veit hvernig stendur í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á ESB á þeim tíma sem liðinn er. Nei það á að láta duga að ná í blessun þjóðarinnar, í von um að hún spyrji ekki of margra spurninga.

Og þó við séum sögð eiga viðræðurnar, þá stjórnum við þeim ekki. Það er ESB sem setur dagskrána, metur hvaða mál eða samningskaflar eru opnaðir og eftir atvikum lokað eftir því hvernig Ísland hefur aðlagast regluverki þess. Það skilgreinir viðræðukaflana, röðina á þeim og umfangið. Það eru ekki samningaviðræður heldur aðlögunarferli með föstum reglum og fyrirfram skrifuðum kaflaheiti.

Spurt verður: Viltu halda áfram? En aldrei: Hvert erum við að fara?


Milljarðar fyrir verri kjör – og nú á að ganga alla leið?

Í umræðu um mögulegar aðildarviðræður við Evrópusambandið hefur stundum verið haldið fram að Ísland sé nú þegar svo nátengt ESB í gegnum EES-samninginn að formleg aðild sé í raun aðeins formsatriði. Að ekkert standi raunverulega í vegi fyrir inngöngu nema pólitískur vilji.

En er það svo?

Eins og Hjörtur J. Guðmundsson bendir á í nýlegri grein hefur Ísland um árabil greitt háar upphæðir í uppbyggingarsjóði EES og á næstu árum er gert ráð fyrir um tólf milljörðum króna í framlag frá Íslandi, sem rennur til verkefna í ríkjum Evrópusambandsins. Það væri eðlilegt ef um væri að ræða gagnkvæman ávinning, sérstaklega þegar kemur að tollum á íslenskar sjávarafurðir sem er lykilatvinnugrein landsins og ein af meginforsendum þess að Ísland gekk í EES á sínum tíma.

En staðreyndin er sú að Ísland hefur aldrei notið fulls tollfrelsis í viðskiptum með sjávarafurðir í gegnum EES-samninginn. Þvert á móti hafa ríki utan EES og þar með líka ESB eins og Kanada, Japan og Bretland, gert fríverslunarsamninga við ESB sem tryggja þeim betri markaðsaðgang fyrir sjávarafuðri en við höfum.

Ef þetta er niðurstaðan eftir þrjátíu ára samvinnu innan EES, hvaða rök eru þá fyrir því að Ísland eigi nú að ganga alla leið og sækja um inngöngu í sambandið þegar ríki utan þess njóta nú þegar betri kjara?

Sjá grein Hjartar J. Guðmundssonar: Milljarðar fyrir verri viðskiptakjör


Halda áfram - en við hvað nákvæmlega?

Ríkisstjórnin hefur ítrekað talað um að halda áfram aðildarviðræðum við ESB, þegar talið berst að áformum um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Þannig muni þjóðin ekki kjósa um vilja til inngöngu í sambandið sjálft, heldur um hvort hefja skuli að nýju viðræður sem stöðvaðar voru fyrir rúmum áratug. En einmitt þar liggur kjarninn: Við hvað er verið að halda áfram og eru þessar viðræður yfirleitt enn til?

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009. Formlegar viðræður hófust sumarið 2010 og fyrsti viðræðufundurinn var haldinn í júlí sama ár. Hluti samningskafla var opnaður og sumum þeirra lokað, en meirihluti þeirra var aldrei tekinn til umræðu. Viðræðunum var í raun frestað árið 2013, þegar samninganefndin var leyst upp og ferlinu hætt í reynd.

Síðan gerðist þetta:
Í mars 2015 sendu íslensk stjórnvöld formlega tilkynningu til Evrópusambandsins þess efnis að Ísland teldist ekki lengur umsóknarríki. Það var skýr stjórnskipuleg yfirlýsing um að ferlið væri úr gildi fallið.

Á sama tíma hefur Evrópusambandið tekið miklum breytingum. Bretland hefur gengið úr því, regluverk hefur þyngst og samningsumhverfið breyst, sérstaklega á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, fjármála og orkumála. Í dag er staðan allt önnur, bæði innan sambandsins og hér heima.

Í ljósi þessa er ekki aðeins óljóst hvað ríkisstjórnin á við með því að halda áfram, heldur beinlínis villandi. Um er að ræða nýja pólitíska vegferð, sem krefst nýrrar stefnumótunar, nýrrar samninganefndar og nýs umboðs frá þjóðinni.

Orðalagið "halda áfram" þjónar þó augljósum tilgangi:

Það mildar umræðuna.
Það forðast að þjóðaratkvæðagreiðslan verði túlkuð sem yfirlýsing um inngöngu.
Það réttlætir að ekki þurfi að endurmeta forsendur aðildar.

En ef þjóðin á að taka upplýsta afstöðu, verður að tala skýrt. Þjóðaratkvæðagreiðsla um að "halda áfram" viðræðum sem stjórnvöld hafa áður slitið formlega og sem Evrópusambandið hefur ekki tekið upp að nýju, verður varla talin fullnægjandi lýðræðisleg umgjörð.


Evrópuher, tollheimta Evrópusambands o.fl. á Útvarpi sögu

Pétur Gunnlaugsson og Haraldur Ólafsson fóru yfir allnokkur atriði varðandi Ísland og Evrópusambandið, m.a. þá einföldu staðreynd að aðild og þar með aðildarferli gengur gegn stjórnarskrá lýðveldisins.  Nokkuð var rætt um yfirvofandi hervæðingu Evrópusambandsins, tollastríð og fleira.

https://utvarpsaga.is/islendingar-vilja-ekki-fodra-hergagnaidnad-evropu-2/


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 417
  • Sl. sólarhring: 487
  • Sl. viku: 1681
  • Frá upphafi: 1236248

Annað

  • Innlit í dag: 390
  • Innlit sl. viku: 1510
  • Gestir í dag: 365
  • IP-tölur í dag: 360

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband