Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019

Ríkisstjórnin skreytir pakkann!

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, segir í grein, sem Morgunblaðið birti eftir hann um þriðja orkupakka ESB fyrir nokkrum dögum, að ríkisstjórnin sé að fegra þann pakka og segi ekki heiðarlega frá álitum lögfræðinga um málið. Jafnframt varar Hjörleifur við því að ESB verði færð yfirráð yfir auðlindum landsins í gegnum orkupakkann. Hjörleifur hefur veitt Heimssýn leyfi til að endurbirta greinina hér:

HjorleifurGuttormsson170615

Hjörleifur Guttormsson

29. mars 2019

Afhendum ekki ESB völdin yfir íslenskum auðlindum með orkupakka 3

 

EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi árið 1993 með 33 atkvæðum gegn 23, en sex þingmenn sátu hjá, þar á meðal var helmingur þingflokks Framsóknar og þrír Sjálfstæðismenn á móti. Samtök um óháð Ísland söfnuðu  undirskriftum 34.378 kosningabærra manna gegn samningnum og afhentu þær Salóme Þorkelsdóttur þá forseta Alþingis. Jafnframt beindust áskoranir að Vigdísi forseta um að hún skrifaði ekki undir lögin um EES, þannig að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ítrekað hafði verið krafist innan og utan þings. Vigdís varð ekki við þeirri áskorun, en ljóst var að hún tók málið nærri sér og íhugaði að segja af sér embætti af þessu tilefni (Mbl, 9. júlí 1996). Skömmu áður eða 1992 hafði EES-samningurinn farið í þjóðaratkvæði í Sviss og verið felldur, og enn býr Sviss að þeirri niðurstöðu.

Í febrúar 1992 flutti ég á Alþingi tillögu til þingsályktunar „Um EES-samning og íslenska stjórnskipan.“ Meðflutningsmenn að tillögunni voru Steingrímur Hermannsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Þar sagði í upphafi:

 Alþingi ályktar að setja á fót nefnd sex sérfróðra manna sem athugi hvort aðild að Evrópsku efnahagssvæði í því formi sem fyrir liggur í samningsdrögum nú eða síðar brjóti með einhverjum hætti gegn íslenskri stjórnskipun eða hvort gera þurfi breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins vegna fyrirhugaðs EES-samnings.

Tillögunni var að umræðu lokinni vísað til utanríkismálanefndar, þar sem ekki reyndist meirihluti fyrir afgreiðslu hennar. Nú er það löngu viðurkennt af fjölda sérfróðra að EES-samningurinn eins og frá honum var gengið af Alþingi 1993 hafi þá þegar verið á gráu svæði gagnvart stjórnskipun okkar og síðan ítrekað brotið gegn henni eins og hann hefur þróast. Nú brennur á þingi og þjóð svonefndur orkupakki 3, og honum tengist spurningin, hvort nú sé ekki mælirinn fullur.

Furðuleg fréttatilynning ráðherra

Þann 22. mars sl. sendu utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarrráðuneytið frá sér fréttatilkynningu með fyrirsögninni: „Ríkisstjórnin samþykkir að leggja þriðja orkupakkann fyrir Alþingi.“ Tilkynning þessi er hið furðulegasta plagg, bæði margt af því sem þar kemur fram og þó enn frekar valið úrtak með tilvitnunum í lögfróða umsagnaraðila, þar sem ekki er hálf saga sögð af aðvörunum þeirra og fyrirvörum, sérstaklega lögmannanna Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar. Svo langt er gengið í gyllingu á ágæti væntanlegrar tillögu ríkisstjórnarinnar að staðhæfa eftirfarandi: „Um er að ræða orkupakka á íslenskum forsendum. Hann er tekinn upp í íslenskan rétt á þeirri forsendu að Ísland er ekki tengt við raforkumarkað ESB.“  Þegar þessi fullyrðing er borin saman við álitsgerð nefnda lögmanna sem skiluðu þann 19. mars sl. álitsgerð um „stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB“ kemur í ljós hve óheiðarlega er hér gengið til verks. Í stað þess að birta álitsgerðir lögmannanna sem lágu á borði ráðherra dögum áður en málið var borið upp til afgreiðslu í ríkisstjórn, eru umsagnir þeirra með fjölda aðvarana og álitaefna um orkupakka 3 faldar fyrir þingmönnum og almenningi.

Enn á að skauta framhjá stjórnarskránni

Utanríkisráðherra ætlar Alþingi samkvæmt ofangreindu að innleiða orkupakka 3 með þeim fyrirvara að viðkomandi bindandi reglur hans komi ekki til framkvæmda nema þingið heimili lagningu sæstrengs til raforkuflutnings frá Íslandi og „þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik afstöðu til þess hvort reglurnar standist stjórnarskrá.“  Með þessu á að læða í gegn staðfestingu Alþingis á orkupakka 3, sem augljóslega stríðir gegn stjórnarskrá lýðveldisins og óumdeilanlega yrði virkur ekki síðar en með lagningu sæstrengs.  Um þá framkvæmd á síðan orustan að snúast, ef ekki yrði þá þegar búið að breyta stjórnarskránni.

 Friðrik og Stefán Már minna á það í álitsgerðinni að „það er réttur EES/EFTA-ríkjanna  samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum ... Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð  á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.“ (s. 38) Þeir benda jafnframt á annmarka á boðuðum fyrirvara vegna sæstengs: „Þessi lausn er þó ekki gallalaus“. Lögmennirnir taka fram (s. 24) að hyggist Alþingi aflétta fyrirvara við fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnnar frá 5. maí 2017 „ber þinginu m.a. að gæta að því, hvort þær ESB-gerðir, sem ákvörðunin tekur til, samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.“  Þótt sæstrengur sé enn ekki til staðar, „breytir það því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenskan landsrétt nú nema hann standist stjórnarskrána.“  Ákvörðun Alþingis um að innleiða þriðja orkupakkann í landsrétt verður „að miðast við þá forsendu að grunnvirkjum  yfir landamæri verði komið á fót hér á landi ...“ (s. 24). – Lögmennirnir vekja jafnframt athygli á, að við undirritun EES-samningsins hafði þáverandi Rómarsamningur engin sérstök ákvæði haft að geyma um raforku. Því sé álitamál, hvort unnt sé að taka valdheimildir á því sviði upp í EES-samninginn án samsvarandi breytinga á honum sjálfum. (s. 9). Í þessu samhengi er mjög athyglisverð umfjöllun þeirra um dóm EFTA-dómstólsins gagnvart Noregi í svonefndu Heimfallsmáli. (s. 10) Þar var tekist á um það, hvort ákvæði norskra laga um vatnsréttindi féllu utan við gildissvið EES-samningsins, eins og Norðmenn héldu fram, en þeirri rökssemd þeirra var hafnað.  

Orkupakkinn og yfirþjóðlegar valdheimildir

Með tilskipun 96/92/EB um fyrsta orkupakkann, sem varð hluti EES-samningsins 1999, var kveðið á um samkeppni í raforkuvinnslu. Þá sótti Ísland um og fékk undanþágu á grundvelli þess að hér væri lítið og einangrað kerfi. Þessi undanþáguheimild var víðtæk og bauð upp á að sótt yrði um ýmsar fleiri efnislega mikilvægar undanþágur frá ákvæðum pakkans. Á það var hins vegar ekki látið reyna af Íslands hálfu heldur var orkupakki 2 innleiddur hér að fullu vegna hugmynda um að koma hér á samkeppnismarkaði fyrir raforku. Þegar svo kom að orkupakka 3 og reynt var að fá tilteknar undanþágur, strandaði það m.a. á vanrækslu og fyrri ákvörðunum íslenskra stjórnvalda. „Sambandsstofnunin“ ACER (sbr. reglugerð 713/2009) er ótvírætt yfirþjóðleg stofnun með afar víðtækar heimildir, hefur m.a. vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir á ýmsum tilteknum sviðum, „sem vekja spurningar um hvort viðkomandi ákvæði reglugerðarinnar standist stjórnarskrá ...“ (s. 20 í álitsgerð lögmanna). Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hér vissu hlutverki að gegna í samvinnu við ACER, en lögmennirnir vekja sérstaka athygli á ráðandi hlutverki ACER í þeim samskiptum. (s. 22-23).

Átakamál um framtíð og þjóðarhagsmuni

Málið sem ríkisstjórnin nú hyggst knýja Alþingi til að samþykkja á galopnum forsendum og gegn ákvæðum stjórnarskrár okkar varðar yfirráð yfir náttúruauðlindum, íslenskum fallvötnum, nýtingu þeirra og verndun. Það er hliðstætt spurningunni um hvort afhenda ætti útlendingum sjávarauðlindir okkar. Sótt er að Landsvirkjun með einkavæðingu í huga og fyrirtæki eins og HS Orka og Arctic Hydro kemba nú landið undir merkjum smávirkjana, með góðfúslegu leyfi Orkustofnunar. Þessir aðilar leggjast nú bak við tjöldin fast á sveif með hagsmunaöflum, innlendum og erlendum, um að tengja Ísland við orkumarkað Bretlands og meginlandsins. Íslensk náttúra og almenningur greiða reikninginn með stórhækkuðu raforkuverði og umturnun á friðsælum dölum og heiðum, sem sloppið hafa við umrót virkjana fram að þessu. Hvað segir íslensk æska og kjörnir alþingismenn um slíka framtíðarsýn?

Hjörleifur Guttormsson

 


Heimssýn fundar með forseta

Fulltrúar Heimssýnar funduðu með forseta Íslands föstudaginn 29. mars um þá vá sem fylgir því að Ísland gangist undir orkulöggjöf Evrópusambandsins.  Voru ýmsar hliðar málsins ræddar, bæði er lúta að stjórnskipun og mikilvægi þess að Íslendingar hafi full yfirráð yfir auðlindum landsins.  Verði orkupakkamálinu fram haldið má búast við að lagt verði að forsetanum að beita sér með viðeigandi hætti.

 

Á myndinni eru Frosti Sigurjónsson, Haraldur Ólafsson, Guðni Th. Jóhannesson, Ásdís Helga Jóhannesdóttir og Styrmir Gunnarsson.

https://forseti.is/fr%C3%A9ttir/2019-03-29-heimss%C3%BDn/


Umsögn um orkumál frá Heimssýn

Athugasemdir við

Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum

og

Tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku

 

Ofangreint frumvarp og þingsályktunartillaga tengjast lögleiðingu á orkulagabálki Evrópusambandsins sem nefndur hefur verið 3. orkupakki og ber að skoða í því ljósi.

Ekki verður hjá því komist að gera athugasemdir við þann skamma tíma sem gefinn er til að gera athugasemdir.  Málið er harla flókið og ekki er eðlilegt að gera ráð fyrir að umsagnaraðilar geti komið með vel ígrundaðar athugasemdir á aðeins þremur dögum.  Um hríð hefur verið altalað að stjórnvöld hyggist afgreiða mál þetta með hraði í því skyni að forðast umræðu.  Svo virðist sem það sé staðfest með þeim stutta fresti sem hér gefinn, því ekkert kallar á ofsahraða við afreiðslu málsins.  Vinnubrögð af því tagi eru ámælisverð og ósæmandi í lýðræðisríki. 

Í fyrrgreindu frumvarpi og þingsályktunartillögu er vald íslenskra stjórnvalda í orkumálum áréttað.  Óvíst að að áréttingar af slíku tagi hafi nokkurt gildi þegar úrskurðir verða upp kveðnir hjá erlendum dómstóli eða stjórnvaldi, eins og raunin mun verða ef mál þetta nær í heild sinni fram að ganga.

Í orkulagabálki Evrópusambandsins sem fyrr er nefndur er meðal annars gert ráð fyrir valdaframsali í orkumálum Íslands til erlends ríkjasambands.  Valdmörk hinna erlendu aðila (landsreglara og orkustofu Evrópusambandsins, (e. ACER)) eru umdeild og ekki verður annað séð en að hinn erlendi aðili, þ.e. Evrópusambandið eigi sjálft að dæma um þau.  Það er afar óvíst með hvaða hætti þessir erlendu aðilar munu fara með vald sitt og nánast víst að hagsmunir Íslendinga munu ekki sitja í fyrirrúmi, stangist þeir á við hagsmuni annarra aðila sem meira vægi hafa innan sambandsins.

Vart verður annað séð en að fyrrgreint valdaframsal brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands.

Síðast en ekki síst hefur ekki komið fram hvers vegna Íslendingar ættu að framselja vald í orkumálum til erlends aðila.  Rætt hefur verið um mikilvægi markaðsvæðingar í því sambandi.  Er því til að svara að íslenskum stjórnvöldum er í lófa lagið að gera hvers kyns breytingar á orkumálum og orkumarkaði án þess að framselja vald til útlanda.  Slíkar breytingar yrðu afturkræfar sem gæti komið sér vel ef þær reyndust illa.  Vald sem fært hefur verið til erlendra aðila, ekki síst verðandi stórvelda á borð við Evrópusambandið, gæti á hinn bóginn reynst afar torvelt, ef ekki ómögulegt, að endurheimta.  Hér er með öðrum orðum gengið á rétt óborinna kynslóða til að skipa málum í eigin landi.


Erindi um Noreg og EES

Er Noregur að snúa baki við EES?



Morten Harper, rannsóknastjóri norsku samtakanna Nei við ESB
(Nei til EU), flytur fyrirlestur í sal 105 á Háskólatorgi 21. mars kl.
17:30 um breytta afstöðu í Noregi til EES-samningsins.

Á síðustu misserum hefur umræðan um EES í Noregi tekið nýja stefnu, bæði
hjá almenningi, stjórnmálaflokkum, verkalýðsfélögum, samtökum
og sérfræðingum í málefnum sem EES snertir. Morten hefur fylgst
með framkvæmd EES um árabil og skrifað greinar og skýrslur um
ýmis mál og rannsakað áhrifin af tilskipunum og öðrum
valdboðum frá EES í Noregi. Í fyrirlestrinum fjallar Morten um
þróunina í umræðunni og í framkvæmd EES-samningsins sem og um
mikil hagsmunamál á borð við 3. orkulagabálkinn. Hann
segir frá því hvernig umræðan um fullveldið og EES hefur þróast í
Noregi og fjallar um valkosti Noregs og þar með Íslands við
EES en breytingin sem verður með Brexit er síst minni fyrir Noreg
en Ísland.


Nei til EU hefur tvisvar afstýrt inngöngu Noregs í Evrópusambandið.

 

ALLIR VELKOMNIR! Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.

 

Heimssýn, Frjálst land, Herjan og Ísafold

 

 


Katalónar eru kanarífuglinn í búrinu

Líklega hafa um 4 milljónir manna í Evrópu katalónsku að móðurmáli, en um 9 milljónir tala málið.  Staða katalónsku innan Evrópusambandsins er í grófum dráttum engin. Slík er ást sambandsins á smáþjóðum sem þó eru margfalt stærri en Íslendingar. 

Laugardaginn 16. mars 2019 kl. 12.00 verður í Safnahúsinu í Reykjavík opinn fundur um málefni Katalóna og þar talar m.a. utanríkisráðherra Katalóníu.  Staða ýmissa katalónskra stjórnmálamanna er sérstök og minnir að nokkru leyti á stöðu Hákonar Noregskonungs á öndverðum 5. áratugi 20. aldar. 

629px-Alfred_Bosch_retrat_oficial_2018.jpg

 

http://ogmundur.is/greinar/2019/03/katalonia-til-umraedu-a-laugardag

https://www.facebook.com/tilrottaekrarskodunar/photos/gm.1136356616572347/1099882100202770/?type=3


Sjúkdómar og dauði í boði EES

EES-samningnum er beitt til að koma í veg fyrir að Íslendingar haldi landinu hreinu.  Allt bendir til þess að afleiðingarnar verði sjúkdómar og dauði fjölda fólks. 

Slíkt hefur reyndar aldrei raskað nætursvefni gamalla nýlenduvelda svo engum ætti að koma á óvart hver afstaða þeirra er.

Er ekki kominn tími til að Íslendingar hugi að því á hvaða vegferð þeir eru í EES-samstarfinu?

 

https://www.bbl.is/frettir/frettir/professor-i-syklafraedi-vid-hi-innflutningur-a-fersku-kjoti-gaeti-valdid-oafturkraefum-afleidingum/20634/?fbclid=IwAR1melrkwc65wmf5f5aVGZND3ZgesTHn8e9QqvriVyx_o0H9w4McRcvkgiw 


Frelsaðir

Formenn Viðreisnar og Samfylkingar vilja samþykkja orkubálk Evrópusambandsins í hvelli. Frumvarpið hefur að vísu ekki verið lagt fyrir Alþingi svo varla hafa þeir lesið það. 

Sumir mundu segja að það væri skylda þingmanna að kynna sér mál og taka svo afstöðu til þeirra eftir því hvort þau teldust þjóðinni til hagsbóta eða ekki.  Svo virðist sem formennirnir líti ekki svo á.  Allt sem kemur frá Evrópusambandinu líkar þeim vel. Skiptir þá engu máli þótt stór meirihluti þeirra eigin kjósenda sé andvígur málinu.

Það er svipuð afstaða og allra heitustu trúmenn hafa til guðs síns.   

 

https://eyjan.dv.is/eyjan/2019/03/05/vidreisn-og-samfylking-vilja-fa-thridja-orkupakkann-hid-snarasta/


Orkupakkinn er framsal fullveldis - segjum nei

Með þriðja orkupakkanum fær Evrópusambandið íhlutunarrétt í íslensk málefni, sem það hefur ekki í dag. ESB fær völd yfir raforkumálum Íslands - og þar með náttúru landsins - ef við gerum þau reginmistök að samþykkja orkupakkann.

Ísland varð að velmegunarríki samhliða sem þjóðin tók forræði sinna mála úr höndum Dana. Heimastjórnin 1904, fullveldið 1918 og loks lýðveldið 1944 voru áfangar til sjálfsstjórnar, sem er nauðsynleg forsenda velmegunar.

Látum það ekki henda okkur að gefa framandi yfirvöldum forræði yfir séríslenskum hagsmunum. Segjum nei við 3. orkupakkanum.


mbl.is Frestar orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 1693
  • Frá upphafi: 1142065

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband