Leita í fréttum mbl.is

Jón Baldvin gagnrýnir evrusamstarfið harkalega

Það hefur tekið dálítið langan tíma fyrir hinn skoskmenntaða skólamann, Jón Baldvin Hannibalsson, að átta sig á því að að evrusamstarfið er byggt á mjög ótraustum grunni. Nú er hins vegar svo komið að þessi helsti talsmaður ESB-aðildar og evruupptöku hér á landi uppfræðir Litháa um galla evrunnar.

Það er athyglisvert að Jón Baldvin segir galla evrusvæðisins fyrst og fremst vera þá að vald Seðlabanka Evrópu og möguleikar til að grípa til aðgerða séu ekki nógu umfangsmiklir. Jafnframt vill Jón Baldvin auka pólitíska miðstýringu í efnahagsmálum svæðisins.

Lausn Jóns Baldvins er evrópskt stórríki - sem þjóðir Evrópu hafa í raun hafnað.

Vonandi mun þó koníaksaðferðarsérfræðingurinn*, Monnet-prófessorinn og aðalforkólfur Evrópufræðadeildar Háskóla Íslands, Baldur Þórhallsson, sjá til þess að Jóni verði boðið að halda sams konar fyrirlestur í Háskóla Íslands og hann hélt í háskólanum í Vilnius.

*Koníaksaðferðin er kennd við franska koníakssölumanninn Jean Monnet sem var einn af helstu hugmyndasmiðum Evrópusamstarfsins á árunum eftir stríð og er talinn höfundur svokallaðrar Schumanáætlunar. Koníaksaðferðin sækir líkinguna í að kenna fólki  að meta gott koníak með því að gefa bara lítinn sopa í einu því fólki svelgist á stórum sopa, auk þess sem of mikið magn hefur strax slæmar aukaverkanir. Þannig vildi Monnet stuðla að sameiningu Evrópuríkja í örsmáum skrefum í einu, skrefum sem væru í raun svo lítil að þjóðirnar tækju varla eftir þeim. Eftir nokkur skref yrði þó sú staða komin upp að það yrði ekki aftur snúið og eina leiðin væri að halda áfram í átt að algjörri sameinginu Evrópu. Þannig má í raun líta á evruna sem ófullkomið skref í átt að sameiningu Evrópu í eitt stórríki.


mbl.is Stoðir evrusvæðisins ótraustar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er fokið í flest skjól hjá Heimssýn ef hún telur sig þurfa að vitna í einn harðasta talsmann Íslands fyrir ESB og evru, snúa út úr orðum hans og taka þau úr samhengi til að finna rök gegn evru.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 18:27

2 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Ásmundur, nú stendur Jón Baldvinn, einn harðasti og langlífasti ESB sinni fyrr og síðar upp og segir að Evran sé byggð á lélegum grunni og sé í þokkabót eins og óklárað hús, það er ekki hægt fyrir ESB sinna að verja þetta. Þarna er hann að benda á staðreyndir sem flestir ESB sinnar hafa lokað augunum fyrir undanfarin ár og sjá má skýrt þvers og kruss um nær öll jaðarríki ESB.

Annað hvort er hann búinn að gefast upp eða að hann er með veikum styrk að fá ESB sinna til að viðurkenna að allt sem ESB sinnar hafa sagt sé í raun bull, gefa öll vopn eftir, að þeir viðurkenni að Fullveldissinnar hafi haft rétt fyrir sér  og berist fyrir því að Ísland afsali sér öllum réttindum, auðlindum og fullveldi við inngöngu þar sem punktarnir 3 sem hann segir að þurfi að koma er það sem þarf til þess að ESB verði formlegt ríki rétt eins og Ísland, Kanda eða Rússland.

Brynjar Þór Guðmundsson, 13.4.2013 kl. 20:40

3 identicon

Ábendingar um það sem betur má fara eru ekki harkaleg gagnrýni enda er Jón Baldvin mjög hlynntur ESB-aðild Íslands og upptöku evru.

Það er hins vegar sláandi hve miklu verr Ísland er statt en ESB-löndin varðandi þessi þrjú atriði sem Jón Baldvin nefnir. 

Við höfum ekki öflugan seðlabanka sem getur þjónað sem lánveitandi til þrautavara við erfiðar aðstæður.

Við höfum enga bandamenn eins og ESB sem koma til hjálpar þegar allt er að fara í kaldkol.

Íslenska ríkið greiðir fjórum sinnum hærri vexti af 10 ára skuldabréfum en þær norðurlandaþjóðir sem eru í ESB sem auk þess skulda aðeins brot af því sem við skuldum á íbúa.

Íslandsálagið á vextina á ári er meira en tvöföld Icesave-greiðsla ef Buchheit-samningurinn hefði verið samþykktur.

Hrun á gengi krónunnar veldur því að vaxtagreiðslur hækka upp úr öllu valdi bæði vegna þess að prósentan hækkar en þó sérstaklega vegna þess erlendar skuldir hækka upp úr öllu valdi.

Skuldabyrðin verður þá óhjákvæmilega óviðráðanleg. Þú duga ekki lengur hagstæð lán. Skuldalækkun verður nauðsynleg.

Þá tekur við okkar málum Parísarklúbburinn sem er helsta martröð sjálfstæðra ríkja. 

Íslendingar virðast því miður ófærir um að sjá um sín eigin mál. Þetta sést best á hvaða flokka meirihluti þjóðarinnar hyggst kjósa.

Þá er ég ekki fyrst og fremst að vísa í að þetta eru þeir flokkar sem bera langmesta ábyrgð á hruninu. Stefnan sem þeir bjóða upp á er bólu- og hrunstefna þar sem hagur auðmanna er tekinn fram yfir velferðarmál og skuldalækkun ríkisins.

Flöt niðurfærsla lána og ein tekjuskattsprósenta kemur aðeins þeim fjárhagslega best settu til góða. Hlutur hinna í kostnaðinum við lækkunina er í flestum tilvikum miklu meiri en skuldalækkunin sjálf.

Þetta er alls ekkí besta leiðin til að örva hagkerfið. Til þess þarf að tryggja að féð lendi þar sem þess er þörf. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 07:49

4 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Ásmundur, "Það er hins vegar sláandi hve miklu verr Ísland er statt en ESB-löndin varðandi þessi þrjú atriði sem Jón Baldvin nefnir" Ísland hefur verið að rísa þrátt fyrir eina verstu ríkistjórn lýðveldisins. Hvert er Evrusvæðið að fara? Staðan er síst að batna

"Íslandsálagið á vextina á ári er meira en tvöföld Icesave-greiðsla ef Buchheit-samningurinn hefði verið samþykktur." ertu að segja að við séum að borga hærri vexti af því að við sluppum við þá? 

 Það sem þú Ásmundur kallar "ábendingar" er alvarlegur ágallar, ef þú byggir hús og hreinlega sleppir grunninum gluggum og hurðum og hefur þakið lekið ertu ekki með hús sem staðist getur íslenskar aðstæður, ekki einu sinni miðjarðarhafs og er það í raun ástæða þess að svo er komið fyrir ESB.  Annað er ansi merkilegt, Það hefur verið reglubundið sagt af ESB sinnum að allar þjóðirnar hafi sjálfstæði en þarna talar Jón Baldvin í raun fyrir því að það litla sjálfstæði sem þjóðir ESB hafi verði afnumið og að ESB verði formlegt þjóðríki og þú kallar "ábendingu um það sem betur má fara".

Brynjar Þór Guðmundsson, 14.4.2013 kl. 09:29

5 identicon

Brynjar, þetta eru ábendingar vegna þess að þetta eru allt atriði sem hægt er að lagfæra. Ertu kannski að halda því fram að Jón Baldvin sé orðinn afhuga ESB-aðild Íslands og upptöku evru?

Svona ríkjasamband, sem á sér engin fordæmi í heiminum, er í stöðugri þróun. Heimskreppa er kjörið tækifæri til að taka stórt skref fram á við í þróuninni. Að kreppunni afstaðinni verða ESB og evra miklu sterkari en áður.

Það er af og frá að sjálfstæði ESB-ríkja hverfi með nauðsynlegum breytingum.

Í fyrsta lagi nær ESB-samstarfið aðeins yfir hluta af umsvifum hvers ríkis. Í öðru lagi er aðeins um að ræða að fylgja ákveðnum reglum til að geta notið þess sem sambandið hefur upp á að bjóða. Innan þessara reglna hefur hvert ríki algjört sjálfdæmi.

Með ESB-aðild endurheimtum við fullveldi sem við afsöluðum okkur með EES-samningnum. Þá þurfum við ekki lengur að kyngja tilskipunum frá Brussel sem við höfum ekki haft neina möguleika á að hafa áhrif á.

Með ESB-aðild deilum við fullveldi Íslands og annarra ESB-landa með þeim. Við það eykst áhrifamáttur okkar til mikilla muna.

Utan ESB einöngrumst við smám saman meira og meira í gjaldeyrishöftum og sífellt versnandi lífskjörum. 

Samanburður á vaxtagreiðslu ríkisins við Icesave sýnir hve gífurlega háa upphæð ríkið er að greiða aukalega í vexti vegna krónunnar.

Ég nefndi að það væri til marks um slæmt andlegt ástand þjóðarinnar að hún ætlaði að kjósa aftur yfir sig aðalhrunflokkana sem eru með augljósa bólu- og hrunstefnu.

Annað til marks um þetta ástand þjóðarinnar er að hún tekur ekkert mark á ummælum erlendra sérfræðinga varðandi frábæra frammistöðu ríkisstjórnarinnar sem þeir segja að hafi náð betri árangri en nokkur þorði að vona.

Norskur sérfræðingur orðaði þetta þannig að fyrir hrun hefðu Íslendingar gert allt rangt en eftir hrun hefðu þeir gert allt rétt.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 10:52

6 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Ásmundur, "Svona ríkjasamband, sem á sér engin fordæmi í heiminum" Þýskaland, USA, Kanada, Rússland. Eitt sinn var meira að segja kalmarsambandið og Rómverska heimsveldið.

"Í fyrsta lagi nær ESB-samstarfið aðeins yfir hluta af umsvifum hvers ríkis" Hann er orðin ansi stór sá hluti, í raun eru lönd á borð við Austurríki,ungverjaland og Kýpur orðin álíka sjálfstæð eins og Blönduós, Ohio og Síbería

"Brynjar, þetta eru ábendingar vegna þess að þetta eru allt atriði sem hægt er að lagfæra." Í þessari framsetningu er þetta hörð gagnrýni. Ekki veit ég hvort Jón baldvin sé orðin afhuga ESB aðild, búinn að gefast upp eða þá að hann sé að reyna að sökkva málflutningi ESB-sinna(og losa burtu bullið og lygarnar) til þess að reyna að bjarga umsókninni en það virðist vera að hann sé búinn að sjá eitthvað af ljósinu og breytingar komi nú fram hjá honum frá þeim málflutningi sem þó meðal annars Ásmundur hefur flutt.

"Með ESB-aðild endurheimtum við fullveldi sem við afsöluðum okkur með EES-samningnum." Með innan við hálft prósent atkvæða? Okkur vegnaði ekki vel þegar við höfðum margfalt það vægi inná Danska þinginu. Reyndar er okkur í sjálfsvald sett hvort við tökum við tilskipunum ESB eða ekki núna.

 "Með ESB-aðild deilum við fullveldi Íslands og annarra ESB-landa með þeim" Svona eins og Grikkir?

 "Samanburður á vaxtagreiðslu ríkisins við Icesave sýnir hve gífurlega háa upphæð ríkið er að greiða aukalega í vexti vegna krónunnar."  Við sluppum við fleiri hundruð miljarða vexti vegna Icesave .

Vandinn sem mörg Evruríki glíma við er dálítið sem ég hef margoft spurt menn eins og þig út í en fæstir hafa "fattið" í lagi til þess að skilja en ef meira er flutt inn en út klárast peningurinn og þá er ekki hægt að borga út laun, borga reikninga eða nokkuð annað og kerfið springur, svona eins og hjá mörgum evrulöndum. Það sem við gerðum rangt fyrir hrun var að við flutum meira inn en út og það var krónan sem snéri því við. Það hefur Evran hvergi gert. Það sem meira er er að krónan skapaði störf og varði önnur en það hefur evran ekki enn gert.

Brynjar Þór Guðmundsson, 14.4.2013 kl. 11:58

7 identicon

Brynjar hver hefur logið því að þér að við höfum sloppið við að greiða fleiri hundruð milljarða í vexti vegna Icesave?

Um það leyti sem samningnum var hafnað var áfallin skuld nokkrir milljarðar. Áfallnir vextir voru nokkuð hærri en innistæða í tryggingarsjóðnum vó þar upp á móti.

Vextir af allri upphæðinni voru um 20 milljarðar á ári. Nokkrum mánuðum eftir að samningnum var hafnað var greidd há upphæð úr þrotabúinu sem lækkaði mikið árlega vaxtabyrði. Nú er búið að greiða mest af upphæðinni ef ekki hana alla.

Bretar reiknuðu út að þeir hefðu tapað sem svaraði 20 milljörðum króna vegna dómsins. Upphæð Hollendinga var miklu lægri. Heildarvextirnir hafa því verið nálægt 30 milljörðum króna.

Það er örugglega miklu lægri upphæð en kostnaðurinn við að hafna samningnum. Lánshæfismat Íslands var lækkað niður í ruslflokk þegar ÓRG boðaði til fyrri atkvæðagreiðslunnar.

Það hefur kostað sitt í verri lánskjörum erlendis, lægra gengi krónunnar og glötuðum viðskiptatækifærum.

Það er hlægilegt þegar Íslendingar eru að kenna evru um ástandið í Grikklandi í ljósi þess að hér varð algjört hrun bankakerfisins.

Allir nema Íslendingar, þar á meðal Grikkir sjálfir, virðast gera sér grein fyrir að vandi Grikkja er ekki evran.

Bólan og eftirfarandi hrun á Íslandi var vegna krónunnar. Mikill innflutningur var vegna þess að hátt gengi krónunnar gerði innfluttar vörur ódýrar.

Hrunið olli gífurlegu tjóni sem enn sér ekki fyrir endann á sbr hugmyndir Framsóknar til skuldalækkunar heimilanna. Með evru hefðu engar skuldir hækkað. 

Grikkir og fleiri evruþjóðir í vanda hefðu ekki verið betur settar með eigin gjaldmiðil. Gengi hans hefði hrunið og gífurlegar erlendar skuldir hækkað við það upp úr öllu valdi. Menn leysa ekki skuldavanda með mikilli skuldaaukningu.

Austurríki, Kýpur og fleiri evruríki lúta algjörlega eigin stjórn en verða auðvitað að fylgja sameiginlegum lögum ESB á því sviði sem þau ná yfir.

Það gengur yfirleitt prýðilega enda er löggjöf ESB yfirleitt mun fullkomnari en löggjöf lítilla landa.

Smáríkjum gengur vel í ESB, mun betur en stærstu ríkjunum. Kýpur er undantekning vegna tengsla við Grikkland og Rússa. Hve mikil áhrif þau hafa í ESB fer eftir því hve vel tekst til við val fulltrúa.

Í Evrópuþinginu verður lágmarksfjöldi þingmanna 6 þingmenn. Það þýðir að við fáum jafnmarga þingmenn og Eistar sem eru fjórum til fimm sinnum fjölmennari en við.

Danir fá 13 þingmenn eða aðeins rúmlega helmingi fleiri en við þó að þeir séu 17-18 sinnum fjölmennari.

Í ráðherraráðinu skiptast atkvæðin eftir íbúafjölda ef einhver þjóð fer fram á það. Langflest  mál eru hins vegar afgreidd samhljóða.

Ef kemur til atkvæðagreiðslu skiptir lítið atkvæðamagn Íslands litlu máli. Allar þjóðirnar eru mjög langt frá því að hafa meirihluta og verða því að reiða sig á stuðning annarra þjóða.

Það er skilyrt að 55% þjóðanna styðji mál til að það verði samþykkt Einnig þarf aukinn meirihluta atkvæða ýmist 65%, 72% eða 100%. 

Þetta þýðir að það verður ekki svo mikill aðstöðumunur á milli Íslands og miklu stærri þjóða við afgreiðslu mála.

Nýtt hrun á gengi krónunnar er yfirvofandi í næsta samdrætti. Það gæti riðið okkur að fullu vegna þess hve skuldir ríkisins eru miklar.

Þá er mikils um vert að vera búinn að samþykkja ESB-aðild.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 17:54

8 identicon

Brynjar, ESB lútir allt öðrum lögmálum en þau ríkjasambönd sem þú tilgreinir.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 18:01

9 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

"Smáríkjum gengur vel í ESB, mun betur en stærstu ríkjunum. Kýpur er undantekning vegna tengsla við Grikkland og Rússa" En Portúgal og Slóvenía?

 "Grikkir og fleiri evruþjóðir í vanda hefðu ekki verið betur settar með eigin gjaldmiðil" En þá hefðu komið fleiri ferðamenn til grikklands, innflutningur minkað og atvinna aukist sem skilar meiri tekjum fyrir Ríkisjóð Grikkja

"Hrunið olli gífurlegu tjóni sem enn sér ekki fyrir endann á sbr hugmyndir Framsóknar til skuldalækkunar heimilanna. Með evru hefðu engar skuldir hækkað. " Sambærilegt ástand kom upp á Írlandi, sást þú ekki viðtalið sem kom í Silfi egils, þar hækkuðu bankavextir, skuldir uxu og laun lækkuðu.

"Það er hlægilegt þegar Íslendingar eru að kenna evru um ástandið í Grikklandi" Það eina sem er hlægilegt er sú staðreynd að 2008-2009 sögðu ESB sinnar kokhraustir að ef við hefðum haft Evru og verið í ESB þá hefðum ekki getað orðið hrun, það hefði ekki orðið.

 "Brynjar hver hefur logið því að þér að við höfum sloppið við að greiða fleiri hundruð milljarða í vexti vegna Icesave?" Forgangskröfurnar voru yfir 1000 miljarðar, veist þú hvað 3.3 og 3.5% vextir af slíkri upphæð er til 4 ára + þeir rúmu 6% vextir sem við hefðum þurft að borga af láninu hjá AGS fyrir eftirstöðvar þeirra sem ekki hefði verið endurheimt? Og þetta var bara forgangskröfurnar.

"Það er örugglega miklu lægri upphæð en kostnaðurinn við að hafna samningnum. Lánshæfismat Íslands var lækkað niður í ruslflokk þegar ÓRG boðaði til fyrri atkvæðagreiðslunnar." Við áttum að borga þetta í topp með himin háum vöxtum. Annars hafði það ekki áhrif á þau lán sem fyrir voru heldur þau sem seinna yrðu tekin

Brynjar Þór Guðmundsson, 15.4.2013 kl. 06:58

10 identicon

Brynjar, Icesave-samningarnir gengu allir út á að Íslendingar greiddu aðeins lágmarkstrygginguna sem var rúmlega 600 milljarðar. Vextirnir voru ýmist 3% eða 3.3% á Buchheit-samningnum.  

Allar Icesave-innistæðurnar voru hins vegar yfir 1300 milljarðar. Við hefðum þurft að greiða vexti af þeirri upphæð og væntanlega mun hærri vaxtaprósentu ef við hefðum tapað málinu fyrir EFTA-dómstólnum.

Það var því miklu meiri áhætta fólgin í því að hafna samningnum en að samþykkja hann. Auk þess voru tafir á lausn málsins með lækkað lánshæfismat okkur örugglega kostnaðarsamara en vextirnir skv samningnum.

Lán frá AGS kemur Icesave ekkert við. Þetta voru það lágar upphæðir að ekki þurfti neina sérstaka lántöku vegna þeirra. 

Það hefur enginn haldið því fram að ekki gæti orði hrun á evrusvæðinu. Það er hins vegar fráleitt að draga þá ályktun að það hefði orðið hrun á Íslandi, ef við hefðum haft evru, vegna þess að það varð hrun í Grikkland.

Hvaða rugl er á þér að tala í öðru orðinu um 3.3% og 3.5% vexti (þeir voru reyndar 3% og 3.3%) í en í hinu orðinu um himinháa vexti?

Ástandið á Írlandi eftir hrun var allt annað en hér. Gjaldmiðillinn lækkaði ekki neitt og skuldir hækkuðu ekki heldur enda óvertryggðar. Greiðslubyrðin jafnvel lækkaði vegna lægri vaxta.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 1437
  • Frá upphafi: 1160459

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1275
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband