Leita í fréttum mbl.is

Hvað sagði Krugman?

Paul Krugman er með þekktari hagfræðingum og áhrifamikill í opinberri umræðu. Hann hlaut árið 2008 Nóbelsverðlaun fyrir greiningu sína á alþjóðaviðskiptum og landfræðilegri staðsetningu efnahagsstarfsemi.  Krugman hefur fjallað nokkuð um Ísland, en hann skrifaði skýrslu um valkosti Íslendinga í gjaldmiðlamálum fyrir meira en tveimur áratugum.

Í fyrra kom út bókin Bindum endi á kreppuna nú! (End This Depression Now!) þar sem Krugman fjallar um ástæður og aðdraganda þeirra efnahagserfiðleika sem við blasa á Vesturlöndum, en hann fjallar einnig um þær leiðir sem hann telur vera til lausnar á vandanum.  Þótt ýmislegt af því hljómi ekki ókunnuglega fyrir þá sem hafa fylgst vel með á þessu sviði er margt nýstárlegt að finna í bók Krugmans og framsetning hans er það skýr og greinargóð að mikill fengur er að. Það sem vakti þó sérstaka athygli áhugafólks um Evrópu er umfjöllun hans um evrusvæðið og þá einkum og sér í lagi fáeinar blaðsíður þar sem hann fjallar um það sem hann kallar hina miklu sjálfsblekkingu leiðtoga Evrópu.


Hin mikla sjálfsblekking leiðtoga Evrópu

Hin mikla sjálfsblekking Evrópu felst í því að trúa því að kreppan í Evrópu stafi af ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum. Krugman viðurkennir þó að þetta standist að mestu leyti hvað Grikkland varðar og að einhverju leyti varðandi Portúgal, en fyrir evrulöndin í vanda gildi þetta almennt ekki. Þannig hafi ríkissjóðir bæði á Spáni og Írlandi verið reknir með afgangi fyrir kreppuna og skuldavandi verið tiltölulega lítill. Ennfremur hafi staða ríkisfjármála stöðugt farið batnandi á Ítalíu fyrir kreppuna þótt Ítalir hafi enn glímt við arfleifð óstjórnar í ríkisfjármálum frá 1970-1990. Sé staða fimm mestu vandræðabarna evrusvæðisins skoðuð, þ.e. Grikklands, Ítalíu, Portúgals, Spánar og Írlands, kemur í ljós að skuldir þeirra sem hlutfall af verðmæti landsframleiðslu (VLF) fóru almennt lækkandi úr um 90% af VLF árið 1999 í um 75% við upphaf kreppunnar árið 2007. Hin opinbera sjúkdómsgreining leiðtoga evrusvæðisins er því röng – og lyfjagjöfin – fyrst og fremst strangur kúr í ríkisfjármálaum – er því líka röng.

Það má vissulega velta því fyrir sér hvað valdi þessari sjálfsblekkingu, en ein skýringin er náttúrulega sú að leiðtogar Evrópu vilja fyrir alla muni beina sjónum frá evrunni sem skýringarþætti á vandamálum álfunnar.  Krugman fjallar reyndar um þá hlið mála, en þar má reyndar finna grundvallarástæður fyrir vanda evrusvæðisins. Krugman lýsir því þannig að frumvanda evrusvæðisins sé að finna í því að eftir upptöku evrunnar hafi lánveitendur metið lánshæfi ríkja á jaðarsvæðunum skakkt og lækkað vexti á lánum til þeirra. Þannig hafi þau í raun fengið traust að láni frá Þýskalandi sem er öflugasta evruríkið efnahagslega séð. Við þessa breytingu jókst innflæði fjármagns til landanna, sums staðar kom þetta einkum fram í þenslu í byggingargeiranum eins og á Spáni, en einnig í almennt aukinni eftirspurn sem leiddi svo til aukinnar verðbólgu – sem fól jafnframt í sér almennar launahækkanir sem voru meiri en á því sem má kalla kjarnasvæði evrunnar (þ.e. Þýskaland og örfá önnur lönd).

Þróunin var dálítið mismunandi í hverju landi, en það sem skipti máli var að þetta leiddi almennt til þess að framleiðslukostnaður jókst á jaðarsvæðunum, þau áttu erfiðara með að selja afurðir sínar en áður og fyrir vikið skapaðist mikill viðskiptahalli gagnvart nokkrum kjarnalöndum, einkum Þýskalandi, sem sýndu afgang í viðskiptum, enda gátu þau framleitt vörur sínar á lægra verði.

Þannig varð atvinna meiri fyrir vikið í Þýskalandi og Þjóðverjar söfnuðu auði á meðan atvinna dróst  almennt saman í jaðarríkjunum og þau söfnuðu skuldum. Við þetta minnkuðu skatttekjur í jaðarríkjunum um leið og útgjöld vegna atvinnuleysis jukust, en þetta setti ríkissjóði landanna í verulegan vanda.  Ef ríkin hefðu verið með eigin gjaldmiðla hefði lausnin falist í því að gengi miðlanna hefði aðlagast sjálfkrafa til þess að jafna samkeppnisstöðu þeirra.

Á þennan hátt var hin sameiginlega evra í senn orsök kreppunnar en jafnframt hindrun á eðlilegri lausn hennar. Krugman er hins vegar þeirrar skoðunar að úr því sem komið er sé líklega heppilegra fyrir evruríkin að reyna að bjarga myntbandalaginu fremur en að leggja evruna af, því ríki sem yfirgæfu evruna gætu lent í miklum hremmingum. Reyndar er Krugman þeirrar skoðunar að ýmislegt hafi áunnist með Evrópusamvinnunni frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, en hann er þó greinilega þeirrar skoðunar að upptaka evrunnar með þeim hætti sem gert var hafi verið mjög mikil mistök. Það séu nú hins vegar ekki aðeins lífskjör í Evrópu sem séu í hættu vegna evrunnar, heldur sé vandinn farinn að hafa áhrif á heim allan – og því mikilvægt fyrir alla að Evrópa komist út úr kreppunni.

Lausnin felst í aukinni verðbólgu í Þýskalandi og aukinni eftirspurn þar 

Krugman telur hins vegar að tilraunir til lausnar á evruvandanum hafi verið fálmkenndar.  Að hans mati þurfi þrennt að koma til ef hægt eigi að vera að bjarga evrunni og koma efnahag ríkjanna á rétt ról. Í fyrsta lagi þurfi Seðlabanki Evrópu að vera viljugri til að kaupa beint skuldabréf evruríkjanna, en slíkt myndi koma í veg fyrir taugaveiklaðar árásir markaðsaðila á skuldabréf sumra ríkjanna sem hafa hleypt vöxtum á þeim í hæstu hæðir. Ef seðlabankinn yrði þannig bakhjarl sumra ríkissjóðanna myndi það koma í veg fyrir hræðslu um gjaldþrot þeirra.

Í öðru lagi, segir Krugman, þyrfti að stuðla að þenslu í Þýskalandi og þeim ríkjum sem hafa afgang á viðskiptum við önnur lönd. Þjóðverjar og kjarnalöndin þurfa að eyða meira og kaupa frá jaðarlöndunum. Samhliða þyrfti að hleypa verðbólgu á evrusvæðinu dálítið upp, einkum í Þýskalandi og kjarnaríkjunum, til að draga úr því forskoti sem Þjóðverjar hafa í samkeppni við önnur lönd í því skyni að koma meira jafnvægi á í utanríkisviðskiptum. Þannig mætti bæta samkeppnisstöðu jaðarríkjanna.

Í þriðja lagi, segir Krugman, þótt staða ríkisfjármála sé ekki grundvallarvandinn, þá er staða ríkissjóða í sumum ríkjanna það slæm að þau þurfa að sýna aðhald um mörg ókomin ár.

Krugman tekur fram að viss stefnubreyting hafi átt sér stað í Seðlabanka Evrópu þegar Mario Draghi tók við sem aðalseðlabankastjóri af Jean-Claude Trichet, því Draghi hafi verið tilbúinn að hleypa ríkisskuldabréfunum bakleiðina inn í seðlabankann með því að almennir bankar gátu notað þau sem tryggingu fyrir lánum.  Krugman er ekki fyllilega sáttur við það hvernig tekið hefur verið á ríkisfjármálunum og hann segir ekkert hafa verið gert til þess að jafna samkeppnishæfni evrulandanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Í fyrra skrifaði ég nokkra pistla um ójafnvægið sem skapast milli þátttökuríkja í evru-samstarfi um sameiginlega mynt, en það stafar ekki síst af mismunandi samkeppnisstöðu þátttökuríkjanna bæði fyrir og eftir inngöngu í samstarfið og upptöku evru. EFtirfarandi er úr pistli sem ég kallaði "Keppinautar frystir" (10.5.2012), í athugasemdum við frétt um hugmyndir annars Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði Nouriel Roubini, Doktor Dómsdag eins og dárungarnir kalla hann, en þar bendir hann á vandamál evru-myntkerfisins í Evrópu sem hann telur að muni fyrr en síðar splundrast niður í upphaflegar frumeindir sínar, eigin gjaldmiðla landanna. Það muni fyrst gerast hjá þeim löndum sem þá áttu erfiðast með að aðlagast nýjum veruleika á lánsfjármörkuðum þar sem þau stóðu á tánum í skuldasúpu sinni  upp í háls. - - -

Þessi erfiða og sársaukafulla staða verst settu landanna á evrusvæðinu er ekki síst sökum þess að þau hafa ekki eigin gjaldmiðil til að nýta til að bregðast versnandi samkeppnisstöðu.
Hvað það var, sem helst orsakaði verri samkeppnisstöðu sumra evrulanda í samanburði við önnur evrulönd eftir upptöku þeirra á hinni sameiginlegu mynt, þá blasir sú nakta staðreynd við núna að þau geta ekki gripið til gengisfellingar til að laga samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum löndum þar sem þau hafa ekki eigin mynt; Eðli málsins samkvæmt.

Það blasir auðvitað við að með þátttöku í sameiginlegu myntbandalagi og með því að taka upp sameiginlega mynt eins og evru er búið að frysta þetta fljótvirka samkeppnistæki, taka það úr umferð hjá meðlimalöndunum.
Það kemur sér vel fyrir þau lönd sem standa sterkast í bandalaginu og hafa öflugustu og hagkvæmustu framleiðslukerfin (a.m.k. til skamms tíma litið). Það er óskastaða fyrir þau að geta í krafti sameiginlegrar myntar fryst samkeppnisstöðu keppinautanna hvað það varðar.
Það er hliðstætt því og að losna á einu bretti við hættu af hugsanlegum skæruhernaði í stríði. Og, þetta er stríð, efnahagslegt stríð um markaði og áhrif og önnur tengd atrið milli landanna.

Það sem haft er eftir Krugman um greiningu hans á ástandinu á evrusvæðinu og helstu ráð til að bregðast við vandanum er spegilmynd af því sem að ofan greinir. Ráð Krugman ganga út á að draga úr samkeppnishæfni Þýskalands hlutfallslega gagnvart veikburða löndunum á jaðrinum þannig að eftirspurn eftir vörum þeirra og þjónustu glæðist á kostnað Þýskalands. Með þeim hætti væri verið að kalla fram hliðstæð áhrif í samkeppnisstöðu landanna innbyrðis og gengisfellingar í löndunum hefðu gert hefðu þau eigin mynt eins og var áður. Þarna er verið að fara yfir lækinn til að sækja vatn. Spurning er hvort þýskur almenningur og atvinnulíf séu tilbúin að fara svona leið sem skerðir hag þeirra með þessum hætti. Þýskir þegnar geta með nokkrum rétti bent á það að veikburða löndin hafi ekki verið nógu dugleg við að efla framleiðslukerfi sín og styrkja samkeppnishæfni sína og geti því sjálfum sér um kennt, en á móti má segja að hið sterka efnahagskerfi Þýskalands hafði mikla forgjöf og yfirburði fyrir. Á þeim bæ hafa menn sjálfsagt hugsað sér gott til glóðarinnar við að herja á markaði í nýju evrulöndunum á sínum tíma þar sem búið var að fjarlægja þeirra hraðvirkasta samkeppnisvopn, gengisfellingarvopnið. Og, löndin þar að auki háð sameiginlegum tollalögum gagnvart innflutningi frá öðrum löndum utan tollabandalagsins.

Kristinn Snævar Jónsson, 9.4.2013 kl. 12:14

2 identicon

Meiri launahækkun í jaðarlöndunum en Þýskalandi eru innanlandsmistök. Sömu vextir til jaðarlandanna og Þýskalands eru mistök bankanna. Hvorutveggja byggist á reynsluleysi. Af því verður dreginn lærdómur svo að slíkt endurtaki sig ekki.

Það er rétt hjá Krügman að vandinn er ekki alltaf vegna skulda ríkja. Skuldir þjóðarbúa geta einnig valdið miklum vanda eins og gerðist hjá okkur. Ef einstaklingar og fyrirtæki lenda í miklum vanskilum hjá bönkum er fjandinn laus þó að ríkið skuldi ekki mjög mikið.

Þá kjósa ríki frekar að ábyrgjast lán til bankanna en að láta þá fara í þrot eins  og við urðum að gera vegna þess að enginn vildi veita íslenskum bönkum eða SÍ lán. Skuldir ríkisins segja heldur ekki alla söguna vegna þess að skuldaábyrgðir eru ekki taldar með.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.4.2013 kl. 15:03

3 Smámynd:   Heimssýn

Þakka þér fyrir greinargóða athugasemd, Kristinn.

Heimssýn, 9.4.2013 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.10.): 423
  • Sl. sólarhring: 475
  • Sl. viku: 2345
  • Frá upphafi: 1155654

Annað

  • Innlit í dag: 353
  • Innlit sl. viku: 1983
  • Gestir í dag: 342
  • IP-tölur í dag: 340

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband