Leita í fréttum mbl.is

Óboðleg sölumennska Evrópuhreyfingarinnar

Formaður Evrópusamtakanna lýsti því að hundruð Íslendinga gætu fengið störf í Brussel komi til aðildar Íslands að ESB, í þættinum Reykjavík síðdegis nú í vikunni. Þetta átti að sýna að þrátt fyrir lítið vægi okkar á Evrópuþinginu og í ráðherraráðinu væri engu að síður tryggt með þessum fjölda íslenskra starfsmanna að hagsmuna okkar yrði gætt.

En hvað merkir þetta í raun? Til hvers er aðild að samtökum þar sem það nægir ekki að eiga sæti á þingi og fulltrúa í framkvæmdastjórn heldur þarf að nota sem hluta af söluræðunni að þarna verði hundruð Íslendinga innan embættismannakerfisins til að gæta hagsmuna okkar? Er það ekki viðurkenning á því að kerfið er þannig úr garði gert að smáríki hafi í raun lítil áhrif innan valdastofnananna?

Elítan sem græðir á aðild

Eitt er það að hópur fólks horfi til þessa nú þegar. Þegar ríkin í Mið- og Austur-Evrópu gengu í ESB árið 2004 var það ekki almenningur sem stýrði ferlinu. Það var stjórnsýslan og ákveðin elíta sem hafði sérhæft sig í ESB-málefnum. Fjöldi embættismanna vann í aðlögunarverkefnum (Twinning), sótti námsdvöl til Brussel og komst inn í tengslanet sambandsins.

Á sama tíma stækkaði sá hópur fólks sem hafði menntað sig í Evrópurétti eða hagfræði, skrifað greinar og tekið virkan þátt í opinberri umræðu um aðild. Þetta fólk sá bæði tækifæri til starfsframa og pólitískt hlutverk sitt bundið við aðildina og varð þannig ákafasti talsmaður hennar.

Fræðimaðurinn Heather Grabbe, sem starfað hefur bæði innan framkvæmdastjórnar ESB og við virtar evrópskar rannsóknarstofnanir, hefur bent á að stækkunarferlið búi til "nýja elítu" sem með tímanum verður sjálf að málsvörum aðildarinnar. Hún kallar þetta "elite socialisation": ferlið sjálft mótar hóp sem hefur persónulega hagsmuni af því að ESB-verkefnið nái fram að ganga. Grabbe hefur jafnframt varað við því að þessi þróun ýti undir lýðræðishalla: umræðan færist frá almenningi til fámenns hóps sem hefur starfsferil, tekjur og framtíð sína bundna við aðildina.

Hlunnindi sem enginn talar um

Aðildarferli skapar tækifæri sem sjaldan eru rædd: tengslamyndun, ráðstefnur, fundarsetur í Brussel og aðgang að innsta hring. Það er meira en bara pólitískt verkefni, það er líka starfs- og lífsstíll. Það þarf ekki að sitja með sykurlaust Pepsi í fordyrinu þegar maður hefur aðgang að veisluhöldunum innandyra.

Íslenskir starfsmenn ESB vinna ekki fyrir Ísland

Formaður Evrópuhreyfingarinnar setur þetta fram sem sölupunkt: "hundruð Íslendinga í Brussel" muni gæta hagsmuna okkar. En staðreyndin er einföld: starfsmenn ESB, íslenskir sem aðrir, vinna ekki fyrir Ísland, heldur fyrir sambandið í heild.

Það er óboðlegt að formaður Evrópuhreyfingarinnar, með menntun í ESB-fræðum, láti að því liggja að Íslendingar sem ráðnir verða til starfa hjá sambandinu muni gera það að sínu fyrsta verki að fara í berhögg við eigin starfsreglur. Starfsmenn ESB sverja eið um að vinna í þágu sambandsins í heild og mega ekki gæta sérstakra hagsmuna síns heimalands. Að selja aðild með því að láta að því liggja að þetta fólk muni brjóta þær skyldur er ekki bara óraunsætt - það er óboðlegt.


Bloggfærslur 5. september 2025

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.9.): 165
  • Sl. sólarhring: 422
  • Sl. viku: 2234
  • Frá upphafi: 1255241

Annað

  • Innlit í dag: 157
  • Innlit sl. viku: 1987
  • Gestir í dag: 155
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband