Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Farsinn um EES

Hjörtur J. Guðmundsson færir í Morgunblaðinu rök fyrir því að Íslendingar ættu að reyna að gera víðtækan fríverslunarsamning við Evrópusambandið, í stíl við það sem t.d. Kanadamenn hafa gert.  

Ólíkt því sem margir halda tryggir EES-samningurinn margrómaði nefnilega ekki tollfrelsi fyrir helstu útflutningsgrein Íslendinga.  Já, það er skrýtið. 

Svo felast í EES viðskiptahindranir við lönd utan Evrópusambandsins.  Þau eru mörg og þar býr allur þorri mannkyns. 

https://www.fullveldi.is/?p=18532 


Hagsmunagæsla og stjórnarskrá

Töfraorðið í umræðu um EES-samninginn er „hagsmunagæsla“.  Margir ræða samninginn og flestir virðast sammála um að það þurfi meiri „hagsmunagæslu“. 

Með „hagsmunagæslu“ er átt við að skrifa bænaskjöl og fylgja þeim eftir gagnvart embættismönnum í Evrópusambandinu í von um hagstæðari lög og reglur.  „Efling hagsmunagæslu“ þýðir að það þurfi að kaupa fleira fólk í verkið.  Það er ekki beinlínis ókeypis.

Væri ekki einfaldara, ódýrara, lýðræðislegra og tryggara að láta Alþingi sjá um að setja Íslendingum lög?  Það mundi líka passa betur við stjórnarskrána.


Bjarni og kjarni

Í upphafi ræðu sem Bjarni Jónsson hélt á Alþingi 7. mars sl. segir:

 Virðulegi forseti. Fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES samningsins að nauðsynlegur hluti af EES samstarfinu sé að halda uppi öflugri hagsmunagæslu og að þó hagsmunir Íslands fari gjarnan saman með samstarfsríkjum innan EES, Þá komi „endrum og sinnum upp gerðir sem orka með öðrum hætti á íslenskar aðstæður en að er stefnt eða geta jafnvel haft skaðlegar afleiðingar“ eins og segir í skýrslunni. Ég held að þar sé ekki ofsagt.

 Við finnum okkur reglulega og of oft í þeirri stöðu að upp á okkur sé þröngvað hlutum sem hér eiga ekki við, vegna séríslenskra aðstæðna, legu landsins og smæðar þjóðarinnar.  Löggjöf og reglum sem ganga æ harðar gegn fullveldi þjóðarinnar, þrengja að möguleikum til eigin ákvarðanatöku sem sjálfstæðrar þjóðar í eigin landi. Að við fáum skipað okkar málum sjálf.

  

Bjarni veður þarna rakleitt að kjarna máls.  Best er að þjóðir setji sér lög sjálf eftir því sem framast er unnt.  Það gekk ágætlega á Íslandi að framan af lýðveldistímanum, en fyrir um 30 árum tók Alþingi upp á því af afrita kerfisbundið evrópsk lög.  Sífellt fleiri vankantar á því fyrirkomulagi hafa komið upp.  Þeir sem mæla þessu afritunarkerfi bót gera það iðulega með því að vísa í einhver óskyld mál og láta að því liggja að þau mál væru í ólestri ef Íslendingar lytu ekki Evrópusambandslögum.  Á þeim málalista eru t.d. viðskipti, ferðalög, rannsóknir, menntun, neytendavernd og vinnuvernd.  Engin ástæða er til að ætla að nokkuð af því væri í ólestri ef ekki væri þetta afritunarfyrirkomulag. 

Íslendingar ættu að endurskoða samskiptin við Evrópusambandið með almennan fríverslunarsamning í huga.


Bjarni, Eyjólfur og Jakob Frímann

Alþingismenn ræddu EES-samninginn 7. mars síðastliðinn.  Eins og við mátti búast virðast sumir telja að Íslendingar dragi andann í gegnum EES, en hafa þegar betur er að gáð aldrei nein traust rök fram að færa.  Þeirra málflutningur minnir á auglýsingar fyrir sykraða gosdrykki.  Trúin á málstaðinn kemur með sífelldri endurtekningu á trúarjátningunni.

Þeir eru aðrir sem hafa sitthvað bitastætt að segja.  Eyjólfur Ármannsson hefur efasemdir um framsal valds til Evrópusambandsins og sér glögglega að bókun 35 gengur ekki upp.  Samflokksmaður Eyjólfs, Jakob Frímann Magnússon er augljóslega smeykur við það hvernig Evrópusambandið er að færa sig upp á skaftið í gegnum EES.   Bjarni Jónsson stendur vaktina sem fyrr og kemst víða ágætlega að orði, t.d. hér:

Slík nálægð má þó ekki verða til þess að gengið sé á hagsmuni okkar í viðskiptum, hvernig við högum lífi okkar og við látum hlut okkar, að staða okkar sem sjálfstæðrar þjóðar sé ekki virt. Það er sömuleiðis mikilvægt að við höldum áfram að byggja upp og styrkja tvíhliða samskipti og viðskiptasamninga við þjóðir utan Evrópusambandsins, en lokumst ekki inni eða verðum of háð viðskiptum og samskiptum við eitt ríkjasamband.

Hér má gera því skóna að Bjarni vísi m.a. í þá staðreynd að EES-samningurinn hefur reynst frjálsri verslun út fyrir hóp EES-ríkja fjötur um fót.  Það er ekki nógu gott.

https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20240307T144617


Geltið er svo leiðinlegt

 

Langtímamarkmið Evrópusambandsins virðist vera að koma völdum frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum til embættismanna í hásölum sambandsins og þeirra fulltrúa í héraði.  Það er ekki nýtt í mannkynssögunni og ætti ekki að koma neinum á óvart.   

Verkfærið sem dugað hefur best til að koma á þessu svokallaða Evrópusambandslýðræði er það sem kalla má rúllupylsa endurtekningarinnar. 

Rúllupylsan er þannig að ef örlítið er skorið af í hvert sinn, þá segja menn að það muni ekkert um það.  Það sé í lagi að skera örlítinn bita handa hundinum, því geltið í honum sé svo leiðinlegt.  Á endanum klárast pylsan. Þannig færist valdið í litlum bútum til embættismanna Evrópusambandsins.  

Endurtekningin er að ef menn af einhverjum ástæðum neyðast í atkvæðagreiðslu og útkoman er skökk, þá skal kjósa aftur, og aftur, þangað til rétt niðurstaða fæst.  Þegar hún er fengin ekki þörf á að kjósa aftur.

Nú stendur fyrir dyrum að sneiða stórt af pylsunni.  Sneiðin heitir bókun 35.  Það er búið að tala um hana svo lengi að allir eru orðnir leiðir.  Ekki síst þingmenn.  Utanríkisráðherra lét semja skýrslu um málið og hún er löng og leiðinleg.  Skýrslan segir fátt nýtt og boðskapur hennar er að það sé best að samþykkja bókun 35 vegna þess að Evrópusambandið langi svo til þess. 

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna segja svo að geltið í sambandinu sé svo leiðinlegt að það sé best að samþykkja.  

Er skrýtið að fylgi stjórnarflokkanna sé á flótta?


Hverju var hótað og hver gerði það?

Hvernig skyldi nú standa á því að þingmenn stjórnmálaflokka sem segjast styðja fullveldi Íslands virðast ætla að styðja bókun 35, sem grefur óumdeilanlega undan fullveldinu?

Hefur einhverju verið hótað?  Hverju?  Hver hótaði?


Kári og VG

Ástæða er til að vekja athygli á pistli Kára á heimasíðu Ögmundar Jónassonar.  Kári fjallar um bókun 35 og þann valkvæða misskilning að hún skipti engu máli.  Hún er öllu heldur enn einn naglinn í líkkistu fullveldisins. 

Eins og menn vita gegndi Ögmundur trúnaðarstöðum fyrir VG, hann sat á þingi og í ríkisstjórn.

Það er vonandi að núverandi þingmenn VG lesi Kára hjá Ögmundi og íhugi hvort lausung í fullveldismálum skýri hvers vegna kjósendur virðast hafa snúið við þeim baki.

 

https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/enn-um-bokun-35-saxad-a-fullveldid


Skapandi söguskoðun

Jónas frá Hriflu og Jón Aðils skrifuðu Íslandssögu sem sumum þykir að hafi fallið vel að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Fullvíst er að þeir hafi verið fullveldissinnar.

Núna reyna sumir að skrifa Íslandssögu sem fellur að baráttu fyrir hinu gagnstæða, að gott vald sé í útlöndum, en vont vald á Íslandi.  Það er nefnilega áberandi að margir þeir sem ákaft tala niður Íslandssögu sjálfstæðisbaráttunnar eru líka ákafamenn um að stjórn Íslands fari aftur í erlendar hendur. 

Svona endurtekur sagan sig með óvæntum hætti.


Jón Baldvin í verkið

Sífellt kemur skýrar í ljós að það þarf að endurskoða samskipti Íslands við sambandið sem stjórnað er af gömlu nýlenduveldunum á meginlandi Evrópu.

Íslendingar þurfa í meginatriðum frjálsa verslun, en það er síður brýnt fyrir þá að greiða bandalaginu óbeina og síhækkandi skatta af ýmsu tagi, láta það ákveða hverjir mega fara til Íslands, setja lög um orkumál úti á Íslandi ákveða ótalmargt annað sem best er að heimamenn geri sjálfir.

Það þarf einhvern í að endurskoða EES-samstarfið með ofanritað og sitthvað fleira í huga.  Til er maður sem þekkir EES afar vel – og reyndar EFTA-samningana líka, af eigin raun.  Sá maður hefur ferðast víða um lönd, nú síðast í liðinni viku.  Í útlöndum er honum boðið að tala á virðulegustu samkomum og allir hlusta.  Hann heitir Jón Baldvin Hannibalsson.  Ætli hann eigi ekki lausa stund í svona samningastand?


Jón Baldvin og Friðrik 6.

Orð Jóns Baldvins Hannibalssonar „Allt fyrir ekkert“ urðu fleyg.  Þar var rætt um EES-samninginn þegar hann var nýfæddur.  Þá voru Jón Baldvin og EES alltaf í fréttum.

Fréttir berast nú óreglulega af báðum, Jóni Baldvini og EES.  Jón Baldvin átti afmæli um daginn og óskar Heimssýn honum til hamingju. Það gerði líka þjóðþing í útlöndum með heimboði, rauðum dregli og gylltu ræðupúlti fyrir Jón.

Ekki er vitað til þess að íslenskum stjórnmálamanni hafi verið gerður annar eins heiður í útlöndum, enda bárust um þetta fréttir til Íslands strax innan við viku eftir atburðinn.  Það gerðist í vefmiðli sem heitir Mannlíf sem endurbirti hugleiðingar sonar Jóns Baldvins.  Það er reyndar mikil framför frá þeim tíma þegar Íslendingar þurftu að bíða í nokkra mánuði eftir fréttum af andláti Friðriks konungs 6 sem var burt kvaddur í desember 1839.

EES-samningurinn á það sameiginlegt með Jóni Baldvini að vera ekki oft í fréttum þessa dagana, þótt tilefnin séu ærin.  Samningurinn er farvegur fyrir stöðugan straum tilskipana sem kalla á heilmikil útgjöld og aðra armæðu.  

Er það ekki einkennilegt?

https://news.err.ee/1609258937/first-minister-to-recognize-estonia-s-restored-independence-visits-riigikogu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 68
  • Sl. sólarhring: 330
  • Sl. viku: 2313
  • Frá upphafi: 1112098

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 2071
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband