Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

75 milljörðum króna varið í áróður fyrir auknum samruna

Samkvæmt fjárlögum Evrópusambandsins fyrir árið 2008 mun sem samsvarar rúmlega 75 milljörðum króna verða varið í ýmis konar áróður fyrir auknum samruna innan þess eða eins og það er orðað í fjárlögunum "til að styrkja evrópskar stofnanir og félagasamtök sem vinna að auknum evrópskum samruna." Um 600 milljónum króna verður ennfremur varið í áróður með það að markmiði að reyna að fá ríki utan Evrópusambandsins til að ganga í það. Þá verður rúmum 17 milljörðum varið í ýmis almannategslaverkefni til að bæta ímynd sambandsins á meðan vel yfir 32 milljarðar fara í kostnað vegna ferðalaga og skemmtunar fyrir embættismenn þess.

Að lokum má geta þess að 17 milljarðar eru eyrnamerktir sameiginlegri utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins jafnvel þó hún taki ekki gildi nema fyrirhuguð stjórnarskrá sambandsins nái fram að ganga. Nokkuð sem ekki liggur endanlega fyrir hvort muni verða raunin.

Heimild:
Britain will spend millions on EU opt-outs (The Sunday Telegraph 26/08/07)


"Algjört brjálæði að ganga í ESB"

Gabriel Stein, aðalhagfræðingur alþjóðahagfræðisviðs Lombard Street Research, hélt erindi á ráðstefnu sem fram fór 23. ágúst sl. á vegum Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE) þar sem hann fjallaði um þá möguleika sem hann telur Íslendinga standa frammi fyrir þegar kemur að framtíðar fyrirkomulagi peningamála hér á landi. Talsverða athygli vakti að bæði á ráðstefnunni sem og í samtali við Blaðið daginn eftir varaði Stein sérstaklega við því að Íslendingar gengju í Evrópusambandið, enda myndi það m.a. ganga af íslenskum sjávarútvegi dauðum.

"Þegar kemur að Íslandi er það mitt persónulega mat að það væri algjört brjálæði fyrir ykkur að ganga í Evrópusambandið. Ef þið gangið í sambandið verður að sjálfsögðu fyrirvari um að enginn komi nálægt fiskveiðilögsögunni. Innan tveggja eða þriggja ára verður Ísland dregið fyrir Evrópudómstólinn af spánskum sjómanni. Að sjálfsögðu mun dómstóllinn úrskurða að svona misræmi gangi ekki upp og innan tíu mínútna verður spánski og portúgalski flotinn kominn til að ryksuga upp miðin," sagði Stein við Blaðið. Á ráðstefnunni sagði Stein ennfremur að gengi Ísland í Evrópusambandið á einhverjum tímapunti þá gætum við ekki sagt að við hefðum ekki verið vöruð við því.


Órofa hluti af Evrópusambandinu

Í blaðinu í gær föstudag birtist grein eftir Eirík Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðing og einn ötulasta talsmann Evrópusambandssinna á Íslandi, þar sem hann gagnrýndi það sjónarmið að hægt sé að taka upp evru án þess að ganga fyrst í Evrópusambandið. Tilefnið var ráðstefna um gjaldmiðla og alþjóðavæðingu sem fram fór sl. fimmtudag á vegum Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE).

Það vakti nokkra athygli að í grein sinni talar Eiríkur um að Ísland sé nú "órofa hluti af hinu evrópska hagkerfi" og á þá væntanlega við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) þó full langt sé gengið að tala um eitt hagkerfi í því sambandi. Ekki er annars hægt að skilja orð Eiríks öðruvísi en svo að hann telji að fyrst Íslendingar séu einu sinni orðnir aðilar að EES-samningnum sé ekki aftur snúið í þeim efnum. Nokkuð sem raunar er ekki rétt, enda gert ráð fyrir því í samningnum að hægt sé að segja honum upp.

Hitt er svo annað mál að ef farið væri að ráðum Eiríks og skoðanabræðra hans og Ísland gengi í Evrópusambandið er ljóst að ekki væri aftur snúið enda er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því af hálfu sambandsins að ríki sem einu sinni eru komin þar inn geti gengið úr því aftur.


Ráðherrum verður bannað að vinna að hagsmunum eigin ríkja

Fjallað var um það í breska dagblaðinu Daily Mail í gær að Gisela Stuart, þingmaður Verkamannaflokksins, hafi varað við því að samkvæmt fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins verði ráðherrar aðildarríkja þess í fyrsta skipti neyddir til að taka ákvarðanir á vettvangi ráðherraráðsins í samræmi við hagsmuni sambandsins í stað hagsmuna sinna eigin ríkja. Þeir verði skyldaðir til að "leggja áherslu á gildi Evrópusambandsins, vinna að markmiðum sambandsins og þjóna hagsmunum þess." Stuart, sem var einn af höfundum stjórnarskrárinnar, segir að áður hafi ráðherraráðið verið vettvangur forystumanna aðildarríkja Evrópusambandsins til að hittast og samræma hagsmuni ríkjanna, en ráðherrar aðildarríkjanna verði samkvæmt nýja fyrirkomulaginu skuldbundnir til að vinna að hagsmunum sambandsins í stað aðildarríkjanna áður.

Einnig kemur fram í umfjöllun blaðsins að bresk stjórnvöld hafi nú viðurkennt að stjórnarskráin fyrirhugaða muni hafa í för með sér að neitunarvald aðildarríkja Evrópusambandsins í 50 málaflokkum verður afnumið.

Heimild:
Euro treaty is a threat to Britain, warns Labour MP who wrote it (The Daily Mail 070807)


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 30
  • Sl. sólarhring: 431
  • Sl. viku: 1887
  • Frá upphafi: 1109175

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1636
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband