Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarskrárfrumvarpsflytjendur vilja troða okkur í ESB

odinn sigthorssonÓðinn Sigþórsson bóndi og fullveldissinni skrifar athyglisverða grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar Óðinn um fullveldi þjóðarinnar og segir hann að með frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sé verið að opna leið til að framselja fullveldið yfir sjávarauðlindinni.

Óðinn segir:

Í umræðum um nýja stjórnarskrá er því haldið mjög á lofti að verið sé að færa eignarhald á fiskimiðunum aftur til þjóðarinnar með svokölluðu auðlindaákvæði. Ekkert er fjær lagi. Hér er byggt á yfirborðslegri umræðu um að útgerðarmenn hafi öðlast einhverskonar eignarrétt á óveiddum fiski í sjónum á grundvelli veiðitakmarkana sem settar hafa verið til verndar fiskistofnum. Útgerðarmenn hafa ekki borið þennan ímyndaða eignarrétt á óveiddum fiski fyrir sig í andstöðu sinni við þær breytingar sem nú er verið að gera á lögum um auðlindagjald og stjórn fiskveiða. Þvert á móti hafa talsmenn útgerðarinnar lýst því yfir að Alþingi og stjórnvöld geti, á grundvelli fullveldisréttar Íslands, sett um nýtinguna þau lög og reglur sem Alþingi ákveður. Framkvæmd fullveldisréttarins fer fram samkvæmt íslenskum lögum, sbr. lögin um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn frá 1979.

Síðan segir Óðinn:

Inntak hins nýja auðlindaákvæðis bætir því engu við sameiginlegan rétt þjóðarinnar til sjávarauðlindarinnar. Fullveldisréttur þjóðarinnar til yfirráða yfir auðlindinni er óskoraður. Í gildandi stjórnarskrá eru ekki skýr ákvæði um bann við að framselja fullveldi Íslands og ríkisvald. Þó eru þar engin ákvæði eða heimildir til fullveldisframsals að finna. Almennt er það túlkað með þeim hætti að stjórnarskráin heimili ekki slíkt. Í fyrirliggjandi frumvarpi til stjórnlaga er rúm heimild til að framselja ríkisvald til erlendra stofnana. Undirritaður hefur, á fundi í atvinnuveganefnd þingsins, bent á nauðsyn þess að í auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrá verði lagt bann við að framselja fullveldisrrétt þjóðarinnar eða ríkisvald yfir auðlindum Íslands. Meirihluti þingsins hirðir ekki um slíkt. Uppskeran er svo vafalítið klapp á bakið í Brussel. Í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er vísað til umsagnar meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um fullveldisframsal. Enga efnislega umfjöllun um auðlindamál er þar að finna í þessu samhengi.

Og að lokum segir hann:

Frumvarp til nýrra stjórnlaga virðist því taka mið af takmarkalausri þrá meirihlutans til að sníða nýja stjórnarskrá að þörfum þeirra sem vilja troða okkur í ESB. Óspart er vísað til samráðs og samtals við þjóðina um nýja stjórnarskrá. Þjóðin hefur þó ekki mátt greiða atkvæði um stærstu breytinguna, fullveldisframsalið. Niðurstaða þjóðaratkvæðis nú í haust gefur sterklega til kynna að þjóðin vilji standa vörð um fullkomin yfirráð Íslands yfir auðlindum landsins. Með frumvarpi að nýrri stjórnarskrá er verið að opna með ógegnsæjum hætti á leið til að framselja fullveldið yfir sjávarauðlindinni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ætli það sé margumræddur vilji fólksins í landinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar Íslendingar gengu í EES skiptust lögfræðingar í tvo hópa varðandi það, hvort það bryti í bága við stjórnarskrána og þyrfti að fara í þjóðaratkvæði. Ástæðan var gat í stjórnarskránni sem skapaði svipað ástand við inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar 1946, NATO 1949, EFTA 1970 og aðild að ótal alþjóðasáttmálum.

Ef nýja stjórnarskráin hefði verið í gildi hefði ekkert þurft um það deila þegar við gengum í EES, að það hefði þurft að fara í þjóðaratkvæði.

Skortur á ákvæðum af ýmsu tagi gerði kleift allan þennan tíma að afsala ríkisvaldi til alþjóðastofnana án þess nokkurn tíma að spyrja þjóðina og það var skortur á ákvæðum sem gerði tveimur mönnum kleift dag einn 2003 að ákveða að Ísland yrði sett á lista yfir viljugar þjóðir um það að ráðast með hervaldi inn í fjarlægt ríki.

Þessi vöntun á ákvæðum eru ástæða þess að á Alþingi er einhugur um að taka upp ákvæðið um þetta í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Óðinn Sigþórsson vill greinilega að áfram sé sama eyða í stjórnarskrá og nú er sem myndi meira að segja gera ríkisstjórn kleift að semja um inngöngu í ESB án þess að bera það undir þjóðina.

Ómar Ragnarsson, 9.3.2013 kl. 18:25

2 identicon

Ég held að þau sjónarmið að aðild að ESB sé heimil að óbreyttri stjórnarskrá eigi sér fáa fylgismenn. Allavega ekki í þeim hópi sem hafa tjáð sig um þau mál og kunna skil á stjórnlögum. Enda fagnaði framkvæmdastjórn ESB opinberlega að endurskoðun stjórnarskrár Íslands væri hafin. Það hefur væntanlega verið vegna upplýsinga stjórnvalda á nauðsyn þess vegna aðildaumsóknarinnar. Það er með öllu óskiljanlegt að í frumvarpi stjórnlagaráðsins skyldi það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að hafa þetta framsal svo víðtækt að það taki til auðlinda lands og sjávar. Þar virðast stjórnarráðsliðar hafa sofnað á verðinum ef einhver meining er með öllu talinu um ævarandi yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum. Mögulega hefur umræðan um þjóðareign á auðindum villt um fyrir þeim sem þar sátu enda stjórnlagaþekking ráðsins frekar bágborin sé litið til skipan þess. Athugasemd Ómars gefur þó til kynna að hann sé fylgjandi svo víðtækri framsalsheimild. Við því er varað í minni grein. Almennt eru lögspekingar á því í dag að stjórnvöld hafi gengið lengra í innleiðingum tilskipana á grundvelli EES samningsins en stjórnarskrá leyfir. Við því þarf að bregðast en fráleitt að fiskurinn í sjónum sé látinn fylgja með.

ÓS

Óðinn Sigþórsson (IP-tala skráð) 9.3.2013 kl. 22:25

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt hjá þér, Óðinn, að engin stjórnmálasamtök á Íslandi vilja annað en að þjóðin ákveði endanlega hvað gert verður í ESB-málinu. En af hverju má ekki vera kveðið skýrt á um þetta í stjórnarskrá? Af hverju á að halda þvi opnu að það geti gerst eins og varðandi Íraksstríðið og margt fleira að ráðríkir stjórnmálamenn geti komist upp með að nýta sér eyður í núverandi stjórnarskrá. Af hverju má ekki setja við því skorður í stjórnarskrá að hægt sé að samþykkja afsal ríkisvalds á borð við EES-samninginn án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Bágborin þekking stjórnlagaráðs"? Ráðið hafði í höndum 800 blaðsíðna leiðbeiningar lögspekinga um útfærslur á einstökum greinum. Fyrrverandi og núverandi hæstaréttardómarar, auk prófessora í stjórnskipunarrétti og stjórnmálafræði orðuðu aðalatriði auðlindaákvæðisins. Í ráðinu sátu auk þess þrír lögfræðingar og prófessorar í stjórnmálafræðum og hagfræði. Nú er búið að margtékka frumvarpið af erlendum og innlendum sérfræðingum. "Bágborin þekking"?

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 09:21

4 identicon

Ég sé nú ekki hvaða erindi umræða um stríðsátök í fjarlægum heimshlutum á við um auðlindir Íslands. Hvergi er vikið að slíku í því sem ég hef skrifað. Mitt sjónarmið er skýrt. Í stjórnarskrá verði lagt blátt bann við framsali fullveldis og ríkisvalds yfir auðlindum landsins til erlendra aðila. Við eigum að afhenda komandi kynslóðum áfram fullkomin yfirráð yfir auðlindum lands og sjávarins. Það er ekki tryggt í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi. Framsalið og takmörkun þess er stærsta málið þegar stjórnarskráin er endurskoðuð. EES samningurinn leggur ekki slíkar kvaðir á fullveldið. Það mun aðild að ESB hins vegar gera sbr dóm Evrópudómsstólsins um forgang löggjafar ESB gagnvart löggjöf aðildarríkja þess. Í þessu sambandi er merkilega álitsgerð að finna á vef innanríkisráðuneytisins, eftir Þau Eyvind G Gunnarsson dósent og Valgerði Sólnes lögfræðing, sem fjallar um heimildir til að takmarka réttindi íbúa á EES svæðinu til kaupa á fasteignum (landi) á Íslandi. Þar kemur fram að við höfum oftúlkað fjórfrelsið hvað þetta varðar.

Ef Ómar er svo að vísa til Þorvaldar Gylfasonar talsmanns stjórnlagaráðsins með þekkinguna þá er það frá mínum bæjardyrum sama og þegið.

Óðinn Sigþórsson (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 298
  • Sl. viku: 1855
  • Frá upphafi: 1187082

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 1636
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband