Leita í fréttum mbl.is

Sérfræðingar eru efins um evruna

euroEftir að skýrsla Seðlabanka Íslands um gjaldmiðlamálin kom út í haust er eitt víst. Sérfræðingar hafa lengi verið og eru enn efins um að rétt sé fyrir Ísland að taka upp evru sem gjaldmiðil. Skýrslan er í raun rothögg fyrir evrusinnana í Samfylkingunni og víðar.

Þessarar skýrslu hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Vitanlega væntu ESB-aðildarsinnar í Samfylkingunni og víðar þess að skýrslan myndi leiða til skýrrar niðurstöðu sem væri þeim þóknanleg. En því var ekki til að dreifa. Í raun hefur sú afstaða sem lesa má út úr niðurstöðum af athugunum seðlabankafólksins og forystu þess verið nokkurn veginn hin sama frá því þessi umræða hófst. Það hafa alltaf verið efasemdir um upptöku gjaldmiðils á borð við evruna.

Árið 1997 var ekki áhugi fyrir evru

Árið 1997 gaf Seðlabankinn út skýrsluna Efnahags- og myntbandalag Evrópu – EMU – Aðdragandi og áhrif stofnunar EMU. Þótt þetta væri tveimur árum áður en efnahags- og myntbandalagið tók formlega til starfa hafði heilmikil rannsóknarvinna og umræða verið í gangi. Margir hagfræðingar vöruðu við ófullburða fæðingu gjaldmiðilsbandalagsins. Stjórnmálaelítan í Evrópu lét varnaðarorðin sér í léttu rúmi liggja, en það sýnir m.a. að ESB og EMU (myntbandalagið) eru fremur pólitísk bandalög en að þau séu byggð á efnahagslega skynsömum grunni. Í formála bankastjórnar árið 1997 kemur fram að meginniðurstaða skýrslunnar sé að efnahagsleg áhrif bandalagsins á íslenskt efnahagslíf séu óljós.  

Vissulega var ýmislegt óljóst með myntbandalagið í upphafi og því ekki að undra þótt Seðlabankinn treysti sér ekki þá til að fjalla beinlínis um rök með og móti ESB.  Þær ályktanir eru þó dregnar að best sé fyrir Ísland að halda að minnsta kosti um sinn óbreyttri gengisstefnu.

Árið 2000 var ekki heldur áhugi fyrir evru

Um þremur árum síðar, árið 2000, gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út ritið Macroeconomic Policy – Iceland in an Era of Global Integration (þjóðhagsstefna – Ísland á tímum alþjóðlegrar samþættingar). Í kafla um val á hagkvæmustu gengisstefnu fyrir Ísland komast  höfundar að þeirri niðurstöðu að formgerðareinkenni hagkerfisins styðji öll þá ályktun að heppilegast sé fyrir Ísland að vera með sveigjanlegt gengi. Jafnframt virðist þeim sem Ísland uppfylli engin, eða nánast engin af þeim skilyrðum sem kenningin um hagkvæm myntsvæði gerir til þess að Ísland tengist evrunni.

Eftir þetta fór evrusvæðið í gang og fyrstu árin virtust lofa góðu. Þegar á leið fóru hins vegar erfiðleikar að koma í ljós.  Nú er svo komið að Efnahags- og myntbandalagið hefur í nokkur ár átt í gífurlegum erfiðleikum sem ekki sér fyrir endann á. Þeim stjórnmálamönnum utan evrusvæðisins fjölgar stöðugt sem vilja halda sig sem lengst frá myntbandalaginu – nema innan Samfylkingarinnar á Íslandi. Það er óþarfi að telja hér upp ýmsa hagfræðinga austan hafs og vestan sem varað hafa við þessari evrukreppu.

Árið 2012: Evran er ekki kostur um fyrirsjáanlega framtíð

Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans er komist að þeirri skýru niðurstöðu að það sé fyrsti kostur að halda krónunni og bæta umgjörð hennar. Evran komi ekki til álita sem stendur, bæði vegna erfiðleika evrusvæðisins en einnig vegna annarra þátta, þótt bankinn komist skiljanlega að þeirri niðurstöðu að rétt sé að loka engum leiðum fyrst aðildarumsóknin er í gangi.  Hins vegar er á það bent að Íslendingar ættu í raun fremur að huga að almennt bættri hagstjórn fremur en að líta á einn eða annan gjaldmiðil sem einhverja töfralausn á ýmsum vanda.

Þetta hljóta að vera gífurleg vonbrigði fyrir þann hóp innan Samfylkingarinnar sem gert hefur það að leiðarljósi lífs síns að Ísland gangi í ESB og að besta leiðin til að ná því marki væri að telja fólki trú um að með evru fengjust betri lífskjör hér á landi. Þeir sérfræðingar sem gerst þekkja hafa aldrei trúað almennilega á þessa spádóma eða óskir ESB-sinnanna. Hið gífurlega atvinnuleysi sem stór hluti Evrópubúa hefur búið við sýnir svo ekki verður um villst, að enda þótt evran komi sumum vel hefur hún leitt til ófarnaðar fyrir stóran hluta álfunnar.

(Þessi texti birtist fyrst á Vinstrivaktinni)


mbl.is Vilja ekki gengisstefnu fyrir evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ég veit ekki hvaða skýrslu þið voruð að lesa en það kom skýrt fram í skýrslu Seðlabanka 2012 að Evran væri mjög góður kostur.

Sleggjan og Hvellurinn, 7.2.2013 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 306
  • Sl. sólarhring: 370
  • Sl. viku: 2069
  • Frá upphafi: 1186676

Annað

  • Innlit í dag: 272
  • Innlit sl. viku: 1817
  • Gestir í dag: 250
  • IP-tölur í dag: 244

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband