Leita í fréttum mbl.is

Svíar óttast geigvænlegar afleiðingar sparnaðarráðstafana ESB í Grikklandi

Svíar ræða nú um geigvænlegar afleiðingar þeirra sparnaðarráðstafana sem ESB hefur þvingað Grikki til að framfylgja. Þær hafa það í för með sér að meðaltekjur hafa lækkað um helming og þriðjungur grísku þjóðarinnar hefur færst niður fyrir fátæktarmörk. Börn hafa nú ekki lengur rétt á því að fá bólusetningu gegn alvarlegum sjúkdómum, börn geta ekki sótt skóla af gagni vegna hungurs og vannæringar, verðandi mæður fá ekki mæðravernd og þurfa svo að taka á sig skuldir þegar þær fæða börn sín.
 
Svíum hryllir við lýsingum af þessu tagi, enda eiga þær meira skylt við stríðshrjáð lönd en þróað Evrópuland. Þetta er samt veruleiki dagsins hjá stórum hluta Grikkja. Sænskum stjórnmálamönnum finnst þetta vera brot á mannréttindum, eins og fram kemur í vefritinu Europaportalen. Atvinnuleysið er 28% og meira en 60 prósent hjá ungu fólki. Einna verst bitnar ástandið þó á konum og ofbeldi gegn þeim hefur aukist.
 
Sænsku stjórnmálamennirnir sem vitnað er til hafa ekki trú á því að sparnaðarleiðir ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS muni koma fótunum undir Grikki á nýjan leik.  
 
Orsakir vandans, segja sænsku þingmennirnir sem tilheyra Vinstri flokknum, er meðal annars hinn sameiginlegi gjaldmiðill; evran. Hún á bæði sök á vandanum og kemur í veg fyrir lausn hans. Löndin sem nota evruna eru allt of ólík hvað varðar gerð hagkerfisins, verðbólguþróun og samkeppnisstöðu til að þau geti notað sameiginlegan gjaldmiðil.  
 
 
 
 

Vigdís Hauksdóttir gagnrýnir rándýrar og óþarfar EES-tilskipanir

vigdis
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, gagnrýndi í Sprengisandsþætti Bylgjunnar í morgun rándýrar vatnatilskipanir sem Alþingi hefði samþykkt á grunni EES-samningsins. Vigdís sagði tilskipunina vera óþarfa í þeirri mynd sem hún væri hér á landi og væri auk þess mjög dýr í framkvæmd.
 
Vigdís var í morgunþætti Bylgjunnar með þáttastjórnandanum, Sigurjóni Egilssyni, og Jóni Steindóri Valdimarssyni, formanni samtakanna Já-Ísland, en þau samtök berjast fyrir aðild Íslands að ESB.
 
Reyndar kvartaði Jón Steindór í þættinum yfir því að þingmaðurinn Vigdís skyldi jafnhliða þingmennskunni vera formaður fyrir stórum pólitískum baráttusamtökum á borð við Heimssýn. Vissulega er Heimssýn stór og öflug baráttusamtök fyrir góðum málsstað, en til þessa hefur félagafrelsi og málfrelsi verið talið það mikið að þingmenn mættu taka virkan þátt í samtökum sem styðja þann málstað sem þeir trúa á. 
 
Vigdís nefndi í þættinum að endurskoða þyrfti ferli EES-tilskipana og að ríki þyrftu fyrr að koma að ferlinu til þess að hægt yrði að gera athugasemdir í tíma. Of algengt væri að þingmenn samþykktu umræðulítið tilskipanir á borð við vatnatilskipunina og síðan kæmi í ljós að þær hentuðu engan veginn aðstæðum hér á landi.  
 
Þá nefndi Vigdís að áform ESB um eftirlit með bönkum á EES-svæðinu stangaðist algjörlega á við stjórnarskrá Íslendinga. 
 
Jón Steindór þrástagaðist í þættinum á þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB, en ræddi minna um andstöðu sína við slíka þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ákveðið  var að senda inn um sókn að ESB árið 2009. Sem vitað er rann sú umsókn út í sandinn á síðasta kjörtímabili í höndunum á Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra. Nú vill Jón Steindór loksins láta kjósa um áframhald viðræðna þegar búið er að stöðva þær - og til að kóróna sérkennilegheitin vill hann láta kosningar fara fram samhliða sveitarstjórnakosningum til að tryggja sæmilega þátttöku í þeim. 
 
Annars var athyglisvert að Jón Steindór viðurkenndi ýmsa vankanta á Evrópusambandinu og hann sagði að gagnrýni Breta á ESB væri án vafa réttmæt, auk þess sem fjármálakrísa stæði yfir í sambandinu. Hann minntist hins vegar ekki á þá samfélagskrísu sem stórir hlutar þjóða verða að búa við vegna evrusamstarfsins og að um helmingur ungs fólks á Spáni og víðar þurfi að vera án atvinnu. Þetta þjóðfélagsástand veldur því að æ fleiri efast nú um evrusamstarfið.

Tækifæri ESB-umsóknar var á síðasta kjörtímabili og það er nú liðið

Tækifærið fyrir ESB-aðildarsinna til að koma Íslandi í Evrópusambandið var á síðasta kjörtímabili. Í upphafi þess var samþykkt að sækja um aðild með fyrirheitum um að viðræður tækju ekki nema eitt til tvö ár. Niðurstaðan var sú að fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hrökk frá hálfkláruðu verki áður en kjörtímabilið var á enda.

Síðasta ríkisstjórn hefði átt að hafa alla burði til að klára málið. Hún fór af stað án þess að spyrja þjóðina og án þess að annar stjórnarflokkurinn væri fylgjandi aðild að ESB. Þetta kunni náttúrulega ekki góðri lukku að stýra. 

Nú hamast aðildarsinnar, þeir sem ekki máttu heyra minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir fjórum árum, sem óðir fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna.  

Það voru haldnar hér kosningar fyrir tæpu ári. Þá unnu þeir flokkar sem vildu stöðva viðræður við ESB og sá flokkur sem helst hafði barist fyrir aðild beið algjört afhroð.

Kannanir sýna að um 60% þjóðarinnar er á móti aðild, þingið er á móti aðild og ríkisstjórnin er á móti aðild. Ríkisstjórnin hefur stöðvað viðræðurnar.

Hvers vegna í ósköpunum dettur aðildarsinnum í hug nú að krefjast þess að haldin verði sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla til þess að fá þjóðina til að greiða atkvæði um það hvort halda eigi viðræðum áfram. 

Jú - ástæðan er sú að þetta er eina hálmstráið sem aðildarsinnar eiga til þess að halda lífi í umræðunni.

Þeir líta hins vegar algjörlega fram hjá því að það ákvæði sem er í stjórnarsáttmála, kosningastefnuskrám og lýðræðislegum samþykktum stjórnarflokka um þjóðaratkvæði er varnagli til þess gerður að það verði aldrei farið í viðræður á nýjan leik án þess að þjóðin verði spurð fyrst.

En fyrst enginn er fylgjandi aðild - þá ætti ekki að vera nein þörf á því að ræða þetta.  


Sigrún Magnúsdóttir útskýrir ESB-málin fyrir þingmanni Samfylkingar

Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, útskýrði í morgun stöðu ESB-mála fyrir Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingar, í morgunþætti Ríkissjónvarpsins. Þjóðin er á móti ESB-aðild, þingið er á móti ESB-aðild og ríkisstjórnin er á móti ESB-aðild. Ákvæði um þjóðaratkvæði er varnagli ef einhverjum skyldi detta í hug að halda viðræðum áfram. En þar sem enginn áhugi er á aðild þá er engin ástæða til að vera að halda viðræðum áfram, hvað þá að láta fara að kjósa um það. 

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, reynir samt hvað hann getur að halda lífi í þeirri hjákátlegu hugmynd að láta þjóðina fara að kjósa um það nú hvort halda eigi viðræðum áfram.

Sigrún benti á að það séu brýnni verkefni sem takast þurfi á við þessa stundina. Þjóðin þarf á því að halda að tekist sé á við þau verkefni sem við blasa en tíma og fjármunum sé ekki eytt í gagnslausar umræður og viðræður sem ekkert kemur út úr. 


mbl.is Ekki þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúar ESB-landa taka kosningar til ESB-þings ekki alvarlega

Fáeinir stórlaxar í Svíþjóð rituðu nýverið grein með áskorun til sænsku þjóðarinnar um að taka þátt í kosningum til ESB-þingsins af alvöru. Stórlöxunum finnst þátttaka Svía í kosningunum það lítil að þingmenn þeirra hafi í raun ekki skýrt umboð frá sænsku þjóðinni.
 
Þetta kemur fram í sænska vefritinu Europaportalen.se.
 
Forkólfar áskorunarinnar óttast einnig annars vegar uppgang nýnasista og álíka hópa í Evrópu og hins vegar að sænskur útflutningur fái ekki nógu gott brautargengi.
 
Þetta fólk viðurkennir að efnahagsvandinn í Evrópu hefur verið gífurlegur. Það er virðingarvert. En það er ákaflega athyglisvert að þetta fólk, sem er í forystu nokkurra samtaka í þessu ágæta lýðræðislandi, skuli viðurkenna að lýðræðinu sé verulega ábótavant í ESB.


Þingmenn ESB þrýsta á vitlausa hnappa og styðja óvart áframhaldandi djúpsjávarveiðar

Í síðasta mánuði þrýstu 18 þingmenn ESB óvart á nei-hnapp í staðinn fyrir já-hnapp í kosningum um bann við djúpsjávarveiðum í Norð-Austur Atlandshafi. Fyrir vikið voru 342 þingmenn á móti banni en 326 með banninu.
 
Þetta kemur fram í Europaportalen.se.
 
Atkvæðagreiðslur af þessu tagi hljóta að vekja upp spurningar um vinnubrögðin á þingi Evrópusamandsins. Það virðist reyndar vera regla fremur en hitt að þingmenn átti sig eftir á að þeir hafi kosið "vitlaust".  
 
Eins og sjá eru skoðanir mjög skiptar til djúpsjávarveiða í Atlantshafinu. Sú spurning hlýtur að vakna hvort róttækir umhverfishópar myndu fara að stýra veiðiaðferðum á Íslandsmiðum í gegnum áhrif sín á ESB-þinginu ef Íslendingar gengju í ESB. 
 
 

Bloggfærslur 19. janúar 2014

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 39
  • Sl. sólarhring: 199
  • Sl. viku: 1550
  • Frá upphafi: 1235021

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1309
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband