Leita í fréttum mbl.is

Forvitnilegur fundur á mánudagskvöld

Við minnum á opinn fund málfundafélagsins Frelsi og fullveldi mánudagskvöldið 16. september, kl. 20:00 í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju.
 
Umræðuefni: Staða Íslands innan EES og bókun 35.
 
Framsögumenn: Hjörtur J. Guðmundsson sagnfræðingur og Bjarni Jónsson alþingismaður.
Báðir hafa nýleg skrifað athyglisverðar greinar í Morgunblaðið og á vefmiðilinn Vísir. Grein Hjartar heitir "Milljarðatugir Jóns Baldvins" https://www.visir.is/.../milljarda-tugir-jons-bald-vins en grein formanns utanríkisnefndar birtist í Morgunblaðinu s.l. föstudag og ber yfirskriftina: "Íslendingar áfram sjálfstæð þjóð?" Þar fjallar Bjarni um viðnám hans gegn bókun 35 https://www.mbl.is/mogginn/bladid/innskraning/...).
 
Hvetjum til góðrar þátttöku og umræðna á fundinum. Allir velkomnir, heitt á könnunni og orðið frjálst.
 

Herkvaðning Bjarna Jónssonar

Bjarni Jónsson gerir sér glögga grein fyrir mikilvægi fullveldis og sjálfstæðis Íslendinga.  Hann brýnir Íslendinga í nýlegri grein í Morgunblaðinu, sem menn ættu ekki að láta framhjá sér fara.  Bjarni segir m.a.:

 

Ekkert hefur enn komið fram sem skýrir hvers vegna það liggi svo á að afgreiða frumvarp vegna bókunar 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eftir tíðindalítil 30 ár. Svo sannarlega er ekki að finna naglfastan rökstuðning fyrir slíku í þeirri samantekt sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta þingi.

 

Spyrja þá sumir hvers vegna málið var ekki afgreitt fyrir 30 árum eins og núna á að gera.  Því er til að svara að þá gekk það gegn stjórnarskrá.  Stjórnarskráin er í meginatriðum óbreytt og augljóst að málið hlýtur að brjóta jafn mikið gegn stjórnarskránni núna og það gerði þá.  

 

Grein Bjarna í heild sinni er svohljóðandi:

 

Ísland áfram sjálfstæð þjóð?


Á síðasta þingi var lögð fram skýrsla utanríkisráðherra vegna bókunar 35 við EES-samninginn, sem felur í sér frekara fullveldisframsal til Evrópusambandsins. Fátt nýtt var þar að finna; snyrtileg samantekt, sögubútar og valdar lögskýringar. Órökstuddar fullyrðingar um að framsal löggjafarvalds sé eiginlega ekki framsal löggjafarvalds. Eftir stendur að við erum enn og aftur minnt á að fullveldið er aldrei sjálfgefið og kostar sífellda baráttu.

 

ESB stjórni íslenskri löggjöf

Tilgangurinn með bókun 35 er að setja ákvæði inn í íslensk lög til að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur öllum stundum. Á fyrri þingvetri kom einmitt fram frumvarp sem ætlað var að hnykkja á forgangi laga sem eiga uppruna sinn í lögum frá Evrópusambandinu og fjalla af einhverjum ástæðum einnig um stjórnvaldstilskipanir af sama tagi, sem eru jafnvel til þess fallnar að auka flækjustig í stjórnsýslunni hér heima. Frumvarp frá utanríkisráðherra til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, sem varðar bókun 35 um forgangsröð laga í íslenskum rétti, fór sannarlega óvenju lágt þá, þó það væri mál af þeirri stærðargráðu að þarfnaðist vandaðrar umfjöllunar, mál sem vekur spurningar um hvort farið sé gegn stjórnarskrá Íslands.

 

Bókun 35: Eitt mesta afsal löggjafarvalds frá því Ísland varð lýðveldi


Sú samantekt um bókun 35 sem lögð var fram á síðasta þingi bætti litlu við það sem kom fram í fjölmörgum umsögnum og máli gesta utanríkismálanefndar í umfjöllun um málið þar sem skilið var við það vorið 2023. Þá átti enn eftir að kalla fyrir um helming þeirra sérfróðu gesta sem óskað hafði verið eftir fyrir nefndina og þeirra sem höfðu skilað umsögnum um málið. Þá var mikil vinna enn óunnin við yfirferð málsins. Ekki einungis svo nefndarmenn gætu tekið málefnalega afstöðu til þess.  Það auðveldaði sannarlega ekki vinnuna að ljóst var frá upphafi að frumvarpið þyrfti veigamikilla lagfæringa við svo íslenskum hagsmunum væri ekki kastað enn frekar fyrir róða en þeim sem málið fluttu virtist ganga til.

 

Hefur verið gætt að hagsmunum Íslands?


Ekkert hefur enn komið fram sem skýrir hvers vegna það liggi svo á að afgreiða frumvarp vegna bókunar 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eftir tíðindalítil 30 ár. Svo sannarlega er ekki að finna naglfastan rökstuðning fyrir slíku í þeirri samantekt sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta þingi.

 

Hrekkleysi þingmanna, eða meintur blekkingaleikur um fullveldið?


Málið varðar stjórnarskrá Íslands og því mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Ein stór spurning stendur enn þá eftir: Hvers vegna voru slíkar þjóðréttarlegar skuldbindingar ekki uppi á borðum þegar fjallað var um EES-samninginn á sínum tíma og hann samþykktur á Alþingi 12. janúar 1993, með minnsta mun, eða 33 atkvæðum? Að setja yrði ákvæði inn í íslensk lög til þess að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur? Nú tala jafnvel fyrrverandi þingmenn sem þá sátu á þingi, og hafa síðan gerst sjálfskipaðir sérfræðingar um EES-samninginn og skuldbindingar honum tengdum, um vonum seinni efndir á meintri skuldbindingu sem íslenska ríkið tók á sig við samþykkt EES- amningsins, skuldbindingu sem hvorki þeir eða aðrir sem til þekktu færðu orð að þegar málið var til umfjöllunar. Voru menn ekki að segja satt, vissu þeir ekki betur, eða voru einfaldlega á villigötum?

 

Eitt er ljóst, sjálfstæðisbaráttu Íslands lýkur aldrei.

 


Margboðað morð

Sitthvað er athyglisvert við evrusamstarfið svokallaða.  Enginn skortur er á sérfræðingum sem spá því dauða, að óbreyttum ytri aðstæðum.

Tiltölulega lágir vextir víða í Evrópu eru birtingarmynd stöðnunar, enda ekkert launungarmál að Evrópa hefur dregist aftur úr öðrum svæðum heimsins á undanförnum árum og áratugum. 

Kannski er það athyglisverðasta að þeir sem helst tala um hengiflug framundan í evrumálum eru sannfærðir Evrópusinnar. Hjörtur er með listann. 

https://www.visir.is/g/20242620065d/-spilaborgin-hrynur-einn-daginn-


Reikningur aldarinnar bíður

Það hefur ekki farið framhjá neinum að margt hefur gengið illa í Evrópusambandinu undanfarna áratugi.  Hlutur sambandsins í efnahagsvél heimsins var einu sinni stór, en er nú orðinn að litlu tannhjóli. 

Evrópusambandið vill gera eitthvað í málinu, og hefur reyndar viljað gera eitthvað eins lengi og elstu menn muna.  En nú á að gera stórt og það byrjar á því að ríkissjóðir aðildarríkjanna taka himinhátt lán til verka sem sambandið telur vera góð. 

Reikningur aðildarríkjanna verður svimandi hár, þegar hann kemur.  Þá munu Íslendingar prísa sig sæla fyrir að vera ekki innanborðs í Evrópusambandi. 

Það er undarlegt að þegar svona lagað blasir við, þá vilji stjórnmáamenn á Íslandi setja lög um forgang laga og reglna sem eiga rætur í Evrópusambandinu. Enginn veit hvar slíkt endar. Í ofanálag er gjörningurinn, sem heitir bókun 35, brot á stjórnarskrá!  

https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-09-09-kallar-eftir-hundrud-milljarda-evra-fjarfestingu-i-nyskopun-og-atvinnulifi-421457

 


Stolnu fjaðrirnar

Það er lenska að skreyta EES-samninginn með stolnum fjöðrum.  Allt sem gott er hlýtur að vera honum að þakka og allt hitt einhverju öðru að kenna. 

Stundum er reynt að reikna "gróðann" af EES.  Þegar rýnt er í þá reikninga kemur undantekningalaust í ljós að þar stendur ekki steinn yfir steini. 

Annað er uppi á teningnum þegar reynt er að reikna kostnaðinn af EES-samningnum.  Þá hækka tölurnar svo hratt að sá sem reiknar drukknar í eigin svita. 

https://www.fullveldi.is/?p=54721


Á 17. mínútu

er byrjað að ræða Evrópumálin, bókun 35 og fleira í þessum útvarpsþætti á Sögu í dag 6. september.  Við hljóðnemana eru Arnþrúður Karlsdóttir og Haraldur Ólafsson.

Nú er hitað upp fyrir slag um bókun 35.  Grundvallarspurningin er þessi: Á Evrópusambandið að ráða enn meiru á Íslandi, en það gerir nú þegar?

https://utvarpsaga.is/frettir-vikunnar-loftslagsmal-eldgos-bokun-35-og-menntamal/


Bókunarstríðið að hefjast - Leiðin út

Nú er hitað upp í næsta stríð í íslenskum stjórnmálum.  Eins og mörg þau fyrri snýst málið um tilfærslu á valdi til Evrópusambandsins.  

Í stað þess að berjast við himinháa skafla í sífellu má taka á sig lítilsháttar krók.  Honum er lýst í niðurlagi greinar Hjartar J. Guðmundssonar: 

Hins vegar er leið út úr öllum þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar þau semja um milliríkjaviðskipti og ekki sízt stærstu efnahagsveldin með sína umfangsmiklu viðskiptahagsmuni. Þar með talið Evrópusambandið. Víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem, ólíkt EES-samningnum, felur hvorki í sér upptöku íþyngjandi regluverks né vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum.

 

https://www.visir.is/g/20242616273d/malid-sem-tholir-ekki-ljosid


Nei, nei, nei, nóg er nóg.

Borist hefur út að utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sé að ýta bókun 35 af stað.  Kannski standa vonir til þess að hægt verði að afgreiða málið svo hratt að það verði gleymt þegar kjósa á næst. 

Aftur þurfa Íslendingar að spyrja sig: Er ástæða til að færa Evrópusambandinu enn meiri völd á Íslandi, en það hefur í dag?  Væri ekki nær að fara að draga í land.  Nóg hefur þetta valdaframsalsævintýri nú þegar kostað. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 246
  • Sl. sólarhring: 252
  • Sl. viku: 2116
  • Frá upphafi: 1184853

Annað

  • Innlit í dag: 216
  • Innlit sl. viku: 1815
  • Gestir í dag: 201
  • IP-tölur í dag: 201

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband