Leita í fréttum mbl.is

Ísland og bankakerfi Evrópu

Bretar og Hollendingar töldu áhlaup yfirvofandi á bankakerfið ef innlán í Icesave-reikninga yrðu ekki bætt. Evrópusambandið óttaðist að bankakerfi álfunnar riðaði til falls vegna tortryggni í garð fjármálakerfisins. Í stað þess að ganga úr skugga um hver bæri ábyrgð á regluverkinu sem skilaði ónógri innistæðu fyrir lágmarksábyrgð á innlánum ákváðu bresk og hollensk stjórnvöld að bæta eigendum innlánanna tapið.

Bretar og Hollendingar framvísuðu reikningi fyrir björgun bankakerfisins til íslenskra stjórnvalda. Evrópusambandið gerði sambærilega ráðstöfun gagnvart Írum.

Þjóðin mun segja álit sitt á þessum reikningi eftir tvo mánuði. Þjóðin mun segja nei, bankakerfi Evrópu er ekki á ábyrgð íslensku þjóðarinnar.


mbl.is Réttlætir ekki herferð Breta og Hollendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíþjóð og evran, fundur í dag

Sænski þingmaðurinn Jonas Sjöstedt heldur erindi á fundi Heimssýnar miðvikudaginn 23. febrúar í hádeginu í sal 131 í Öskju við Háskóla Íslands. Fundurinn hefst kl. 12:30.

Jonas situr núna á rikisdeginum en var áður þingmaður á Evrópuþinginu. Hann beitti sér í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að Evrópusambandinu árið 1994 og aftur þegar Svíar höfnuðu evru tæpum áratug síðar. Jonas er í utanríkisnefnd ríkisdagsins og Evrópunefndar þingsins.


Aftengja Icesave og ESB-umsókn

Afdrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave ráðast af afstöðu þjóðarinnar til umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Í huga almennings er Icesave inngöngumiði inn í Evrópusambandið. Þjóðin borgar ekki  fyrir byssukúlurnar sem eiga að drepa fullveldið. Af því leiðir er enginn möguleiki er að Icesave fái framgöngu að óbreyttri stöðu umsóknarinnar.

Aftengja má Icesave við ESB-umsóknina með einföldum hætti. Meirihluti alþingis getur samþykkt að draga umsóknina tilbaka.

Tveir flokkar sem eru stórlega skaddaðir af Icesave og umsókninni gætu náð vopnum sínum með því að setja aftengingu á oddinn. En það eru fáir dagar til stefnu. Brátt verða skotgrafirnar svo djúpar að ekkert breytir afstöðu manna - og þá er Icesave-frumvarpið dautt.

(Tekið héðan.)


Evran og fullveldi fara ekki saman

Tilraunin með sameinginlega mynt fyrir kjarnaþjóðir Evrópusambandsins hófst fyrir rúmum áratug og stendur núna á tímamótum. Lánsfjárkreppan afhjúpaði þann veikleika evrunnar að þau 17 ríki sem eiga myntina að lögeyri reka ríkisfjármál sín hvert með sínum hætti.

Í góðæri með gnótt lánsfé er hægt að safna skuldum, eins og sum ríki gerðu á fyrsta áratug evrunnar, á meðan önnur treystu samkeppnisstöðu sína. Þegar kreppir að verður að greiða skuldirnar og það gengur illa þegar samkeppnisstaðan er orðin veik og sem slík læst inni í fastri evru-skráningu.

Aðeins ein leið er til að halda evrunni áfram gangandi sem lögeyri Evrópusambandsins. Sameining ríkisfjármála evru-ríkjanna er forsenda fyrir björgun evrunnar, eins og Ambrose Evans Pritchard bendir á í yfirlitsgrein um stöðu gjaldmiðilsins.

Sameiginleg ríkisfjármál fela í sér endalok fullveldis þjóðríkja.


ESB-fjárstuðningur við Samfylkingu

Samfylkingin er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem vill aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þegar Evrópusambandið efnir til kynningarherferðar til að vinna málstað Samfylkingarinnar fylgi er það  fjármögnun erlends aðila á íslenskri stjórnmálastarfsemi.

Frumvarp sem lagt var fyrir alþingi árið 1978 var með greinargerð þar sem sagði eftirfarandi

Orsök þess, að flutningsmenn flytja nú þetta sérstaka frumvarp, sem varðar einn þátt málsins, er hins vegar sú, að upp komst nú í vetur og liggur fyrir játning eins stjórnmálaflokks, Alþýðuflokksins, að hann hafi leitað fjárframlaga erlendis frá og fái nú þaðan peninga til þess að kosta útgáfu blaðs síns og standa straum af annarri stjórnmálastarfsemi á landi hér. Skiptir hér ekki máli að dómi flutningsmanna þótt gjafafé þetta sé sótt til Norðurlanda. Þarf ekki að rökstyðja það álit í greinargerð því alls ekki verður við það unað, að neinir erlendir aðilar fái að gera út stjórnmálaflokka á Íslandi.

Forveri Samfylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, var tilefni til frumvarps til laga um að banna stuðning erlendra aðila við íslenska stjórnmálastarfsemi. Alþýðuflokksmenn vildu meira að segja taka þátt í að reisa skorður við erlendri íhlutun í stjórnmálaumræðu og Sighvatur Björgvinsson þingmaður flokksins og síðar formaður gerði breytingartillögu sem hnykkti á andstöðu við erlenda íhlutun.

Frumvarpið varð að lögum vorið 1978. Össur Skarphéðinsson virðist ekki þekkja til laganna og hefur hann þó heilt ráðuneyti að sinna gæluverkefnum flokksins.

Kannski að ríkisstjórnin leggi fram lagafrumvarp sem leyfi fjárstuðning við Samfylkinguna?

(Tekið héðan.)


Össur þekkir ekki íslensk lög

Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um starfsemi erlendra sendiráða á Íslandi segist Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafa fínkembt íslensk lög sem kveða á um takmarkanir á starfsemi sendiráða og ekki fundið neitt sem taki til umsvifa sendiráðs Evrópusambandsins á Íslandi.

Össuri og samstarfsmönnum hans í ráðuneytinu yfirsást lög sem samþykkt voru á alþingi í maí 1978 um bann við stuðningi erlendra sendiráða við stjórnmálaflokka á Íslandi og um bann við útgáfu sendiráða. Einn af þeim sem tók þátt í að þrengja möguleika erlendra sendiráða til að hafa áhrif á umræðu hér á landi var Sighvatur Björgvinsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins.

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn hér á landi sem vill aðild að Evrópusambandinu. Útgáfu- og kynningarstarf sendiráðs Evrópusambandsins er því stuðningur við máflutning Samfylkingarinnar og er bannaður samkvæmt téðum lögum, en þau eru hér í heild sinni

Lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi

1978 nr. 62 20. maí

 



Tóku gildi 6. júní 1978. Breytt með l. 10/1983 (tóku gildi 25. mars 1983) og l. 162/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007).

1. gr.
1) Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.
   
1)L. 162/2006, 13. gr.

2. gr. Lög þessi taka til stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra, svo og til hvers konar stofnana, sem starfa á þeirra vegum, beint eða óbeint, þ. á m. blaða, og einnig til blaða og tímarita, sem út eru gefin á vegum einstaklinga eða félagasamtaka.

3. gr. Bann það, sem felst í 1. gr. þessara laga, nær til hvers konar stuðnings, sem metinn verður til fjár, þ. á m. til greiðslu launa starfsmanna eða gjafa í formi vörusendinga.

4. gr. Erlendir aðilar teljast í lögum þessum sérhverjar stofnanir eða einstaklingar, sem hafa erlent ríkisfang, hvort sem þeir eru búsettir hér á landi eða ekki.

5. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum …
1)
Fjármagn, sem af hendi er látið í trássi við lög þessi, skal gert upptækt og rennur til ríkissjóðs.
   
1)L. 10/1983, 74. gr.

 


ESB, 1. og 2. deild

Evrópusambandið er að breytast og kemur margt til; s.s. hröð fjölgun undanfarin ár, kreppa evru-svæðisins og ólík framtíðarsýn. Vaxandi þreytu gætir meðal stóru ríkjanna á hægagangi í ákvörðunum í Brussel. Frakkland og Þýskaland sömdu sín á milli um samkeppnissáttmálann og kynntu fyrir öðrum ríkjum sem tóku því ekki fagnandi.

Tvíhliða samstarf milli Bretlands og Þýskalands mun einnig aukast þar sem þau Merkel og Cameron þykja vinna vel saman.

Afleiðingin gæti orðið tvíþætt. Í fyrsta lagi að stóru ríkin myndi blokk 1. deildar ríkja. Í öðru lagi að evru-ríkin nái saman og stofni 1. deild.

Íslandi er best borgið utan deilda Evrópusambandsins.


Össur, Kína og Evrópusambandið

Utanríkisráðherrar skrifar grein um norðurslóðir í Morgunblaðið í dag. Össur Skarphéðinsson nefnir Kína nokkrum sinnum sem væntanlegan samstarfsaðila Íslands þegar skipaleiðin opnast um norðurskautið. Össur nefnir Evrópusambandið ekki einu orði sem er furðulegt í ljósi þess að enn er opinber stefna samfylkingarhluta ríkisstjórnarinnar að gera Ísland að aðildarríki ESB.

Tilgangurinn með greininni og öðrum sambærilegum sem Össur hefur skrifað undanfarið er tvíþættur. Össur veit að Evrópusambandið fylgist með umræðunni hér heima. Með því að skrifa grein um norðurslóðir og nefna ekki ESB á nafn er Össur að segja við Brussel að Ísland þurfi ekki á aðild að halda; komiði þess vegna með góðan díl handa okkur.

Í öðru lagi veit Össur að íslenska þjóðin er einarðari í andstöðu sinni við aðild. Þegar jafnvel aðildarsinnar kalla sig Já Ísland er fokið í flest skjól fyrir Evrópusambandinu.

Össur ætlar að vera í stjórnmálum enn um hríð og ekur eins og fyrr seglum eftir vindi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Feb. 2011
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 205
  • Sl. sólarhring: 207
  • Sl. viku: 1840
  • Frá upphafi: 1234772

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1551
  • Gestir í dag: 156
  • IP-tölur í dag: 156

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband