Leita í fréttum mbl.is

Langstærsti kröfuhafinn!

vultureÞýski seðlabankinn er langsamlega stærsti kröfuhafinn á evrusvæðinu. Þjóðverjar hagnast mest á evrusamstarfinu, því það hefur fært þeim auknar eignir á kostnað litlu jaðarríkjanna á svæðinu. Eina leiðin til að rétta hlut minni ríkjanna virðist vera að kljúfa upp evrusvæðið eða leggja evruna af.

Þetta er inntakið og niðurstaðan í athyglisverðri samantekt blaðamannsins Harðar Ægissonar í viðskiptakálfi Morgunblaðsins í dag. Hörður vitnar þar meðal annars til víðfrægrar bókar Bretans David Marsh sem nýlega var endurútgefin, en bókin ber heitið The Euro: The Battle for the New Global Currency.

Það er best að vitna beint til skrif Harðar, en pistill hans er á síðu 12 í viðskiptakálfi Moggans í dag:

Fyrst segir Hörður:

Það er ekki skrýtið að mikill meirihluti Þjóðverja vill halda í evruna þrátt fyrir að gríðarleg óvissa ríki um framtíð og efnahagshorfur evrópska myntbandalagsins. Líklega hefur ekkert evruríki notið jafn góðs af myntsamstarfinu og Þýskaland. Hið sama verður þó ekki sagt um jaðarríki evrunnar.
Þrátt fyrir stöðnun á evrópska myntsvæðinu eru hagvaxtarhorfur með ágætum í Þýskalandi og viðskiptaafgangur mælist í hæstu hæðum. Á liðnu ári var afgangur á viðskiptum við útlönd um 250 milljarðar evra, eða sem nemur 7% af landsframleiðslu. Þetta er áttunda árið í röð sem viðskiptaafgangur Þýskalands er meiri en 5%. Slíkur viðvarandi afgangur getur þó hvorki talist eðlilegur né eftirsóknarverður.

Svo segir Hörður:

Stofnun evrópska myntbandalagsins átti að skapa aukinn stöðugleika. Það markmið virðist nú aðeins fjarlægur draumur. Gríðarlegur viðskiptaafgangur Þýskalands endurspeglar hið alvarlega og djúpstæða ójafnvægi sem hefur skapast á evrusvæðinu. Rétt eins og David Marsh, höfundur bókarinnar The Euro: The Battle for the New Global Currency, bendir á þá hefur viðvarandi viðskiptaafgangur kjarnaríkja evrunnar - á móti miklum viðskiptahalla jaðarríkjanna - verið mun meira en það ójafnvægi sem að lokum framkallaði hrun Bretton Woods-fastgengiskerfisins í byrjun 8. áratugar 20. aldar.

Samhliða uppsöfnuðum viðskiptaafgangi Þýskalands hefur hrein erlend eign þjóðarbúsins - eignir að frádregnum skuldum - aukist hröðum skrefum. Nýjustu hagtölur sýna að hrein erlend eign Þýskalands er núna yfir þúsund milljarðar evra og hefur aldrei verið meiri. Hátt í 90% þessara eigna eru færð til bókar hjá Seðlabanka Þýskalands. Meirihlutinn - eða tæplega 600 milljarðar evra - er í raun óbein krafa á verst stöddu evruríkin í gegnum greiðslumiðlunarkerfi Evrópska seðlabankans, betur þekkt sem Target2. Á síðustu fjórum árum hefur nánast allur viðskiptaafgangur Þýskalands gagnvart evrusvæðinu einmitt verið nýttur til að fjármagna seðlabanka jaðarríkjanna í gegnum Target2-kerfið. Færi svo að myntbandalagið liði undir lok gæti Þýskaland þurft að afskrifa stóran hluta þessara krafna.

Þá segir Hörður:

Staða Þýskalands er því viðkvæm. Stækkandi efnahagsreikningur Seðlabanka Þýskalands er ekki í samræmi við það markmið sem bankinn setti sér við stofnun myntbandalagsins. Á árunum 1999 til 2004 reyndi bankinn markvisst að minnka gjaldeyrisforða sinn til að draga úr gjaldeyris- og markaðsáhættu. Í árslok 2004 námu erlendar eignir bankans aðeins 85 milljörðum evra, eða rétt ríflega þriðjungi af hreinni erlendri eignastöðu þjóðarbúsins. Frá þeim tíma hafa hreinar erlendar eignir Þýska seðlabankans hins vegar tífaldast. Bankinn er því orðinn - líklega þvert gegn sínum vilja - langstærsti kröfuhafi evrusvæðisins.

Hver er skýringin? Að sögn David Marsh hefur þessi þróun haldist í hendur við gríðarlegan samdrátt í erlendum útlánum þýskra banka - einkum til verst stöddu evruríkjanna. Á þriðja fjórðungi síðasta árs nam hrein erlend eign þýskra banka 8 milljörðum evra borið saman við ríflega 500 milljarða evra í árslok 2008. Í stað þess að hrein erlend eignastaða Þýskalands samanstandi að stærstum hluta af kröfum á einkaaðila þá eru þær nú mestmegnis kröfur á seðlabanka jaðarríkjanna.

Og í lokin segir Hörður:

Eitt meginmarkmiðið með stofnun evrópska myntbandalagsins var að tryggja að öflugasta efnahagsveldi álfunnar - sameinað Þýskaland - yrði í meira mæli háð nánum viðskiptatengslum við önnur Evrópuríki. Staðreyndin er hins vegar sú að hið gagnstæða hefur gerst. Næstum 50% af útflutningi Þýskalands fara nú til ríkja utan evrusvæðisins. Þýskaland er því ekki jafn berskjaldað og ella gagnvart erfiðleikum á evrusvæðinu.

Ekki verður séð hvernig - og hvenær - aðlögun í átt að sjálfbæru jafnvægi á myntsvæðinu muni nást. Eigi verst stöddu evruríkjunum að takast að greiða til baka erlendar skuldir sínar - til Þýskalands - þurfa þau að auka verulega hlutfallslega samkeppnishæfni sína og ná fram viðvarandi viðskiptaafgangi. Með því að kasta evrunni myndi slík aðlögun gerast sjálfkrafa. Að óbreyttu virðast þau eiga engra annarra kosta völ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 116
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 1778
  • Frá upphafi: 1183362

Annað

  • Innlit í dag: 98
  • Innlit sl. viku: 1557
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband