Leita í fréttum mbl.is

Misvægi og misskipting í Evrópusambandinu

Sameiginlegar reglur og sama peningastefna áttu að jafna hagþróun og kjör í ríkjum evrunnar og Evrópusambandsins. Það hefur ekki gengið eftir. Þvert á móti. Þróuðustu ríkin á miðsvæðinu, eins og Þýskaland, hafa leitt hagþróunina og samkeppnishæfni á meðan jaðarríkin hafa setið eftir. Hagkvæmnin hefur löngum verið mest í Þýskalandi og útflutningur mestur, tekjur hafa því leitað þangað og til fáeinna annarra ríkja á meðan mörg jaðarríkin hafa búið við lakari afkomu og safnað skuldum á meðan Þýskaland og fáein önnur ríki hafa safnað auði. Tekjur er þó óvíða hærri en meðal embættismanna í Brussel. Ýmsir hér á landi sjá þau störf sjálfsagt í hillingum.


Lítil vinna fyrir ungdóminn á evrusvæðinu

Atvinnuleysi hefur verið mikið meðal ungs fólks í Evrópusambandinu. Í apríl voru 2,9 milljónir ungmenna undir 25 ára aldri, eða 14,8%, án atvinnu samkvæmt Eurostat. Í heild meðal allra aldurshópa var atvinnuleysið á þessum tíma um 5,9%. Á bak við þá tölu eru 13 milljónir manna án atvinnu. Atvinnuleysið hefur almennt verið aðeins meira á evrusvæðinu þar sem það er nú um 6,2%. Einna mest hefur atvinnuleysið verið á jaðarsvæðum Evrópusambandsins, s.s. á Spáni, Ítalíu, Finnlandi – og víðar þar sem stífur og stirður vinnumarkaður heldur fólki lengi án vinnu. Nýjustu tölur um atvinnuleysi hér á landi eru 3,1% samkvæmt vef Hagstofu Íslands.


Aðeins meira um veikleika Evrópusambandsins

Stjórnskipulag Evrópusambandsins gerir það að verkum að það bregst seint og illa við aðsteðjandi vanda. Það sást vel í evrukreppunni sem varaði nánast í um áratug eftir fjármálakreppuna 2008, en einnig í viðbrögðum við COVID og það má einnig heimfæra þetta upp á viðbrögðin við stöðu heimsmála nú. Þannig á ESB erfitt með að takast á við ýmsar innri og utanaðkomandi áskoranir, svo áraun vegna landfræðilegrar spennu, eins og sést á viðbrögðum við mannflutningum yfir Miðjarðarhafið og vegna viðskiptadeilna. Í öllu þessu eru það þjóðarleiðtogar í Evrópu sem stíga fram og takast á við vandann um leið og þeir keppast um að staðfesta áhrif sín meðal þjóðarleiðtoga heims.

 


Veikleikar Evrópusambandsins

Evrópusambandið hefur staðið frammi fyrir ýmsum vandamálum, sem sum hefðu ekki átt að koma á óvart  ef litið hefði verið raunsætt á málin og varast að trúa á blindni á kennisetningar. Í fyrsta lagi er mjög mikill mismunur á efnahagslegum styrk á milli aðildarríkja sem skapar spennu í samstarfi ríkja sambandsins. Evran átti meðal annars a koma í veg fyrir þetta með sameiginlegri peningastefnu, sem átti að stuðla að sams konar útlánsvöxtum, sama verðlagi og hagvexti. Reyndin hefur orðið önnur. Í öðru lagi hefur sameiginlegt landamæraeftirlit skapað gífurlegan vanda og spennu í samstarfinu vegna mikilla og sveiflukenndra fólksflutninga og mismunandi viðbragða hinna ýmsu ríkja sem vilja fara þvert gegn stefnu ESB. Lýðræðishallinn er þekkt vandamál. Veigamiklar ákvarðanir eru teknar víðsfjarri lýðræðislegum vettvangi aðildarþjóðanna og lýðræðislegt aðhald að þeim sem taka veigamiklar ákvarðanir er veikt og óljóst, enda margar ákvarðanir teknar af embættismönnum í Brussel sem þurfa ekki að standa kjósendum reikningsskil gerða sinna. Þessu tengt er hið óheyrilega skrifræði ESB og kostnaður við ótrúlegan hægagang við margar sjálfsagðar ákvarðanir. Til dæmis hefur tekið óratíma að vinda ofan af skrifræðiseftirliti Evrópusambandsins á fjármálamarkaði þar sem ótölulegur fjöldi embættis- og starfsmanna situr daglangt við að tikka í eftirlitsbox um það sem ekkert er í stað þess að beina sjónum sínum að raunverulegum og fyrirsjáanlegum vanda sem hægt væri að vinna með mun færri starfsmönnum. Þannig er með regluveldisbáknið að það fer ekkert burt heldur er það nokkurn veginn kjurt.


Kári sveiflar sverði

Kári heitir penni sem fær rými hjá Ögmundi Jónassyni.  Í nýlegum pistli fjallar hann um bókun 35, andóf nokkurra þingmanna gegn henni og EES-samninginn. 

Þar eru nokkur sannleikskorn sem vert er að staldra við.  Eitt þeirra er hugmyndin um að Evrópulög verði "íslensk lög" við það að Alþingi stimpli þau.  Það eru ekkert annað en skrauthvörf til að breiða yfir fullveldisafsalið sem fylgir núverandi fyrirkomulagi á samstarfi Íslands við Frakkland, Þýskaland og fylgiríki þeirra. 

Kári mælir gegn því að aðgangur að markaði sé keyptur með fullveldi.  Það er rétt, og óhætt er að bæta við að aðgangur Íslendinga að markaði Evrópusambandsins er aðeins að litlu leyti háður EES.  Alþjóðlegir samningar og fríverslunarsamningur EFTA við Evrópusambandið skipta þar mun meira máli. Ísland er með öðrum orðum að kaupa sáralítið fyrir mikið. 

Niðurlag pistils Kára er þetta:

"Er ekki kominn tími til að segja skilið við óttann og leita nýrra leiða og gera viðskiptasamninga sem víðast, án fullveldisafsals?"  

 

https://www.ogmundur.is/static/files/pdfskjol/fullveldisafsal-bokun35.pdf


Svaraði Markús ekki?

Undarleg orðaskipti urðu 6.júní á Alþingi.

Fyrir liggur að Markús Sigurbjörnsson, fv. forseti hæstaréttar skrifaði fyrir nokkrum árum það sem ekki hefur verið túlkað öðruvísi en að bókun 35 gengi gegn stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. 

Kl. 20:28 upplýsir Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins að neitað hafi verið að óska eftir að Markús kæmi á fund nefndarinnar.   Örfáum mínútum síðar segir Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingar hið gagnstæða, að Markúsi hafi verið boðið. 

Ef Ingibjörg hefur rétt fyrir sér, hvers vegna mátti ekki bjóða Markúsi á fund nefndarinnar? Vilja Alþingismenn ekki hlýða á sjónarmið fv. forseta hæstaréttar um hvort eða hvers vegna frumvarp sem liggur fyrir Alþingi gangi gegn stjórnarskrá?  

Ef Dagbjört hefur rétt fyrir sér vaknar upp spurningin hvers vegna Markús kom ekki fyrir nefndina. Svaraði hann hvorki tölvupósti né síma? 

Umræðan á Alþingi:

https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20250606T203641

Umfjöllun Hjartar J. Guðmundssonar um þetta sama mál:

https://www.stjornmalin.is/?p=18671

 

 


Einföld lausn

Átök eru um bókun 35. Stjórnarflokkunum finnst réttlátt og sanngjarnt að "áframhald á viðræðum" sem eru skrauthvörf fyrir "umsókn um innlimun" gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvers vegna skyldi þetta sama fólk ekki vilja hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um bókun 35 um leið og kosið er til sveitarstjórna á næsta ári? 

Getur það tengst því að trúin á að Íslendingar muni ekki, þegar til kastanna kemur, skilja hina djúpu hugsun sem segir að framsal á valdi til ókjörinna manna í útlöndum séu "réttarbætur"?

 

 


Gleðilega þjóðhátíð

Segja má að 17. júní 1944 hafi verið lokadagur einnar aldar verkefnis sem fólst í að flytja stjórnvald inn í landið, í hendur kjörinna fulltrúa íslensku þjóðarinnar. 

Með mátulegri einföldun má segja að það sem tapaðist á einum degi í fyrndinni tók öld að endurheimta.   

Tíminn eftir lýðveldisstofnun er efalítið farsælasti tími Íslendinga.  Það er varla tilviljun, það er nefnilega farsælast að þjóðir stjórni sér sjálfar.  Það er kjarni málsins.  

Heimssýn óskar landsmönnum nær og fjær gleðilegrar þjóðhátíðar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 223
  • Sl. sólarhring: 357
  • Sl. viku: 1567
  • Frá upphafi: 1234263

Annað

  • Innlit í dag: 194
  • Innlit sl. viku: 1307
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband