Leita í fréttum mbl.is

Háskólinn staðfestir að viðræður strönduðu á sjávarútvegsmálum

evropuvaktin

Skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands staðfestir það sem fram hefur komið, nefnilega að aðildarviðræður sigldu í strand þegar á árinu 2011 þegar ekki náðist saman í sjávarútvegsmálum. Eftir það runnu viðræður út í sandinn og þeim var svo í raun hætt að kröfu VG fyrir kosningar 2013.

Evrópuvaktin greinir svo frá skýrslunni í dag: 

Úttekt Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið fyrir Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands var kynnt mánudaginn 7. apríl, daginn áður en umsagnarfresti utanríkismálanefndar alþingis vegna þingsályktunar um afturköllun ESB-aðildarumsóknar Íslands lýkur. Í skýrslunni er mjög byggt á viðtölum við nafnlausa heimildarmenn, einkum í Brussel, og er textinn að verulegu leyti í viðtengingarhætti um hvað hugsanlega kynni að gerast yrði ESB-aðildarviðræðunum haldið áfram. Er skýrslan að því leyti ólík skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem var samin að beiðni utanríkisráðherra og lögð fram 18. febrúar 2014.

Í inngangi skýrslunnar segir Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, að markmið verkefnisins hafi verið „að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið, að greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni“. Studdust höfundar skýrslunnar meðal annars við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þá var leitað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og sérfræðinga hér á landi auk þess sem viðtöl voru tekin við embættismenn aðildarríkja og stofnana Evrópusambandsins í Brussel í febrúar síðastliðnum. Pia segir:

„Megináhersla úttektar Alþjóðamálastofnunar er á þá samningskafla sem hafa ekki verið opnaðir og sem mestur ágreiningur hefur verið um hérlendis, en þar ber helst að nefna efnahags- og peningamál, sjávarútvegsmál og landbúnaðar- og byggðamál. Einnig eru teknar saman upplýsingar um hvernig aðildarviðræður Íslands við ESB gengu fyrir sig áður en hlé var gert á þeim, og hvaða áhrif aðildarumsóknin hefur haft á hagsmunagæslu Íslands. Loks er fjallað um stöðu og framtíð EES-samstarfsins þar sem það er sú leið að tengingu við Evrópusambandið og innri markað þess sem Ísland myndi freista þess að byggja áfram á, ef ekkert skyldi verða af aðild Íslands að ESB.“

Í skýrslunni er bent á þann mun sem er á því annars vegar að draga ESB-aðildarumsóknina til baka og hins vegar að leggja hana á formlegan hátt til hliðar og segir meðal annars um það efni (bls. 6):

„Viðmælendum skýrsluhöfunda í Brussel bar öllum saman um að auðvelt myndi reynast að hefja viðræður að nýju, svo fremi sem aðildarumsóknin yrði ekki dregin til baka. Það sé í raun ekkert sem reki á eftir Íslendingum að taka ákvarðanir um framhald viðræðnanna nú þegar samninganefndirnar hafi verið leystar upp og vinnu hafi verið hætt hjá báðum samningsaðilum. Vari viðræðuhléið í mörg ár muni samningavinnan vitanlega úreldast hægt og bítandi þar sem lagasafn ESB tekur ýmsum breytingum með tímanum. Því væri viðbúið að það þyrfti að opna suma kafla aftur eftir langt hlé. Slík endurskoðun þyrfti þó í flestum tilvikum ekki að taka langan tíma þar sem kaflarnir sem um ræðir eru flestir á gildissviði EES-samningsins, og Ísland heldur áfram að innleiða EES-löggjöf, óháð því hvort aðildarviðræður eru í gangi eður ei. Hins vegar, ef umsóknin yrði dregin til baka, færi ferlið aftur á byrjunarreit. Nýjar aðildarviðræður myndu krefjast þess að leita þyrfti aftur samþykkis allra aðildarríkjanna, kalla þyrfti saman nýja ríkjaráðstefnu og veita framkvæmdastjórninni nýtt samningsumboð. Síðan þyrfti að endurtaka öll fyrri skref viðræðuferlisins.“

Fyrir utanríkismálanefnd alþingis liggur tillaga frá vinstri-grænum um að leggja aðildarumsóknina formlega til hliðar í stað þess að afturkalla hana eins og utanríkisráðherra vill að verði gert.

Á það er bent í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að viðræður Íslands og ESB hafi í raun siglt í strand á árinu 2011 þegar fulltrúar ESB neituðu að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál en íslenska viðræðunenfndin setti afhendinguna sem skilyrði fyrir því að hún kynnti samningsmarkmið Íslendinga. Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar segir (bls. 64):

„Drög að samningsafstöðu [Íslands í sjávarútvegsmálum] voru lögð fyrir Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra Íslands, í febrúar 2012. Fram kemur í bók hans, Ár drekans (bls. 50) að íslenska samningsafstaðan hafi verið næstum tilbúin á þeim tíma en ESB hafi enn ekki boðið Íslendingum að leggja hana fram. Í lok október 2012 var síðasti fundur íslenska samningahópsins [um sjávarútvegsmál] haldinn. Á þeim tímapunkti hafði rýniskýrsla um íslenskan sjávarútveg ekki verið afgreidd af hálfu aðildarríkja ESB og íslenska sendinefndin þar af leiðandi ekki búin að leggja fram sína samningsafstöðu. Ísland kláraði því ekki vinnuna við samningsafstöðu sína og var hún aldrei birt. Ísland lagði ítrekað áherslu á mikilvægi þess að samningskaflinn yrði opnaður fyrir áramót 2012, sem varð þó aldrei. Drögin að samningsafstöðu, eins og þau litu út fyrir aðildarviðræðuhlé, voru yfir 50 bls. að lengd.

Í framvinduskýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá 16. október 2013 er fjallað um stöðu samningskaflans (og komist að sömu niðurstöðu og árið áður). Í skýrslunni segir að Ísland beiti stjórnunarkerfi sem hafi svipuð markmið og framfylgt er innan ESB en að sumar reglur séu umtalsvert frábrugðnar. Í heildina sé sjávarútvegsstefna Íslands ekki í samræmi við réttarreglur ESB. Þá séu núverandi höft í sjávarútvegsgeiranum á staðfesturétti, frelsi til að veita þjónustu, frjálsum fjármagnsflutningum og stjórnun á sameiginlegum fiskistofnum ekki í samræmi við reglurnar.

Makríldeilan var ástæða þess að sjávarútvegshlutinn var ekki opnaður. Í bók Össurar Skarphéðinssonar (bls. 87) kemur fram að í mars 2012 hafi hann átt símtal við embættismann úr innsta hring sem vari hann við því að verði sjónarmið „makrílþjóðanna“ undir muni þær ekki draga af sér þegar sjávarútvegskaflinn verði tekinn fyrir í ráðherraráðinu og ekki síst í COELA-nefnd ESB sem markar stefnu ESB í samningnum við Ísland. Þar eigi öll 27 ríkin fulltrúa. Þar verði reynt að smeygja inn skilyrðum fyrir opnun kaflans takist það ekki í framkvæmdastjórninni sjálfri. Áhyggjur embættismannsins reyndust réttmætar.

Í samtali skýrsluhöfunda við háttsettan fulltrúa frönsku sendinefndarinnar í Brussel kom fram að sjávarútvegsdeild ESB hefði lagt fram tvær tillögur að opnunarviðmiðum fyrir Ísland. Annars vegar að því er varðaði sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda með hliðsjón af alþjóðalögum. Hins vegar aðgerðaáætlun vegna innleiðingar réttarreglna ESB. Umræða innan framkvæmdastjórnarinnar sem og samþykki allra aðildarríkjanna er áskilið fyrir ákvörðun um framlagningu opnunarviðmiða. Frakkland, Írland, Portúgal og Spánn studdu tillögur sjávarútvegsdeildarinnar. Ísland setti sig alfarið á móti opnunarviðmiðum og þá sérstaklega þeim er tengdust makríldeilunni. Bent var á að árangur íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins væri mun betri en árangur sjávarútvegsstefnu ESB og opnunarviðmið því óþörf. Sjónarmið Íslands voru m.a. studd af Bretlandi og Norðurlöndunum (sem eru aðilar að ESB).“ 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 261
  • Sl. sólarhring: 274
  • Sl. viku: 2630
  • Frá upphafi: 1165258

Annað

  • Innlit í dag: 232
  • Innlit sl. viku: 2255
  • Gestir í dag: 215
  • IP-tölur í dag: 212

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband