Leita í fréttum mbl.is

ESB-tálsýnin að kíkja í pakkann

olafurhannesson
Það liggur alveg fyrir hvað ESB er. Við höfum það fyrir augunum. Pakkinn er nú þegar opinn. Við þurfum síst af öllu aðlögunarferli til þess að kíkja í hann. Ólafur Hannesson, varaformaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB-aðild, ritar grein um þetta sem Morgunblaðið birtir í dag. Greinin hljóðar svo:
 
Frá árinu 2009 höfum við verið í aðildarferli að Evrópusambandinu, allt frá minnisstæðum tímapunkti þar sem Samfylkingunni tókst að koma þessum miðpunkti alheims síns á dagskrá. Þetta ferli hefur verið til umfjöllunar síðan og aðild að ESB raunar rædd löngu fyrir þann tímapunkt. Aldrei sáu Samfylking né VG tilgang í því að spyrja þjóðina hvort það ætti að ganga í/sækja um aðild að ESB, þrátt fyrir að aðildarferli feli einnig í sér aðlögun sem þjóðir verða að framkvæma svo regluverk þeirra rími við ESB og þær séu tilbúnar að ganga inn um leið og ferlinu lýkur.

 Þrátt fyrir mikla andstöðu við inngöngu Íslands að ESB hefur aðildarsinnum tekist að sannfæra fólk um að við verðum nú samt að sjá samninginn, að öðrum kosti vitum við ekki hvað sé í boði. Þetta er dæmi um eina best heppnuðu markaðssetningu sem þekkist, að selja fólki hugmyndina um að »kíkja í pakkann«. Þetta er ein besta fullyrðingin sem aðildarsinnar hafa sett fram, hún er þannig gerð að fólk þarf ekki að kynna sér málið frekar, ákvörðun er slegið á frest og úthýst úr huga fólks fram að þeim tímapunkti að aðildarsamningur liggur fyrir, á þeim tímapunkti verður svo erfiðara að segja nei þar sem við höfum nú gengið svo langt að fá samninginn á borðið og ekki sé fallegt að hafa dregið 28 aðildarríki ESB á asnaeyrunum.

 

Rjúfum tálsýnina, kynnum okkur ESB

 Fyrir þá sem hafa vilja og áhuga er hægt að kynna sér ESB og hvað það hefur að bjóða, það er enginn falinn pakki sem einungis má sjá við endann á aðlögunarferlinu. Tálsýnin er falleg sem aðildarsinnar hafa sett upp en vonandi tekst fólki að sjá í gegnum hana. Staðreyndirnar verða alltaf til staðar burt séð frá samningum, hér eru nokkrar:

 1. Lög ESB verða rétthærri okkar lögum, þar með talinni stjórnarskrá, sem þýðir að ef að ESB setur lög sem stangast á við stjórnarskrá eða lög þá verðum við að breyta okkar stjórnarskrá eða lögum.

 2. Við verðum nettógreiðandi þjóð innan ESB, þ.e.a.s. við munum borga meira inn í sambandið en við komum til með að fá út úr því, þetta er staðreynd sem t.d. Þjóðverjar hafa fagnað, þar sem þeim finnst gott að fá þjóðir sem borga til sambandsins í stað þeirra sem taka fé úr því. Rætt er um tölur í kring um sex milljarða sem við munum greiða umfram þá styrki sem við fáum frá sambandinu.

 3. Við munum ekki stjórna því hvaða tollar verða á hvaða vörum, þessir tollar verða ákveðnir af ESB með hagsmuni voldugustu ríkjanna í huga. Tómaturinn sem keyptur er frá ESB lækkar á sama tíma og raftækið sem keypt er frá Asíu kann að hækka vegna þess að það er utan við þann tollamúr sem ESB er.

 4. ESB er í stanslausri þróun, það stefnir með auknum hraða í átt að miðstýrðu ríki þar sem aðildarþjóðir hafa minni völd og ESB meiri. Það er draumsýn margra innan kerfis ESB að færa sambandið meira í átt að sambandsríki frekar en ríkjasambandi, samanber orð Viviane Reding sem er dómsmálastjóri ESB og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins, en hún sagði fyrir stuttu að það væri hennar persónulega skoðun að evrusvæðið ætti að verða að Bandaríkjum Evrópu.

 Fyrst komu aðildarsinnar fram með fullyrðingar um að við myndum græða svo mikið á að ganga í sambandið. Þeim var síðar bent á að við myndum greiða meira í sambandið en við fengjum þaðan. Þá breyttu þeir orðum sínum á þann veg að fjármunir skiptu ekki máli heldur hvaða gagn við gerðum í alþjóðlegu samhengi, gott og vel. Næst fóru þeir svo að tala um að við fengjum nú varanlegar undanþágur frá reglum sambandsins (gott að sækja um í eitthvað sem þarf þó að breyta sér svo þú viljir ganga inn). Enn og aftur hefur aðildarsinnum verið bent á að fullyrðingarnar þeirra séu ekki alveg réttar. Það hefur meðal annars verið sagt af stækkunarstjóra ESB að ekki séu í boði varanlegar undanþágur líkt og aðildarsinnar hafa haldið fram, þetta kemur einnig fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, það er um að ræða sérlausnir sem í eðli sínu eru ekki varanlegar enda breytilegar eftir vilja sambandsins. Nú stökkva aðildarsinnar fram og segjast hafa haldið því fram allan tímann, það verður að dást að þeim fyrir aðlögunarhæfni sína og hversu auðveldlega þau geta breytt áróðri sínum til að fá fólk með sér í sambandið.

 

Ísland já takk, ESB nei takk

 Í ljósi alls þessa tel ég viturlegast að slíta þessu ferli og hvet ég stjórnarflokkana til að standa við það sem vilji var fyrir á landsfundum þeirra og draga umsóknina til baka líkt og þeir virðast stefna að. Ef vilji til að ganga í sambandið verður í framtíðinni einhvern tímann til staðar þá er sjálfsagt að greiða atkvæði um hvort við viljum láta reyna á viðræður.

 Ísland getur alltaf gert þær breytingar sem við teljum til betrunar og þurfum ekki að ganga í ESB til að gera betur. Ég treysti íslenskri þjóð til að halda vel á spilunum inn í framtíðina, afmörkum okkur ekki einungis á því svæði sem ESB er, horfum á heiminn allan enda markaðir sífellt að þróast og ekki gott að einskorða sig við ákveðinn stað án þess að geta með góðu móti breytt því. Ég segi Ísland já takk, ESB nei takk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 195
  • Sl. sólarhring: 277
  • Sl. viku: 2564
  • Frá upphafi: 1165192

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 2192
  • Gestir í dag: 159
  • IP-tölur í dag: 157

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband