Leita í fréttum mbl.is

Til hamingju, verkafólk!

Það er ástæða til þess að óska íslensku verkafólki til hamingju með daginn. Það er að rofa til í atvinnu- og efnahagsmálum. Atvinna vex og atvinnuleysi minnkar, kaupmáttur eykst og velferð batnar. Meira að segja forysta ASÍ áttar sig á stöðu mála og er hætt að líta til ESB sem fyrirmyndar.


Yfirskrift dagsins hjá Alþýðusambandinu er Kaupmáttur, atvinna, velferð. Miðað við skrif forseta ASÍ í tímaritinu Vinnunni í dag hefði röðin þó átt að vera Atvinna, velferð, kaupmáttur. Atvinna er jú algjör forsenda bæði velferðar og kaupmáttar. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram að auka atvinnu hér á landi og draga áfram úr atvinnuleysi. Enn eru um tíu þúsund manns án atvinnu, um 6% vinnuafls, og þar af hefur um helmingur verið atvinnulaus lengur en í tvo mánuði samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Í samanburði við evrulöndin er atvinnuleysið fremur lítið hér á landi. Í ESB er atvinnuleysið að jafnaði um 12%, en nálgast óðfluga 30% á Spáni og Grikklandi þar sem um eða yfir helmingur ungs fólks er án atvinnu. Atvinnuleysi hefur aukist samfellt í 23 mánuði á evrusvæðinu og í þar síðasta mánuði einum bættust 62 þúsund manns á atvinnuleysisskrá á svæðinu.

Atvinna er forsenda velferðar

Atvinna er almenn forsenda velferðar og góðs kaupmáttar. Hverjar skyldu þá afleiðingar atvinnuleysis vera á velferð fólks. Það er almennt talað um þrenns konar afleiðingar atvinnuleysis á velferð fólks, og eru afleiðingarnar að jafnaði alvarlegri eftir því sem fólk er lengur án atvinnu.

Í fyrsta lagi eru það hinar fjárhagslegu afleiðingar, þ.e. kaupmátturinn hrapar í flestum tilvikum, lífskjörin versna og fólk getur oft ekki staðið undir útgjöldum vegna húsnæðis og fleiri þarfa.

Í öðru lagi eru það félagsleg áhrif, því tengsl atvinnulausra breytast, ekki aðeins við vinnufélaga, heldur einnig við fjölskyldu og vini. Atvinnulausir eiga það á hættu að einangrast. Hitt hefur þó einnig gerst, t.d. í niðurskurðinum í evrulöndunum, að álag á hluta kvenna hefur aukist þar sem þær þurfa ekki aðeins að búa við atvinnumissi heldur þurfa þær einnig að sinna öldruðum og sjúkum ættingjum sem hið opinbera telur sig ekki lengur fært að sinna.

Í þriðja lagi má greina áþreifanleg heilsufarsleg vandamál sem fylgja atvinnuleysi. Það getur verið sálrænt áfall fyrir marga að  missa vinnuna og það hefur sýnt sig að atvinnulausir eiga fremur á hættu að fá ýmsa líkamlega kvilla og að búa við örorku.

Í ljósi þessa er ánægjulegt að forysta Alþýðusambands Íslands skuli nú leggja aukna áherslu á atvinnu. Reyndar hlýtur almenn og góð velferð að vera markmið samtaka fólks á vinnumarkaði, en aukin og  bætt velferð er einnig óbeint markmið allrar efnahagsstarfsemi, í raun allrar starfsemi mannsins ef út í það er farið.

Aukin velferð samfara sjálfstæðum gjaldmiðli

Síðustu hundrað árin eða svo hefur velferð eins og hún er almennt mæld aukist gífurlega á Íslandi. Við þar síðustu aldamót vorum við eitt fátækasta ríki Evrópu, en eftir að við tókum upp eigin myntskráningu krónunnar urðum við, þess vegna og vegna fleiri þátta, smám saman í hópi þeirra ríkja í heiminum þar sem velmegun hefur verið hvað mest á marga mælikvarða. Þjóðartekjur á mann hafa þannig verið með því sem hæst gerist.

Eftir hrunið hefur atvinna, tekjur og kaupmáttur aukist á ný hér á landi. Evrulöndin búa hins vegar nú við viðvarandi og langan samdrátt sem dregur úr atvinnu, tekjum, kaupmætti og velferð. Það er ekki hvað síst vegna þess hvaða áhrif evrusamstarfið hefur á efnahag evrulandanna að svo er komið. Þau eru læst í gengissamstarfi og fyrir vikið safna Þjóðverjar og fáeinar aðrar þjóðir eignum á meðan jaðarþjóðirnar, einkum í suðri, safna skuldum og lífskjör versna.

Það er gott að ASÍ-forystan virðist vera farin að átta sig á þessu og að við verðum að búa við okkar sjálfstæðu efnahagsstefnu með eigin gjaldmiðil, því þannig getum við betur unnið okkur út úr vandanum til lengdar á okkar eigin forsendum.

Til hamingju með daginn, verkafólk!

 

 

Til viðmiðunar: Atvinnuleysi í ESB:

atvinnuleysiapr2013


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 244
  • Sl. sólarhring: 419
  • Sl. viku: 2724
  • Frá upphafi: 1164931

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 2339
  • Gestir í dag: 198
  • IP-tölur í dag: 196

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband