Leita í fréttum mbl.is

Að svæfa eða ljúka aðildarviðræðum við ESB?

Guðni ÁgústssonÞað er nauðsynlegt að Alþingi samþykki formlega að ljúka aðildarviðræðum við ESB á sama hátt og Alþingi samþykkti að hefja viðræðurnar. Það er eðlilegt framhald af uppgjöf fyrri stjórnar í málinu, niðurstöðu kosninga og stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar sem nýtur meirihlutafylgis á Alþingi.

Í þessa veru ritar Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður, fyrrverandi ráðherra og fyrrum formaður Framsóknarflokksins í grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni segir Guðni þetta:


Ýmsir þeir sem vilja halda áfram aðlögun eða samningaviðræðum við ESB fara nú mikinn og fordæma ríkisstjórnarflokkana og væna þá um svik við kjósendur. Svikaumræðan nú stafar af því að Alþingi ályktaði að sótt yrði um aðild að ESB sumarið 2009 og sú ályktun standi þar til annað verði ákveðið. Ennfremur er því haldið fram að allavega Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort viðræðunum verði fram haldið eða hætt einhvern tímann á kjörtímabilinu. Þessi umræða og ákvarðanataka, sem virðist þvælast fyrir nýrri ríkisstjórn og ráðherrum, getur áður en varir skaðað trúverðugleikann og ESB botnar þetta ekki heldur. Allt er þetta sambærileg orðræða og á síðasta kjörtímabili sem nú er að fara í gang og þegar svikaumræðan tröllreið Vinstri-grænum og þeir voru eðlilega vændir um að hafa svikið sitt stærsta og eina kosningaloforð 2009. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, staddur á sínum Kögunarhól, og fleiri fara fyrir þessari umræðu. Umræðan er ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum hættuleg til lengdar. Ég vil trúa því að höggvið verði á allan vafa í þessu efni þegar Alþingi kemur saman til fundar í haust.

Ef sáttmáli stjórnarflokkanna er lesinn yfir finnst mér hann auðskilinn en ég heyri hann samt túlkaðan á mismunandi vegu eftir viðhorfum manna, hvort þeir vilja halda áfram í aðildarviðræðum eða ekki. Kaflinn hljóðar svo: »Gert verði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.« Þetta þýðir að mínu viti að viðræðum er lokið og formlega beri að staðfesta það sem fyrst.


Alþingi verður að höggva á hnútinn

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur farið á fund Stefans Füle, stækkunarsjóra ESB, og tilkynnt hlé á viðræðunum, já, hlé, ekki viðræðuslit. Össur Skarphéðinsson tilkynnti að hægt yrði á viðræðum í aðdraganda kosninganna eins og menn muna, ljósin dempuð. Í stjórnarsáttmálanum stendur að tekið verði saman tvennt: annars vegar staða samningaviðræðnanna og hins vegar þróun ESB frá því aðildarviðræður hófust 2010. Nú er sambandið að verða yfirþjóðlegt og gerræðislegt gagnvart ríkjum í erfiðleikum. Ég get hins vegar tekið undir það með Þorsteini Pálssyni að á þeim sama stað og viðræður voru settar í gang með ályktun 2009 verði einnig að ljúka þeim á Alþingi sjálfu. Þorsteinn segir: »Í fullveldi Alþingis felst að Ísland er umsóknarland þar til það sjálft ályktar annað.« Þarna liggur hundurinn grafinn og um þetta munu ríkja deilur. Þess vegna verður að virða þessa skoðun og kalla fram nýjan þingvilja til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og að utanríkisráðherrann, Gunnar Bragi Sveinsson, standi á bjargi en ekki í sandi.

Þjóðarvilji, þingvilji og ríkisstjórnarvilji

Í haust þegar úttektin liggur fyrir og verður lögð fyrir Alþingi á á grundvelli hennar að samþykkja ályktun um að aðildarviðræðum um inngöngu Íslands í ESB verði slitið. Eins og hér er rakið stendur samþykktin frá 2009 verði hún ekki rofin með nýrri ályktun Alþingis, munu þeir sem vilja í ESB nota gömlu ályktunina eins og arfasátuna forðum í brennunni, kveikja við hana bál og ófrið sem verður ríkisstjórninni hættulegur. Alltaf er best í átakamálum að ganga hreint til verks og höggva á hnútana. Það getur ekki verið erfitt fyrir stjórnarflokkana að gera þetta afdráttarlaust. Báðir boðuðu þeir þetta í kosningabaráttunni og kallast nei-flokkar sem unnu afgerandi kosningasigur. Samfylkingin, ESB-flokkurinn, tapaði kosningunum og ellefu þingmönnum. Afdráttarlaus fannst mér þjóðhátíðarræða forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á þjóðhátíðardaginn um sjálfstæði Íslands og þar kom fram hörð gagnrýni á ESB fyrir aðförina að Íslandi í Icesave. Og ekki lyfti ESB hönd til að verja okkur í hryðjuverkaárás Bretanna að efnahag Íslendinga, sem er versta aðför að sjálfstæðu ríki - og það Natóþjóð gegn annarri vopnlausri Natóþjóð. Það þarf síðan þjóðarvilja, þingvilja og ríkisstjórnarvilja til að fara í aðildarviðræður við ESB að nýju. Komi fram ríkisstjórnarvilji síðar sem ekki er til staðar nú þarf fram að fara þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Utanríkisráðherra á því aðra ferð fyrir höndum til Brussel í haust til að tilkynna endanlega niðurstöðu ríkisstjórnar og Alþingis; að viðræðunum sé slitið. Góður vilji Gunnars Braga eða hljómmikil ræða dugar skammt. Alþingi verður að klára málið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Er ekki nóg að Alþingi samþykki Þingsályktunartillögu og skrifi stjórnarerindi með undirskrift Forseta Íslands í þetta sinn ofung við umsóknina sjálfa. Sendi Brussel mönnum þetta til að gera þetta official.  

Valdimar Samúelsson, 24.6.2013 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 96
  • Sl. viku: 1741
  • Frá upphafi: 1176914

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1579
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband